Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 450  —  358. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (innheimta útvarpsgjalds).

Flm.: Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Jón Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Ríkisskattstjóri fer með álagningu útvarpsgjalds.
     b.      Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Innheimtu útvarpsgjalds annast innheimtumenn ríkissjóðs og fer um reikningsskil eftir því sem ráðherra ákveður. Ríkisskattstjóra er heimilt að senda tilkynningu þess efnis rafrænt.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      1.–3. málsl. orðast svo: Gjalddagar útvarpsgjalds fyrir gjaldskylda aðila skv. 1. mgr. eru tvisvar á ári, 1. janúar ár hvert og 1. júlí ár hvert. Eindagar útvarpsgjalds eru 15. febrúar og 15. ágúst ár hvert. Sé útvarpsgjald ekki greitt í síðasta lagi á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti, sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af því sem ógreitt er, talið frá og með gjalddaga.
     b.      4. málsl. fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að gjaldið verði innheimt með beinum hætti tvisvar á ári og að meginstefnu rafrænt með greiðsluseðli í heimabanka líkt og gert hefur verið með bifreiðagjöld, samkvæmt lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Breytt fyrirkomulag innheimtu á jafnt við um einstaklinga sem lögaðila. Tilkynning um álagningu telst birt einstaklingi eða lögaðila þegar hann getur nálgast hana í pósthólfi á vefsvæðinu Ísland.is. Álagningin telst bindandi frá og með þeim degi.
    Þannig verði horfið frá því að innheimta útvarpsgjaldið samhliða álagningu opinberra gjalda en aðrir þættir varðandi gjaldskyldu, undanþágur frá gjaldskyldu og upphæð gjaldsins verði óbreyttir. Ríkisskattstjóri og innheimtumenn ríkissjóðs sjái um innheimtu gjaldsins.
    Með frumvarpinu er ekki lagt til að lögþvingun áskrifta að Ríkisútvarpinu í formi útvarpsgjalds verði hætt. Flutningsmenn telja hins vegar að með beinni innheimtu aukist eðlilegt og nauðsynlegt aðhald að Ríkisútvarpinu, jafnt rekstrarlega og faglega við dagskrárgerð.
    Bein innheimta útvarpsgjalds stuðlar að betri kostnaðarvitund almennings þegar kemur að tekjuöflun Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu. Ríkisútvarpið er fjármagnað í samræmi við þjónustusamning, með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi.