Ferill 349. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 434  —  349. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um birtingu alþjóðasamninga í C-deild Stjórnartíðinda.


Flm.: Inga Sæland, Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Ingi Kristinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að:
     a.      grípa til aðgerða sem tryggi að þeir alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að en hafa ekki verið birtir í C-deild Stjórnartíðinda verði birtir fyrir lok apríl 2021,
     b.      tryggja að birting alþjóðasamninga í Stjórnartíðindum fari fram með reglulegum hætti.

Greinargerð.

    Það er grundvallarkrafa réttarríkja að lög séu birt þannig að hver sem þess óskar geti kynnt sér efni þeirra. Stjórnartíðindi hafa það lögbundna verkefni að birta opinberlega lög, reglugerðir og alþjóðasamninga. Óbirt fyrirmæli binda stjórnvöld frá gildistöku þeirra en til þess að þeim megi beita gagnvart borgurunum verður fyrst að birta þau í Stjórnartíðindum, sbr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005. Það er því afar mikilvægt að birting laga, reglugerða og alþjóðasamninga fari fram reglulega og á traustum grundvelli.
    Því miður er það svo að birting alþjóðasamninga hefur ekki gengið nógu vel. Í álitsgerð Páls Hreinssonar um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana kom fram að alþjóðaheilbrigðisreglugerðin hefði ekki verið birt í C-deild Stjórnartíðinda. Um áhrif þess sagði Páll: „Lagalegar afleiðingar þess eru m.a. þær að við innleiðingu almennra sóttvarnaráðstafana við komu og brottför farþega frá Íslandi er ekki hægt að vísa til C-deildar um efni reglnanna, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.“ Þegar stjórnvöld grípa til mikilvægra aðgerða sem fela í sér inngrip í líf borgaranna, eins og landamæraskimun, er það grafalvarlegt mál að þær séu að hluta til byggðar á fyrirmælum í óbirtum alþjóðasamningum. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin er langt frá því að vera einsdæmi, en Ísland er aðili að yfir 300 alþjóðasamningum sem ekki hafa verið birtir í C-deild Stjórnartíðinda. Kerfislegur vandi virðist því vera fyrir hendi við birtingu alþjóðasamninga. Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík, hefur tekið sterkt til orða og sagt ástandið vera hneyksli.
    Stjórnvöld hafa gefið þær skýringar að birting samninga sé kostnaðarsöm og því hafi ekki verið tækt að birta þá alla. Þetta vekur furðu í ljósi þess að þegar er búið að vinna stóran hluta vinnunnar, þ.e. að þýða samningana. Eflaust felst einhver kostnaður í vinnu við að yfirfara þegar þýdda alþjóðasamninga og birta þá á rafrænum vef Stjórnartíðinda en kostnaðurinn er varla svo mikill að það eigi að koma í veg fyrir birtingu. Ekki kemur slík vinna í veg fyrir birtingu laga og reglugerða.
    Ef stjórnvöld geta ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum vegna fjárskorts ber þeim að leita lausnar til að ráða bót á vandanum. Ef skortur er á fjárheimildum ber ráðherra að leggja til auknar fjárveitingar til málaflokksins.
    Stjórnvöld hafa ekki sýnt frumkvæði í að ráða bót á þessum vanda og því er nauðsynlegt að Alþingi grípi í taumana og feli þeim að forgangsraða upp á nýtt og grípa til aðgerða tafarlaust til að tryggja að birting alþjóðasamninga fari fram með reglulegum hætti líkt og lög boða. Lagt er til að ríkisstjórninni verði falið að grípa til aðgerða sem tryggi að þeir alþjóðasamningar sem ekki hafa verið birtir í C-deild Stjórnartíðinda verði birtir fyrir lok apríl 2021. Það tímamark ætti að gefa ríkisstjórninni nægt svigrúm til að tryggja að fjárheimildir komi til. Þá er jafnframt lagt til að fela ríkisstjórninni að endurskipuleggja starfsemi Stjórnartíðinda svo að tryggt verði að birting alþjóðasamninga gangi hnökralaust fyrir sig í framtíðinni.