Ferill 353. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 439  —  353. mál.
Frumvarp til laga


um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

Flm.: Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Landsnet hefur leyfi til framkvæmda við lagningu raflínu, Suðurnesjalínu 2, samkvæmt aðalvalkosti, valkosti C, í skýrslu Landsnets um mat á umhverfisáhrifum, þrátt fyrir ákvæði skipulagslaga, nr. 123/2010, og ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Sveitarfélögin Hafnarfjörður, Vogar, Reykjanesbær og Grindavík skulu birta opinbera tilkynningu þessa efnis innan tveggja vikna frá gildistöku laga þessara.
    Gildistími framkvæmdaleyfis er 12 mánuðir frá tilkynningu sveitarstjórnar.
    Viðkomandi sveitarfélag skal hafa eftirlit með framkvæmdunum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Markmiðið með framlagningu frumvarps þessa er að lögfest verði heimild til að veita Landsneti leyfi til framkvæmdar við lagningu Suðurnesjalínu 2 í landi sveitarfélaganna Hafnarfjarðar, Voga, Reykjanesbæjar og Grindavíkur. Styrking flutningskerfis raforku á Suðurnesjum er aðkallandi verkefni og hafa Suðurnes verið sett í forgang með þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku nr. 26/148. Mikilvægi framkvæmdarinnar er óumdeilt og framkvæmdin er á skipulagi þeirra sveitarfélaga sem hún liggur um. Þá lauk mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með áliti Skipulagsstofnunar 22. apríl 2020 en í því var fjallað ítarlega um aðalvalkost framkvæmdaraðila, auk fimm annarra valkosta. Þrátt fyrir þetta hafa orðið óútskýrðar tafir á framkvæmdaleyfum vegna framkvæmdarinnar. Í því sambandi verður einnig að horfa til þess að umrædd sveitarfélög höfðu áður gefið út framkvæmdaleyfi vegna framkvæmdarinnar sem ógilt voru á grundvelli þess að ekki hefði verið fjallað nægjanlega um jarðstrengsvalkosti í mati á umhverfisáhrifum. Úr þeim ágalla hefur nú verið bætt og niðurstaðan er sú að aðalvalkostur sé heppilegastur með tilliti til kostnaðar og náttúruvárhættu á svæðinu. Þá liggur fyrir að framkvæmdin uppfyllir ekki þau viðmið sem sett eru um lagningu jarðstrengja í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína nr. 11/144, nema á því svæði sem næst er Hafnarfirði. Þá liggur fyrir að möguleikar til lagningar jarðstrengja á svæðinu eru að einhverju leyti takmarkaðir, sbr. skýrsluna Jarðstrengir í flutningskerfi raforku eftir Hjört Jóhannsson. Líklegt er að jarðstrengsmöguleikar nýtist betur í öðrum hlutum flutningskerfisins á svæðum sem falla undir viðmið í stefnu um lagningu raflína. Frekari dráttur á framkvæmdum er því óviðunandi þegar um svo mikilvæga framkvæmd er að ræða.
    Um langa hríð hefur Landsnet áformað byggingu 220 kV raflínu milli Hafnarfjarðar og Rauðamels í landi Grindavíkur, Suðurnesjalínu 2. Markmið framkvæmdarinnar er að auka afhendingaröryggi og flutningsgetu en framkvæmdin er mikilvæg fyrir meginflutningskerfið og tengingu milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Landsnet hefur það lögbundna hlutverk að annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfisins frá virkjun að tengipunktum og er jafnframt skylt að reka öruggt og skilvirkt flutningskerfi og skila truflanalausri raforku með tryggu afhendingaröryggi og gæðum innan viðmiðunarmarka til notenda, sbr. ákvæði raforkulaga, nr. 65/2003. Svo að þau markmið náist þarf Landsnet stöðugt að vinna að viðhaldi og endurnýjun flutningskerfisins í því skyni að uppfæra kerfið á hagkvæman og öruggan hátt.
    Suðurnesjalína 1, 132kV raflína, liggur frá Hamranesi í Hafnarfirði að Fitjum í Reykjanesbæ og er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum en ekki eru til staðar aðrar flutningsleiðir raforku fari hún úr rekstri.
    Samkvæmt skýrslu orkuspárnefndar, Raforkuspá 2018–2050, og framtíðaráætlunum sveitarfélaga á Suðurnesjum mun eftirspurn eftir raforku aukast hraðar þar en annars staðar á landinu. Byggist spáin m.a. á spám um hagvöxt, spám um ætlaðan íbúafjölda, þróun atvinnustarfsemi og margvíslegrar raforkunotkunar. Er því spáð að raforkunotkunin 2020 verði 209 MW og 248 MW árið 2050. Stafar það m.a. af áformum um aukna raforkunotkun gagnavera á Suðurnesjum, auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli og örari fólksfjölgun. Áhrif þess að Suðurnesjalína 1 fari skyndilega úr rekstri eru nær undantekningarlaust rafmagnsleysi á Suðurnesjum, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heimili og atvinnulíf.

Mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2.
    Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt tölul. 3.08 í 1. viðauka laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og liggur þegar fyrir mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 auk álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 22. apríl 2020.
    Undirbúningur vegna Suðurnesjalínu 2 hefur staðið lengi yfir. Verkefnið var á sínum tíma hluti af mun umfangsmeira umhverfismati Suðvesturlína, en nú afmarkast matið eingöngu við Suðurnesjalínu 2. Í kjölfar dóma um ógildingu á heimild til eignarnáms og leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2, ásamt ógildingu á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Voga, ákvað Landsnet að vinna nýtt umhverfismat, m.a. mat á umhverfisáhrifum ólíkra valkosta. Þeir valkostir framkvæmdarinnar sem hafa verið til skoðunar í mati á umhverfisáhrifum eru sex talsins. Allir sex kostirnir eru taldir uppfylla meginmarkmið framkvæmdarinnar, sem er að auka afhendingaröryggi og flutningsgetu raflína á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Þá falla valkostir Suðurnesjalínu 2 vel að stefnu svæðisskipulags Suðurnesja 2008–2024.
    Aðalvalkostur Landsnets (valkostur C) fylgir lagnaleið aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013–2025 og felst í lagningu 32 km loftlínu um Hrauntungur. Frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Sveitarfélagsins Voga liggur hún samhliða Suðurnesjalínu 1. Innan þéttbýlismarka Hafnarfjarðar liggur svo 1,4 km jarðstrengur í jörðu á milli Hamraness og Hraunhellu. Raflínan er alls um 33,9 km löng og er stofnkostnaður áætlaður um 2.329 millj. kr.
    Þá eru allir sex valkostir Landsnets í samræmi við stefnu aðalskipulags Reykjanesbæjar 2015–2030 um háspennulínur og jarðstrengi og flutningssvæða þeirra. Hið sama gildir um aðalskipulag Grindavíkur 2010–2030. Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008–2028 er mörkuð sú stefna að nýjar rafmagnslínur verði lagðar í jörðu þar sem því er við komið og þar sem rafmagnslínur verði ofan jarðar (loftlínur) verði leitast við að draga úr sjónrænum áhrifum eins og frekast er kostur. Valkostur um loftlínu (C) er í samræmi við stefnu aðalskipulagsins um háspennulínur og jarðstrengi.
    Vegna aukinna jarðhræringa á svæðinu var í kjölfar mats á umhverfisáhrifum farið í frekari skoðun á mögulegum áhrifum eldgosa og jarðhræringa á fyrirhuguð mannvirki. Niðurstöður þeirrar skoðunar eru að loftlína sé mun öruggari valkostur en jarðstrengur við þær aðstæður sem er að finna á leið Suðurnesjalínu 2. Hvað varðar eldsumbrot og hraunrennsli er áhættan talin mjög sambærileg fyrir þá valkosti sem eru til skoðunar. Þar sem tíðni jarðhræringa á svæðinu með varanlegum höggunarhreyfingum eða mögnunar á hreyfingu við sprungubrúnir er umtalsvert meiri en tíðni eldgosa er talið rétt að miða frekar við slíka atburði við mat á líkum og jarðfræðilegri hættu við Suðurnesjalínu 2.

Suðurnesjalína 2 og millilandaflugvöllur.
    Hinn 22. apríl sl. gaf Skipulagsstofnun út álit um mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2. Taldi stofnunin umhverfismatið hafa leitt í ljós að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Æskilegasti kosturinn að mati stofnunarinnar sé því valkostur B meðfram Reykjanesbraut með jarðstrengjum þar sem raflínan er fyrirhuguð við Hvassahraun. Þar hafa stjórnvöld til athugunar að byggja upp nýjan flugvöll, sé tekið mið af þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Valkostur B, jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut, fylgir röskuðu svæði meðfram veginum innan svæðis en breikkar það að einhverju leyti. Nýtt rask vegna þeirrar leiðar er 2,84 ha. Samkvæmt matsskýrslu er valkostur B talinn hafa nokkuð neikvæð áhrif á jarðminjar sem felast fyrst og fremst í raski í tiltölulega úfnu hrauni með fjölda rishóla og hraunbolla og við Vogaheiði en þar er sigdalur sem einkennist af misgengi og sprungum. Þá er valkostur B innan veghelgunarsvæðis Reykjanesbrautar, sem er ekki í samræmi við lýsingu á legunni í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga.
    Áætlað er að það kosti rúmlega 300 milljarða kr. að gera nýjan millilandaflugvöll í Hvassahrauni en kostnaður við áframhaldandi uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli er rúmir 160 milljarðar kr. samkvæmt skýrslu starfshóps undir formennsku Eyjólfs Árna Rafnssonar, sem var falið að fjalla um og greina flugvallarkosti á suðvesturhorni landsins og skilaði niðurstöðum sínum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í nóvember 2019. Ef ráðist yrði í nýjan flugvöll í Hvassahrauni þyrfti eigi að síður samhliða því að halda áfram einhverri uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Munur á stofnkostnaði þessara tveggja valkosta fyrir miðstöð millilandaflugs er það mikill að ekki er fyrirsjáanlegt að hægt sé að ná nauðsynlegu rekstrarhagræði til að réttlæta flutning millilandaflugs frá Keflavíkurflugvelli í Hvassahraun. Við bætist mikil óvissa í langtímaspám í vexti á flugumferð sem taka verður með í reikninginn. Hvað möguleg áform um alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni varðar er ljóst að nýr flugvöllur yrði ekki tilbúinn fyrr en eftir hátt í tvo áratugi ef allt gengi upp. Til næstu áratuga er því um tvennt að velja; annars vegar að stöðva eða hægja á uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og hamla vexti flugsins og ferðaþjónustunnar, eða halda áfram uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og líta á þann kostnað sem sokkinn kostnað þegar nýr flugvöllur tekur til starfa, þegar og ef að því kemur. Hvort heldur sem annar valkosturinn verður fyrir valinu umfram hinn, þá þarf nauðsynlega að ráðast í framkvæmd Suðurnesjalínu 2 til þess að þjónusta þá starfsemi sem nú þegar er fyrir á Suðurnesjunum og til framtíðar. Að auki hafa miklar jarðhræringar átt sér stað á árinu á þessu svæði og mikill hiti er í jörðu sem gerir það að verkum að valkostur B er nú háður meiri takmörkunum en áður var talið. Þá ber þess einnig að geta að raffræðilegar ástæður lengdartakmarkana fyrir notkun jarðstrengja búa að baki aðalvalkosti Landsnets en helsta orsök lengdartakmarkana er að launaflsframleiðsla jarðstrengja er margföld á við loftlínur, sem getur leitt til þess að spenna innan línuleiðar haldist ekki innan vikmarka, með of miklu spennuþrepi. Langur strengur í jörðu getur því breytt raffræðilegum eiginleikum raforkukerfisins í heild sinni og aukið hættu á of hárri mögnun yfirtóna og þar með of mikilli bjögun á spennu. Einungis mætti koma um 10% af rúmlega 1.000 km af 132 kV loftlínum í jörðu og einungis mætti koma um 5% af heildarlengd nýrra 220 kV lína í jörðu samkvæmt greiningu dr. Hjartar Jóhannssonar, óháðs sérfróðs aðila um jarðstrengi í flutningskerfi raforku, frá árinu 2019.

Suðurnesjalína 2 mikilvæg framkvæmd út frá þjóðarhagsmunum.
    Suðurnesjalína 2 er framkvæmd sem er mikilvæg út frá þjóðarhagsmunum og því þarf ekki að fjölyrða um brýna nauðsyn þess að ráðast í hana. Óviðunandi töf hefur nú þegar orðið á málinu sem hefur velkst í kerfinu árum saman. Flutningsmenn telja ekki ásættanlegt að íbúar svæðisins þurfi að líða fyrir þær miklu ógöngur sem leyfisveiting til þessarar framkvæmdar hefur lent í. Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að grípa í taumana til að koma í veg fyrir frekari tafir og flýta því að framkvæmdir geti hafist og leggja sem fyrr segir til að lögfest verði heimild fyrir framkvæmdinni til að eyða óvissu.