Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 437  —  351. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

Frá dómsmálaráðherra.1. gr.

Bann við vinnustöðvunum.

    Verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélags Íslands gagnvart íslenska ríkinu vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, svo og frekari vinnustöðvanir eða aðrar aðgerðir félagsins sem er ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar frá gildistöku laga þessara og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðilum heimilt að semja um breytingar frá því fyrirkomulagi sem lög þessi kveða á um en eigi má knýja þær fram með vinnustöðvun eða öðrum aðgerðum.

2. gr.

Skipun gerðardóms.

    Hafi fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Flugvirkjafélag Íslands ekki undirritað kjarasamning fyrir 4. janúar 2021, vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, skal gerðardómur ákveða kaup og kjör félagsmanna Flugvirkjafélags Íslands fyrir 17. febrúar 2021. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi með sama hætti og kjarasamningur á milli aðila og gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Endanlegt uppgjör launa skal fara fram eigi síðar en mánuði eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir.
    Í gerðardómi skulu eiga sæti þrír menn sem tilnefndir eru af Hæstarétti Íslands. Gerðardómur setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim sem gerðardómur telur nauðsynlegt og getur kvatt sérfróða menn til starfa í þágu dómsins og til ráðuneytis um úrlausn mála. Aðilar skulu eiga rétt á að gera gerðardómi grein fyrir sjónarmiðum sínum. Skal gerðardómur ætla þeim hæfilegan tíma í því skyni. Gerðardóminum skal séð fyrir viðunandi starfsaðstöðu.
    Kostnaður af starfi gerðardóms greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

Ákvörðun gerðardóms.

    Gerðardómur skal meta hvort útfærsla kjarasamnings Flugvirkjafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, skuli vera í samræmi við fyrirkomulag annarra starfsstétta hjá stofnuninni, að teknu tilliti til inntaks starfa og rekstrarumhverfis, eða hvort útfærslan skuli sjálfkrafa taka mið af fyrirkomulagi annarra sambærilegra starfsstétta á almennum vinnumarkaði. Gerðardómur skal, eftir því hvor leiðin verður valin, leggja mat á það með hvaða hætti kjör skulu útfærð í heildstæðum kjarasamningi.
    Komi aðilar vinnudeilunnar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni, án þess að vilja gera um það dómsátt, skal gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína en hefur þó frjálsar hendur um tilhögun mála. Heimilt er gerðardómi að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt á milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardómsins, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómurinn ekki ákvörðun um þau atriði sem samkomulagið eða dómsáttin tekur til.

4. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa verið í verkfalli frá 6. nóvember 2020 með þeim afleiðingum að nú er engin starfhæf þyrla eða flugvél til taks hjá Landhelgisgæslu Íslands. Það er neyðarástand sem varðar bæði sjófarendur og almenning. Þann 26. nóvember var gerð lokatilraun til að semja við Flugvirkjafélag Íslands án árangurs og hafnaði félagið jafnframt sáttatillögu ríkissáttasemjara. Markmiðið með lagasetningu þessari er, vegna þess neyðarástands sem upp er komið, að binda enda á vinnustöðvun flugvirkja Landhelgisgæslunnar og vísa kjaradeilunni í gerðardóm.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Staða og áhrif kjaradeilu.
    Kjarasamningur Flugvirkjafélags Íslands við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, vegna flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands, rann út 31. desember 2019 og hófust samningaviðræður í febrúar 2020. Flugvirkjafélag Íslands vísaði deilunni til ríkissáttasemjara í maí 2020 og í október tilkynnti félagið um boðað verkfall, frá miðnætti aðfararnótt 6. nóvember 2020. Á fundi samningsaðila hjá ríkissáttasemjara þann 26. nóvember 2020 varð ljóst að aðilar næðu ekki saman með samningum og höfnuðu flugvirkjar jafnframt innanhústillögu ríkissáttasemjara.
    Með erindi, dags. 18. nóvember 2020, upplýsti Landhelgisgæsla Íslands dómsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og ríkislögreglustjóra um yfirvofandi neyðarástand hjá stofnuninni að því er varðar björgunarviðbragðsgetu. Verkfallsaðgerðir flugvirkja kæmu í veg fyrir að Landhelgisgæslan gæti haldið úti nauðsynlegri öryggis- og björgunarþjónustu og það stefndi í að öll loftför stofnunarinnar yrðu óstarfhæf innan fárra daga, í síðasta lagi miðvikudaginn 25. nóvember en jafnvel fyrr ef óvæntar bilanir kæmu upp. Neyðarástand skapast þegar þyrlufloti Landhelgisgæslunnar stöðvast. Engin björgunarþyrla er þá til taks í landinu sem er grafalvarlegt mál, einkum fyrir áhafnir og farþega skipa þegar engar aðrar bjargir eru nálægar á hafi úti.
    Landhelgisgæslan hefur þrátt fyrir verkfall reynt að tryggja lágmarks neyðarþjónustu og gert allt sem í hennar valdi stendur til að halda þyrlunni TF-GRO í flughæfu ástandi. Verkefnum og æfingum hefur verið frestað til að unnt sé að bregðast við neyðartilfellum en ljóst er að slíkt ástand getur ekki varað lengi. Þann 19. nóvember hafði vegna verkfallsins engin viðhaldsvinna farið fram í tæpar tvær vikur á þyrlunum TF-EIR og TF-LIF auk þess sem ástandið kemur til með að seinka innleiðingu á leiguþyrlunni TF-GNA sem væntanleg er í janúar. Þá hefur verkfallið sömuleiðis haft áhrif á verkefni eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar og getur hún því hvorki sinnt löggæsluhlutverki sínu né framfylgt alþjóðlegum skuldbindingum gagnvart Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópusambandsins (Frontex).
    Sáttatilraunir hafa reynst árangurslausar og engin lausn er í sjónmáli. Brýnt er að bregðast við til að afstýra því að björgunargeta flugdeildar Landhelgisgæslunnar lamist. Kjaradeilan varðar almannahagsmuni og almannaöryggi.

2.2. Hlutverk Landhelgisgæslu Íslands.
    Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru notaðar til leitar, björgunar og sjúkraflugs innan efnahagslögsögunnar og eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðis- og öryggisþjónustu fyrir sjófarendur og almenning. Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar falla undir skilgreiningu á heilbrigðisþjónustu í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007. Þegar skip lendir í neyð úti á hafi, og engin önnur skip eru nærstödd, geta björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar verið eina úrræðið til að koma áhöfn og farþegum til bjargar. Sama á við þegar koma þarf sjúklingi um borð í skipi með hraði á sjúkrahús. Þyrlurnar eru sérstaklega útbúnar til björgunarstarfa á hafi og sinna jafnframt leit, björgun og neyðarsjúkraflugi á landi í þágu almennings. Eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar er lykileining við leit að nauðstöddum, sérstaklega á ytri mörkum efnahagslögsögunnar og utan hennar á gríðarstóru leitar- og björgunarsvæði Íslands sem nær langt út fyrir efnahagslögsöguna. Flugvélin er búin fullkomnum ratsjám og hitamyndavél og frá henni er unnt að varpa björgunarbúnaði til nauðstaddra. Þetta er sérstaklega mikilvægt á svæðum sem eru utan drægni þyrlnanna og aðeins er hægt að sinna leit og björgun með flugvélum og skipum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila og bann við vinnustöðvunum, verkfalli eða öðrum aðgerðum sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin kveða á um frá því að frumvarpið tekur gildi. Lögin koma þó ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning án aðkomu gerðardóms.
    Samningsaðilum sem frumvarpið nær til er veittur frestur til 4. janúar 2021 til þess að ljúka samningum sín í milli. Takist það ekki skal skipaður gerðardómur sem skeri úr um kjaramál þeirra félagsmanna sem aðild eiga að Flugvirkjafélagi Íslands. Skal gerðardómur ljúka störfum fyrir 17. febrúar 2021 hafi aðilar ekki gert með sér kjarasamning fyrir þann tíma.
    Í frumvarpinu eru sett fram viðmið sem gerðardómur skal taka mið af við ákvörðun sína eins og nánar er rakið í skýringum við 3. gr.
    Að auki eru í frumvarpi þessu ákvæði þess efnis að komi deiluaðilar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni skuli gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína innan þess ramma sem frumvarpið setur.
    Þá er og ákvæði um að gerðardómi sé heimilt að beita sér fyrir sátt milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir hans, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og taki gerðardómur þá ekki ákvörðun um atriði sem sáttin taki til innan þess ramma sem frumvarpið setur.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðasamninga.
    Í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þ.m.t. stéttarfélög. Þá segir í 2. mgr. 75. gr. að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Þessi ákvæði ber að skýra í ljósi alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt. Þar ber helst að nefna mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994, en félagafrelsið er tryggt í 11. gr. hans.
    Þótt stjórnarskráin og MSE tryggi verkfallsréttinn ekki berum orðum hafa Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evrópu talið að hann njóti að einhverju marki verndar á grundvelli túlkunar viðkomandi ákvæða. Rétturinn til að semja um starfskjör er hins vegar verndaður berum orðum í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar þótt því sé síðan vísað til löggjafans að útfæra nánar hvert inntak þess réttar skuli vera.
    Í dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002 í máli nr. 167/2002, Alþýðusamband Íslands gegn íslenska ríkinu og Samtökum atvinnulífsins, var því slegið föstu að túlka beri 74. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af 11. gr. MSE. Ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar veiti þannig ekki minni vernd en 11. gr. MSE. Í þeim dómi kom jafnframt fram að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi stéttarfélaga sé leið að slíku marki og njóti sérstakrar verndar. Líta verði svo á að verkfallsrétturinn sé hluti af samningsfrelsi þeirra þegar litið sé til þess eðlis hans að hann sé lögbundin leið til að knýja gagnaðila til að ganga til samninga.
    Fram kemur í dómnum að 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar feli ekki í sér skilyrðislausa vernd verkfallsréttar stéttarfélaga. Hins vegar verði að líta svo á að samningsfrelsi verkalýðsfélaga og beitingu verkfallsréttar megi aðeins skerða með lögum og að uppfylltum sambærilegum skilyrðum og þeim sem koma fram í 2. mgr. 11. gr. MSE. Ekki verði séð að 2. mgr. 11. gr. eða aðrir alþjóðlegir samningar um félagsleg réttindi sem Ísland er bundið af útiloki að löggjafanum geti verið rétt að setja lög sem banna verkföll. Hins vegar verði að gera strangar kröfur til lagasetningar sem feli í sér slíkt bann. Í 2. mgr. 11. gr. MSE er jafnframt tekið sérstaklega fram að ákvæðið standi því ekki í vegi að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti.
    Í því tilviki sem hér um ræðir verður að telja að þær kröfur sem ákvæði stjórnarskrárinnar og MSE setja fyrir því að skerða megi verkfallsréttinn séu fyrir hendi. Þau þrjú meginskilyrði sem þurfa almennt að vera til staðar eru þessi: 1) skerðing verður að byggjast á lögum, 2) lagasetningin þarf að vera í þágu almannahagsmuna eða réttinda annarra, og 3) hún verður að vera nauðsynleg til að þeirra hagsmuna og réttinda sé gætt. Þáttur í mati á nauðsyn er svo að meðalhófs sé gætt. Verður nú vikið nánar að þessum skilyrðum.

1. Skerðing byggist á lögum.
    Það leiðir af 74. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hún hefur verið skýrð í dómaframkvæmd, að skerðing verkfallsréttar verði að eiga sér stað með lögum. Með frumvarpinu er lagt til að Alþingi setji lög sem leggi bann við verkfallsaðgerðum, vinnustöðvunum eða öðrum aðgerðum tiltekinna starfsmanna Landhelgisgæslunnar sem ætlað sé að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin ákveða.

2. Í þágu almannahagsmuna og réttinda annarra.
    Skerðing verkfallsréttar er einungis heimil ef hún þjónar tilteknum almannahagsmunum eða réttindum annarra, sbr. 2. mgr. 11. gr. MSE sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62/1994. Í 2. mgr. 11. gr. segir að réttur skv. 1. mgr. um félagafrelsi skuli eigi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Verkfallsbann það sem hér er lagt til er í þágu almannaheilla og þjóðaröryggis og til verndar heilsu landsmanna og sjófarenda. Landhelgisgæslan sinnir verkefnum í almannaþágu eins og ítarlega er rakið í kafla 2 í greinargerð. Forstjóri Landhelgisgæslunnar á sæti í þjóðaröryggisráði vegna mikilvægis stofnunarinnar við verndun þjóðaröryggis, sbr. 3. gr. laga um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016. Landhelgisgæslan sinnir jafnframt verkefnum samkvæmt varnarmálalögum. nr. 29/2008, sem varða þjóðaröryggi. Landhelgisgæslan sinnir aðkallandi sjúkraflutningum í samvinnu við aðra björgunaraðila, aðstoðar við almannavarnir og sinnir jafnframt almennu sjúkraflugi og aðstoð við læknisþjónustu eins og fram kemur í 4. og 5. gr. laga um Landhelgisgæsluna. Ljóst er að öll skilyrði 2. mgr. 11. gr. MSE eru uppfyllt. Landhelgisgæslan getur ekki starfað í þágu þjóðaröryggis og almannaheilla, verndað heilsu þegar helstu tæki hennar til þess eru óstarfhæf sökum verkfalls flugvirkja.

3. Nauðsyn.
    Lög sem þjóna lögmætum markmiðum verða einnig að svara brýnni þörf og ekki er heimilt að ganga lengra en þörf krefur, sbr. 2. mgr. 11. gr. MSE. Hvað skilyrðið um nauðsyn snertir má vísa til skýringa í greinargerð hér að framan. Skilyrðið á ótvírætt við um liðsmenn lögreglu, auk hers, eins og rakið er undir lið 4 hér á eftir, með vísan til þess sem að framan er rakið um hlutverk Landhelgisgæslunnar og tilefni lagasetningarinnar. Telja verður brýna nauðsyn á því að setja slík lög til að koma í veg fyrir að flugvirkjar geti lamað stofnunina með verkfalli og þar með komið í veg fyrir að stofnunin sinni lögbundnu hlutverki sínu.

4. Óskilyrtur réttur að því er varðar liðsmenn hers og lögreglu.
    Sérstaklega er tekið fram í lokamálslið 2. mgr. 11. gr. MSE, sem lögfestur er hér á landi, að ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti.
    Verkefni Landhelgisgæslunnar eru eins og að framan greinir sambærileg við verkefni hers og lögreglu erlendis og því er réttur til verkfalls starfsmanna slíkra stofnana ekki verndaður samkvæmt MSE. Landhelgisgæslan er löggæslustofnun og sinnir margvíslegum verkefnum sem erlendir herir sjá um. Landhelgisgæslan sinnir einnig loftrýmisgæslu og fleiri verkefnum samkvæmt varnarmálalögum, nr. 34/2008, sem felur í sér samstarfsverkefni með erlendum herjum er varða þjóðaröryggi.
    Í máli nr. 45892/09, Junta Rectora Del Ertzainen Nazional Elkartasuna (ER.N.E.) gegn Spáni, 21. apríl 2015 fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, var fjallað um funda- og félagafrelsi lögreglumanna og bann við verkföllum. Dómurinn er reifaður í 1. hefti 2015 útg. af Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Kærandi var stéttarfélag stofnað árið 1985 og skráð í Bilbao á Spáni. Það er stærsta stéttarfélag lögreglumanna Baskahéraðanna sem starfa á sjálfsstjórnarsvæði Baska. Árið 2004 slitnaði upp úr samningaviðræðum um kjaramál lögreglumanna og óskaði kærandi í kjölfarið eftir leyfi til verkfallsaðgerða af hálfu meðlima sinna. Leyfinu var synjað á þeim grundvelli að lögum samkvæmt hefðu öryggissveitir ríkisins ekki verkfallsrétt og væri lögregla sjálfsstjórnarhéraða Baska hluti af öryggissveitum spænska ríkisins. Tilraunir kæranda til áfrýjunar báru ekki árangur þar sem talið var að umrætt bann bryti hvorki gegn stjórnarskrárvörðum verkfallsrétti né banni gegn mismunun. Kærandi taldi brotið gegn ákvæði 11. gr. MSE um félagafrelsi, bæði einni sér og ásamt 14. gr. sáttmálans. Byggt var á því að bann við verkfalli fæli í sér mismunun gegn meðlimum félagsins þar sem aðrir hópar sem gegndu svipuðum skyldum hefðu verkfallsrétt. Dómstóllinn taldi að skerðing á verkfallsrétti meðlima stéttarfélagsins ætti sér stoð í lögum frá 1986 um öryggissveitir. Talið var að lögin væru skýr um að meðlimir stéttarfélaga lögreglumanna féllu undir bann við verkfallsaðgerðum. Þá var talið í ljósi skyldustarfa lögreglu og afleiðinga hlés á störfum hennar að skerðingin stefndi að því lögmæta markmiði að firra glundroða. Talið var að það réttlætti skerðingu félagafrelsis lögreglumanna og að skerðing á verkfallsrétti gengi ekki lengra en nauðsynlegt væri í lýðræðislegu þjóðfélagi, enda þjónaði skerðingin hagsmunum ríkisins og sér í lagi því að tryggja þjóðaröryggi, almannaheill og firra glundroða. Þá var talið að eðli löggæslustarfa leiddi til þess að ríkið hefði rúmt svigrúm til mats við reglusetningu sem varðaði störf stéttarfélaga, enda þótt ekki mætti setja reglur sem virtu ekki kjarna réttinda þeirra samkvæmt 11. gr. MSE. Í því sambandi leit dómstóllinn til þess að ráðherranefndin hefði talið að algjört bann við verkfallsrétti lögreglu stríddi hvorki gegn Félagsmálasáttmálanum né dómaframkvæmd sem varðaði túlkun hans. Að mati dómstólsins var engin ástæða til að komast að annarri niðurstöðu í þessu máli. Hvað varðar sjónarmið um mismunun taldi dómstóllinn þær skýringar sem ríkið hefði fært fram um hið sérstaka eðli lögbundinna skyldna öryggissveita ríkisins eðlilegar og ekki bera merki um geðþótta sem gæti bent til mismununar.
    Í kafla 2.1 og 2.2 hér að framan er farið rækilega yfir þá almannahagsmuni sem hér eru í húfi, þ.e. einkum að ríkið geti sinnt lögbundnum skyldum sínum og þjónustu í þágu löggæslu, öryggis og heilbrigðis sjófarenda og almennings.
    Fyrir liggur að kjaradeilan varðar almannahagsmuni og almannaöryggi. Öryggi sjófarenda er stefnt í voða því þegar neyð steðjar að úti á hafi er þyrla oft og tíðum eina leiðin til að bjarga áhöfn og farþegum skipa ef engar aðrar bjargir eru nærstaddar. Þyrlurnar eru nýttar til margvíslegra annarra björgunar- og leitarstarfa þar sem hver mínúta getur skipt máli upp á mörkin milli lífs og dauða eins og áður er rakið. Því standa mjög ríkir almannahagsmunir til þess að starfsemi flugdeildar Landhelgisgæslunnar komist í eðlilegt horf án tafar.
    Við mat á nauðsyn skerðingar á þeim mannréttindum sem njóta verndar stjórnarskrárinnar er jafnan litið til þess hvort meðalhófs hafi verið gætt. Þáttur í því er að hin fyrirhugaða lagasetning gangi ekki lengra en þörf krefur. Þrátt fyrir að bann við verkföllum taki gildi þegar í stað samkvæmt frumvarpinu verður ekki gripið inn í frelsi til að gera samninga með gerðardómi fyrr en að ákveðnum tíma liðnum. Aðilum er þannig gefinn ákveðinn frestur til að ná samningum. Þykir sú leið ganga skemmra en ef gerðardómur tæki umsvifalaust til starfa. Með frumvarpinu er lagt til að verkföll verði bönnuð í tiltekinn tíma. Ef ekki nást samningar fyrir tiltekið tímamark taki hlutlaus og sjálfstæður gerðardómur til starfa og ákveði laun og starfskjör þeirra sem hlut eiga að máli. Allir þrír dómendur verða tilnefndir af Hæstarétti Íslands.
    Ekki verður heldur litið fram hjá því að með aðgerðum sínum hefur Flugvirkjafélag Íslands nýtt rétt sinn til verkfallsaðgerða en verkfall hefur staðið frá 6. nóvember sl. Ótækt er að vinnudeilan haldi áfram að stefna almannahagsmunum í voða og er stjórnvöldum nauðugur sá kostur að grípa inn í. Bannið við verkföllum er einnig, samkvæmt frumvarpinu, afmarkað þannig að félagið getur neytt verkfallsréttar síns á ný að ákveðnum tíma liðnum, þ.e. þegar tímamörkum ákvörðunar gerðardóms er náð.

5. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er lagt til bann við verkfallsaðgerðum og frekari vinnustöðvunum eða öðrum aðgerðum sem er ætlað að knýja fram aðra skipan kjaramála en frumvarpið nær til vegna kjaradeilu ríkisins og Flugvirkjafélags Íslands. Þá er lagt til að hafi aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 4. janúar 2021 skuli Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá aðila í gerðardóm sem skal fyrir 17. febrúar 2021 ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna sem frumvarpið nær til. Kostnaður af starfi gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði.
    Ljóst er að ríkir almannahagsmunir eru til staðar fyrir því að stöðva kjaradeilu aðila til að tryggja þá hagsmuni sem hér eru í húfi og eru óumdeilanlegir.
    Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að tímabundinn kostnaður ríkisins á árinu 2021 vegna gerðardómsins verði á bilinu 15–20 millj. kr. sem felst einkum í þóknunum og aðkeyptri sérfræðivinnu.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila frá því að frumvarpið fær lagagildi og á gildistíma ákvarðana gerðardómsins. Vinnustöðvanir deiluaðila, sem og hvers konar verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en frumvarpið gerir ráð fyrir, eru samkvæmt því óheimilar. Gildir einu í því sambandi hvort aðgerðir séu hafnar eða boðaðar áður en frumvarpið fær lagagildi. Aðilum er heimilt að semja um aðra skipan kjaramála en þeim er óheimilt að beita framangreindum úrræðum til að knýja fram þá skipan.

Um 2. gr.

    Samkvæmt greininni er samningsaðilum sem frumvarpið nær til veittur frestur til 4. janúar nk. til þess að ljúka samningum sín í milli. Takist það ekki skal Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skeri úr um kjaramál þeirra félagsmanna sem aðild eiga að Flugvirkjafélagi Íslands og starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands. Skal gerðardómur ljúka störfum fyrir 17. febrúar nk. hafi aðilar ekki gert með sér kjarasamning fyrir þann tíma.
    Gert er ráð fyrir því að ákvarðanir gerðardómsins verði bindandi sem kjarasamningur á milli aðila og gildi jafnframt þann tíma sem gerðardómurinn ákveður. Þá er tekið fram í greininni að endanlegt uppgjör launa samkvæmt ákvörðunum gerðardómsins skuli fara fram eigi síðar en mánuði eftir að niðurstaða hans liggur fyrir.
    Í gerðardómi skulu vera þrír menn sem Hæstiréttur Íslands tilnefnir. Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja skuli vera formaður dómsins og kallar sá dóminn saman.
    Gerðardómnum er sjálfum ætlað að setja sér starfsreglur og afla nauðsynlegra gagna og getur hann krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra, af þeim aðilum sem gerðardómurinn telur nauðsynlegt. Gerðardómi skal útveguð vinnuaðstaða og er honum heimilt að kalla til sérfróða aðila til starfa í þágu dómsins. Þá er kveðið á um rétt aðila til að koma sjónarmiðum sínum að við umfjöllun gerðardómsins, hvort sem er munnlega eða skriflega, og skal gerðardómurinn ætla þeim hæfilegan frest í því skyni.
    Allur kostnaður við störf gerðardómsins greiðist úr ríkissjóði.

Um 3. gr.

    Í frumvarpinu eru settar fram þær forsendur sem gerðardómur skal hafa til hliðsjónar við ákvörðun sína um laun og önnur starfskjör félagsmanna Flugvirkjafélags Íslands sem starfa hjá Landhelgisgæslunni. Gerðardómi er ætlað að taka afstöðu til þess hvort útfærsla kjarasamnings flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands um laun og önnur starfskjör skuli taka mið af inntaki starfs, rekstrarumhverfi stofnunar og fyrirkomulagi hjá öðrum stéttum er starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands eða hvort útfærsla samningsins eigi sjálfkrafa að miða við sambærilegar stéttir á almennum vinnumarkaði. Í báðum tilfellum er gerðardómi ætlað að leggja mat á það með hvaða hætti kjör skulu útfærð í heildstæðum kjarasamningi. Gerðardómurinn þarf því að taka afstöðu til þess hvort nýr kjarasamningur flugvirkja skuli miða við aðstæður og vinnufyrirkomulag hjá Landhelgisgæslu Íslands, líkt og gildir um aðrar starfsstéttir hjá Landhelgisgæslunni, eða eigi sjálfkrafa að taka mið af kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins f.h. Icelandair Group við Flugvirkjafélag Íslands.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að aðilar geti sameiginlega beint óskum til gerðardómsins um að tilteknum atriðum verði hagað í úrskurði með þeim hætti sem aðilar óska. Gerðardómurinn er þó ekki bundinn af þessum tilmælum þótt hann skuli taka mið af þeim.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að aðilar geti, með milligöngu gerðardómsins, gert með sér bindandi samkomulag eða sátt um tiltekin atriði sem eru þá fullnaðarlyktir á þeim með aðilum og bindandi fyrir gerðardóminn. Gerðardómurinn úrskurðar þá um önnur atriði en þau sem samkomulag eða sátt hefur tekist um. Getur þetta flýtt mjög vinnu gerðardómsins og er hvatning til deiluaðila að leggja sitt af mörkum við lausn deilunnar. Lögin koma að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning þótt gerðardómur hafi tekið til starfa.

Um 4. gr.

    Grein þessi þarfnast ekki skýringa.