Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 415  —  341. mál.
Löggjafarþing.

Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja gagnsæi upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað til að stuðla að vernd fjárfesta og skilvirkni markaðarins.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði með Ísland sem heimaríki.
    III. kafli gildir um hluti í hlutafélögum með skráða skrifstofu á Íslandi sem gefa út hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
    III. kafli gildir einnig um hluti í útgefendum með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem valið hafa Ísland sem heimaríki, sbr. 2. mgr. 5. gr.
    Útgefandi verðbréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, með heimaríki í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en Íslandi, skal veita hliðstæðar upplýsingar og lög þessi mæla fyrir um í samræmi við bindandi opinber fyrirmæli heimaríkis síns.

3. gr.

Undanþágur.

    Lög þessi gilda ekki um hluti og hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu, annarra en lokaðra sjóða, eða hluti og hlutdeildarskírteini sem aflað eða ráðstafað er í slíkum sjóðum.
    II. kafli gildir ekki um:
     1.      Ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sveitarfélög eða sambærileg svæðis- eða staðaryfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, opinbera alþjóðlega aðila sem a.m.k. eitt ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins á aðild að, seðlabanka á Evrópska efnahagssvæðinu hvort sem þeir gefa út hluti eða önnur verðbréf, Evrópska fjármálastöðugleikasjóðinn og Seðlabanka Evrópu.
     2.      Útgefanda skuldabréfa ef eingöngu skuldabréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og nafnverð eininga skuldabréfanna er að minnsta kosti jafnvirði 100.000 evra í íslenskum krónum.
     3.      Útgefendur sem gefa eingöngu út skuldabréf, þar sem nafnverð hverrar einingar er að lágmarki jafnvirði 50.000 evra í íslenskum krónum hafi skuldabréfin verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir gildistöku laga þessara svo framarlega sem þau eru útistandandi. Ef skuldabréfin eru í öðrum gjaldmiðli en evru skal nafnverð hverrar einingar á útgáfudegi nema að lágmarki jafnvirði 50.000 evra í íslenskum krónum.
    II. og IV. kafli gilda ekki um útgefendur vegna peningamarkaðsskjala með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir.
    Ákvæði 7. gr. gildir ekki um útgefanda sem stofnsettur var fyrir 31. desember 2003 og sem eingöngu gefur út skuldabréf sem heimaríki útgefandans eða eitt af svæðis- eða staðaryfirvöldum þess ríkis ábyrgist skilyrðislaust og óafturkallanlega.
    Ákvæði 33. gr. taka ekki til skuldabréfa sem gefin eru út af ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sveitarfélagi eða sambærilegu svæðis- eða staðaryfirvaldi á Evrópska efnahagssvæðinu.

4. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er eftirfarandi merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að EES-samningnum.
     2.      ESMA: Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin.
     3.      Fjármálagerningur: Fjármálagerningur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
     4.      Flöggun: Tilkynning um verulega breytingu á eignarhaldi eða atkvæðisrétti í útgefanda hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
     5.      Fyrirtæki undir yfirráðum: Hvers konar fyrirtæki þar sem:
                  a.      einstaklingur eða lögaðili hefur yfirráð yfir meiri hluta atkvæðisréttar,
                  b.      einstaklingur eða lögaðili á rétt á að skipa eða leysa frá störfum meiri hluta þeirra sem sæti eiga í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn og eru á sama tíma hluthafar eða félagar í viðkomandi fyrirtæki,
                  c.      einstaklingur eða lögaðili er hluthafi eða félagi og ræður einn meiri hluta atkvæða annaðhvort hluthafanna eða félaganna samkvæmt samningi við aðra hluthafa eða félaga viðkomandi fyrirtækis eða
                  d.      einstaklingur eða lögaðili hefur rétt til að hafa eða hefur í raun ráðandi áhrif eða stjórnar.
     6.      Hluthafi: Einstaklingur eða lögaðili sem heyrir undir opinberan rétt eða einkarétt og á beint eða óbeint:
                  a.      hluti útgefanda í eigin nafni eða á eigin reikning,
                  b.      hluti útgefanda í eigin nafni en fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila,
                  c.      heimildarskírteini og í því tilviki telst eigandi heimildarskírteina vera hluthafi undirliggjandi hluta sem heimildarskírteinin standa fyrir.
     7.      Hlutir og hlutdeildarskírteini sjóðs um sameiginlega fjárfestingu: Fjármálagerningur sem er staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eiga hlutdeild í slíkum sjóði.
     8.      Sjóðir um sameiginlega fjárfestingu, aðrir en lokaðir: Fjárhaldssjóðir og fjárfestingarfélög:
                  a.      sem hafa að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjármagns sem almenningur hefur lagt fram og sem starfa á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu og
                  b.      hlutdeildarskírteinin í þeim eru beint eða óbeint endurkeypt eða innleyst að ósk eiganda þessara skírteina gegn greiðslu af eignum fyrirtækjanna.
     9.      Skipulegur verðbréfamarkaður: Skipulegur verðbréfamarkaður í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.
     10.      Skuldabréf: Skuldaviðurkenning, eða skuld samkvæmt annars konar verðbréfum, að undanskildum annars vegar verðbréfum sem jafna má til hlutabréfa í félögum eða sem geta af sér rétt til að afla hluta eða verðbréfa sem jafna má til hlutabréfa, ef þeim er umbreytt eða ef réttindum samkvæmt þeim er beitt, og hins vegar peningamarkaðsskjölum með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir.
     11.      Rafrænar aðferðir: Notkun rafræns búnaðar til að vinna með, geyma og senda gögn með rafþræði, þráðlaust, með ljóstæknilegum aðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
     12.      Rekstrarfélag: Rekstrarfélag í skilningi laga um verðbréfasjóði.
     13.      Útgefandi: Einstaklingur eða lögaðili sem heyrir undir einkarétt eða opinberan rétt, þ.m.t. ríki, og verðbréf hans eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Þegar um er að ræða heimildarskírteini sem tekin eru til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði er útgefandinn útgefandi þeirra verðbréfa sem heimildarskírteinin standa fyrir, hvort sem þau verðbréf eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða ekki.
     14.      Verðbréf: Verðbréf í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.
     15.      Viðskiptavaki: Viðskiptavaki í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.

5. gr.

Heimaríki og gistiríki á Íslandi.

    Ísland er heimaríki útgefanda með skráða skrifstofu á Íslandi ef viðkomandi er útgefandi hlutabréfa, eða skuldabréfa þar sem nafnverð eininga skuldabréfanna er lægri fjárhæð en jafnvirði 1.000 evra í íslenskum krónum, og viðkomandi verðbréf hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Ísland er heimaríki útgefanda með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi er útgefandi hlutabréfa, eða skuldabréfa þar sem nafnverð eininga skuldabréfanna er lægri fjárhæð en jafnvirði 1.000 evra í íslenskum krónum, viðkomandi verðbréf hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og útgefandi velur Ísland sem heimaríki.
    Ísland er heimaríki útgefanda í öðrum tilvikum en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. ef aðili er með skráða skrifstofu á Íslandi, er útgefandi verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og hann velur að hafa Ísland sem heimaríki. Útgefandi sem valið hefur Ísland sem heimaríki samkvæmt þessari málsgrein getur fyrst breytt því vali sínu þegar þrjú ár eru liðin frá opinberri birtingu á vali heimaríkis, sbr. 7. mgr., nema áður komi til þess að ekki séu lengur viðskipti með verðbréf hans á skipulegum verðbréfamarkaði í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða ef útgefandi fellur undir 1. og 2. eða 4. mgr. innan þriggja ára tímabilsins.
    Útgefandi sem valið hefur Ísland sem heimaríki skv. 2. eða 3. mgr. getur valið sér nýtt heimaríki þar sem verðbréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða hann er með skráða skrifstofu, ef ekki eru lengur viðskipti með verðbréf hans á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi.
    Ef Ísland er heimaríki útgefanda skal hann framfylgja lögum þessum þótt verðbréf hans hafi aðeins verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en Íslandi.
    Útgefandi skal birta val á heimaríki skv. 2.–4. mgr. opinberlega og með sama hætti og lýst er í 35. gr. Val á Íslandi sem heimaríki skal tilkynna til Fjármálaeftirlitsins. Þar að auki skal útgefandi tilkynna val á heimaríki til viðeigandi lögbærs yfirvalds í því ríki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem hann hefur skráða skrifstofu og, ef við á, til viðeigandi lögbærs yfirvalds heimaríkis, ásamt viðeigandi lögbæru yfirvaldi allra gistiríkja.
    Ef útgefandi getur valið heimaríki skv. 2. og 3. mgr. skal Ísland teljast heimaríki útgefanda ef hann hefur ekki tilkynnt um val á heimaríki innan þriggja mánaða frá því að verðbréf hans voru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Ef verðbréf útgefanda hafa einnig verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, einu eða fleirum, skulu öll viðkomandi ríki teljast heimaríki útgefanda ásamt Íslandi, þar til hann hefur tilkynnt um val á heimaríki.
    Ísland skal teljast gistiríki útgefanda ef verðbréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og Ísland er ekki heimaríki hans skv. 1.–3. mgr.

II. KAFLI

Reglulegar upplýsingar útgefanda.

6. gr.

Ársreikningur.

    Útgefandi verðbréfa skal birta opinberlega ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, eins fljótt og auðið er eftir lok reikningsársins og eigi síðar en fjórum mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að ársreikningur, eða samstæðureikningur ef við á, sé aðgengilegur almenningi í að minnsta kosti tíu ár.

7. gr.

Árshlutareikningur vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.

    Útgefandi hlutabréfa eða skuldabréfa skal birta opinberlega árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, eins fljótt og auðið er eftir lok þess tímabils, þó eigi síðar en þremur mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að árshlutareikningurinn, eða samstæðureikningurinn ef við á, sé aðgengilegur almenningi í a.m.k. tíu ár.

8. gr.

Aukin tíðni upplýsingagjafar.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða auknari tíðni upplýsingagjafar útgefanda en skv. 6. gr. og 7. gr. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um aukna tíðni upplýsingagjafar skal ekki fela í sér óhæfilega fjárhagslega byrði fyrir félög á skipulegum verðbréfamarkaði, sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki. Umfang upplýsingagjafar skal einnig vera hæfileg með tilliti til þeirra atriða sem fjárfestar byggja ákvarðanir sínar á.

9. gr.

Skýrsla útgefanda með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg.

    Útgefandi verðbréfa með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg skv. 66. gr. e laga um ársreikninga, nr. 3/2006, skal semja og birta opinberlega skýrslu um greiðslur til stjórnvalda á ársgrundvelli. Skýrslu um greiðslur til stjórnvalda skal birta eins fljótt og auðið er eftir lok reikningsársins og eigi síðar en sex mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að skýrslan sé aðgengileg almenningi í að minnsta kosti tíu ár.

10. gr.

Efni ársreiknings og árshlutareiknings og skýrslusnið.

    Útgefandi verðbréfa með skráða skrifstofu á Íslandi skal semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, í samræmi við lög um ársreikninga, og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.
    Ef útgefandi er ekki lögaðili skal hann semja ársreikning og árshlutareikning í samræmi við lög um ársreikninga, eftir því sem við á og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.

11. gr.

Útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Útgefanda með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu ef fyrirmælin eru hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga, og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði. Útgefanda er jafnframt heimilt að fylgja bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu um árshlutareikning fyrir fyrstu þrjá og fyrstu níu mánuði reikningsársins, eða samstæðureikninga vegna sömu tímabila ef við á, ef fyrirmælin eru hliðstæð íslenskum reglum um samsvarandi árshlutareikninga sem gilda mundu gagnvart honum, væri útgefandinn með skráða skrifstofu á Íslandi.
    Ef bindandi opinber fyrirmæli ríkis þar sem útgefandi er með skráða skrifstofu eru ekki hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga skal útgefandi semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, með sama hætti og hliðstæðir útgefendur með skráða skrifstofu á Íslandi, og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.
    Ársreikningaskrá metur hvort kröfur samkvæmt ákvæðum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins eru hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga.

III. KAFLI

Flöggun.

12. gr.

Flöggunarskylda.

    Eigandi, sem aflar eða ráðstafar hlutum í útgefanda hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, skal senda með sannanlegum hætti tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir af sér að atkvæðisréttur hans nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir eitthvert eftirtalinna marka: 5, 10, 15, 20, 25, 30, 35, 40, 50, 66 2/ 3 og 90%. Með eiganda er átt við sérhvern einstakling eða lögaðila, sem fer beint eða óbeint með:
     a.      hluti í útgefanda í eigin nafni og fyrir eigin reikning,
     b.      hluti í útgefanda í eigin nafni en fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila, eða
     c.      heimildarskírteini, en í þeim tilvikum telst handhafi heimildarskírteinisins eigandi þeirra hluta sem heimildarskírteinið stendur fyrir.
    Ef útgefandi hækkar eða lækkar hlutafé sitt, fjölgar eða fækkar atkvæðum eða breytingar verða á skiptingu atkvæðisréttar sem leiða til þess að atkvæðisréttur eiganda nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir eitthvert þeirra marka sem talin eru upp í 1. mgr. skal eigandinn senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins.
    Atkvæðisréttur skv. 1. mgr. skal reiknaður út á grundvelli allra hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting hans falli niður. Einnig skal atkvæðisréttur reiknaður út á grundvelli allra hluta í sama flokki sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting hans falli niður.

13. gr.

Flöggunarskylda við sérstakar aðstæður.

    Flöggunarskylda skv. 12. gr. gildir einnig um aðila svo fremi að hann eigi rétt á að afla atkvæðisréttar, ráðstafa atkvæðisrétti eða neyta atkvæðisréttar sem:
     a.      þriðji aðili fer með og viðkomandi aðili hefur gert samkomulag við hann sem skyldar þá til að taka upp, með samræmdri beitingu atkvæðisréttar síns, varanlega og sameiginlega stefnu um stjórn hlutaðeigandi útgefanda,
     b.      þriðji aðili fer tímabundið með gegn endurgjaldi á grundvelli samkomulags við viðkomandi aðila,
     c.      fylgir hlutum sem viðkomandi aðili hefur tekið að veði eða fengið sem tryggingu, að því tilskildu að viðkomandi aðili ráði jafnframt yfir atkvæðisréttinum og lýsi því yfir að hann hyggist neyta hans,
     d.      viðkomandi aðili fer með á grundvelli samkomulags um lífstíðarbundin réttindi hans yfir hlutunum sem atkvæðisrétturinn fylgir,
     e.      félag undir yfirráðum viðkomandi aðila fer með eða má neyta á grundvelli 1.–4. tölul.,
     f.      fylgir hlutum sem viðkomandi aðili varðveitir og getur neytt samkvæmt eigin ákvörðun, berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna,
     g.      þriðji aðili fer með í eigin nafni en fyrir hönd viðkomandi aðila,
     h.      umboðsmaður fer með, að því tilskildu að hann geti neytt atkvæðisréttarins samkvæmt eigin ákvörðun, berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna.

14. gr.

Flöggunarskylda vegna fjármálagerninga.

    Flöggunarskylda skv. 12. gr. gildir einnig um aðila sem fer með beinum eða óbeinum hætti með fjármálagerning skv. a- og d–h-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     a.      fjármálagerningur veitir aðila á gjalddaga, samkvæmt formlegu samkomulagi, annaðhvort skilyrðislausan rétt eða heimild til að afla hluta sem atkvæðisréttur fylgir og þegar hafa verið gefnir út í útgefanda sem fellur undir 2. eða 3. mgr. 2. gr., eða
     b.      fjármálagerningur fellur ekki undir a-lið en veita aðila sambærileg réttindi og rétt til að afla hluta í útgefanda eða hafa sambærileg efnahagsleg áhrif og fjármálagerningur skv. a-lið, hvort sem hann felur í sér rétt til efnislegs uppgjörs eða ekki.
    Reikna skal atkvæðisrétt skv. 1. mgr. með því að taka að fullu tillit til grundvallarfjárhæðar hlutabréfa samkvæmt fjármálagerningnum nema ef gerningurinn veitir eingöngu rétt til uppgjörs með reiðufé, en þá skal atkvæðisréttur reiknaður með delta-leiðréttum hætti með því að margfalda grundvallarfjárhæð undirliggjandi hlutabréfa með delta-stuðli viðkomandi fjármálagernings. Handhafi skal telja saman og tilkynna Fjármálaeftirlitinu og útgefanda um alla fjármálagerninga sem tengjast sama útgefanda. Einungis skal taka með gnóttstöður vegna útreiknings á atkvæðisrétti. Óheimilt er að skuldajafna gnóttstöðum við skortstöður í sama útgefanda.
    Aðili sem sendir tilkynningu á grundvelli 1. mgr., skal tilkynna aftur þegar hann aflar, ráðstafar eða nýtir undirliggjandi hlutabréf, ef slíkt leiðir af sér að hann nái þeim mörkum sem koma fram í 1. mgr. 12. gr., eða fer yfir þau eða undir þau.

15. gr.

Samanlögð flöggunarskylda.

    Aðili sem fer beint eða óbeint með atkvæðisrétt í útgefanda hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og nær þeim mörkum sem koma fram í 1. mgr. 12. gr., eða fer yfir þau eða undir þau, þegar atkvæðisréttur skv. 12., 13. og 14. gr. hefur verið lagður saman, skal tilkynna um það til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins.

16. gr.

Tilkynning félags í samstæðu.

    Fyrirtæki undir yfirráðum skv. e-lið 13. gr. þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12.–14. gr. ef móðurfélag þess, eða einstaklingur með yfirráð yfir því, sendir tilkynningu eða, ef móðurfélagið er sjálft dótturfélag annars félags, og móðurfélags þess sendir tilkynningu.

17. gr.

Umboð á hluthafafundi.

    Ef umboðsmaður í tilviki h-liðar 13. gr. fær eitt eða fleiri umboð í tengslum við einn hluthafafund er heimilt að senda eina tilkynningu að því tilskildu að skýrt komi fram í tilkynningunni hvert heildarmagn atkvæðisréttar umboðsveitenda verður í útgefanda eftir brottfall umboðsins.
    Ef flöggunarskylda stofnast vegna h-liðar 13. gr. þarf ekki að senda aðra tilkynningu ef umboðið fellur úr gildi að hluthafafundinum loknum og tilkynningin, sem gerð var í tengslum við veitingu umboðsins, geymdi upplýsingar um hvert heildarmagn atkvæðisréttar umboðsveitanda verður í útgefanda eftir brottfall umboðsins.

18. gr.

Flöggunarskylda margra.

    Ef fleiri en einn aðili verða flöggunarskyldir er þeim heimilt að senda sameiginlega tilkynningu. Sameiginleg tilkynning leysir engan hlutaðeigandi aðila undan ábyrgð á tilkynningunni.

19. gr.

Breyting á hlutafé eða atkvæðisrétti.

    Ef útgefandi hækkar eða lækkar hlutafé sitt eða fjölgar eða fækkar atkvæðum skal hann við fyrsta tækifæri, og í síðasta lagi á síðasta viðskiptadegi þess mánaðar er breyting á sér stað, birta opinberlega heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða.

20. gr.

Efni tilkynninga.

    Tilkynning skv. 12. og 13. gr. skal meðal annars geyma upplýsingar um:
     a.      atkvæðisrétt eftir breytingu,
     b.      eignatengsl við dótturfélög þar sem flöggunarskyldur aðili hefur yfirráð yfir atkvæðisréttinum, ef við á,
     c.      dagsetningu þegar flöggunarskylda stofnaðist og
     d.      fullt nafn eiganda hlutanna, jafnvel þótt viðkomandi eigi ekki rétt á að neyta atkvæðisréttarins vegna aðstæðna skv. 13. gr., og fullt nafn þess aðila sem fer með atkvæðisréttinn fyrir hönd eiganda hlutanna.
    Í tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 14. gr. skal koma fram sundurliðun á tegundum fjármálagerninga skv. a- og b-lið málsgreinarinnar og, ef við á, tilgreining á því hvort fjármálagerning skv. b-lið megi gera upp efnislega eða með reiðufé.
    Í tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins skv. 14. gr. skal sundurliða fjölda atkvæðisréttar eftir því hvort hann fellur undir ákvæði 12., 13. eða 14. gr.

21. gr.

Frestur flöggunarskylds aðila til að tilkynna.

    Aðili sem verður flöggunarskyldur skv. 1. mgr. 12. gr., 13. gr. eða 14. gr. skal senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að flöggunarskyldan stofnaðist.
    Aðili sem verður flöggunarskyldur skv. 2. mgr. 12. gr. skal senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að útgefandi hefur birt opinberlega heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða skv. 19. gr.

22. gr.

Frestur útgefanda til að birta upplýsingar í tilkynningu.

    Útgefandi skal, eins fljótt og auðið er eftir móttöku tilkynningar skv. 12., 13. eða 14. gr. og eigi síðar en þremur viðskiptadögum eftir að tilkynningin berst honum, birta opinberlega allar upplýsingar sem er að finna í tilkynningunni.
    Útgefandi þarf ekki að þýða tilkynningu yfir á tungumál sem Fjármálaeftirlitið samþykkir ef tilkynning skv. 12., 13. eða 14. gr. berst á ensku.

23. gr.

Undanþágur frá flöggunarskyldu.

    Þegar hluta er eingöngu aflað til verðbréfauppgjörs þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12. eða 14. gr. ef viðkomandi verðbréfauppgjöri er lokið innan þriggja viðskiptadaga frá viðskiptum.
    Þegar aðili varðveitir hluti sem vörsluaðili þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12. eða 14. gr. ef viðkomandi vörsluaðili getur aðeins nýtt atkvæðisréttinn sem fylgir hlutunum samkvæmt skriflegum eða rafrænum leiðbeiningum.
    Seðlabanki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Seðlabanki Evrópu þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12. gr. eða c-lið 13. gr. þegar viðkomandi seðlabanki lætur hluti í té eða honum eru látnir hlutir í té til að sinna hlutverki sínu sem yfirvald á sviði peningamála, að því tilskildu að slíkum ráðstöfunum sé lokið innan venjulegs, stutts greiðslutímabils frá því að viðkomandi seðlabanki lét hlutina í té eða honum voru látnir hlutir í té og að atkvæðisréttur hlutanna sé ekki nýttur.

24. gr.

Veltubók.

    Við mat á flöggunarskyldu skv. 12. eða 14. gr. skal atkvæðisréttur sem fylgir hlutum í veltubók fjármálafyrirtækis, með starfsleyfi skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ekki reiknast með að því tilskildu að hlutfall atkvæðisréttarins í veltubókinni fari ekki yfir 5% og að atkvæðisrétturinn sé hvorki nýttur né notaður á annan hátt beint eða óbeint til að hlutast til um stjórn útgefanda.

25. gr.

Viðskiptavaki.

    Flöggunarskylda skv. 12. eða 14. gr. gildir ekki um öflun eða ráðstöfun viðskiptavaka á hlutum þrátt fyrir að atkvæðisréttur sem fylgir hlutum nái eða fari yfir 5% flöggunarskyldumarkið að því tilskildu að viðskiptavakinn framkvæmi viðskiptin sem viðskiptavaki, sé fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til verðbréfaviðskipta og hlutist hvorki til um stjórn viðkomandi útgefanda né hlutist á nokkurn hátt til um að útgefandinn kaupi slíka hluti eða haldi verði þeirra uppi.

26. gr.

Verðjöfnun fjármálagerninga.

    Við mat á flöggunarskyldu skv. 12. eða 14. gr. skal atkvæðisréttur, sem fylgir hlutum sem er aflað eða ráðstafað til verðjöfnunar fjármálagerninga, ekki reiknast með að því tilskildu að atkvæðisrétturinn sé hvorki nýttur né notaður á annan hátt beint eða óbeint til að hlutast til um stjórn útgefanda.

27. gr.

Móðurfélag rekstrarfélags.

    Við framkvæmd flöggunarskyldu skv. 12.–14. gr. er móðurfélagi rekstrarfélags ekki skylt að leggja saman eigið hlutfall atkvæðisréttar og hlutfall atkvæðisréttar viðkomandi verðbréfasjóðs rekstrarfélagsins að því tilskildu að rekstrarfélagið nýti atkvæðisrétt sinn óháð móðurfélaginu eða öðru dótturfélagi móðurfélagsins.
    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um móðurfélag rekstrarfélags erlends verðbréfasjóðs með staðfestu og staðfestingu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 44. gr. laga um verðbréfasjóði. Sama gildir um móðurfélag sambærilegs rekstrarfélags með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins.

28. gr.

Móðurfélag fjármálafyrirtækis með leyfi til verðbréfaviðskipta.

    Við framkvæmd flöggunarskyldu skv. 12.–14. gr. er móðurfélagi fjármálafyrirtækis, með leyfi til verðbréfaviðskipta samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, ekki skylt að leggja saman eigið hlutfall atkvæðisréttar og hlutfall atkvæðisréttar sem fylgir hlutum sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stýrir fyrir einstaka viðskiptamenn sína, að því tilskildu að fjármálafyrirtækinu sé aðeins heimilt að nýta atkvæðisrétt sem tilheyrir slíkum hlutum samkvæmt sannanlegum leiðbeiningum viðskiptavinar eða tryggt sé að einstaklingsmiðuð stýring verðbréfasafns fari fram óháð hvers kyns annarri þjónustu, og að fjármálafyrirtækið nýti atkvæðisréttinn óháð móðurfélaginu eða öðru dótturfélagi móðurfélags síns.
    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um móðurfélag erlends fyrirtækis sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og starfsleyfi til verðbréfaviðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildir um móðurfélag fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef fyrirtækið hefur leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti í heimaríki sínu og sú starfsemi er háð eftirliti í heimaríkinu.

29. gr.

Flöggunarskylda vegna eigin hluta.

    Ef útgefandi aflar eða ráðstafar eigin hlutum skal hann birta opinberlega hlutfall eigin hluta ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir til þess að hlutfallið nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir 5% eða 10% atkvæðisréttar. Hlutfallið skal reiknað út á grundvelli heildarfjölda hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður.
    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu birtar opinberlega eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir öflunina eða ráðstöfunina.

30. gr.

Útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Ákvæði 19. gr. gilda ekki ef útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum, í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu, sem eru hliðstæð kröfum 19. gr.
    Ákvæði 22. gr. gilda ekki ef útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum, í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu, sem eru hliðstæð kröfum 22. gr.
    Ákvæði 29. gr. gilda ekki ef lögaðili með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum, í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu, sem eru hliðstæð kröfum 29. gr.
    Fjármálaeftirlitið metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæðar 19., 22. og 29. gr.

IV. KAFLI

Aðrar skyldur útgefanda um veitingu upplýsinga.

31. gr.

Viðbótarupplýsingar.

    Útgefandi hlutabréfa skal án tafar birta opinberlega upplýsingar um allar breytingar á réttindum sem fylgja mismunandi flokkum hlutabréfa, þar á meðal breytingar á réttindum sem fylgja afleiddum verðbréfum sem útgefandinn gefur út sjálfur og veita rétt til að afla hluta í honum.
    Útgefandi verðbréfa, annarra en hlutabréfa, skal án tafar birta opinberlega upplýsingar um allar breytingar á réttindum handhafa verðbréfanna, þar á meðal breytingar á skilmálum og skilyrðum verðbréfanna, sérstaklega þær sem stafa af breytingum á lánaskilmálum eða vöxtum, sem gætu haft óbein áhrif á réttindin.

32. gr.

Hlutabréf.

    Útgefandi hlutabréfa skal tryggja jafnræði allra eigenda hluta í sömu stöðu.
    Útgefandi hlutabréfa skal ekki standa í vegi fyrir því að eigendur hluta neyti réttinda sinna með því að veita öðrum umboð. Ákvæði 1. málsl. gildir þó ekki ef útgefandi hlutabréfa er með skráða skrifstofu í öðru ríki en á Íslandi nema bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis heimili notkun umboðs.
    Útgefandi hlutabréfa skal tryggja að allar upplýsingar sem eigendum hluta eru nauðsynlegar til að geta neytt réttinda sinna séu aðgengilegar í heimaríki útgefandans og að áreiðanleiki upplýsinganna sé tryggður. Útgefandi hlutabréfa skal einkum:
     a.      veita upplýsingar um staðsetningu, tíma og dagskrá funda ásamt upplýsingum um heildarfjölda hluta og atkvæðisrétt, og rétt eigenda hluta til að taka þátt í fundum,
     b.      gera umboðseyðublað aðgengilegt á pappír eða með rafrænum aðferðum fyrir hvern þann aðila sem á rétt á að greiða atkvæði á fundinum, annaðhvort í tengslum við auglýsingu fundarins eða samkvæmt beiðni eftir að fundurinn hefur verið auglýstur,
     c.      tilnefna fjármálafyrirtæki, eða fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem umboðsmann sinn til að hafa milligöngu um að eigendur hluta geti neytt fjárhagslegra réttinda sinna í útgefandanum og
     d.      veita upplýsingar, svo sem með dreifibréfi eða auglýsingu, um úthlutun og greiðslu arðs og útgáfu nýrra hluta, þ.m.t. upplýsingar um fyrirkomulag úthlutunar, áskriftar, afturköllunar eða breytiréttar.

33. gr.

Skuldabréf.

    Útgefandi skuldabréfa skal tryggja að allir handhafar skuldabréfa sem metin eru jafngild njóti sömu meðferðar varðandi sérhver réttindi er fylgja skuldabréfunum.
    Útgefandi skuldabréfa skal ekki standa í vegi fyrir því að handhafar skuldabréfanna neyti réttinda sinna með því að veita öðrum umboð. Ákvæði 1. málsl. gildir þó ekki ef útgefandi skuldabréfanna er með skráða skrifstofu í öðru ríki en á Íslandi nema bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis heimili notkun umboðs.
    Ef útgefandi skuldabréfa ákveður að halda fund með handhöfum skuldabréfanna skal hann veita þeim upplýsingar, svo sem með auglýsingu eða dreifibréfi, um staðsetningu, tíma og dagskrá fundarins ásamt upplýsingum um hvaða kröfum handhafarnir skuli fullnægja til að mega taka þátt í fundinum. Enn fremur skal útgefandi gera umboðseyðublað aðgengilegt á pappír eða rafrænt fyrir hvern þann aðila sem á rétt á að greiða atkvæði á fundinum, annaðhvort í tengslum við auglýsingu fundarins eða samkvæmt beiðni eftir að fundurinn hefur verið auglýstur.
    Útgefandi skuldabréfa skal, svo sem með auglýsingu eða dreifibréfi, upplýsa handhafa skuldabréfa um greiðslu vaxta, um framkvæmd hvers konar breytiréttar, skipta, áskriftar eða afturköllunar á réttindum og greiðslu.
    Útgefandi skuldabréfa skal tilnefna fjármálafyrirtæki, eða fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem umboðsmann sinn til að hafa milligöngu um að handhafar skuldabréfa geti neytt fjárhagslegra réttinda samkvæmt skuldabréfunum.

34. gr.

Útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Útgefanda hlutabréfa með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki skylt að fylgja ákvæðum 32. gr. ef hann uppfyllir kröfur bindandi opinberra fyrirmæla í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu sem eru hliðstæðar kröfum 32. gr.
    Útgefanda skuldabréfa með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki skylt að fylgja ákvæðum 33. gr. ef hann uppfyllir kröfur bindandi opinberra fyrirmæla í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu sem eru hliðstæðar kröfum 33. gr.
    Fjármálaeftirlitið metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæðar 32. og 33. gr.

V. KAFLI

Birting upplýsinga og ábyrgð.

35. gr.

Opinber birting og ábyrgð.

    Útgefandi skal birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar samkvæmt lögum þessum eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Samhliða opinberri birtingu skal útgefandinn senda upplýsingarnar til Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar á vef sínum.
    Ábyrgð á því að upplýsingar skv. 5., 6., 7., 8. og 31. gr. séu teknar saman og gerðar opinberar hvílir á útgefanda.

36. gr.

Miðlæg varðveisla.

    Útgefandi skal senda allar upplýsingar sem birtar eru opinberlega samkvæmt lögum þessum samhliða til Fjármálaeftirlitsins, eða aðila sem Fjármálaeftirlitið tilnefnir, til miðlægrar varðveislu á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.
    Miðlæga geymslukerfið skal uppfylla kröfur um öryggi, áreiðanleika um hvaðan upplýsingar eru upprunnar, tímaskráningu og auðveldan aðgang fyrir notendur.
    Miðlæga geymslukerfið skal tengjast geymslukerfi ESMA.

37. gr.

Tungumál.

    Ef verðbréf útgefanda hafa einungis verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt lögum þessum á íslensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.
    Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og í einu eða fleiri aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt lögum þessum á íslensku, eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, og annaðhvort á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja, að vali útgefanda.
    Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í einu eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu en ekki á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt lögum þessum á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja, að vali útgefanda. Ef Fjármálaeftirlitið óskar eftir því skal útgefandi jafnframt birta upplýsingarnar á ensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, að vali útgefanda.
    Ef verðbréf útgefanda eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hvíla skyldur 1.–3. mgr. ekki á útgefanda heldur þeim aðila sem óskað hefur eftir töku bréfanna til viðskipta án samþykkis útgefanda.
    Tilkynning skv. 12.–14. gr. má vera á íslensku eða ensku.
    Ef nafnverð eininga verðbréfa nam a.m.k. jafngilt 100.000 evrum í íslenskum krónum þegar þau voru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, eða í tilviki skuldabréfa ef nafnverð eininga þeirra nam a.m.k. að jafnvirði 100.000 evrum í íslenskum krónum á útgáfudegi bréfanna, er útgefanda, þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr., heimilt að birta upplýsingar skv. IV. kafla á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld heimaríkis og gistiríkja samþykkja, að vali útgefanda eða þess aðila sem óskað hefur eftir töku bréfanna til viðskipta, án samþykkis útgefanda. Gildir þetta um skuldabréf sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir gildistöku laga þessara og nafnverð eininga þeirra nam a.m.k. að jafnvirði 50.000 evrum í íslenskum krónum, svo framarlega sem þau eru útistandandi.

VI. KAFLI

Eftirlit, viðurlög og samstarf lögbærra yfirvalda.

38. gr.

Almennt eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit samkvæmt lögum þessum í samræmi við EES-samninginn, sbr. lög nr. 2/1993, og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits er fjallað í 25. gr. a hins síðarnefnda samnings og bókun 8 við hann.
    Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með því að útgefendur verðbréfa birti upplýsingar samkvæmt lögum þessum tímanlega með það að markmiði að sjá til þess að almenningur á Evrópska efnahagssvæðinu hafi virkan og jafnan aðgang að þeim. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt fylgjast með því að útgefendur verðbréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi en ekki í heimaríki útgefandans birti upplýsingar samkvæmt lögum þessum tímanlega með það að markmiði að sjá til þess að almenningur á Evrópska efnahagssvæðinu hafi virkan og jafnan aðgang að þeim.
    Ársreikningaskrá kannar hvort upplýsingar skv. II. kafla séu samdar í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að eiga samstarf við önnur stjórnvöld hér á landi til þess að tryggja framfylgd laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla settra með stoð í þeim.

39. gr.

Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa til eftirfarandi ráðstafana til þess að tryggja að farið sé að lögum þessum:
     1.      Krefjast þess að endurskoðendur, útgefendur verðbréfa, eigendur hluta og annarra fjármálagerninga eða aðilar sem kveðið er á um í 14. og 15. gr. og einstaklingar, sem hafa eftirlit með þeim eða eru undir eftirliti þeirra, leggi fram upplýsingar og skjöl á því formi sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt til að sinna eftirliti sínu.
     2.      Krefjast þess að útgefandi verðbréfa birti almenningi upplýsingar, sem krafist er skv. 1. mgr., á því formi sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt til að sinna eftirliti sínu. Sinni útgefandi ekki kröfu Fjármálaeftirlitsins getur það birt upplýsingar að eigin frumkvæði hafi það áður veitt viðkomandi útgefanda andmælarétt.
     3.      Krefjast þess að útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins en heimaríki á Íslandi, sem birtir upplýsingar í því ríki sem hann er með skráða skrifstofu, birti upplýsingarnar opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu telji Fjármálaeftirlitið að þær gætu reynst mikilvægar fyrir almenning þar. Sinni útgefandi ekki kröfu Fjármálaeftirlitsins getur það birt upplýsingarnar að eigin frumkvæði hafi það áður veitt viðkomandi útgefanda andmælarétt.
     4.      Stöðva tímabundið eða krefjast þess að viðkomandi skipulegir verðbréfamarkaðir stöðvi tímabundið viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði í að hámarki tíu virka daga samfellt í hvert sinn, sé rökstuddur grunur um brot gegn ákvæðum laga þessara.
     5.      Leggja bann við viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði komist Fjármálaeftirlitið að því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga þessara.
     6.      Fella niður atkvæðisréttindi tengd hlutabréfum komist Fjármálaeftirlitið að því að brotið hafi verið gegn ákvæðum sem talin eru upp í 48. gr.
     7.      Gera opinbert að útgefandi, eigandi hluta eða annarra fjármálagerninga eða aðilar sem kveðið er á um í 14. og 15. gr. hafi ekki uppfyllt skyldur sínar.
     8.      Gera vettvangsathuganir eða vettvangsrannsóknir á öðrum stöðum en heimilum einstaklinga í þeim tilgangi að fara inn á athafnasvæði til að fá aðgang að skjölum og öðrum gögnum á hvaða formi sem er.
     9.      Krefjast kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi brjóti í bága við ákvæði laga þessara. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir 88. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eftir því sem við getur átt.

40. gr.

Tilkynningar starfsmanna um brot í starfsemi.

    Útgefendur verðbréfa skulu hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna þess um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.
    Einstaklingur sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum og tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.
    Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.

41. gr.

Vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi.

    Þeir sem falið hefur verið að taka við tilkynningum skv. 40. gr. og sjá um vinnslu þeirra eru bundnir þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem lúta þagnarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.
    Fyrirtækið skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot skv. 40. gr. gegn því að hann sæti misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Ef fyrirtæki brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur samkvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.
    Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.

42. gr.

Úrbótakrafa.

    Telji Fjármálaeftirlitið háttsemi andstæða lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim eða hún sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust eða ógni skilvirkni markaða skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.
    Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkis um að útgefandi með staðfestu hér á landi neiti að veita upplýsingar eða sinni ekki úrbótakröfum skal Fjármálaeftirlitið grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að viðkomandi útgefandi veiti upplýsingarnar eða verði við kröfu um úrbætur. Ef nauðsynlegt er skal Fjármálaeftirlitið óska eftir upplýsingum frá lögbærum yfirvöldum í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Fjármálaeftirlitið skal upplýsa lögbært yfirvald gistiaðildarríkis og ESMA um til hvaða ráðstafana er gripið.

43. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann lögaðila eða einstakling sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra:
     1.      6. gr. um opinbera birtingu ársreiknings.
     2.      7. gr. um opinbera birtingu árshlutareiknings vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.
     3.      8. gr. um aukna tíðni upplýsingagjafar.
     4.      9. gr. um opinbera birtingu skýrslu útgefanda með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg.
     5.      11. gr. um opinbera birtingu á Evrópska efnahagssvæðinu og sendingu upplýsinga til Fjármálaeftirlitsins.
     6.      1. og 2. mgr. 12. gr. um flöggunarskyldu.
     7.      13. gr. um flöggunarskyldu við sérstakar aðstæður.
     8.      14. gr. um flöggunarskyldu vegna fjármálagerninga.
     9.      15. gr. um samanlagða flöggunarskyldu.
     10.      19. gr. um skyldu útgefanda til að birta opinberlega upplýsingar um heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða á síðasta viðskiptadegi þess mánaðar er breytingarnar eiga sér stað.
     11.      20. gr. um efni flöggunartilkynninga.
     12.      21. gr. um tímafresti tilkynninga frá flöggunarskyldum aðila.
     13.      1. mgr. 22. gr. um birtingu útgefanda á upplýsingum í tilkynningu.
     14.      29. gr. um flöggunarskyldu vegna eigin hluta.
     15.      31. gr. um opinbera birtingu viðbótarupplýsinga.
     16.      1. mgr. 35. gr. um opinbera birtingu útgefanda á upplýsingum samkvæmt lögum þessum og sendingu upplýsinga til Fjármálaeftirlitsins.
     17.      36. gr. um miðlæga varðveislu.
     18.      37. gr. um tungumál.
    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 350 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 1,65 milljarða kr. en geta þó verið hærri eða allt að 5% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 5% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
    Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:
     a.      alvarleika brots,
     b.      hvað brotið hefur staðið lengi,
     c.      ábyrgðar hins brotlega einstaklings eða lögaðila,
     d.      fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af heildarveltu lögaðila eða árstekjum einstaklings,
     e.      þýðingu ávinnings eða taps sem forðað var með broti fyrir hinn brotlega,
     f.      taps þriðja aðila af brotinu, að því marki sem unnt er að ákvarða slíkt,
     g.      hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
     h.      samstarfsvilja hins brotlega,
     i.      fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.
    Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra er heimilt að ákvarða hinum brotlega sekt sem getur, þrátt fyrir 3. mgr., orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur af brotinu nemur, eftir því hvort er hærra.

44. gr.

Opinber birting stjórnsýsluviðurlaga.

    Fjármálaeftirlitið skal, án tafar, birta á vef sínum sérhverja niðurstöðu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara í kjölfar þess að hinum brotlega hefur verið tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaða sem er birt skal að lágmarki innihalda upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega.
    Telji Fjármálaeftirlitið að opinber birting á nafni hins brotlega, annarra lögaðila eða einstaklinga sem kemur fram í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins samræmist ekki meðalhófsreglu eða að birting geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn þá getur Fjármálaeftirlitið:
     a.      frestað birtingu niðurstöðunnar þar til ástæður fyrir að birta hana ekki eru ekki lengur til staðar eða
     b.      birt niðurstöðu án þess að tilgreina nafn hins brotlega, annarra lögaðila eða einstaklinga sem koma fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
    Í tilviki nafnlausrar birtingar niðurstöðu skv. b-lið 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta nafn viðkomandi þegar ástæður fyrir nafnleynd eiga ekki lengur við.
    Fjármálaeftirlitið skal birta upplýsingar á vef sínum ef höfðað er mál fyrir dómstólum til ógildingar á ákvörðun þess um beitingu viðurlaga vegna brota. Fjármálaeftirlitið skal enn fremur birta upplýsingar um lyktir málsins á hverju dómstigi. Afturkalli Fjármálaeftirlitið ákvörðun sína um beitingu viðurlaga skal Fjármálaeftirlitið upplýsa um það á vef sínum.
    Niðurstöður um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara skulu birtar á vef Fjármálaeftirlitsins í að lágmarki fimm ár. Persónuupplýsingar sem koma fram í niðurstöðunum skulu ekki vera birtar lengur en nauðsynlegt getur talist í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Fjármálaeftirlitið skal árlega senda ESMA samantekt um beitingu stjórnsýsluviðurlaga. Þá skal Fjármálaeftirlitið árlega senda stofnuninni ópersónugreinanlegar upplýsingar á samandregnu formi um kærur til lögreglu og niðurstöður slíkra mála.
    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar samkvæmt þessari grein.

45. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, stjórnvaldsfyrirmæli sett á grundvelli þeirra, eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.

46. gr.

Réttur grunaðs manns.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir mat á því hvort brot hafi átt sér stað. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

47. gr.

Frestur til að leggja á stjórnvaldssekt.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

48. gr.

Sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:
     1.      1. og 2. mgr. 12. gr. um flöggunarskyldu.
     2.      13. gr. um flöggunarskyldu við sérstakar aðstæður.
     3.      29. gr. um flöggunarskyldu vegna eigin hluta.

49. gr.

Saknæmi.

    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

50. gr.

Kæra til lögreglu.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot er meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa því til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

51. gr.

Varúðarráðstafanir ef Ísland er gistiríki.

    Ef Ísland er gistiríki og Fjármálaeftirlitið kemst að því að útgefandi eða flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. hefur sýnt af sér háttsemi sem bryti gegn ákvæðum laga þessara eða skyldum samkvæmt þeim, væri viðkomandi aðili með heimaríki á Íslandi, skal Fjármálaeftirlitið vísa málinu til lögbærs stjórnvalds í heimaríki útgefanda. Ákvæði 1. málsl. á ekki við um fresti skv. 21. eða 22. gr. Í þeim tilvikum skal Fjármálaeftirlitið vísa máli til lögbærs stjórnvalds í heimaríki útgefanda ef flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. hefur ekki sent tilkynningu að fjórum viðskiptadögum liðnum frá stofnun flöggunarskyldu eða ef útgefandi hefur ekki birt upplýsingar í tilkynningu opinberlega að þremur viðskiptadögum liðnum frá því að honum barst tilkynningin.
    Ef útgefandi eða flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. heldur áfram að brjóta viðkomandi lög eða reglur, þrátt fyrir ráðstafanir lögbærs stjórnvalds heimaríkisins eða vegna þess að slíkar ráðstafanir bera ekki árangur, skal Fjármálaeftirlitið, eftir að hafa tilkynnt það lögbæru yfirvaldi heimaríkis, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta.

52. gr.

Samstarf við önnur lögbær yfirvöld innan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Fjármálaeftirlitið skal, eins og þörf er á, starfa með lögbærum yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum við framkvæmd eftirlits á grundvelli laga þessara. Í því felst meðal annars gagnkvæm upplýsingagjöf og samræming aðgerða þegar tekið er á málum sem ná yfir landamæri.
    Fjármálaeftirlitið skal eiga samstarf við lögbær yfirvöld annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og við Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum ESMA og Evrópska kerfisáhætturáðið, sé það nauðsynlegt til þess að þær stofnanir geti sinnt skyldum sínum við framkvæmd eftirlits.

53. gr.

Samstarf og upplýsingagjöf Fjármálaeftirlitsins til ESMA og eftirlitsstofnunar EFTA.

    Fjármálaeftirlitið skal, í samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum ESMA, sinna eftirliti með lögum þessum í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 1095/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Fjármálaeftirlitið skal veita stofnununum upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að þær geti sinnt eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, sbr. 35.–36. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1095/2010.

54. gr.

Úrlausn ágreinings milli lögbærra yfirvalda innan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Komi upp ágreiningur milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærs yfirvalds í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins vegna ákvæða laga þessara sem varða samstarf eða samhæfingu lögbærra yfirvalda getur Fjármálaeftirlitið vísað málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA eða ESMA, eftir því sem við á, til málsmeðferðar skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1095/2010, sbr. 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Úrlausn Eftirlitsstofnunar EFTA í slíku máli skal vera bindandi fyrir Fjármálaeftirlitið.
    Vísi lögbært yfirvald annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins ágreiningi við Fjármálaeftirlitið til Eftirlitsstofnunar EFTA, eða eftir atvikum til ESMA, vegna aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laga þessara skal úrlausn Eftirlitsstofnunar EFTA í slíku máli vera bindandi fyrir Fjármálaeftirlitið.

VII. KAFLI

Önnur ákvæði.

55. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Á hvaða hátt ársreikningur og árshlutareikningur skuli vera aðgengilegir almenningi, sbr. 6. og 7. gr.
     2.      Um skilyrði fyrir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um aukna tíðni upplýsingagjafar útgefanda verðbréfa, skv. 8. gr.
     3.      Hvaða kröfur samkvæmt ákvæðum löggjafar ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins eru hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga, sbr. 11. gr.
     4.      Snið og ferla við flöggunartilkynningar til útgefenda skv. III. kafla.
     5.      Efni tilkynningar vegna fjármálagerninga skv. 14. gr.
     6.      Hvers konar samkomulag telst formlegt samkomulag skv. a-lið 1. mgr. 14. gr.
     7.      Nánar um hvenær undanþágur skv. 23. gr. eiga við sbr. 12. og 14. gr.
     8.      Nánar um efni tilkynningar skv. 20. gr.
     9.      Nánar um skilgreiningu og skilyrði fyrir verðjöfnun skv. 26. gr.
     10.      Hvaða skilyrði fyrirtæki skv. 27. og 28. gr. verða að uppfylla til að þau teljist nýta atkvæðisrétt sinn óháð móðurfélögum sínum.
     11.      Fjármálastofnanir sem hafa milligöngu um að eigendur hluta eða handhafar skuldabréfa geti neytt fjárhagslegra réttinda sinna í útgefanda, sbr. 32. og 33. gr.
     12.      Undanþáguheimildir, sbr. 34. gr.
     13.      Framkvæmd opinberrar birtingar, sbr. 35. gr.
     14.      Kröfur til miðlægs geymslukerfis skv. 36. gr.
    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:
     1.      Útreikning atkvæðisréttar í veltubók skv. 24. gr.
     2.      Sameiginlegt rafrænt skýrslusnið, skv. 10. og 11. gr.
     3.      Útreikning atkvæðisréttar skv. 12. gr.
     4.      Aðgengi að upplýsingum.

56. gr.

Fjárhæðir

    Fjárhæðir í lögum þessum skulu reiknaðar miðað við opinbert viðmiðunargengi evru eins og það er skráð hverju sinni.

57. gr.

Innleiðing.

    Með lögum þessum eru ákvæði eftirfarandi tilskipana innleidd:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 35 frá 19. júní 2008, bls. 235–254.
     2.      7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipun 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 3006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin) sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins 49 frá 20. júní 2019, bls. 5–49.
     3.      1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/50/ESB frá 22. október 2013 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar, og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB um nákvæmar reglur til framkvæmdar tilteknum ákvæðum tilskipunar 2004/109/EB, með þeim aðlögunum sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81/2020 frá 12. júní 2020.

58. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2021.

59. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um ársreikninga, nr. 3/2006: Í stað orðanna „VII. kafla laga um verðbréfaviðskipti“ í 87. gr. e laganna kemur: II. kafla laga um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.
     2.      Lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007:
                  a.      3. gr. laganna fellur brott.
                  b.      VII.–IX. kafli laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.
                  c.      Eftirfarandi breytingar verða á 133. gr. laganna:
                      1.      Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
                      2.      Orðin „og VII., VII., og IX. kafla“ í 6. mgr. falla brott.
                  d.      Orðin „VII.,VIII., IX. og“ í 1.–3. mgr. 135. gr., 1. mgr. 136. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 137. gr. falla brott.
                  e.      Eftirfarandi breytingar verða á 137. gr. laganna:
                      1.      Í stað orðanna „78., 79. eða 80. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. og í 2. mgr. kemur: lögum um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.
                      2.      2. og 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
                  f.      5.–25. tölul. 1. mgr. 141. gr. laganna fellur brott.
                  g.      5.–7. tölul. 145. gr. laganna fellur brott.
     3.      Lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020: 32. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Útgefandi: Útgefandi samkvæmt lögum um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við setningu reglna skv. 2. tölul. 2. mgr. 55. gr. er Seðlabanka Íslands heimilt að vísa til birtingar á viðaukum framseldra reglugerða Evrópusambandsins er varða flokkunarkerfi sem nota ber við rafræn skýrsluskil, í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Nýti Seðlabanki Íslands þessa heimild skal gera enska útgáfu viðaukanna aðgengilega á vef bankans. Heimild Seðlabanka Íslands skal gilda þar til íslenskar þýðingar á viðaukunum hafa verið birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði ný heildarlög um reglulega og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa. Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 (hér eftir gagnsæistilskipunin) með síðari breytingum. Tilskipunin mælir einkum fyrir um samræmingu reglna um birtingu reglulegra upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og um birtingu upplýsinga um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar eða eignarhaldi í slíkum útgefendum. Markmið tilskipunarinnar er að samræma kröfur um skyldu útgefenda til að veita upplýsingar og stuðla með því að raunverulegum innri markaði og víðtækri vernd fyrir fjárfesta.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á síðustu árum hafa örar breytingar átt sér stað á lagaumhverfi Evrópsks fjármálamarkaðar. Skýrsla, sem samþykkt var af framkvæmdastjórn ESB hinn 27. maí 2010, um framkvæmd gagnsæistilskipunarinnar, sýndi fram á þörf fyrir að auka skilvirkni fyrirkomulags um gagnsæi, meðal annars er varðar birtingu upplýsinga um eignarhald félags, og kveða á um einföldun á skuldbindingum tiltekinna útgefenda. Þá hefur einnig verið sýnt fram á þörfina til að rétta af skuldbindingar sem gilda um lítil og meðalstór fyrirtæki samhliða því að tryggja fjárfestum sambærilega vernd. Af því tilefni gaf ESB út tilskipun 2013/50/ESB sem kveður á um breytingar á gagnsæistilskipuninni auk tilskipana 2003/71/EB um lýsingu verðbréfa og tilskipun 2007/14/EB um nánari framkvæmd tilskipunar 2004/109/EB. Þau ákvæði tilskipunar 2013/50/ESB sem lúta að tilskipun 2003/71/EB féllu úr gildi með samþykkt reglugerðar (ESB) 2017/1129, sem var innleidd með nýjum heildarlögum um lýsingu verðbréfa, nr. 14/2020.
    Með hliðsjón af þessum breytingum er talið heppilegast að setja ný heildarlög til innleiðingar á ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar og fella viðkomandi ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, brott. Ekki var talið tilefni til að gera breytingar á þeim ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar sem innleidd voru með lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Frumvarpið byggir að stórum hluta á þeirri vinnu sem unnin var við setningu laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, en einnig þeim breytingum sem hafa orðið á löggjöf frá þeim tíma.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu gagnsæistilskipunarinnar, með síðari breytingum, í íslenskan rétt. Lagt er til að um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefanda verðbréfa og flöggunarskyldu gildi sérlög og hliðstæð ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti verði felld brott. Gagnsæistilskipunin er lágmarkstilskipun sem þýðir að heimaríki má gera strangari kröfur til útgefenda í sinni lögsögu. Samkvæmt tilskipuninni er gistiríkjum hins vegar óheimilt að gera strangari kröfur til útgefenda eða aðila sem er flöggunarskyldur vegna þess útgefanda en heimaríki útgefandans eða tilskipunin mælir fyrir um. Með hliðsjón af framangreindu og samræmingarmarkmiði tilskipunarinnar var því nauðsynlegt að meta vandlega hverju sinni hvort setja skyldi strangari reglur hérlendis en tilskipunin mælir fyrir um.
    Kaflaskipting frumvarpsins tekur mið af uppbyggingu gagnsæistilskipunarinnar. Í II. kafla er kveðið á um þær reglubundnu upplýsingar sem útgefendum verðbréfa er skylt að birta almenningi. Í III. kafla er að finna ákvæði um birtingu upplýsinga um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar eða svonefndar flöggunarreglur. IV. kafli fjallar um aðrar skyldur útgefenda verðbréfa. Tekið skal fram að frumvarpið felur ekki í sér tæmandi talningu á þeim upplýsingum sem útgefendum verðbréfa kann að vera skylt að veita. Sem dæmi má nefna að 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, kveður á um upplýsingaskyldu og lögmæta miðlun innherjaupplýsinga. Þá kveður 127. gr. sömu laga á um birtingu upplýsinga um viðskipti stjórnenda. Þau ákvæði voru sett meðal annars til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar 2003/6/EB um markaðssvik sem nú hefur verið felld úr gildi með samnefndri reglugerð (ESB) nr. 596/2014. Gert er ráð fyrir að reglugerðin verði innleidd með nýjum heildarlögum um markaðssvik á yfirstandandi þingi og verða ákvæði um lögmæta birtingu innherjaupplýsinga og birtingu upplýsinga um viðskipti stjórnenda að finna þar.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með birtingu upplýsinga í samræmi við ákvæði frumvarpsins og til þess hafi það sambærilegar eftirlits- og viðurlagaheimildir og í öðrum sérlögum á fjármálamarkaði. Samkvæmt frumvarpinu hefur Eftirlitsstofnun EFTA heimild til að leysa með bindandi hætti úr ágreiningi milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærs yfirvalds í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) vegna ákvæða sem varða samstarf eða samhæfingu lögbærra yfirvalda, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1095/2010, sbr. 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017.

3.1. Helstu breytingar frá gildandi rétti.
3.1.1. Skilgreining á útgefanda.
    Lagt er til að hugtakið útgefandi sé skilgreint til samræmis við skilgreiningu hugtaksins í gagnsæistilskipuninni, en skilgreiningu á hugtakinu er ekki að finna í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Skv. d-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar getur útgefandi verið einstaklingur eða lögaðili sem heyrir undir einkarétt eða opinberan rétt, þ.m.t. ríki, og verðbréf hans eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Með þeim breytingum sem gerðar voru með tilskipun (ESB) 2013/50 geta nú einstaklingar fallið undir skilgreiningu á útgefanda, sem áður var afmörkuð við lögaðila, þar sem einstaklingar geta verið útgefendur verðbréfa í sumum ríkjum innan EES.

3.1.2. Skilgreining á heimaríki.
    Til að tryggja að allir útgefendur verðbréfa, sem eru að nafnvirði jafngildi 1.000 evrum í íslenskum krónum og tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES lúti eftirliti lögbærs yfirvalds, sér í lagi í þeim tilvikum þegar útgefendum ber að velja sitt heimaríki, voru gerðar breytingar á skilgreiningu heimaríkis í gagnsæistilskipuninni. Samkvæmt nýrri skilgreiningu ber útgefendum að upplýsa lögbær yfirvöld um val sitt á heimaríki innan þriggja mánaða. Hafi verðbréfin verið tekin til viðskipta í fleiri en einu aðildarríki verða þau öll heimaríki þar til útgefandinn velur eitt þeirra og tilkynnir um það.

3.1.3. Frestur til að birta árshlutareikning lengdur.
    Lagt er til að frestur útgefanda verðbréfa til að birta árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá, til samræmis við breytingar á gagnsæistilskipuninni. Jafnframt er lagt til að útgefendum verðbréfa verði gert skylt að hafa ársreikninga og árshlutareikninga aðgengilega í tíu ár, í stað fimm ára líkt og í gildandi löggjöf.

3.1.4. Greinargerð frá stjórn.
    Samkvæmt gildandi löggjöf hvílir sú skylda á útgefendum verðbréfa að birta greinargerð frá stjórn (e. interim management statements) tvisvar á ári með skýringum á mikilvægum atburðum og viðskiptum sem átt hafa sér stað á viðkomandi tímabili ásamt almennri lýsingu á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu útgefanda. Lagt er til að þessi skylda falli brott þar sem hún er talin of íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Jafnframt var skyldan talin hvetja til skammtímaárangurs fyrirtækja og draga úr langtímafjárfestingu. Í gagnsæistilskipuninni er aðildarríkjum heimilað að krefja útgefendur um viðbótar fjárhagsupplýsingar, að því gefnu að þær séu líklegar til að nýtast fjárfestum við ákvarðanatöku og valdi ekki umtalsverðri fjárhagslegri byrði fyrir útgefendur verðbréfa. Það athugast að afnám skyldu til að birta greinargerð frá stjórn hreyfir ekki við skyldu útgefenda verðbréfa til að birta árshlutaskýrslu stjórnar (e. interim management report) skv. 87. gr. b. laga um ársreikninga, nr. 3/2006.

3.1.5. Skýrsla um greiðslur til stjórnvalda.
    Lagt er til að útgefendum verðbréfa, sem starfa í jarðvinnslu og skógarhöggi og hafa fengið verðbréf sín til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, verði gert að birta árlega skýrslu um greiðslur til stjórnvalda í þeim löndum þar sem þeir starfa.

3.1.6. Frestur til að tilkynna um stofnun flöggunarskyldu lengdur.
    Lagt er til að frestur aðila til að tilkynna félagi og Fjármálaeftirlitinu um öflun eða ráðstöfun hluta sem leiðir til flöggunarskyldu verði lengdur. Samkvæmt gagnsæistilskipuninni skal tilkynna án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að skyldan stofnast, en samkvæmt gildandi rétti er miðað við að tilkynnt sé eins fljótt og auðið er og eigi síðar en næsta viðskiptadag eftir að flöggunarskylda stofnaðist. Lagt er til að frestur til að tilkynna um flöggunarskyldu verði lengdur þannig að slík tilkynning skuli send án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að flöggunarskyldan stofnaðist. Þá er lagt til að frestur útgefanda til að birta upplýsingar úr tilkynningu flöggunarskylds aðila verði lengdur í þrjá viðskiptadaga eftir að tilkynning barst útgefanda.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér upptöku á efnisákvæðum gagnsæistilskipunarinnar í íslenskan rétt. Í frumvarpinu felst framsal valdheimilda til Eftirlitsstofnun EFTA, sem hefur í algjörum undantekningartilvikum og samkvæmt ströngum skilyrðum heimild til að taka ákvörðun sem snertir starfsemi útgefenda verðbréfa á íslensku yfirráðasvæði. Ekki er talið að eðli þessara framsalsheimilda sé verulega íþyngjandi eða umfram það sem áður hefur verið talið heimilt vegna EES-samningsins.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta var unnið af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við Seðlabanka Íslands. Áform um lagasetningu voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 5.–20. febrúar 2020 (mál nr. S-24/2020) og frumvarpsdrög voru birt 1.–16. október 2020 (mál nr. S205/2020). Umsagnir bárust frá LOGOS slf., Kauphöll Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins.
    Í umsögnum LOGOS slf., Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins er gerð athugasemd við þann frest sem flöggunarskyldur aðili hefur til að senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins, en í frumvarpsdrögum sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda var, líkt og í gildandi rétti, gert ráð fyrir að tilkynning yrði send án tafar og eigi síðar en næsta viðskiptadag eftir að flöggunarskyldan stofnaðist. Skv. 2. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar getur sá frestur verið allt að fjórir viðskiptadagar. Jafnframt er gerð athugasemd við þann frest sem útgefandi hefur til að birta upplýsingar úr tilkynningu flöggunarskylds aðila.
    Rétt þykir að taka tillit til framangreindra athugasemda og lengja frest til að tilkynna um stofnun flöggunarskyldu þannig að slík tilkynning skuli send án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að flöggunarskyldan stofnaðist. Þá er lagt til að frestur útgefanda til að birta upplýsingar úr tilkynningu flöggunarskylds aðila verði lengdur í þrjá viðskiptadaga eftir að tilkynning barst útgefanda. Nánari umfjöllun um frestina, þ.m.t. evrópskan samanburð á þeim, er að finna í skýringum við 21. gr.
    LOGOS slf. gerir einnig athugasemd við að hugtakið fjárhaldssjóðir sé ekki sérstaklega skilgreint í frumvarpinu. Hugtakið er ekki sérstaklega skilgreint í íslenskri löggjöf, en um er að ræða þýðingu á enska hugtakinu Unit Trust. Ekki er talið tilefni til að skilgreina hugtakið sérstaklega í frumvarpinu.
    Loks bendir LOGOS slf. á að einstaklingar falla ekki undir lög um ársreikninga og því sé óljóst hvernig einstaklingar sem útgefendur muni geta framfylgt skyldu um reglubundna upplýsingaskyldu með hliðsjón af því að samkvæmt frumvarpinu geta einstaklingar nú talist útgefendur verðbréfa í skilningi laganna. Með þeim breytingum sem gerðar voru á útgefandahugtakinu í d-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar með tilskipun (ESB) 2013/50 geta einstaklingar nú fallið undir skilgreiningu á útgefanda, sem áður var afmörkuð við lögaðila, þar sem einstaklingar geta verið útgefendur verðbréfa í sumum aðildarríkjum EES. Brugðist er við athugasemdinni í 2. mgr. 10. gr. sem kveður á um að þegar útgefandi er ekki lögaðili skuli hann semja ársreikning og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins í samræmi við lög um ársreikninga, eftir því sem við á.
    Kauphöll Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök atvinnulífsins leggja til að ramma laganna verði breytt á þann veg að hann nái til allra upplýsinga sem útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármála og ber að birta almenningi. Í samræmi við það yrðu ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007 er varða upplýsingaskyldu, lögmæta miðlun innherjaupplýsinga og birtingu upplýsinga um viðskipti stjórnenda færð inn í frumvarpið og gildissvið frumvarpsins víkkað þannig að það nái einnig til útgefenda verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á markaðstorgi fjármálagerninga. Jafnframt yrði IX. kafli laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar (flöggun) eftir í þeim lögum að undanskildum ákvæðum sem lúta að skyldu útgefanda verðbréfa til birtingar upplýsinga.
    Brugðist var við athugasemd þessari með því að bæta orðunum „og flöggunarskyldu“ við fyrirsögn frumvarpsins, en ekki var talin ástæða til að gera frekari breytingar á frumvarpinu. Frumvarpið felur í sér innleiðingu gagnsæistilskipunarinnar, með síðari breytingum, í íslenskan rétt, og fylgir frumvarpið að stærstum hluta uppbyggingu tilskipunarinnar. Ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, um birtingu innherjaupplýsinga og upplýsinga um viðskipti stjórnenda voru sett meðal annars til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar 2003/6/EB um markaðssvik sem nú hefur verið felld úr gildi með samnefndri reglugerð (ESB) nr. 596/2014. Gert er ráð fyrir að sú reglugerð verði innleidd með nýjum heildarlögum um markaðssvik á yfirstandandi þingi og verða ákvæði um lögmæta birtingu innherjaupplýsinga og birtingu upplýsinga um viðskipti stjórnenda að finna þar. Verður ekki fallist á að það fyrirkomulag sé til þess fallið að valda ruglingi. Breyting á fyrirsögn er til þess fallin að auka skýrleika.
    Í frumvarpsdrögum sem birt voru í samráðsgátt var fyrirsögn III. kafla „Breyting á verulegum hlut atkvæðisréttar (flöggun). Kauphöll Íslands lagði til breytingu á fyrirsögninni í ljósi þess að breytingar á reglum um flöggunarskyldu vegna fjármálagerninga fela nú í sér að ekki er lengur horft einungis til atkvæðisréttar við mat á flöggunarskyldu heldur einnig efnahagslegra áhrifa af eignarhaldi, án tillits til atkvæðisréttar. Fallist var á tillöguna með þeim hætti að setja skýringu á hugtakinu „flöggun“ í 3. gr. og breyta fyrirsögn III. kafla í „flöggun“.
    Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök atvinnulífsins gera athugasemd við notkun hugtaksins „eftirlitsstjórn“ sem ekki er til á Íslandi. Ekki er tilefni til að fallast á þá athugasemd. Um er að ræða þýðingu á enska hugtakinu Supervisory body. Þótt eftirlitsstjórnir séu ekki við lýði á Íslandi kann að vera að þær séu það hjá útgefendum verðbréfa með skráða skrifstofu í öðru ríki en Íslandi.
    Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök atvinnulífsins gera einnig athugasemd við að í 8. gr. sé Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að ákveða aukna tíðni upplýsingagjafar útgefanda að vissum skilyrðum uppfylltum. Telja samtökin að um töluverða breytingu sé að ræða sem þarfnist frekari útskýringar. Hafa verður í huga að um heimildarákvæði er að ræða til innleiðingar á 1. og 1a. mgr. 3. gr. gagnsæistilskipunarinnar með þeim breytingum sem gerðar voru á ákvæðinu með 2. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2013/50. Að svo stöddu eru ekki áform um að nýta þessa heimild en verði breyting þar á verður kveðið á um nánara fyrirkomulag aukinnar tíðni upplýsingagjafar í reglugerð settri skv. 2. tölul. 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Lagt er til að sett verði ný heildarlög um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu. Áhrif frumvarpsins á fjármálamarkaðinn eru almennt talin jákvæð. Frumvarpið miðar að því að auka skilvirkni og sveigjanleika fyrirkomulags varðandi birtingu upplýsinga og stuðla að fjárfestavernd. Breytingarnar munu fjölga þeim sem falla undir lögin þar sem einstaklingar munu einnig falla undir skilgreiningu á hugtakinu útgefendur. Það er þó talið hafa óveruleg áhrif þar sem einstaklingar eru almennt ekki útgefendur verðbréfa hér á landi. Jafnframt mun frumvarpið létta byrðar útgefenda, sérstaklega lítilla og meðalstórra útgefenda, og gera þeim auðveldara að sækja fjármagn innan EES. Þá munu breytingarnar draga úr íþyngjandi stjórnsýslumeðferð og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslenskra útgefenda innan EES.
    Hvorki er gert ráð fyrir verulegum áhrifum á stjórnsýslu né útgjöld eða tekjur ríkissjóðs vegna innleiðingar reglugerðarinnar. Fjármálaeftirlitið er í stakk búið til að takast á við þær breytingar á framkvæmd verkefna sem frumvarpið felur í sér, sem að stærstum hluta snýr að innleiðingu á hinu sameiginlega rafræna skýrslusniði.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin er markmiðsgrein og byggist á formála gagnsæistilskipunarinnar.

Um 2. gr.

    Í greininni er gildissvið afmarkað. Greinin byggist á 1. gr. gagnsæistilskipunarinnar og eru 1. og 4. mgr. efnislega samhljóða 55. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og 2. og 3. mgr. efnislega samhljóða 1. og 2. mgr. 77. gr. sömu laga.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði kaflans gildi einnig um hluti í útgefendum með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem gefa út hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu, og hafa valið Ísland sem heimaríki, sbr. einnig 2. mgr. 5. gr. Hér er notað orðið útgefandi en ákvæðið felur í sér tilvísun til erlendra lögaðila (félaga). Það ræðst af löggjöf viðkomandi ríkis hvert heiti slíkra lögaðila er.

Um 3. gr.

    Í greininni, sem byggir á 2. og 3. mgr. 1. gr. og 8. gr. gagnsæistilskipunarinnar, er fjallað um þá aðila sem undanþegnir eru gildissviði frumvarpsins. Annars vegar er um að ræða að tilteknir útgefendur séu undanþegnir gildissviðinu burtséð frá því hvaða tegund verðbréfa þeir gefa út og hins vegar er um að ræða undanþágur gagnvart útgefendum tiltekinna tegunda verðbréfa. Sambærileg ákvæði er að finna í 56. og 67. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Í 1. mgr. kemur fram að hlutir og hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu, annarra en lokaðra sjóða, og hlutir og hlutdeildarskírteini sem aflað eða ráðstafað er í slíkum sjóðum séu undanþegin gildissviði frumvarpsins. Málsgreinin byggist á 2. mgr. 1. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Ef sami útgefandi gefur út einhverjar aðrar tegundir verðbréfa en hlutdeildarskírteini og þau verðbréf eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á undanþágan ekki við.
    Í 2. mgr. er að finna undanþágur sem eiga einungis við um II. kafla. Málsgreinin byggist á 1. mgr. 8. gr. gagnsæistilskipunarinnar eins og henni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2013/50 og er sambærileg 56. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Í 3. mgr. eru tilgreindar undanþágur frá II. og III. kafla laganna og varða útgefendur vegna peningamarkaðsskjala með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir. Málsgreinin byggist á a-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Ef sami útgefandi gefur út einhverjar aðrar tegundir verðbréfa en peningamarkaðsskjöl með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir og þau verðbréf eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á undanþágan ekki við.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um undanþágu gagnvart útgefanda skuldabréfa sem þegar var á skipulegum verðbréfamarkaði 31. desember 2003 ef útgefandinn gefur eingöngu út skuldabréf sem heimaríki hans eða eitt af svæðis- eða staðaryfirvöldum þess ríkis ábyrgist skilyrðislaust og óafturkallanlega. Málsgreinin byggist á 3. mgr. 8. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. er undanþága frá 33. gr. að því er varðar skuldabréf sem gefin eru út af ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sveitarfélagi eða sambærilegu svæðis- eða staðaryfirvaldi á Evrópska efnahagssvæðinu. Ákvæðið byggist á 3. mgr. 1. gr. gagnsæistilskipunarinnar.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um merkingu hugtaka. Greinin byggir á 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er að stórum hluta sambærileg 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
     Um 1. tölul.: Í ákvæðinu er hugtakið aðildarríki skilgreint. Hugtakið er ekki sérstaklega skilgreint í gagnsæistilskipuninni.
     Um 2. tölul.: Í ákvæðinu er að finna skammstöfun fyrir Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina.
     Um 3. tölul.: Í ákvæðinu er hugtakið fjármálagerningur skilgreint. Hugtakið vísar til þeirra gerninga sem tilgreindir eru í C-þætti I viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB (MiFID I). Viðkomandi ákvæði eru innleidd hér á landi í lögum um verðbréfaviðskipti og er því vísað til 2. tölul. 2. gr. þeirra laga.
     Um 4. tölul.: Í ákvæðinu er hugtakið flöggun skilgreint sem tilkynning um verulega breytingu á eignarhaldi eða atkvæðisrétti í útgefanda hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
     Um 5. tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á f-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, er hugtakið fyrirtæki undir yfirráðum (e. controlled undertaking) skilgreint. Hafa ber í huga að hugtakið er víðtækara en dótturfélag í skilningi laga um ársreikninga þar sem einstaklingar geta einnig talist hafa yfirráð yfir fyrirtæki.
     Um. 6.tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á e-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, er hugtakið hluthafi skilgreint.
     Um 7. tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á h-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, eru hlutir og hlutdeildarskírteini fyrirtækis um sameiginlega fjárfestingu skilgreind.
     Um 8. tölul.: ákvæðinu, sem byggist á g-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, eru sjóðir um sameiginlega fjárfestingu, aðrir en lokaðir sjóðir (e. Collective investment undertaking other than the closed-end type), skilgreindir sem fjárhaldssjóðir (e. Unit trusts) og fjárfestingafélög, sem annars vegar hafa að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjármagns sem almenningur hefur lagt fram og sem starfa á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu og hins vegar að hlutdeildarskírteinin í þeim eru beint eða óbeint endurkeypt eða innleyst að ósk eiganda þessara skírteina gegn greiðslu af eignum fyrirtækjanna.
     Um 9. tölul.: Í ákvæðinu er skipulegur verðbréfamarkaður skilgreindur á sama hátt og í lögum um verðbréfaviðskipti.
     Um 10. tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á b-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, er að finna skilgreiningu á hugtakinu skuldabréf í skilningi frumvarpsins. Þar kemur fram að skuldabréf merki í þessari grein skuldaviðurkenningu eða skuld samkvæmt annars konar verðbréfum en frá þessu eru gerðar tvær undantekningar. Í fyrsta lagi falla utan hugtaksins skuldabréf í þessari grein verðbréf sem jafna má til hluta í fyrirtækjum eða sem geta af sér rétt til að afla hluta eða verðbréfa sem jafna má til hluta ef þeim er umbreytt eða ef réttindum samkvæmt þeim er beitt. Sem dæmi um fjármálagerninga af þessu tagi má nefna bráðabirgðaskírteini og áskriftarrétt. Í öðru lagi falla utan hugtaksins skuldabréf í þessari grein peningamarkaðsskjöl með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir. Skilgreiningin er samhljóða 1. mgr. 71. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 107/2008.
     Um 11. tölul.: Í ákvæðinu er að finna skilgreiningu á því hvað felst í rafrænum aðferðum. Ákvæðið byggist á l-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
     Um 12. tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á m-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, er hugtakið rekstarfélag skilgreint með vísan til 1. tölul. 2. gr. laga um verðbréfasjóði, nr. 128/2011.
     Um 13.tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á d-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, með síðari breytingum, er hugtakið útgefandi skilgreint, en skilgreiningu á hugtakinu er ekki að finna í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Með þeim breytingum sem gerðar voru með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2013/50 geta einstaklingar nú fallið undir skilgreininguna, þar sem einstaklingar geta talist útgefendur í einhverjum aðildarríkjum EES, en áður gátu aðeins lögaðilar talist útgefendur í skilningi gagnsæistilskipunarinnar. Í því skyni að auka skýrleika varðandi það hvernig meðhöndla eigi heimildarskírteini sem tekin eru til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði var því jafnframt bætt við skilgreininguna að hugtakið nái yfir útgefendur verðbréfa sem heimildarskírteinin standa fyrir, óháð því hvort verðbréfin séu tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða ekki. Fjárhaldssjóðir (e. Unit trusts), þ.m.t. sjóðir sem ekki eru lögaðilar, teljast til útgefenda.
     Um 14. tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á a-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar eru verðbréf skilgreind með vísan til a-liðar 2. tölul. 2 gr. laga um verðbréfaviðskipti. Skilgreining á hugtakinu þar er til innleiðingar á 18. tölul. 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB (MiFID I) sem vísað er til í skilgreiningu hugtaksins í gagnsæistilskipuninni.
     Um 15. tölul.: Í ákvæðinu, sem byggist á n-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar, er hugtakið viðskiptavaki skilgreint. Skilgreiningu á viðskiptavaka er að finna í 1. mgr. 116. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 5. gr.

    Í greininni er fjalla um hvenær Ísland telst heimaríki útgefanda verðbréfa. Greinin er að mestu sambærileg 3. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af innleiðingu tilskipunar (ESB) 2013/50. Afmörkun á heimaríki útgefanda hefur þýðingu þegar kemur að því að ákveða hvaða lögbæra yfirvaldi útgefanda ber að senda þær upplýsingar sem honum ber að birta opinberlega og hvaða lögbæra yfirvald hefur eftirlit með útgefandanum. Skilgreininguna á heimaríki er að finna í i-lið 1. mgr. 2. gr. í gagnsæistilskipuninni.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að Ísland sé ávallt heimaríki útgefanda með skráða skrifstofu á Íslandi sem gefur út hlutabréf eða skuldabréf þar sem nafnverð eininga skuldabréfanna er lægri fjárhæð en jafnvirði 1.000 evra í íslenskum krónum ef viðkomandi verðbréf hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Íslensk hlutafélög eiga þannig alltaf Ísland sem heimaríki jafnvel þótt hlutabréf félagsins hafi aðeins verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en Íslandi. Regla 1. mgr. gildir um hlutafélög með skráða skrifstofu á Íslandi þótt viðkomandi félag hafi áður gefið út annars konar verðbréf en þau sem nefnd eru í ákvæðinu.
    Regla 2. mgr. gildir í þeim tilvikum þegar útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins hefur valið Ísland sem heimaríki. Val útgefanda er háð sömu skilyrðum og mælt er fyrir um í 1. mgr., þ.e. um tiltekna tegund verðbréfa og að bréfin hafi verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Ákvæðið byggist á 2. mgr. i-liðar 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar með þeim breytingum sem tilskipun (ESB) 2013/50 ber með sér.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um hvenær Ísland getur verið heimaríki í öðrum tilvikum en þeim sem nefnd eru í 1. og 2. mgr. Rétt eins og í 2. mgr. gerir ákvæðið ráð fyrir að útgefandi velji sjálfur Ísland sem heimaríki. Valið getur staðið á milli Íslands og annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem útgefandi er með skráða skrifstofu eða verðbréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Skilyrði þess að útgefandi geti valið að eiga Ísland að heimaríki eru að hann sé með skráða skrifstofu á Íslandi eða að verðbréf hans hafi verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi.
    Samkvæmt lokamálsl. 3. mgr. mun val útgefanda á heimaríki gilda í að minnsta kosti þrjú ár frá opinberri birtingu á vali útgefanda á heimaríki, sbr. 7. mgr. greinarinnar. Valið gildir þó ekki ef áður kemur til þess að ekki séu lengur viðskipti með verðbréf hans á skipulegum verðbréfamarkaði í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða ef útgefandi fellur undir 1. eða 2. mgr. innan þriggja ára tímabilsins, þ.e. ef útgefandi skráir skrifstofu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða velur sér nýtt heimaríki þar sem verðbréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða hann er með skráða skrifstofu og ekki eru lengur viðskipti með verðbréf hans á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Seinni undantekningin er nýmæli og leiðir af þeim breytingum sem tilskipun 2013/50/ESB ber með sér. Samkvæmt gildandi lögum getur sú staða komið upp að útgefandi, sem valið hefur Ísland sem heimaríki, taki verðbréf af skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og flytji útgáfuna til annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins, og hafi þannig engin tengsl við heimaríki sitt. Með breytingunni er útgefendum gefinn kostur á að velja eitt af gistiríkjum sínum eða það ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hann hefur skráða skrifstofu sem sitt nýja heimaríki.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um fyrrnefnda heimild útgefanda, sem valið hefur Ísland sem heimaríki skv. 2. eða 3. mgr., til að velja sér nýtt heimaríki.
    Í 5. mgr. kemur fram að lögin muni gilda þegar Ísland er heimaríki útgefanda þrátt fyrir að verðbréf hans hafi ekki verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi heldur aðeins í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Dæmi um slíka stöðu er ef hlutabréf íslensks hlutafélags eru aðeins tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í Danmörku. Þar sem Ísland er heimaríki útgefandans ber Fjármálaeftirlitið ábyrgð á eftirliti með því að útgefandinn fylgi ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar. Þar af leiðandi verða íslenskar reglur sem byggjast á gagnsæistilskipuninni að gilda um hann.
    Í 6. mgr. kemur fram að val útgefanda á heimaríki skuli birt opinberlega með sama hætti og lýst er í 35. gr. Jafnframt skuli birta val á Íslandi sem heimaríki fyrir Fjármálaeftirlitinu og viðeigandi lögbæru yfirvaldi í því ríki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem hann hefur skráða skrifstofu og, ef við á, viðeigandi lögbæru yfirvaldi heimaríkis, ásamt viðeigandi lögbæru yfirvaldi allra gistiaðildarríkja.
    Í 7. mgr. er mælt fyrir um Ísland teljist sjálfkrafa sem heimaríki útgefanda ef hann hefur val um heimaríki skv. 2. og 3. mgr. en hefur ekki tilkynnt um val sitt innan þriggja mánaða frá því að verðbréf hans voru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Ef sú staða kemur upp að verðbréf útgefanda hafa einnig verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu skulu þau öll teljast heimaríki útgefanda ásamt Íslandi, þar til hann hefur tilkynnt um val sitt. Með ákvæðinu er bæði tryggt að útgefandi hafi heimaríki, og lúti þar með eftirliti yfirvalda þess ríkis, auk þess sem skapaður er hvati fyrir útgefendur verðbréfa að velja sér heimaríki.
    Loks er mælt fyrir um hvenær Ísland er gistiríki útgefanda en það er þegar verðbréf útgefandans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og Ísland er ekki heimaríki hans skv. 1.–3. mgr.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er að finna ákvæði um reglulegar upplýsingar útgefanda, en til þeirra teljast skil og birting á ársreikningi og árshlutareikningi. Einnig er kveðið á um þau nýmæli að útgefendur verðbréfa með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg skuli semja og birta opinberlega skýrslu um greiðslur til stjórnvalda á ársgrundvelli.

Um 6. gr.

    Greinin mælir fyrir um opinbera birtingu ársreiknings og á sér fyrirmynd í 57. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Ákvæðið byggist á 1. mgr. 4. gr. gagnsæistilskipunarinnar með síðari breytingum. Meginreglan er að opinber birting skuli fara fram eins fljótt og auðið er en skylda er að birta ársreikninginn í síðasta lagi fjórum mánuðum frá lokum reikningsársins. Mælt er fyrir um framkvæmd opinberrar birtingar í 35. gr. frumvarpsins.
    Ákvæðið leggur jafnframt þá skyldu á útgefanda að tryggja að ársreikningur sé aðgengilegur almenningi í a.m.k. tíu ár, sem er breyting frá lögum nr. 108/2007 þar sem skyldan var aðeins fimm ár. Breytingin er í samræmi við a-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2013/50/ESB. Í 55. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa ráðherra til að ákveða nánar með reglugerð með hvaða hætti ársreikningur skuli vera aðgengilegur almenningi en sú reglugerð verður sett til innleiðingar á ákvæðum framseldrar reglugerðar (ESB) 2016/1437.

Um 7. gr.

    Greinin mælir fyrir um opinbera birtingu árshlutareiknings vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins og gildir um útgefendur hlutabréfa og skuldabréfa. Ákvæðið, sem er að mestu samhljóða 58. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, byggist á 1. mgr. 5. gr. gagnsæistilskipunarinnar með síðari breytingum. Meginreglan er að opinber birting skuli fara fram eins fljótt og auðið er eftir lok tímabilsins.
    Með tilskipun 2013/50/ESB er frestur til að birta árshlutareikninginn lengdur í að síðasta lagi þremur mánuðum frá lokum fyrstu sex mánaða reikningsársins úr tveimur. Breytingunni er ætlað að veita útgefendum aukinn sveigjanleika og draga með því úr stjórnsýslubyrði. Ætla má að útgefendur verði sýnilegri þar sem skýrslur lítilla og meðalstórra útgefenda munu líklega fá meiri athygli markaðarins.
    Mælt er fyrir um framkvæmd opinberrar birtingar í 35. gr. frumvarpsins. Ákvæðið leggur jafnframt þá skyldu á útgefanda að tryggja að árshlutareikningurinn sé aðgengilegur almenningi í a.m.k. tíu ár, sem er sambærileg breyting frá lögum nr. 108/2007 og lögð er til í 6. gr. frumvarpsins. Breytingin er í samræmi við 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2013/50/ESB.
    Í 55. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa ráðherra til að ákveða nánar með reglugerð með hvaða hætti árshlutareikningur skuli vera aðgengilegur almenningi en sú reglugerð verður sett til innleiðingar á ákvæðum framseldrar reglugerðar (ESB) 2016/1437.

Um 8. gr.

    Greinin er nýmæli og kveður á um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ákveða aukna tíðni upplýsingagjafar útgefenda umfram árs- og árshlutareikningsskil. Slík ákvörðun skal ávallt vera háð þeim skilyrðum að hún feli ekki í sér óhæfilega fjárhagslega byrði fyrir félög á skipulegum verðbréfamarkaði, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, og að umfang upplýsinganna sé hæfilegt með tilliti til þeirra atriða sem fjárfestar byggja almennt ákvarðanir sínar á.
    Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið meta hvort slíkar viðbótarkröfur gætu leitt til þess að of mikil áhersla yrði lögð á skammtímaárangur og -frammistöðu útgefanda og hvort þær gætu haft neikvæð áhrif á getu lítilla og meðalstórra útgefenda til að hafa aðgang að skipulegum mörkuðum. Í 55. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa ráðherra til að ákveða nánar með reglugerð aukna tíðni upplýsingagjafar útgefanda og þau skilyrði sem ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þarf að uppfylla. Greinin byggist á 1. og 1a. mgr. 3. gr. gagnsæistilskipunarinnar með þeim breytingum sem gerðar voru á ákvæðinu með 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2013/50/ESB.

Um 9. gr.

    Greinin er nýmæli og kveður á um skýrslu útgefanda með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg. Með tilskipun 2013/50/ESB voru gerðar þær breytingar á gagnsæistilskipuninni að skylda útgefanda til að birta opinberlega greinargerð stjórnar var felld brott. Þess í stað er nú lögð sú skylda á aðildarríki að gera kröfu um að útgefendur með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg birti opinberlega skýrslu um greiðslur til stjórnvalda á ársgrundvelli. Greinin innleiðir þessa skyldu. Jafnframt gerir frumvarpið ráð fyrir að 59. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem kveður á um greinargerð frá stjórn, falli brott. Í ákvæðinu er vísað í 66. gr. e laga um ársreikninga, nr. 3/2006, þar sem þau fyrirtæki sem skyldan á við um eru skilgreind.

Um 10. gr.

    Greinin, sem kveður á um efni ársreiknings og árshlutareiknings, er að mestu samhljóða 60. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Ákvæðið vísar til laga um ársreikninga varðandi efni ársreiknings og árshlutareiknings vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins gagnvart útgefendum með skráða skrifstofu á Íslandi. Ákvæði 2.–5. mgr. 4. gr. og 2.–5. mgr. 5. gr. gagnsæistilskipunarinnar eru innleidd með lögum um ársreikninga. Samkvæmt orðanna hljóðan gildir ákvæðið aðeins um útgefendur með skráða skrifstofu á Íslandi. Útgefendur með Ísland sem heimaríki en skráða skrifstofu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu skulu þar af leiðandi ekki fylgja ákvæðum laga um ársreikninga heldur reglum þess ríkis þar sem þeir hafa skráða skrifstofu. Framangreint leiðir meðal annars af lokamálslið í 3. mgr. 4. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Um efni ársreiknings og árshlutareiknings vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins hjá útgefendum með Ísland sem heimaríki en með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins fer eftir 11. gr. frumvarpsins. Greinin kveður jafnframt á um að skil á ársreikningi og árshlutareikningi skuli fara fram á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði. Skv. 7. mgr. 4. gr. gagnsæistilskipunarinnar skulu öll árleg reikningsskil gerð á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði (e. single electronic reporting format). Sniðið byggist á tæknistöðlum sem ESMA hefur útbúið með framseldri reglugerð (ESB) 2019/815 sem fyrirhugað er að verði innleidd í íslenskan rétt með reglum Seðlabanka Íslands, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 55. gr.
    Í 2. mgr., sem er nýmæli, er kveðið á um hvernig útgefandi, sem ekki er lögaðili, skuli haga samningu ársreiknings og árshlutareiknings vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins. Lög um ársreikninga, nr. 3/2006, gilda aðeins um félög, sbr. 1. gr. laganna. Gagnsæistilskipunin gerir ráð fyrir að einstaklingar geti talist útgefendur verðbréfa. Þegar svo ber við skal útgefandinn birta sömu upplýsingar og kveðið er á um í 2.–5. mgr. 4. gr. og 2.–5. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, sem innleiddar hafa verið í lög um ársreikninga. Því er lagt til að í þeim tilvikum sem útgefandi er ekki lögaðili skuli hann semja ársreikning og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins í samræmi við lög um ársreikninga, eftir því sem við á.

Um 11. gr.

    Greinin, sem er samhljóða 61. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, mælir fyrir um hvenær útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins en Ísland sem heimaríki getur beitt innlendum ákvæðum þess ríkis þar sem skráða skrifstofan er varðandi ársreikning, árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins og greinargerð frá stjórn. Heimildin er háð því skilyrði að innlendu ákvæðin séu hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga. Með hliðstæðum ákvæðum er átt við þau ákvæði ársreikningalaga sem byggjast á gagnsæistilskipuninni. Auk framangreinds er útgefanda heimilt að beita innlendum ákvæðum hvað varðar árshlutareikning vegna fyrstu þriggja og fyrstu níu mánaða reikningsársins ef þau ákvæði eru hliðstæð ákvæðum íslenskra reglna sem gilda mundu, væri útgefandinn með skráða skrifstofu á Íslandi.
    Ef ákvæði ríkis þar sem útgefandi er með skráða skrifstofu eru ekki hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga skal útgefandi gera ársreikning, árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins og greinargerð frá stjórn með sama hætti og sambærilegir útgefendur með skráða skrifstofu á Íslandi. Með hliðstæðum ákvæðum er átt við þau ákvæði laga um ársreikninga sem byggjast á gagnsæistilskipuninni.
    Mat á því hvort kröfur samkvæmt ákvæðum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins eru hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga er í höndum ársreikningaskrár. Með hliðstæðum ákvæðum er átt við þau ákvæði ársreikningalaga sem byggjast á gagnsæistilskipuninni.

Um III. kafla.

    Í kaflanum er að finna ákvæði sem geyma þá grundvallarreglu að eiganda beri að tilkynna um öflun eða ráðstöfun á hlutum í útgefanda hlutabréfa ef sú ráðstöfun leiðir af sér að atkvæðisréttur hans nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir tiltekin mörk. Kaflinn er að mestu samhljóða IX. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og byggist á I. þætti III. kafla gagnsæistilskipunarinnar, með síðari breytingum. Fyrrnefndur kafli laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, ber titilinn „Breyting á verulegum hlut atkvæðisréttar (flöggun). Með þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í b-lið 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki lengur horft einungis til atkvæðisréttar við mat á flöggunarskyldu heldur einnig til efnahagslegra áhrifa af eignarhaldi, án tillits til atkvæðisréttar. Því er lagt til að hugtakið „flöggun“ verði skilgreint í 3. gr. frumvarpsins og að titill kaflans verði „Flöggun“. Gerð verður grein fyrir öðrum breytingum sem frumvarpið felur í sér frá gildandi löggjöf við sérhvert ákvæði.

Um 12. gr.

    Greinin byggist á 9. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 78. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Í 1. mgr. er lagt til grundvallar að þegar eigandi aflar eða ráðstafar hlutum í útgefanda, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, skuli senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir af sér að atkvæðisréttur hans nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir eitthvert eftirtalinna marka: 5, 10, 15, 20, 25, 30, 35, 40, 50, 66 2/ 3 og 90%.
    Einnig kemur fram að tilkynninguna skuli senda með sannanlegum hætti en hana má senda hvort heldur skriflega eða með rafrænum aðferðum. Sömu mörk eru í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Samkvæmt ákvæðinu og 1. mgr. 78. gr. laga um verðbréfaviðskipti stofnast tilkynningarskylda þegar hlutur sem atkvæðisréttur fylgir hækkar eða lækkar niður fyrir 35% og 40% mörkin, en þau mörk eru ekki tilgreind í gagnsæistilskipuninni. Ástæðan er sú að skv. 37. gr. eldri laga nr. um verðbréfaviðskipti, 33/2003, myndaðist skylda til yfirtökutilboðs í hlutafélagi, sem fengið hefur skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulegum verðbréfamarkaði, þegar aðili hefur, beint eða óbeint, eignast 40% atkvæðisréttar í félagi. Við setningu laga nr. 108/2007 var ekki talin ástæða til að breyta þágildandi reglum. Í frumvarpi þessu eru heldur ekki ráðgerðar neinar breytingar á þessum reglum og miðast skylda til að gera yfirtökutilboð því áfram við 40% atkvæðisréttar.
    Í lokamálsl. 1. mgr. er hugtakið eigandi skilgreint og gerð grein fyrir því að með eiganda sé átt við sérhvern einstakling eða lögaðila, sem fer beint eða óbeint með hluti í útgefanda í eigin nafni og fyrir eigin reikning, hluti í útgefanda í eigin nafni en fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila, eða heimildarskírteini, en í þeim tilvikum telst handhafi heimildarskírteinisins eigandi þeirra hluta sem heimildarskírteinið stendur fyrir. Framangreind skilgreining byggist á e-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Með orðunum „fer … óbeint með …“ í skilgreiningunni á eiganda er átt við að aðili teljist óbeinn eigandi hluta eða heimildarskírteina sem aðilar sem eru í fjárfélagi við viðkomandi eða tengdir honum fjárhagslega fara með. Aðilar sem teljast fjárhagslega tengdir aðila eru t.d. maki, maki í staðfestri samvist eða sambúðarmaki, ófjárráða börn, kjörbörn og stjúpbörn á heimili viðkomandi aðila eða önnur skyldmenni sem búa á heimili viðkomandi aðila og hafa búið á heimili með honum í að minnsta kosti eitt ár.
    Ákvæði 2. mgr. byggist á 2. mgr. 9. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Þar kemur fram að verði breytingar á atkvæðisrétti aðila vegna þess að útgefandi hækkar eða lækkar hlutafé sitt, atkvæðum fjölgar eða fækkar eða aðrar breytingar verða á skiptingu atkvæðisréttar skuli viðkomandi eigandi senda tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins, leiði breytingarnar til þess að atkvæðisréttur hans nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir eitthvert þeirra marka sem talin eru upp í 1. mgr. Af þessari reglu leiðir að aðili getur orðið flöggunarskyldur vegna tiltekinna aðgerða hlutafélags sem hann á hluti í með sama hætti og hefði hann sjálfur frumkvæði að kaupum á hlutum eða annars konar aðilaskiptum sem kynnu að vera flöggunarskyld. Sem dæmi má nefna að atkvæðisréttur getur breyst við útgáfu nýrra hluta eða eftir atvikum lækkun hlutafjár.
    Samkvæmt 3. mgr. gildir sú regla að reikna skal út atkvæðisrétt á grundvelli allra hluta sem atkvæðisrétti fylgja, jafnvel þótt nýting hans falli niður. Þar að auki skal atkvæðisréttur reiknaður út á grundvelli allra hluta í sama flokki sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting hans falli niður. Málsgreinin byggist á 1. mgr. 9. gr. gagnsæistilskipunarinnar.

Um 13. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um að flöggunarskylda skv. 12. gr. gildi einnig um aðila sem á rétt á að afla, ráðstafa eða neyta atkvæðisréttar vegna nánar tilgreindra kringumstæðna sem síðan er lýst í stafliðum. Ákvæðið tekur til hvers konar samsetninga af greindum kringumstæðum. Greinin byggist á 10. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 79. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Skoða verður frumvarpsgreinina í ljósi þess að ýmsir aðrir en eigendur hluta í hlutafélagi geta haft áhrif á ákvarðanatöku í félaginu, t.d. aðili sem fengið hefur umboð til þess að neyta atkvæðisréttar fyrir hönd eiganda hluta í hlutafélagi. Þau rök sem búa að baki flöggunarskyldu leiða til þess að horfa verður til yfirráðaréttar annarra en eigenda hluta yfir atkvæðisrétti þeim sem hlutunum fylgir.
    Ákvæði a-liðar tekur á þeim aðstæðum þegar flöggunarskyldur aðili telst hafa yfirráð yfir atkvæðisrétti sem þriðji aðili fer með vegna þess að aðilarnir hafa gert með sér samkomulag sem skyldar þá til að taka upp, með samræmdri beitingu atkvæðisréttar síns, varanlega og sameiginlega stefnu um stjórn hlutaðeigandi útgefanda.
    Ákvæði b-liðar tekur á þeim aðstæðum er flöggunarskyldur aðili hefur yfirráð yfir atkvæðisréttinum, þrátt fyrir að hafa ráðstafað honum tímabundið til þriðja aðila.
    Ákvæði c-liðar fjallar um þegar flöggunarskyldur aðili hefur yfirráð yfir atkvæðisrétti hluta sem hann hefur tekið að veði eða fengið sem tryggingu, og lýsir því yfir að hann hyggist neyta atkvæðisréttarins. Þær aðstæður sem liðnum er meðal annars ætlað að ná yfir eru svokölluð endurhverf verðbréfaviðskipti og verðbréfalán að uppfylltum skilyrðum töluliðarins. Skv. c-lið er veðhafinn ekki flöggunarskyldur vegna hluta sem hann hefur tekið að veði með þessum hætti, gegn yfirlýsingu um að hann hyggist ekki notfæra sér réttinn, eða ef hann hefur framselt atkvæðisréttinn til t.d. lántakans. Hafa ber þó í huga að það er veðhafinn sem er skráður eigandi hlutanna í hlutaskrá viðkomandi félags.
    Ákvæði d-liðar tekur á þeim aðstæðum þegar flöggunarskyldur aðili hefur yfirráð yfir atkvæðisrétti samkvæmt samkomulagi um lífstíðarbundin réttindi. Með lífstíðarbundnum réttindum er einkum átt við að aðili fari með hluti sem atkvæðisréttur fylgir svo lengi sem viðkomandi aðili sjálfur eða annar nafngreindur aðili lifir.
    Ákvæði e-liðar kveður á um þegar flöggunarskyldur aðili telst hafa yfirráð yfir atkvæðisrétti sem félög undir yfirráðum hans fara með eða eiga rétt á að neyta á grundvelli a–d-liðar. Ákvæðið er til innleiðingar á e-lið 10. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Í sambærilegu ákvæði 5. tölul. 79. gr. laga um verðbréfaviðskipti er vísað til hugtaksins dótturfélag í skilningi laga um ársreikninga. Sú skilgreining er þó of þröng í þessu samhengi þar sem einstaklingar geta einnig talist hafa yfirráð yfir fyrirtæki í skilningi gagnsæistilskipunarinnar. Í frumvarpinu er því lögð til breytt hugtakanotkun til samræmis við gagnsæistilskipunin, sbr. 7. tölul. 4. gr.
    Ákvæði f-liðar mælir fyrir um það hvaða reglur gilda þegar flöggunarskyldur aðili telst hafa yfirráð yfir atkvæðisrétti sem fylgir hlutum sem hann varðveitir, ef hann getur neytt atkvæðisréttarins, berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna.
    Ákvæði g-liðar tekur á þeim aðstæðum þegar flöggunarskyldur aðili telst hafa yfirráð yfir atkvæðisrétti sem þriðji maður fer með í eigin nafni ef þriðji maður fer með atkvæðisréttina fyrir hönd viðkomandi aðila. Af 1. mgr. 12. gr. leiðir að aðili sem fer beint eða óbeint með hluti í útgefanda í eigin nafni en fyrir hönd þriðja aðila telst eigandi hlutanna og getur orðið flöggunarskyldur. Munurinn á þessum ákvæðum liggur í því að í 1. mgr. 12. gr. hefur sá sem fer með hlutina í eigin nafni en fyrir hönd annars yfirráðin yfir atkvæðisréttinum en í g-lið hefur sá yfirráðin yfir atkvæðisréttinum sem fól þriðja aðila að fara með hann í eigin nafni.
    Ákvæði h-liðar tekur á þeim aðstæðum þegar flöggunarskyldur aðili telst hafa yfirráð yfir atkvæðisrétti sem hann fer með sem umboðsmaður, að því tilskildu að hann geti neytt hans samkvæmt eigin ákvörðun, berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna.

Um 14. gr.

    Greinin byggist á 13. gr. gagnsæistilskipunarinnar, sem innleidd hafði verið með 79. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með þeim breytingum sem gerðar voru á ákvæðinu með tilskipun 2013/50/ESB.
    Í 1. mgr., sem byggist á þeim breytingum sem felast í 9. mgr. 1. gr. tilskipunar 2013/50, er mælt fyrir um að flöggunarskylda skv. 12. gr. gildi, að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins, einnig um aðila sem fer með beinum eða óbeinum hætti með fjármálagerning skv. a- og d–h-liðum 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Skilyrðin eru tvenns konar. Annars vegar, skv. a-lið ákvæðisins, að viðkomandi fjármálagerningur veiti aðilanum, samkvæmt formlegu samkomulagi, skilyrðislausan rétt eða heimild til að afla hluta sem atkvæðisréttur fylgir og þegar hafa verið gefnir út í útgefanda. Hins vegar, skv. b-lið ákvæðisins, ef fjármálagerningarnir falla ekki undir a-lið en veita aðila sambærileg réttindi og rétt til að afla hluta í útgefanda eða hafa sambærileg efnahagsleg áhrif og fjármálagerningar skv. a-lið, óháð því hvort þeir fela í sér rétt til efnislegs uppgjörs. Af reglunni leiðir að flöggunarskylda stofnast þegar formlegt samkomulag hefur verið gert um fjármálagerning sem ákvæðið tekur til. Sömuleiðis leiðir af reglunni að við mat á því hvort flöggunarskylda hefur stofnast verður að leggja saman atkvæðisrétt viðkomandi aðila samkvæmt fjármálagerningum og atkvæðisrétt hans samkvæmt hlutum í þeim útgefanda sem fjármálagerningarnir stafa frá. Með formlegu samkomulagi er átt við samkomulag sem telst bindandi samkvæmt gildandi lögum, sbr. q-lið 1. mgr. 2. gr. gagnsæistilskipunarinnar eins og henni var breytt með tilskipun 2013/50/ESB.
    Í 2. mgr. er tilgreint hvernig reikna skuli atkvæðisrétt skv. 1. mgr. Gert er ráð fyrir að tekið sé að fullu tillit til grundvallarfjárhæðar hlutabréfa samkvæmt fjármálagerningnum. Veiti gerningurinn eingöngu rétt til uppgjörs með reiðufé skal reikna atkvæðisréttinn með delta-leiðréttum hætti. Delta-stuðull gefur til kynna hversu mikið virði fjármálagernings myndi breytast ef um er að ræða breytingu á verði gerningsins og veitir nákvæma mynd af áhættu eiganda gagnvart gerningnum. Handhafa er falið að telja saman og tilkynna Fjármálaeftirlitinu um alla fjármálagerninga sem tengjast sama útgefanda. Við útreikning á atkvæðisrétti skal einungis taka með gnóttstöður (e. long position), og er óheimilt að skuldajafna þeim við skortstöður (e. short position) í sama útgefanda. Nánari útlistun á skort- og gnóttstöðum er að finna í 3. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga, sem innleidd hefur verið með lögum um skortsölu og skuldatryggingar, nr. 55/2017.
    Í 3. mgr. segir að aðili sem sendir tilkynningu á grundvelli 1. mgr. skuli tilkynna aftur þegar hann aflar, ráðstafar eða nýtir undirliggjandi hlutabréf, leiði slíkt af sér að hann nái þeim mörkum sem koma fram í 1. mgr. 12. gr., eða fari yfir þau eða undir. Ákvæðið er til innleiðingar á 2. mgr. 13a. gr. gagnsæistilskipunarinnar, sem er nýmæli og leiðir af 10. mgr. 1. gr. tilskipunar 2013/50/ESB.
    Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. gagnsæistilskipunarinnar, eins og henni var breytt með tilskipun 2013/50/ESB, gilda undanþágur frá flöggunarskyldu sem kveðið er á um í 16. og 24.–28. gr. frumvarpsins einnig um flöggunarskyldu skv. 14. gr. eftir því sem við á og er því vísað til 14. gr. í þeim ákvæðum þegar við á.

Um 15. gr.

    Greinin er nýmæli og byggist á 10. mgr. 1. gr. tilskipunar 2013/50/ESB, sem varð 13. gr. a í gagnsæistilskipuninni. Í greininni er kveðið á um samanlagða flöggunarskyldu sem stofnast þegar atkvæðisréttur í útgefanda hlutabréfa skv. 12., 13. og 14. gr. hefur verið lagður saman. Þegar svo háttar til, og aðili sem fer beint eða óbeint með atkvæðisréttinn nær samanlagt þeim mörkum sem koma fram í 1. mgr. 12. gr., eða fer yfir þau eða undir þau, skal tilkynna um það til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins. Tilkynningarskyldunni er ætlað að auka réttarvissu og gagnsæi upplýsinga á markaði.

Um 16. gr.

     Ákvæðið byggist á 3. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar og felur í sér undanþágu frá skyldu til flöggunar. Í greininni er mælt svo fyrir að fyrirtæki undir yfirráðum skv. e-lið 13. gr. þurfi ekki að senda tilkynningu skv. 12. og 13. gr. ef móðurfélag þess, eða einstaklingur með yfirráð, eða, ef móðurfélagið er sjálft dótturfélag, móðurfélag móðurfélagsins sendir tilkynningu. Tekið skal fram að sé samstæða orðin flóknari en ákvæðið gerir ráð fyrir þarf viðkomandi félag að senda tilkynningu sjálft og getur ekki nýtt sér undanþágu ákvæðisins. Sambærilegt ákvæði er í 81. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, en frumvarpið gerir ráð fyrir breyttu og skýrara orðalagi.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að hafi umboðsmaður í tilviki h-liðar 13. gr. fengið fleiri en eitt umboð í tengslum við einn hluthafafund sé heimilt að senda eina tilkynningu, að því tilskildu að skýrt komi fram í tilkynningunni hvert heildarmagn atkvæðisréttar umboðsveitenda verður í útgefanda eftir brottfall umboðsins. Í 2. mgr. er kveðið á um að vakni flöggunarskylda vegna fyrirmæla h-liðar 13 gr., þ.e. þegar aðili hefur fengið umboð til að greiða atkvæði fyrir hluti á hluthafafundi, þurfi ekki að senda nýja tilkynningu ef umboðið fellur úr gildi að hluthafafundinum loknum og tilkynningin, sem gerð var í tengslum við veitingu umboðsins, geymdi upplýsingar um hvert heildarmagn atkvæðisréttar í félaginu yrði eftir brottfall þess. Þetta ákvæði felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að við lok einhverrar þeirra kringumstæðna, sem greinir í 13. gr., stofnist flöggunarskylda.

Um 18. gr.

    Í þessari grein kemur fram að verði fleiri en einn flöggunarskyldir vegna sömu viðskipta sé þeim heimilt að senda sameiginlega tilkynningu. Þá kemur fram að sameiginleg tilkynning leysi engan hlutaðeigandi undan ábyrgð á tilkynningunni. Á það skal bent að sameiginleg tilkynning sumra leysir ekki aðra undan þeirri skyldu að tilkynna. Aðilar sem senda sameiginlega tilkynningu þurfa ekki að vera tengdir fjárhagslega. Einnig er heimild til að senda sameiginlega tilkynningu til staðar þótt einn aðili bæti við sig atkvæðisrétti en atkvæðisréttur annars minnki.

Um 19. gr.

    Ákvæðið, sem fjallar um breytingar á hlutafé eða atkvæðisrétti, byggist á 15. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er sambærilegt 84. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Í þeirri grein kemur fram að ef hlutafé í útgefanda hækkar eða lækkar eða atkvæðum fjölgar eða fækkar skal útgefandinn, á síðasta viðskiptadegi þess mánaðar er breytingarnar eiga sér stað, birta opinberlega heildarmagn hlutafjár og heildarfjölda atkvæða. Sú breyting sem frumvarpið gerir ráð fyrir felst í því að bæta orðunum „í síðasta lagi“ fyrir framan „á síðasta viðskiptadegi“. Er sú breyting talin í samræmi við tilgang og markmið 15. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Ekki er nauðsynlegt að tilkynna hverjum hluthafa breytingarnar sérstaklega heldur telst opinber birting fullnægjandi. Sem dæmi um tilvik sem fallið gætu undir ákvæðið eru breytingar á hlutafé vegna útgáfu nýrra hluta í félagi eða lækkun hlutafjár vegna innköllunar hluta.

Um 20. gr.

    Ákvæðið, sem byggist á 1. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar, mælir fyrir um að í tilkynningu skv. 12. og 13. gr. skuli koma fram tilgreindar upplýsingar og eru þær taldar upp í a–d-lið. Í 55. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa ráðherra til að kveða nánar á um efni tilkynningar með reglugerð sem verður efnislega sambærileg 4. gr. reglugerðar nr. 707/2008, um upplýsingagjöf og tilkynningaskyldu samkvæmt lögum nr. 108/2007, sem sett var til innleiðingar á reglugerð (EB) nr. 2007/14 um samræmingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem skráð eru á skipulegan verðbréfamarkað.

Um 21. gr.

    Greinin, sem byggist á 2. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar, kveður á um það innan hvaða tímamarka aðila ber að tilkynna félaginu og Fjármálaeftirlitinu um öflun eða ráðstöfun hluta sem leiðir til flöggunarskyldu. Í 2. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar er miðað við að tilkynna án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að skyldan stofnast, en samkvæmt gildandi rétti er miðað við að tilkynnt sé eins fljótt og auðið er og eigi síðar en næsta viðskiptadag eftir að flöggunarskylda stofnaðist, sbr. 86. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Lagt er til að fresturinn verði lengdur í fjóra viðskiptadaga til samræmis við gagnsæistilskipunina.
    Í athugasemdum við 86. gr. í frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, kemur fram að hér á landi hafi lengi verið miðað við mun styttri fresti til að tilkynna um stofnun flöggunarskyldu en kveðið er á um í gagnsæistilskipuninni. Hið sama eigi við annars staðar á Norðurlöndunum. ESMA birti í júlí 2019 samanburð á landslögum aðildarríkja sem innleiða ákvæði gagnsæistilskipunarinnar um fresti til að tilkynna um stofnun flöggunarskyldu. Þar kemur fram að flest aðildarríki gera vægari kröfur en Ísland. T.d. hafa umræddir frestir verið lengdir í dönskum og sænskum rétti. Með hliðsjón af því er lagt til að frestur til að tilkynna um flöggunarskyldu verði lengdur þannig að slík tilkynning skuli send án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að flöggunarskyldan stofnaðist. Þá er lagt til að frestur útgefanda til að birta upplýsingar úr tilkynningu flöggunarskylds aðila verði lengdur í þrjá viðskiptadaga eftir að tilkynning barst útgefanda. Í 86. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, er skyldan orðuð „eins fljótt og auðið er“ sem þýðing á „as soon as possible“ eins og 2. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar var orðuð. Með tilskipun (ESB) 2013/50 var orðalaginu breytt í „promptly“. Því er lagt til breytt orðalag í frumvarpinu í samræmi við breytt orðalag í gagnsæistilskipuninni.
    Í 2. mgr. kemur fram að verði aðili flöggunarskyldur vegna 2. mgr. 12. gr. skuli tilkynning send án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að útgefandi hefur birt opinberlega heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða skv. 19. gr. Sá munur er á þessu tilviki og þeim sem nefnd eru í 1. mgr. að hér verður aðili flöggunarskyldur vegna atvika sem varða félagið sjálft, t.d. þegar hlutafélag gefur út nýtt hlutafé og hlutur viðkomandi aðila lækkar undir flöggunarskyld mörk. Tilkynningarskyldan hvílir á hinum flöggunarskylda aðila en útgefandi þarf einungis að birta upplýsingar um að hlutafé hafi hækkað eða lækkað eða að atkvæðum hafi fjölgað eða fækkað.

Um 22. gr.

    Greinin, sem byggist á 6. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar, felur í sér fyrirmæli um birtingu útgefanda hluta á upplýsingum úr tilkynningu frá flöggunarskyldum aðila. Skv. 87. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, skal útgefandi hluta, eins fljótt og auðið er eftir móttöku tilkynningar og eigi síðar en kl. 12 næsta viðskiptadag eftir að tilkynningin berst, birta opinberlega allar upplýsingar sem er að finna í tilkynningunni. Með vísan til skýringa við 21. gr. er lagt til að fresturinn verði lengdur í þrjá viðskiptadaga eftir að tilkynning barst útgefanda. Félagið hefur í hendi sér hvernig það birtir opinberlega tilkynningu þess efnis sem greinin kveður á um. Þannig getur félag t.d. falið öðrum aðila að sjá um að birta upplýsingarnar opinberlega. Um framkvæmd opinberrar birtingar vísast til 35. gr. og skýringa við þá grein.
    Í 2. mgr. er mælt svo fyrir að útgefandi hluta þurfi ekki að þýða tilkynningu yfir á tungumál sem Fjármálaeftirlitið samþykkir ef tilkynning skv. 12., 13. eða 14. gr. berst á ensku. Ákvæðið byggist á 5. mgr. 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar.

Um 23. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um undanþágu frá flöggunarskyldu skv. 12. gr. eða 14. gr. þegar hlutir eru eingöngu keyptir til verðbréfauppgjörs sem lýkur innan venjulegs stutts greiðslutímabils frá viðskiptum. Samkvæmt tilskipun 2007/14/EB telst hámarkslengd venjulegs stutts greiðslutímabils vera þrír dagar. Ákvæðið byggist á 4. mgr. 9. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 88. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Í 2. mgr. kemur fram undanþága frá flöggunarskyldu þegar aðili varðveitir hluti sem vörsluaðili. Samkvæmt greininni er það skilyrði undanþágunnar að vörsluaðilinn geti einungis nýtt sér atkvæðisrétt hlutanna samkvæmt skriflegum eða rafrænum leiðbeiningum eiganda þeirra.
    Í 3. mgr. er að finna reglu sem byggist á 11. gr. gagnsæistilskipunarinnar og varðar þá aðstöðu þegar seðlabanki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Seðlabanki Evrópu lætur hluti í té eða honum eru látnir hlutir í té til að sinna hlutverki sínu sem yfirvald á sviði peningamála. Þá þarf viðkomandi seðlabanki ekki að senda tilkynningu skv. 12. gr. eða c-lið 13. gr. Tvö meginskilyrði verða að vera uppfyllt til þess að reglan eigi við. Annars vegar að slíkum ráðstöfunum sé lokið innan venjulegs stutts greiðslutímabils frá því að viðkomandi seðlabanki lét hluti í té eða honum voru látnir hlutir í té og hins vegar að atkvæðisréttur hlutanna sé ekki nýttur. Með tilvísun til venjulegs stutts greiðslutímabils er einkum átt við tilvísun til lánaaðgerða sem framkvæmdar eru í samræmi við stjórnvaldsyfirmæli Seðlabanka Evrópu, einkum viðmiðunarreglur hans um peningamálastefnu og TARGET-kerfið, og um sambærilegar lánaaðgerðir sem framkvæmdar eru í samræmi við innlenda löggjöf í hverju ríki fyrir sig.

Um 24. gr.

    Í þessari grein er að finna sérstaka undanþágu frá flöggunarskyldu vegna atkvæðisréttar í veltubók fjármálafyrirtækis með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Greinin er sambærileg 89. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og er til innleiðingar á 6. mgr. 9. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Skilyrði þess að undanþága þessarar frumvarpsgreinar eigi við eru tvö. Annars vegar að hlutfall atkvæðisréttar í veltubók fari ekki yfir 5% og hins vegar að atkvæðisréttur sem fylgir hlutum veltubókar sé hvorki nýttur né notaður á annan hátt til að hlutast til um stjórn útgefanda. Þannig getur t.d. fjármálafyrirtæki, að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins, verið með 4% atkvæðisréttar á veltubók og 3% atkvæðisréttar í eigin nafni án þess að flöggunarskylda stofnist. Ef aftur á móti atkvæðisréttur á veltubókinni hækkar upp í 6% stofnast flöggunarskylda enda þótt 10% mörkunum sé ekki náð. Í lögum um verðbréfaviðskipti er gert ráð fyrir að fjármálafyrirtækið tryggi tilhlýðilega nýtingu atkvæðisréttar, en í frumvarpi þessu er lagt til að skyldan verði almennari.

Um 25. gr.

    Í þessari grein er að finna ákvæði sem heimilar undanþágu frá flöggunarskyldu þegar um er að ræða viðskiptavaka (e. market makers). Þannig stofnast ekki flöggunarskylda skv. 12. gr. við öflun eða ráðstöfun viðskiptavaka á hlutum þrátt fyrir að hlutfall atkvæðisréttar sem fylgir hlutunum nái eða fari yfir 5% flöggunarskyldumarkið.
    Þrjú skilyrði eru fyrir því að reglan eigi við. Í fyrsta lagi að viðskiptavakinn framkvæmi viðskiptin sem viðskiptavaki. Í öðru lagi að viðskiptavakinn sé fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til verðbréfaviðskipta og í þriðja lagi að viðskiptavakinn hlutist hvorki til um stjórn viðkomandi útgefanda né hlutist á nokkurn hátt til um að útgefandinn kaupi slíka hluti eða haldi verði þeirra uppi. Ákvæðið er samhljóða 90. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 26. gr.

    Greinin er nýmæli og byggist á 6a. mgr. 9. gr. gagnsæistilskipunarinnar, með síðari breytingum. Skilgreiningu á verðjöfnun fjármálagerninga og skilyrðum fyrir henni er að finna í 2. gr. viðauka við reglugerð nr. 630/2005 um innherjasvik og markaðssvik. Samkvæmt reglugerðinni er verðjöfnun skilgreind sem öll kaup eða kauptilboð verðbréfafyrirtækis eða lánastofnunar á tilteknum verðbréfum, eða hvers konar viðskipti með jafngilda gerninga í tengslum við sölu á verulegum eignarhlut þeirra verðbréfa sem um er að ræða. Skilgreiningarnar byggja á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 2273/2003/EB um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB að því er varðar undanþágur fyrir endurkaupaáætlanir og verðjöfnun fjármálagerninga. Í 54. gr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð sambærilega viðauka við reglugerð nr. 630/2005.

Um 27. gr.

    Ákvæði 1. mgr., sem byggist á 4. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er sambærileg 91. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, geymir undantekningu frá þeirri meginreglu að hlutfall atkvæðisréttar sem fylgir hlutum í eigu félaga í samstæðu skuli lagt saman. Felur ákvæðið í sér að móðurfélagi rekstrarfélags er ekki skylt að leggja saman hlutfall eigin atkvæðisréttar og hlutfall atkvæðisréttar viðkomandi verðbréfasjóðs rekstrarfélagsins að því tilskildu að rekstrarfélagið nýti atkvæðisrétt sinn óháð móðurfélaginu.
    Í 4. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar kemur fram að undanþágan eigi við um rekstarfélög sem uppfylla ákvæði tilskipunar 85/611/EB (UCITS). Skv. 1. mgr. 91. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, eins og ákvæðið var áður en því var breytt með lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, átti undanþágan einnig við um móðurfélög rekstrarfélaga fjárfestingarsjóða. Í skýringum við 1. mgr. 91. gr. laga um verðbréfaviðskipti er það rökstutt með vísan til 12. gr. formála tilskipunar 2007/14/EB sem innleiðir nánar ákvæði gagnsæistilskipunarinnar. Ákvæði formálans var túlkað á þann veg að undanþága 4. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar eigi við um hvers konar sjóði um sameiginlega fjárfestingu burtséð frá því hvort þeir hafi leyfi til að starfa á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, að því tilskildu að viðkomandi sjóðir séu háðir eftirliti í heimaríkinu. Þar sem það átti við um fjárfestingarsjóði var undanþága 1. mgr. 91. gr. því einnig látin taka til þeirra.
    Frá því að lög um verðbréfaviðskipti voru sett hefur Evrópuþingið og ráðið sett tilskipun 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (AIFMD) sem innleidd hefur með samnefndum lögum, nr. 45/2020. Tilskipunin nær til allra annarra sjóða en verðbréfasjóða (UCITS). Ljóst er því að gerður hefur verið skýr greinarmunur í löggjöf á verðbréfasjóðum (UCITS) og öðrum sjóðum (AIFM). Með hliðsjón af orðalagi 4. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar getur undanþágan því ekki átt við um fjárfestingarsjóði. Með lögum um rekstaraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, var því gerð breyting á 1. mgr. 91. gr. laga um verðbréfaviðskipti og undanþága vegna fjárfestingarsjóða felld brott.
    Undanþága ákvæðisins á ekki við ef móðurfélagið eða dótturfélag þess hefur fjárfest í eignarhlutdeild sem rekstrarfélagið stjórnar og rekstrarfélagið má aðeins nýta sér atkvæðisrétt sinn samkvæmt beinum eða óbeinum fyrirmælum frá móðurfélaginu eða öðru dótturfélagi móðurfélagsins. Í slíkum tilvikum ber móðurfélagi rekstrarfélags að leggja saman eignarhlut sinn og eignarhlut verðbréfasjóðsins. Með hugtakinu dótturfélag er átt við félag undir yfirráðum í skilningi 4. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006. Regla þessi byggist á lokamálsl. 4. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Samkvæmt 2. mgr. gildir undantekning 1. mgr. einnig um móðurfélag rekstrarfélags erlends verðbréfasjóðs með staðfestu og staðfestingu á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá gildir hið sama um móðurfélag sambærilegs rekstrarfélags í þriðja ríki, þ.e. ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Regla 2. mgr. byggist á 6. mgr. 23. gr. gagnsæistilskipunarinnar.

Um 28. gr.

    Ákvæði 1. mgr. byggist á 5. mgr. 12. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 1. mgr. 92. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Greinin felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að hlutfall atkvæðisréttar sem fylgir hlutum í eigu félaga í samstæðu skuli lagt saman. Reglan felur í sér þá undantekningu að við framkvæmd flöggunarskyldu skv. 12.–14. gr. er móðurfélagi fjármálafyrirtækis, með leyfi til verðbréfaviðskipta, ekki skylt að leggja saman eigið hlutfall atkvæðisréttar og hlutfall atkvæðisréttar sem fylgir hlutum sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stýrir fyrir einstaka viðskiptamenn sína. Skilyrði undantekningarinnar eru að fjármálafyrirtækinu sé aðeins heimilt að nýta atkvæðisrétt sem tilheyrir slíkum hlutum samkvæmt sannanlegum leiðbeiningum viðskiptavinar eða að tryggt sé að einstaklingsmiðuð stýring verðbréfasafns fari fram óháð hvers kyns annarri þjónustu, og að fjármálafyrirtækið nýti atkvæðisréttinn óháð móðurfélaginu eða öðru dótturfélagi móðurfélags síns. Með hugtakinu dótturfélag er átt við félag undir yfirráðum í skilningi 4. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
    Í 2. mgr. segir að undantekning 1. mgr. gildi einnig um móðurfélag erlends fyrirtækis sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og starfsleyfi til verðbréfaviðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá gildir hið sama um móðurfélag fyrirtækis í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, hafi fyrirtækið leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti í heimaríki sínu og sú starfsemi er háð eftirliti í heimaríkinu. Regla 2. mgr. byggist á 6. mgr. 23. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 2. mgr. 92. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 29. gr.

    Þessi grein byggist á 14. gr. gagnsæistilskipunarinnar og kveður á um að flöggunarskylda stofnist ef útgefandi aflar eða ráðstafar eigin hlutum ef það leiðir til þess að atkvæðisréttur hækkar eða lækkar niður fyrir 5% eða 10% mörkin, en skv. 1. mgr. 55. gr. laga um hlutafélög er hámarkshlutfall eigin hluta 10%. Hlutfallið skal reiknað út á grundvelli heildarfjölda hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður. Reglan á við hvort sem útgefandi aflar eða ráðstafar hlutum sjálfur eða hefur fengið þriðja aðila til að afla eða ráðstafa eigin hlutum útgefandans í eigin nafni, þ.e. í nafni þriðja aðila, en fyrir hönd útgefandans. Skv. 93. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, skulu slíkar upplýsingar birtar opinberlega eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fyrir klukkan 12 næsta viðskiptadag eftir öflunina eða ráðstöfunina. Með vísan til skýringa við 21. gr. er lagt til að fresturinn verði lengdur í fjóra viðskiptadaga eftir öflunina eða ráðstöfunina.

Um 30. gr.

    Í ákvæðinu eru reglur um hvernig skuli fara með það þegar útgefandi er með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Greinin byggist á 1. mgr. 23. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 94. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði 19. gr. gildi ekki ef útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu og fyrirmælin eru hliðstæð 19. gr. Með hliðstæðum ákvæðum er jafnframt átt við að ákvæðin séu hliðstæð ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði 22. gr. gildi ekki ef útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu og fyrirmælin eru hliðstæð 22. gr. Með hliðstæðum ákvæðum er jafnframt átt við að ákvæðin séu hliðstæð ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ákvæði 29. gr. gildi ekki ef lögaðili með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu og fyrirmælin eru hliðstæð 29. gr. Með hliðstæðum ákvæðum er jafnframt átt við að ákvæðin séu hliðstæð ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 4. mgr. er mælt svo fyrir að það verði á valdi Fjármálaeftirlitsins að meta hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins eru hliðstæðar ákvæðum 19., 22. og 29. gr.

Um IV. kafla

    Í kaflanum er að finna ákvæði um aðrar skyldur útgefanda um veitingu upplýsinga. Ákvæði kaflans eru að mestu samhljóða VIII. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 31. gr.

    Í greininni er kveðið á um skyldu útgefanda verðbréfa til að birta viðbótarupplýsingar. Greinin byggist á 16. gr. gagnsæistilskipunarinnar með síðari breytingum, en með tilskipun 2013/50/EB var 3. mgr. 16. gr. gagnsæistilskipunarinnar, sem innleidd var í 1. mgr. 68. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, felld brott. Í ákvæðinu var kveðið á um skyldu útgefanda verðbréfa til að birta án tafar opinberlega upplýsingar um útgáfu nýrra lána og geta sérstaklega um ábyrgðir eða tryggingar vegna þeirra.
    Samkvæmt formála tilskipunarinnar leiddi krafan til ýmissa vandamála í framkvæmd og var beiting hennar talin óþarfa flókin. Þá var krafan ekki talin veita markaðnum neinar viðbótarupplýsingar sem ekki mátti nálgast með öðrum hætti, meðal annars með hliðsjón af þeim kröfum sem mælt er fyrir um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik. Til að draga úr óþarfa stjórnsýslubyrði var því fallið frá kröfunni í tilskipuninni og gerir frumvarpið ráð fyrir því sama. Með sambærilegum rökum var krafa 1. mgr. 19. gr. gagnsæistilskipunarinnar, um tilkynningu um breytingar á stofnsamningi eða samþykktum, sem innleidd var með 69. gr. laga um verðbréfaviðskipti, felld brott. Frumvarpið gerir því ekki ráð fyrir að slík krafa verði lengur fyrir hendi.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er mælt svo fyrir að útgefandi hlutabréfa skuli án tafar birta opinberlega upplýsingar um allar breytingar á réttindum sem fylgja mismunandi flokkum hlutabréfa, þar á meðal breytingar á réttindum sem fylgja afleiddum verðbréfum sem útgefandinn gefur út sjálfur og veita rétt til að afla hluta í honum. Ákvæðið byggist á 1. mgr. 16. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 3. mgr. 68. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Í 2. mgr. er regla sem varðar aðra útgefendur en útgefendur hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Samkvæmt ákvæðinu hvílir sú skylda á útgefanda að birta án tafar opinberlega upplýsingar um allar breytingar á réttindum handhafa verðbréfa, þar á meðal breytingar á skilmálum og skilyrðum verðbréfanna, svo sem vegna breytinga á lánaskilmálum eða vöxtum. Ákvæðið byggist á 2. mgr. 16. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 2. mgr. 68. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 32. gr.

    Í 32. gr. er fjallað um skyldur útgefenda gagnvart eigendum hluta. Greinin er samhljóða 70. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
    Í 1. mgr. kemur fram að útgefandi hlutabréfa skuli tryggja jafnræði allra eigenda hluta í sömu stöðu en ákvæðið byggist á 1. mgr. 17. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Ákvæðið nær einungis til eigenda hluta sem eru í „sömu stöðu“. Af þessu leiðir meðal annars að ekkert er því til fyrirstöðu að gefnir séu út mismunandi flokkar hlutabréfa, t.d. hvað varðar mismun á rétti til að greiða atkvæði í félagi eða mismun á rétti til arðs. Meginreglan í íslenskum rétti er sú að allir hlutir í félagi skuli hafa jafnan rétt, sbr. 20. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, en heimilt er að víkja frá þeirri reglu ef mælt er fyrir um slíkt í samþykktum félags.
    Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. skal útgefandi hlutabréfa ekki standa í vegi fyrir því að eigendur hluta neyti réttinda sinna með því að veita öðrum umboð. Ákvæðið, sem byggist á 2. mgr. 17. gr. gagnsæistilskipunarinnar, er í samræmi við 81. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, þar sem kemur fram að hluthafi getur látið umboðsmann sækja hluthafafund fyrir sína hönd. Í 2. málsl. er sá fyrirvari gerður að sé útgefandi hlutabréfa með skráða skrifstofu í öðru ríki en á Íslandi gildir 1. málsl. ekki nema bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis heimili notkun umboðs.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að útgefandi hlutabréfa skuli tryggja að allar upplýsingar sem eru eigendum hluta nauðsynlegar til að geta neytt réttinda sinna séu aðgengilegar í heimaríki útgefandans. Þau réttindi sem eigendur hluta eiga gagnvart útgefanda eru t.d. rétturinn til að fá greiddan arð og réttur til að geta greitt atkvæði á fundum. Gerð er krafa um að útgefandi tryggi áreiðanleika framangreindra upplýsinga. Loks er mælt fyrir um það í fjórum stafliðum hvaða atriði útgefandi skuli einkum tryggja að séu til staðar. Málsgreinin byggist á 2. mgr. 17. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í a-lið 3. mgr. kemur fram að útgefandi hlutabréfa skuli upplýsa eigendur hluta um staðsetningu, tíma og dagskrá hluthafafundar ásamt upplýsingum um heildarfjölda hluta og atkvæðisrétta, og rétt hluthafa til að taka þátt í fundinum. Reglur um fundarboð er að finna í 88. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, en þar er hins vegar ekki kveðið sérstaklega á um nauðsyn upplýsinga um heildarfjölda hluta og atkvæðisrétta. Töluliðurinn byggist á a-lið 2. mgr. 17. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í b-lið 3. mgr. er ákvæði sem byggist á b-lið 1. mgr. 17. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Fram kemur að eigi að nýta umboð á hluthafafundi skuli útgefandi jafnframt gera þeim aðilum sem rétt eigi á að greiða atkvæði á fundinum aðgengilegt umboðseyðublað á pappír eða með rafrænum aðferðum. Í lögum um hlutafélög er ekki að finna lagaskyldu af þessu tagi en aftur á móti er hluthafafundi heimilt að taka ákvörðun um notkun rafrænna skjalasamskipta og tölvupósts í samskiptum milli félagsins og hluthafa þess í stað þess að senda eða leggja fram skjöl, rituð á pappír, sbr. 80. gr. b laganna.
    Í c-lið 3. mgr. er lagt til að útgefanda hlutabréfa verði gert skylt að tilnefna fjármálafyrirtæki, eða fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem umboðsmann sinn. Hlutverk umboðsmanns er að hafa milligöngu um að eigendur hluta geti neytt fjárhagslegra réttinda sinna í útgefandanum, t.d. arðsúthlutun o.fl. Töluliðurinn byggist á c-lið 2. mgr. 17. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í d-lið 3. mgr. er mælt fyrir um að útgefandi hlutabréfa veiti upplýsingar, svo sem með dreifibréfi eða auglýsingu, um úthlutun og greiðslu arðs og útgáfu nýrra hluta, þ.m.t. upplýsingar um fyrirkomulag úthlutunar áskriftar, afturköllunar eða breytiréttar. Töluliðurinn byggist á d-lið 2. mgr. 17. gr. gagnsæistilskipunarinnar.

Um 33. gr.

    Í 33. gr. er fjallað um ýmsar skyldur útgefenda skuldabréfa gagnvart handhöfum bréfanna og er ákvæðið samhljóða 71. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, nema að skilgreiningu á skuldabréfi í 1. mgr. þess ákvæðis er að finna í 11. tölul. 4. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er regla sem tryggir jafnræði handhafa skuldabréfa en ákvæðið byggist á 1. mgr. 18. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Þannig ber útgefanda skuldabréfa að tryggja að allir handhafar skuldabréfa sem metin eru jafngild njóti sömu meðferðar að því er varðar réttindi sem skuldabréfunum fylgja. Það er því skilyrði að bréfin séu metin jafngild, þ.e. gefin út samtímis og með sömu skilmálum. Reglan kemur því ekki í veg fyrir að gefin verði út skuldabréf með mismunandi skilmálum, t.d. varðandi vexti.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er kveðið svo á að útgefandi skuldabréfa skuli ekki standa í vegi fyrir því að handhafar skuldabréfanna neyti réttinda sinna með því að veita öðrum umboð. Ákvæðið byggist á 2. mgr. 18. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Helst reynir á umboð af þessu tagi á fundum sem haldnir eru með handhöfum bréfanna skv. 3. mgr. greinarinnar. Í 2. málsl. er sá fyrirvari gerður að sé útgefandi skuldabréfa með skráða skrifstofu í öðru ríki en á Íslandi gildi 1. málsl. ekki nema bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis heimili notkun umboðs.
    Í 3. mgr. er kveðið á um það til hvaða atriða útgefandi skuldabréfa skuli líta ef hann ákveður að halda fund með handhöfum skuldabréfa. Ákvæðið byggist á a- og b-lið 2. mgr. 18. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Ákvæðið felur ekki í sér neina skyldu útgefanda til að halda fundi heldur geymir það fyrirmæli um hvaða atriða beri að gæta þegar boðað er til fundar. Í fyrsta lagi verður útgefandi skuldabréfa, sem ákveður að halda fund með handhöfum skuldabréfanna, að veita þeim upplýsingar, svo sem með auglýsingu eða dreifibréfi, um staðsetningu, tíma og dagskrá fundarins ásamt upplýsingum um hvaða kröfum handhafarnir þurfi að fullnægja til að mega taka þátt í fundinum. Sem dæmi má nefna að eigandi skuldabréfs verður að vera skráður eigandi þess á tilteknu tímamarki eða tilkynna um það fyrir fram. Í öðru lagi verður útgefandi að gera umboðseyðublað aðgengilegt á pappír eða rafrænt fyrir þá sem eiga rétt á að greiða atkvæði á fundinum, annaðhvort í tengslum við auglýsingu fundarins eða samkvæmt beiðni eftir að fundurinn hefur verið auglýstur. Ef skriflegt fundarboð er sent út verður umboðseyðublað að fylgja fundarboðinu. Ef hins vegar er boðað til fundar með almennri tilkynningu verður umboðseyðublaðið að fylgja tilkynningunni.
    Samkvæmt 4. mgr. skal útgefandi skuldabréfa, svo sem með auglýsingu eða dreifibréfi, upplýsa handhafa skuldabréfa um greiðslu vaxta, um framkvæmd hvers konar breytiréttar, skipta, áskriftar eða afturköllunar á réttindum og greiðslu. Ákvæðið byggist á a-lið 2. mgr. 18. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. er ákvæði sem byggist á c-lið 2. mgr. 18. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Þar kemur fram að útgefandi skuldabréfa skuli tilnefna fjármálafyrirtæki, eða fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem umboðsmann sinn. Það er svo hlutverk þessa umboðsmanns að hafa milligöngu um að handhafar skuldabréfa geti neytt fjárhagslegra réttinda samkvæmt skuldabréfunum.

Um 34. gr.

    Í 34. gr. er sérregla sem tekur annars vegar til útgefenda hlutabréfa og hins vegar til útgefenda verðbréfa með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í 1. mgr. kemur fram að útgefandi hlutabréfa með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins þarf ekki að fara eftir 32. gr. ef hann uppfyllir kröfur bindandi opinberra fyrirmæla í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu og fyrirmælin eru hliðstæð ákvæðum 32. gr. Með hliðstæðum ákvæðum er jafnframt átt við ákvæðin séu hliðstæð ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar enda byggist 32. gr. á ákvæðum tilskipunarinnar. Málsgreinin byggist á 1. mgr. 23. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Heimilt verður að setja nánari ákvæði um skilyrði þessarar undantekningar í reglugerð.
    Samkvæmt 2. mgr. þarf útgefandi skuldabréfa með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ekki að fara eftir 33. gr. ef hann uppfyllir kröfur bindandi opinberra fyrirmæla í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu og fyrirmælin eru hliðstæð ákvæðum 33. gr. Með hliðstæðum ákvæðum er jafnframt átt við ákvæðin séu hliðstæð ákvæðum gagnsæistilskipunarinnar enda byggist 33. gr. á ákvæðum tilskipunarinnar. Málsgreinin byggist á 1. mgr. 23. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Heimilt verður að setja nánari ákvæði um skilyrði þessarar undantekningar í reglugerð.
    Í 3. mgr. er mælt svo fyrir að það verði á valdi Fjármálaeftirlitsins að meta hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæðar ákvæðum 32. og 33. gr.

Um V. kafla

    Kaflinn geymir ákvæði um birtingu upplýsinga og ábyrgð á því að birting upplýsinga fari fram. Ákvæði kaflans eru að mestu samhljóða ákvæðum laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um birtingu upplýsinga og ábyrgð.

Um 35. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um opinbera birtingu.
    Ákvæði 1. mgr. byggist á 1. mgr. 21. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Ákvæði tilskipunarinnar segir að útgefandi skuli birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar sem lögin kveða á um eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Nánar er gert grein fyrir þeim lágmarkskröfum sem opinber birting upplýsinga skal uppfylla í reglugerð nr. 707/2008, en með henni var tilskipun framkvæmdastjórnarinnar nr. 2007/14/EB innleidd í íslenskan rétt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra setji sambærilega reglugerð.
    Ákvæði 1. mgr. mælir jafnframt fyrir um þá skyldu útgefanda að senda þær upplýsingar sem gerðar eru opinberar samhliða til Fjármálaeftirlitsins. Skyldan er sjálfstæð og tengist ekki skyldu útgefanda til að senda upplýsingar til miðlægrar varðveislu skv. 36. gr. frumvarpsins. Komi til þess að Fjármálaeftirlitið tilnefni skv. 35. gr. aðila til að annast hina miðlægu varðveislu ber útgefanda engu að síður skylda til að senda upplýsingar sem gerðar eru opinberar til Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þessarar málsgreinar. Útgefanda ber þá skylda til að senda upplýsingarnar bæði til Fjármálaeftirlitsins og þess aðila sem tilnefndur hefur verið til að annast miðlægu varðveisluna.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til að birta þær upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar á vef sínum. Málsgreinin byggist á 1. mgr. 19. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að ábyrgð á að upplýsingar skv. 5., 6., 7., 8., og 31. gr. séu teknar saman og gerðar opinberar hvíli á útgefanda. Málsgreinin byggist á 7. gr. gagnsæistilskipunarinnar sem kveður á um skyldu aðildarríkja til að tilgreina sérstaklega að skyldan til að taka saman tilvísaðar upplýsingar hvíli hjá útgefanda eða stjórn hans. Af ákvæðinu má ekki gagnálykta sem svo að í öðrum tilvikum beri útgefandi ekki ábyrgð á samantekt og birtingu upplýsinga samkvæmt lögum þessum, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um 36. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið, eða aðili sem Fjármálaeftirlitið tilnefnir, skuli sjá til þess að upplýsingar sem birta skal opinberlega skv. II., III. og VI. kafla séu varðveittar í miðlægu geymslukerfi. Málsgreinin byggist á 2. mgr. 21. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. segir að miðlæga geymslukerfið skuli uppfylla kröfur um öryggi, áreiðanleika um hvaðan upplýsingar eru upprunnar, tímaskráningu og auðveldan aðgang fyrir notendur. Í 55. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa ráðherra til að kveða nánar á um kröfur miðlæga geymslukerfisins með reglugerð.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að geymslukerfið skuli tengjast geymslukerfi ESMA sem kveðið er á um í 21. gr. a í gagnsæistilskipuninni.

Um 37. gr.

    Í greininni er að finna reglur um á hvaða tungumálum birta eigi upplýsingar samkvæmt frumvarpinu. Greinin byggist á 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. ræðir um tilvik þegar verðbréf útgefanda hafa einungis verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Við þær aðstæður verður útgefandi að birta upplýsingar á íslensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir. Ákvæðið byggist á 1. mgr. 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er fjallað um það þegar verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og í einu eða fleiri aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Í fyrsta lagi verður útgefandi ávallt að birta upplýsingarnar á íslensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir. Í öðru lagi verður útgefandi að birta upplýsingarnar annaðhvort á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja en útgefandi getur valið á hvoru tungumálinu hann birtir upplýsingarnar. Ákvæði 2. mgr. byggist á 2. mgr. 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um það tilvik þegar verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í einu eða fleiru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. í einu eða fleiri gistiríki, en ekki á Íslandi. Reglan er sú að útgefandi verður að birta upplýsingarnar annaðhvort á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja en útgefandi getur valið á hvoru tungumálinu hann birtir upplýsingarnar. Enn fremur getur Fjármálaeftirlitið óskað eftir því að útgefandi birti jafnframt upplýsingarnar á ensku eða öðru því tungumáli sem eftirlitið samþykkir, að vali útgefanda. Ákvæði 3. mgr. byggist á 3. mgr. 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Sá fyrirvari er gerður í 4. mgr. að hafi verðbréf útgefanda verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hvíla kröfur 1.–3. mgr. ekki á útgefanda heldur þeim aðila sem óskað hefur eftir töku hlutanna til viðskipta án samþykkis útgefanda. Ákvæðið byggist á 4. mgr. 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimild til að birta tilkynningu skv. 12., 13. og 14. gr. hvort heldur á íslensku eða ensku. Greinin byggist á 5. mgr. 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar og er samhljóða 5. mgr. 97. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
    Í 6. mgr. er að finna undanþágu frá 1.–4. mgr. vegna verðbréfa ef nafnverð eininga þeirra var að minnsta kosti jafngilt 100.000 evrum í íslenskum krónum þegar þau voru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða í tilviki skuldabréfa ef nafnverð eininga þeirra var á útgáfudegi bréfanna a.m.k. jafngilt 100.000 evrum í íslenskum krónum. Í þeim tilvikum er útgefanda, eða þeim aðila sem óskað hefur eftir töku bréfanna til viðskipta án samþykkis útgefanda, heimilt að birta upplýsingar samkvæmt kaflanum á ensku eða öðru tungumáli sem lögbær stjórnvöld heimaríkis og gistiríkja samþykkja, að vali útgefanda.
    Málsgreinin byggist á 6. mgr. 20. gr. gagnsæistilskipunarinnar með síðari breytingum. Taka skal fram að frávikið skv. 5. mgr. skal einnig gilda um skuldabréf sem a.m.k. jafngilda 50.000 evrum og hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í einu eða fleiri aðildarríkjum fyrir gildistöku laga þessara, svo framarlega sem slík skuldabréf eru útistandandi. Fjárhæðir samkvæmt málsgreininni eru reiknaðar miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, þ.e. ef útboðið er reiknað í krónum skal það jafngilda 100.000 evrum á hverjum tíma.

Um VI. Kafla

    Í kaflanum er fjallað um eftirlit, viðurlög við brotum á ákvæðum laganna og samstarf lögbærra yfirvalda.

Um 38. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. gagnsæistilskipunarinnar ber aðildarríkjum að tilgreina hvaða stjórnvald telst lögbært yfirvald til að hafa eftirlit í ríkinu. Í greininni er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði falið það hlutverk og að ársreikningaskrá verði falið að kanna hvort upplýsingar skv. II. kafla séu samdar í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur.
    Eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer nánar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði og ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið aðstoði Eftirlitsstofnun EFTA og ESMA eftir föngum við framkvæmd eftirlits. Sú skylda leiðir af þjóðréttarlegum skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, í samræmi við upptöku reglugerðanna þriggja um evrópskar eftirlitsstofnanir, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, og aðra löggjöf á sviði fjármálastarfsemi. Einnig ber að líta til samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls en um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits er fjallað í 25. gr. a í þeim samningi og bókun 8 við hann.

Um 39. gr.

    Í greininni er kveðið á um þær almennu ráðstafanir sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beita til að tryggja framfylgd laganna. Ákvæðið byggist á 4. mgr. 24. gr. gagnsæistilskipunarinnar. 6. tölul. ákvæðisins er nýmæli og veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til að fella niður atkvæðisréttindi tengd hlutabréfum. Töluliðurinn byggist á 2. mgr. 28. gr. b í gagnsæistilskipuninni. Ákvæði tilskipunarinnar heimilar aðildarríkjum að binda heimildina við alvarlegustu brotin og er lagt til að sú leið verði farin með vísun í þau ákvæði sem talin eru upp í 48. gr.

Um 40. og 41. gr.

    Greinarnar fjalla um tilkynningar starfsmanna um brot í starfi og vernd starfsmanna vegna slíkra tilkynninga. Sambærileg ákvæði er að finna í 60. gr. a og 60. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Um 42. gr.

    Í greininni er kveðið á um úrbótakröfu vegna brots. Ákvæðið er árétting á heimildum sem telja verður að eftirlitsaðilar hafi almennt í krafti eftirlitsskyldu sinnar gagnvart tilkynningarskyldum aðilum og er sambærilegt 1. mgr. 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Um 43. gr.

    Í greininni er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á tilgreindum ákvæðum laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Greinin tekur mið af þeim heimildum sem fram koma í 141. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og byggist á 28. gr. gagnsæistilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. eru talin upp þau tilvik sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn tilteknum ákvæðum laganna. Hér er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir bæði á einstaklinga og lögaðila sem brjóta gegn þeim ákvæðum sem fram koma í viðkomandi greinum, enda geta einstaklingar fallið undir skilgreiningu laganna á útgefanda, sbr. 13. tölul. 4. gr. Þá mun Fjármálaeftirlitið hafa heimild til að beita stjórnvaldssektum óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Í 3. mgr. er kveðið á um fjárhæðarmörk stjórnvaldssekta. Fjárhæðarmörkin taka mið af 28. gr. b í gagnsæistilskipuninni með síðari breytingum, en með tilskipun 2013/50/ESB voru gerðar breytingar á fjárhæðarmörkum tilskipunarinnar ásamt fyrirmælum um hvaða gengi evru skuli nota við útreikning samsvarandi virði fjárhæðamarka í öðrum gjaldmiðlum.
    Í 4. mgr. er lagt til að fjárhæð stjórnvaldssektar geti miðast við fjárhagslegan ávinning hins brotlega af broti. Þannig geti fjárhæð stjórnvaldssektar orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nemur. Skilyrði fyrir beitingu slíkrar sektar er að fjárhagslegur ávinningur af broti liggi fyrir.

Um 44. gr.

    Í greininni er kveðið á um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að birta opinberlega ákvarðanir um eftirlitsaðgerðir eða viðurlög sem eftirlitið beitir vegna brota á lögunum. Ákvæðið byggist á 29. gr. gagnsæistilskipunarinnar eins og henni var breytt með tilskipun 2013/50/ESB. Birtingu niðurstaðna um beitingu viðurlaga vegna brota er ætlað að tryggja bæði almenn og sérstök varnaðaráhrif þeirra og stuðla að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði. Þá er birting mikilvæg leið til að upplýsa markaðsaðila um það hvaða háttsemi er andstæð lögum.
    Samkvæmt 9. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta opinberlega niðurstöður athugana og mála sem varða lögin. Birting samkvæmt ákvæðinu er háð því skilyrði að málið varði fjármálamarkaðinn, ógni ekki fjármálastöðugleika og valdi aðila ekki tjóni umfram það sem eðlilegt er.
    Í greininni er gengið lengra en í 9. gr. a laga nr. 87/1998. Samkvæmt ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu skylt að birta opinberlega niðurstöður sínar um beitingu viðurlaga vegna brota. Niðurstaða sem er birt skal að lágmarki innihalda upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fresta um tiltekinn tíma birtingu á nafni aðila sem tilgreindir eru í ákvörðuninni eða birta niðurstöðuna nafnlaust ef nafnabirting samræmist ekki meðalhófsreglu, birting getur stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn. Mat á birtingu samkvæmt framangreindu er atviksbundið og skal framkvæmt í hverju máli fyrir sig.
    Fjármálaeftirlitinu ber enn fremur að birta upplýsingar þegar ákvörðun eftirlitsins um beitingu viðurlaga hefur verið afturkölluð. Komi til þess að Fjármálaeftirlitið taki nýja ákvörðun í kjölfar afturköllunar eða endurupptöku máls ber Fjármálaeftirlitinu að birta slíka niðurstöðu.
    Fjármálaeftirlitinu verður, eftir sem áður, heimilt að birta opinberlega niðurstöður í öðrum málum. Um slíka birtingu fer skv. 9. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
    Ákvæðið leggur þær skyldur á Fjármálaeftirlitið að uppfæra upplýsingar um niðurstöðu sem áður hefur verið birt ef aðili höfðar mál til ógildingar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt ber Fjármálaeftirlitinu að birta upplýsingar um niðurstöður slíkra dómsmála, á öllum dómsstigum. Þá kveður ákvæðið á um þann lágmarkstíma sem upplýsingarnar skulu birtast á vef Fjármálaeftirlitsins; í tilviki lögaðila eru það fimm ár en í tilviki einstaklinga birtast persónuupplýsingarnar eins lengi og talið er nauðsynlegt í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Um 45. gr.

    Í greininni er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að ljúka minni háttar brotamálum með sátt með samþykki málsaðila. Greinin er samhljóða 142. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Til að unnt sé að ljúka máli með sátt verður samþykki málsaðila að liggja fyrir. Sættir eru því ekki einhliða ákvarðanir stjórnvalds heldur koma málsaðilar einnig að þeim. Því er lagt til að kveðið verði skýrt á um að þær séu bindandi fyrir aðila þegar hann hefur samþykkt sáttina og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitinu er ekki heimilt að ljúka máli með sátt ef um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við.

Um 46. gr.

    Í greininni kveðið á um rétt einstaklings til að fella ekki á sig sök við rannsókn á stjórnsýslustigi. Greinin er samhljóða 143. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Ákvæðið á aðeins við ef til staðar er „rökstuddur grunur“ um að viðkomandi hafi framið refsivert brot. Þykir eðlilegt að miða við að grunur yfirvalda sé svo sterkur að ástæða væri til að veita viðkomandi réttarstöðu grunaðs manns samkvæmt reglum opinbers réttarfars. Þannig verði að vera til staðar aðstæður eða sönnunargögn sem bendi til sektar viðkomandi og rannsókn þurfi að beinast að honum sérstaklega en ekki stærri hópi manna.
    Ef til staðar er rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi framið refsivert brot er honum aðeins skylt að veita upplýsingar ef unnt er að útiloka að þær geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um sekt hans. Væri honum því t.d. skylt að veita upplýsingar um nafn sitt og heimilisfang.

Um 47. gr.

    Í greininni er fjallað um frest Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssekt. Lagt er til að fresturinn verði fimm ár í stað sjö líkt og í sambærilegu ákvæði 144. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 48. gr.

    Í greininni er lagt til að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, ef brotið er gegn tilgreindum ákvæðum laganna. Fjármálaeftirlitið hefur jafnframt heimild til að taka á slíkum brotum með stjórnvaldssektum skv. 43. gr. Greinin er sambærileg 5.–7. tölul. 145. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 49. gr.

    Í greininni er kveðið á um saknæmisskilyrði og ábyrgð fyrirsvarsmanns lögaðila á brotum gegn lögunum. Sambærilegt ákvæði er í 147. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 50. gr.

    Í greininni er kveðið á um verklag við rannsókn mála þar sem meint brot varða bæði stjórnvaldssektum og refsiviðurlögum. Ákvæðið er samhljóða 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Um 51. gr.

    Í greininni er fjallað um þau tilvik þegar Ísland er gistiríki útgefanda. Greinin er samhljóða 137. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, og felur í sér innleiðingu á 26. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Ákvæðið mælir fyrir um að ef Fjármálaeftirlitið kemst að því að útgefandi eða flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. hefur sýnt af sér háttsemi sem bryti gegn ákvæðum laganna eða skyldum samkvæmt þeim, væri viðkomandi aðili með heimaríki á Íslandi, skuli Fjármálaeftirlitið vísa málinu til lögbærs stjórnvalds í heimaríki útgefanda.
    Ákvæðið mælir jafnframt fyrir um að ákvæði 1. málsl. eigi ekki við um fresti skv. 21. eða 22. gr. Ástæðan er sú að í þeim tilvikum gengur íslensk löggjöf lengra en tilskipunin. Í þeim tilvikum skal Fjármálaeftirlitið ekki grípa til aðgerða fyrr en frestir samkvæmt tilskipuninni eru liðnir. Það þýðir að Fjármálaeftirlitið skal ekki vísa máli til lögbærs stjórnvalds í heimaríki útgefanda fyrr en fjórir viðskiptadagar eru liðnir frá stofnun flöggunarskyldu án þess að flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. hafi sent tilkynningu. Sömuleiðis skal Fjármálaeftirlitið ekki vísa máli til lögbærs stjórnvalds í heimaríki útgefanda fyrr en þrír viðskiptadagar hafa liðið frá því að útgefanda barst tilkynning frá flöggunarskyldum aðila. Ástæða þessarar reglu er a-liður 2. mgr. 3. gr. gagnsæistilskipunarinnar um að gistiaðildarríki sé óheimilt að gera strangari kröfur en ákvæði tilskipunarinnar mæla fyrir um.
    Samkvæmt 2. mgr. eiga beinar aðgerðir Fjármálaeftirlitsins sér ekki stað nema brot haldi áfram þrátt fyrir ráðstafanir lögbæra stjórnvaldsins í heimaríki útgefanda eða vegna þess að slíkar ráðstafanir bera ekki árangur. Ef sú staða kemur upp ber Fjármálaeftirlitinu skylda til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta.

Um 52. gr.

    Greinin, sem fjallar um samstarf Fjármálaeftirlitsins við önnur lögbær yfirvöld innan EES, er til innleiðingar á hluta 25. gr. gagnsæistilskipunarinnar með síðari breytingum. Víðtæk og gagnkvæm samstarfsskylda hvílir á eftirlitsstjórnvöldum innan EES hvað varðar þá starfsemi sem fellur undir gildissvið frumvarps þessa og upplýsingaskylda til ESMA og Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Samkvæmt 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið leita til annarra lögbærra yfirvalda í ríkjum innan EES sé það nauðsynlegt vegna framkvæmdar eftirlits á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Á öðrum eftirlitsstjórnvöldum hvílir skylda til þess að veita aðstoð í viðkomandi tilvikum. Fjármálaeftirlitinu er þannig t.d. heimilt að óska eftir samstarfi lögbærra yfirvalda annarra ríkja innan EES vegna eftirlitsstarfsemi, framkvæmd vettvangsathugunar eða rannsóknar í því ríki innan EES. Í gagnsæistilskipuninni er lögð sú skylda á ríki innan EES að þau aðstoði Fjármálaeftirlitið með sambærilegum hætti og eftir sambærilegum reglum og gilda um Fjármálaeftirlitið. Samstarfsskyldan hvílir á lögbærum yfirvöldum ríkis innan EES jafnvel þó að um sé að ræða aðstoð vegna atviks sem tengist broti á íslenskum reglum en ekki samkvæmt landsrétti þess ríkis. Það er í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkja innan EES á grundvelli gagnsæistilskipunarinnar, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Að sama skapi hvílir skv. 2. mgr. víðtæk samstarfsskylda á Fjármálaeftirlitinu við önnur lögbær yfirvöld innan EES hvað varðar eftirlit með upplýsingagjöf útgefenda. Þannig ber Fjármálaeftirlitinu að aðstoða önnur lögbær yfirvöld innan aðildarríkja EES og eftir atvikum ESMA og Evrópska kerfisáhætturáðið (ESRB) ef það er talið nauðsynlegt fyrir þau stjórnvöld og stofnanir til að sinna eftirlitskyldum sínum. Í því felst meðal annars að Fjármálaeftirlitið geti verið skylt að beita valdheimildum sínum til að tryggja fullnægjandi aðstoð. Umrædd samstarfsskylda hvílir á Fjármálaeftirlitinu einnig í þeim tilvikum þegar atvik sem eru til skoðunar brjóta í bága við landsrétt viðkomandi ríkis en fela þó ekki í sér brot á íslenskum lögum eða reglum. Það er í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands á grundvelli gagnsæistilskipunarinnar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, sbr. jafnframt lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

Um 53. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að veita ESMA allar upplýsingar sem stofnunin kallar eftir í störfum sínum. Greinin er til innleiðingar á 2c. mgr. 25. gr. gagnsæistilskipuninni sem byggist á 14. tölul. 1. mgr. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB.

Um 54. gr.

    Ákvæðið fjallar um heimild til úrlausnar ágreiningsmála milli lögbærra yfirvalda innan EES, komi til þeirra, og er til innleiðingar á 2a. mgr. 25. gr. gagnsæistilskipunarinnar. Þannig er Fjármálaeftirlitinu heimilt að vísa málum er varða beiðni um samstarf milli lögbærra yfirvalda til Eftirlitsstofnunar EFTA eða ESMA, eftir því sem við á, í samræmi við ákvæði greinarinnar.
    Um aðlögun þá sem gerð var á 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1095/2010 sem rekja má til tveggja stoða kerfis EES-samningsins og sem gerð var við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2016 frá 30. september 2016 er vísað til nánari umfjöllunar í skýringum í greinargerð með lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017.
    Komi til ágreinings á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærs yfirvalds annars ríkis innan EES um ráðstafanir sem gripið er til er hægt að skjóta málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA eða ESMA, eftir því sem við á, í sáttameðferð í samræmi 19. gr. reglugerðar nr. 1095/2010, sbr. 3 gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Úrlausn Eftirlitsstofnunar EFTA er bindandi fyrir Fjármálaeftirlitið.

Um 55. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra og Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja reglugerðir eða reglur sem fela í sér innleiðingu á undirgerðum lýsingarreglugerðarinnar í íslenskan rétt.

Um 56. gr.

    Í 56. gr. kemur fram að við umreikning á fjárhæðum í frumvarpinu skuli miðað við opinbert viðmiðunargengi evru eins og það er skráð hverju sinni hjá Seðlabanka Íslands.

Um 57. gr.

    Í greininni kemur fram hvaða tilskipanir ætlunin er að innleiða.

Um 58. gr.

    Í greininni er lagt til að lögin öðlist gildi 1. maí 2021 svo ráðrúm gefist til undirbúnings setningar reglugerða og reglna sem eru nauðsynlegur þáttur í framkvæmd laganna. Jafnframt gefst aðilum á markaði svigrúm til að laga sig að nýrri löggjöf.

Um 59. gr.

    Í greininni er lagt til að tiltekin ákvæði laga um verðbréfaviðskipti falli brott þar sem þau eru tekin upp í frumvarp þetta. Jafnframt er lögð til breytt lagatilvísun í lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og lögum um ársreikninga.

Um ákvæði til bráðabirgða

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að við setningu reglna skv. 2. tölul. 2. mgr. 55. gr. sé Seðlabanka Íslands heimilt að vísa til enskrar útgáfu Stjórnartíðinda Evrópusambandsins á viðaukum framseldra reglugerða Evrópusambandsins er varða flokkunarkerfi sem nota ber við rafræn skýrsluskil. Um er að ræða tæknilega eftirlitsstaðla sem í dag er að finna í framseldri reglugerð (ESB) nr. 2019/815 er varðar flokkunarkerfi sem nota ber við rafræn skýrslusnið (e. European Single Electronic Format) og framseldri reglugerð 2019/2100 um viðbætur við fyrrgreinda reglugerð. Viðaukarnir mæla fyrir um að ársreikningar og árshlutareikningar skuli útbúnir á XHMTL formi. Til þess skuli nota svonefndan XBRL samskiptastaðal (e. eXtensible Business Reporting Language) til að miðla upplýsingum milli útgefenda verðbréfa og lögbærra yfirvalda og evrópskra eftirlitsstofnana. Viðaukarnir, sem eru um 2000 blaðsíður hvor, eru mjög tæknilegs eðlis og snúa fyrst og fremst að útgefendum verðbréfa. Frá 1. janúar 2020 hefur útgefendum verðbréfa á mörkuðum innan Evrópusambandsins verið skylt að útbúa árleg reikningsskil sín á rafræna skýrslusniði, en með þeirri aðlögun sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/2020, frá 12. júní 2020, mun skyldan ná til allra útgefenda á evrópska efnahagssvæðinu frá 1. janúar 2021. Lögð hefur verið áhersla á að ekki verði tafir á innleiðingu rafræna skýrslusniðsins til að útgefendur með Ísland sem heimaríki standi jafnfætis öðrum aðilum á evrópska efnahagssvæðinu og gagnaskil til Seðlabanka Íslands verði með sama hætti og til evrópskra eftirlitsstofnana. Þar sem ekki er ljóst hvenær íslenskar þýðingar á reglugerðum (ESB) nr. 2019/815 og 2019/2100 og viðaukum þeirra liggja fyrir er lagt til að Seðlabanka Íslands verði veitt tímabundin heimild til að vísa til enskrar útgáfu viðaukanna. Nýti Seðlabanki Íslands þessa heimild skal gera enska útgáfu viðaukanna aðgengilega á vef bankans. Heimildin samkvæmt ákvæðinu fellur niður þegar íslenskar þýðingar á reglugerðunum og viðaukum þeirra hafa verið birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.