Ferill 348. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 433  —  348. mál.
Þingskjalsnúmer.
Beiðni um skýrslu


frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um tollasamning Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

Frá Njáli Trausta Friðbertssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Haraldi Benediktssyni, Bryndísi Haraldsdóttur, Brynjari Níelssyni, Jóni Gunnarssyni, Páli Magnússyni, Vilhjálmi Árnasyni og Óla Birni Kárasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flytji Alþingi skýrslu um tollasamning Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur þar sem m.a. verði lagt mat á árangurinn af honum til þessa. Jafnframt verði gert hagsmunamat á áhrifum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á samninginn.
    Í skýrslunni komi eftirfarandi fram:
          Aðdragandi þess að tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur var gerður og hverjir komu að gerð hans.
          Reynslan af samningnum.
          Hver þróun samningsins hefur verið frá því að hann var gerður og hver ávinningur af honum hefur verið fyrir íslenskt samfélag.
          Hvernig samskiptum við Evrópusambandið vegna samningsins hefur verið háttað.
          Hagsmunamat ráðuneytisins á stöðu samningsins vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
          Staða samningsins í dag.
          Heildaráhrif tollasamningsins á stöðu íslensks landbúnaðar.
          Heildaráhrif tollasamningsins á verð landbúnaðarafurða til íslenskra neytenda.

Greinargerð.

    Í kynningu utanríkisráðuneytisins um viðskiptasamninga og tollvernd í landbúnaði frá 18. nóvember sl. kemur fram að samkvæmt tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins hafi tollar á búvörum verið felldir niður eða lækkaðir og tollkvótar rýmkaðir í skrefum yfir fjögurra ára tímabil. Samið hafi verið um gagnkvæma viðurkenningu á upprunatengdum landbúnaðarafurðum, þar af fyrir um 1.100 vörumerki frá Evrópusambandinu. Áður en tollasamningurinn tók gildi hafi reglulega verið opnað fyrir innflutning á búvörum vegna skorts á innlendum markaði og rök fyrir því að semja við Evrópusambandið um aukna tollkvóta hafi því verið að koma í veg fyrir að opnir tollkvótar festu sig í sessi (og þá líka að opna á mögulegar útflutningsleiðir).
    Samkvæmt sömu upplýsingum ráðuneytisins hefur Ísland, samkvæmt fríverslunarsamningi EFTA, ekki veitt tollfríðindi fyrir óunnar kjöt- og mjólkurafurðir og einungis takmörkuð fríðindi fyrir grænmeti sem hér er ræktað.
    Í frétt Stjórnarráðsins frá 17. september 2015 um tollasamninginn segir að nýjum samningi sé ætlað að koma í stað samninga frá 2001 um viðskipti með unnar landbúnaðarvörur og frá 2007 um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Þar kemur jafnframt fram að í meginatriðum feli samningurinn í sér að íslensk stjórnvöld skuldbindi sig til að vernda á yfirráðasvæði sínu heiti afurða sem vísa til uppruna og njóta verndar innan ESB. Þar segir jafnframt að samkvæmt samkomulaginu auki báðir aðilar verulega tollfrjálsa innflutningskvóta, m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta, sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Á móti fái Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifugla- og svínakjöt og ost.
    Bændasamtök Íslands hafa gagnrýnt framkvæmd tollasamningsins harðlega, m.a. í fjölmiðlum, þar sem þau segja að eftirliti með innflutningi sé ábótavant. Samtökin sendu fjármála- og efnahagsráðherra og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra bréf þar sem óskað var eftir fundi með ráðherrunum og sjónarmið samtakanna rakin. Efnisatriði bréfsins birtust í Bændablaðinu 16. júlí 2020 en þar segir m.a. að tollvernd hefði ekki lengur tilætluð áhrif og að samkeppnisstaða íslenskrar matvælaframleiðslu héldi áfram að veikjast yrði ekkert að gert. Samtökin telji að bændur verði fyrir kjaraskerðingu og neytendur njóti ekki ávinnings af fyrirkomulaginu. Fyrir liggi að framleiðsluhvati bænda hér á landi minnki jafnt og þétt verði þróuninni ekki snúið við.
    Þáverandi formaður Landssambands kúabænda, Arnar Árnason, segir í aðsendri grein um málið sem birt var í Bændablaðinu 16. júlí 2020 að forsendur tollasamnings við Evrópusambandið séu algerlega brostnar. Þegar samningurinn hafi verið gerður hafi Bretland verið hluti af Evrópusambandinu og við útgöngu þess þurfi auðsjáanlega að endurskoða samninginn út frá þeim forsendum, sérstaklega í ljósi þess að unnið sé að viðskiptasamningi við Bretland sem að öllu óbreyttu kæmi til viðbótar við ESB-samninginn. Þá bendir formaður Landssambands kúabænda á að ferðamannafjöldinn hafi hrunið sökum COVID-19 og því ekki þörf á öllu því kjöti eins og áður var talið.
    Skýrslubeiðendur telja að af framangreindu sé ljóst að þörf er á skoðun á heildaráhrifum tollasamningsins á viðskipti með landbúnaðarvörur á Íslandi.