Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
2. uppprentun.

Þingskjal 432  —  347. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til laga


um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, lögræðislögum, nr. 71/1997, og barnalögum, nr. 76/2003 (bann við barnahjónabandi).

Flm.: Andrés Ingi Jónsson.


I. KAFLI
Breyting á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI

Breyting á lögræðislögum, nr. 71/1997, með síðari breytingum.

2. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI

Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

3. gr.

    2. mgr. 61. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að afnumin verði heimild til að veita fólki leyfi til að ganga í hjúskap þótt það uppfylli ekki almenn aldursskilyrði hjúskaparlaga. Verði frumvarpið að lögum verður engin undanþága lengur fyrir hjónaböndum barna á Íslandi.
    Í 7. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, kemur fram að tveir einstaklingar megi stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri. Í ákvæðinu kemur einnig fram að ráðuneytið geti veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum kemur fram að ekki sé tilgreindur lágmarksaldur í sambandi við aldursleyfisveitingu, en naumast yrði yngra fólki en 16 ára veitt aldursleyfi.
    Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar um barnahjónabönd (402. mál á 148. löggjafarþingi) kemur fram að frá því að lögræðisaldur var hækkaður í 18 ár með lögum sem tóku gildi 1. janúar 1998 hafi ráðuneytinu borist 18 umsóknir um undanþágu, allar vegna 16 og 17 ára einstaklinga, eða að meðaltali ein umsókn á ári. Allar umsóknirnar voru samþykktar.
    Í tilmælum Evrópuráðsins nr. 1468/2005, um þvinguð hjónabönd og barnahjónabönd, kemur m.a. fram að undir skilgreininguna barnahjónabönd falli þau tilvik þegar a.m.k. annar aðilinn er undir 18 ára aldri. Í tilmælunum eru ríki hvött til þess að banna hjónabönd einstaklinga yngri en 18 ára. Í samræmi við þau tilmæli hefur sú þróun m.a. átt sér stað annars staðar á Norðurlöndum að breytingar hafa verið gerðar á sambærilegum lagaákvæðum um hjúskap eða endurskoðun hafin á gildandi löggjöf með það að markmiði að afnema undanþágur vegna aldurs til þess að ganga í hjúskap.
    Við setningu hjúskaparlaga á 116. löggjafarþingi lágu til grundvallar niðurstöður úr norrænu löggjafarsamstarfi og þau norrænu lög sem sett höfðu verið síðustu árin á undan. Nú er staðan sú að einungis á Íslandi er í gildi undanþáguákvæði sambærilegt því sem hér er lagt til að fella úr gildi. Hin ríkin hafa hins vegar ekkert slíkt ákvæði og hafa gengið skrefinu lengra í baráttunni gegn barnahjónaböndum. Með breytingum á norskum hjúskaparlögum árið 2018 getur hvor aðili krafist ógildingar á hjónabandi ef stofnað hefur verið til hjúskaparins í andstöðu við aldursskilyrði laganna, sbr. 24. gr. laganna. Eins heimila sænsk hjúskaparlög tafarlausan skilnað ef í ljós kemur að annað hjóna var undir 18 ára aldri þegar stofnað var til hjúskapar, sbr. 1. mgr. 5. gr. 5. kafla laganna. Í dönskum hjúskaparlögum er að finna ákvæði um viðurkenningu hjúskapar sem stofnað hefur verið til erlendis þar sem m.a. kemur fram að ekki sé hægt að fá slíkan hjúskap samþykktan að dönskum hjúskaparlögum ef annað hjónaefna hafi verið undir 18 ára aldri þegar hjónavígslan fór fram, sbr. 2. mgr. 22. gr. laganna. Íslensk hjúskaparlög tilgreina ekki með sambærilegum hætti að hjónavígsla sem framkvæmd er erlendis þurfi að uppfylla sömu skilyrði og íslensk löggjöf kveður á um, en ástæða kann að vera til að festa slíkt í sessi, annaðhvort með frekari lagabreytingum eða með því að setja slíkar verklagsreglur innan stjórnsýslunnar.
    Rúmlega tólf milljónir barnungra stúlkna eru þvingaðar í hjónaband ár hvert. Þessi útbreidda birtingarmynd kynbundins ofbeldis hefur lengi verið eitt af áhersluatriðum Íslands í þróunarsamvinnu, m.a. með góðum árangri í Malaví og Sambíu í samstarfi við UN Women. Þar sem barnahjónabönd eru algeng er staðan oft sú að nýttar eru undanþáguheimildir hliðstæðar þeim sem hér er lagt til að afnema. Það skýtur skökku við að berjast gegn afleiðingum af glufum í hjúskaparlögum annarra landa en vera með þær í gildi heima fyrir. Því færi vel á því að afnema þessa undanþáguheimild að fullu úr íslenskum lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að svohljóðandi málsliður 7. gr. hjúskaparlaga falli brott: „Ráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap, enda liggi fyrir afstaða forsjárforeldra til hjúskaparstofnunarinnar.“ Þar með verður engin undanþága frá þeim almennu aldursskilyrðum að einstaklingar þurfi að hafa náð 18 ára aldri þegar þeir stofna til hjúskapar.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að brott falli ákvæði sem kveður á um að stofni ólögráða fólk til hjúskapar sé það lögráða upp frá því. Ákvæðinu var bætt við lögræðislög til samræmis við undanþáguheimild hjúskaparlaga, en verður óþarft falli heimildin brott líkt og lagt er til í 1. gr. þessa frumvarps.

Um 3. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæði 61. gr. barnalaga um lok framfærsluskyldu. Framfærsluskyldu lýkur samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna er barn verður 18 ára. Í greininni er lagt til að brott falli ákvæði 2. mgr. um að skyldu til greiðslu meðlags ljúki fyrir þann tíma ef barn gengur í hjúskap nema sýslumaður ákveði annað. Breytinguna leiðir af banni frumvarpsins við undanþágum frá aldursskilyrði hjúskaparlaga.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.