Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 429  —  346. mál.
Leiðréttur texti.
Tillaga til þingsályktunar


um samræmda niðurgreiðslu hjálpartækja fyrir heyrnar- og sjónskert börn.


Flm.: Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra að samræma reglur sem gilda um niðurgreiðslu eða greiðsluþátttöku ríkisins vegna kaupa á heyrnartækjum og gleraugum fyrir börn.

Greinargerð.

    Stefna núverandi ríkisstjórnar er að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Eins og kerfið er nú eru mismunandi reglur um þátttöku í niðurgreiðslu eftir því hvort um er að ræða kaup á heyrnartæki annars vegar og gleraugum hins vegar.
    Öll börn yngri en 18 ára fá heyrnartæki greidd að fullu frá Sjúkratryggingum. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu annast endurgreiðslur vegna kaupa á gleraugum fyrir börn. Reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu var sett árið 2005 og hefur ekki tekið breytingum síðan. Samkvæmt henni eiga öll börn fram að 18 ára aldri rétt á gleraugnaendurgreiðslum. Börn þriggja ára og yngri eiga rétt á endurgreiðslum tvisvar á ári, börn 4–8 ára eiga rétt á endurgreiðslum árlega og börn 9–17 ára eiga rétt á endurgreiðslum annað hvert ár. Þau eiga jafnframt rétt á að fá aukaendurgreiðslu innan tveggja ára ef sjónin breytist um 0,75 í styrk. Upphæð endurgreiðslu miðast við styrk glerja og er frá 3.500 kr. á gler til 7.500 kr. á gler. Ef um er að ræða sterk sjónskekkjugler er viðbótargreiðsla eftir styrkleika frá 500 kr. til 1.500 kr. á gler. Kostnaður við gler, þá sérstaklega gler þar sem styrkur er yfir 4,00 er umtalsvert meiri. Gler sem komin eru yfir 3,00 í styrk er æskilegt að þynna og eykst þá kostnaður umtalsvert. Einnig ber að hafa í huga að börn þurfa oft og tíðum einnig sérstök gleraugu fyrir sund og íþróttir og þarf að taka tillit til þess.
    Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að öll börn fái þá læknismeðferð og þau hjálpartæki sem þau þurfa án tillits til efnahags foreldra. Það er því mikilvægt að auka þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum fyrir börn þannig að þau verði að fullu endurgreidd.