Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 443  —  351. mál.
Leiðréttur texti. Gestir.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, Rögnu Bjarnadóttur og Dagmar Sigurðardóttur frá dómsmálaráðuneyti, Sverri Jónsson, Söru Lind Guðbergsdóttur og Pétur Jónasson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Árna Frey Sigurðsson, Guðmund Úlfar Jónsson, Magnús Inga Finnbogason, Daða Örn Heimisson og Jóhann Baldur Finnbogason frá Flugvirkjafélagi Íslands, Georg Lárusson, Guðríði M. Kristjánsdóttur, Svanhildi Sverrisdóttur og Fríðu Aðalgeirsdóttur frá Landhelgisgæslu Íslands og Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara. Nefndinni barst umsögn um málið frá Flugvirkjafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélags Íslands gagnvart íslenska ríkinu vegna starfa flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands verði óheimilar jafnskjótt og það verður að lögum. Þá skuli vísa kjaradeilu fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Flugvirkjafélags Íslands til gerðardóms hafi aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 4. janúar 2021.
    Kjarasamningur flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni rann út 31. desember 2019 og hófust viðræður um nýjan samning í febrúar 2020. Flugvirkjafélag Íslands boðaði verkfallsaðgerðir í október og verkfall hófst 6. nóvember sl. Aðdraganda, tilefni og nauðsyn frumvarpsins er nánar lýst í greinargerð með því.
    Í umsögn Flugvirkjafélags Íslands til nefndarinnar eru alvarlegar athugasemdir gerðar við að endi verði bundinn á verkfallsaðgerðirnar með lagasetningu. Með henni sé vegið að samningsfrelsi og verkfallsrétti félagsins með þeim hætti að stangist á við stjórnarskrána og alþjóðasamninga, sbr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Með lögum nr. 17/2010 var lagt bann við vinnustöðvunum á grundvelli verkfalls Flugvirkjafélags Íslands hjá Icelandair hf. sem hófst 22. mars 2010. Í nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar um frumvarpið, sbr. 483. mál á 138. löggjafarþingi, sagði: „Meiri hlutinn tekur fram að það er grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli. En þegar brýna nauðsyn ber til getur komið til þess að íhlutun ríkisvaldsins sé réttlætanleg.“
    Um nauðsyn frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar kemur fram í greinargerð með því að verkfallsaðgerðirnar hafi nú leitt til þess að engin starfhæf þyrla eða flugvél sé til taks hjá Landhelgisgæslu Íslands. Það sé neyðarástand sem varði bæði sjófarendur og almenning. Í erindi Landhelgisgæslunnar til nokkurra ráðuneyta og ríkislögreglustjóra frá 18. nóvember sl. kemur fram að verði engin björgunarþyrla til taks í landinu skapist grafalvarlegt ástand, einkum fyrir áhafnir og farþega skipa þegar engar aðrar bjargir eru nálægar á hafi úti.
    Meiri hlutinn hefur skilning á sjónarmiðum um mikilvægi samningsfrelsis og verkfallsréttar og telur að almennt sé ekki æskilegt að löggjafinn grípi inn í kjaradeilur með lagasetningu. Þó kunni slík inngrip að vera nauðsynleg. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar telur meiri hlutinn að brýn nauðsyn sé fyrir hendi og að öryggissjónarmið réttlæti lagasetninguna. Að því sögðu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 27. nóvember 2020.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson.
Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Þorsteinn Sæmundsson.