Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 454  —  362. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs.

Frá félags- og barnamálaráðherra.


1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um tímabundnar greiðslur vegna launakostnaðar íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 en er gert að fella tímabundið niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru.

2. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að því að íþróttafélög geti hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að þeim hefur verið gert að fella niður starfsemi á tilteknu tímabili skv. 1. gr., að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru. Með þessu er stefnt að því að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi á Íslandi til lengri tíma litið vegna faraldursins.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Íþróttafélag: Lögaðili innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þ.m.t. einstakar deildir sem starfa á vegum lögaðilans.
     2.      Launamaður: Launamaður skv. 1. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
     3.      Opinberar sóttvarnaráðstafanir: Ákvarðanir ráðherra sem birtar eru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, í því skyni að hægja á útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru.

4. gr.
Yfirstjórn og framkvæmd.

    Ráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum. Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna.

5. gr.
Greiðslur vegna launakostnaðar íþróttafélaga.

    Heimilt er að greiða íþróttafélagi launakostnað að undanskildum starfstengdum fríðindum og hlunnindum, svo sem bifreiðastyrkjum, dagpeningum eða húsaleigu, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Skilyrði fyrir greiðslum eru að:
     a.      íþróttafélagi hafi verið gert að fella niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana á tilteknu tímabili skv. 1. gr. eða vegna ákvarðana sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eða sérsambanda innan vébanda þess sem teknar eru í ljósi fyrrnefndra sóttvarnaráðstafana,
     b.      launamaður hafi ekki getað sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu hafi verið gert að fella niður starfsemi, sbr. a-lið,
     c.      önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu hafi verið gert að fella niður starfsemi, sbr. a-lið, og
     d.      íþróttafélag hafi sannanlega greitt launamanni laun á því tímabili sem félaginu hafi verið gert að fella niður starfsemi, sbr. a-lið.

6. gr.
Fjárhæð greiðslna.

    Greiðsla til íþróttafélags skal vera jafnhá launagreiðslum til launamanna á því tímabili sem íþróttafélagi hefur verið gert að fella niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, sbr. a-lið 2. mgr. 5. gr. Greiðsla getur þó ekki orðið hærri en 500.000 kr. á mánuði fyrir hvern launamann þar sem miðað er við almanaksmánuð, en hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil.

7. gr.
Umsókn um greiðslur.

    Í umsókn um greiðslu skal tilgreina þá launamenn sem sótt er um greiðslu fyrir, starfssvið þeirra og þá daga sem þeir gátu ekki sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu var gert að fella niður starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Umsókn skal vera skrifleg og henni skulu fylgja fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laganna fyrir greiðslu séu uppfyllt, svo sem launaseðlar og staðfestingar á greiðslu launa sem og upplýsingar um ástæður þess að hlutaðeigandi íþróttafélag hafi verið gert að fella tímabundið niður starfsemi sína, að hve miklu leyti starfsemi hafi verið felld niður og í hve langan tíma.
    Umsóknir skulu afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafa borist. Vinnumálastofnun er heimilt að synja um greiðslu hafi nauðsynlegar upplýsingar og gögn ekki borist innan 45 daga frá þeim degi er umsókn um greiðslu barst stofnuninni.
    Umsóknir um greiðslur samkvæmt lögum þessum skulu berast Vinnumálastofnun fyrir 30. september 2021. Hafi umsókn ekki borist fyrir þann tíma fellur réttur til greiðslu niður.

8. gr.
Heimild til öflunar og vinnslu upplýsinga.

    Vinnumálastofnun er heimil öflun og vinnsla upplýsinga frá ríkisskattstjóra, embætti landlæknis, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, hlutaðeigandi íþróttafélögum og sveitarfélögum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja lögum þessum og ber framangreindum aðilum að veita stofnuninni þær upplýsingar sem hún óskar eftir, enda búi þeir yfir þeim. Hið sama á við um öflun nauðsynlegra upplýsinga frá launamönnum sem hafa ekki getað sinnt störfum sínum vegna opinberra sóttvarnaráðstafana.
    Við afgreiðslu umsóknar eða við endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Vinnumálastofnun óskað eftir því að íþróttafélag sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til greiðslu samkvæmt lögum þessum. Vinnumálastofnun getur leitað umsagnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þess ráðherra sem fer með málefni sóttvarna sem og þess ráðherra sem fer með málefni íþrótta um vafaatriði sem lúta að skilyrðum laganna, eins og við á.

9. gr.
Ósamrýmanlegar greiðslur.

    Ekki skal koma til greiðslna samkvæmt lögum þessum fái íþróttafélag greiðslur vegna launakostnaðar á grundvelli annarra úrræða á sama tímabili, svo sem á grundvelli laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir eða á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

10. gr.
Ofgreiðslur.

    Íþróttafélag sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á rétt þess samkvæmt lögum þessum á ekki rétt á greiðslu.
    Hafi íþróttafélag fengið hærri greiðslur en það átti rétt á eða fengið greiðslur fyrir tímabil þar sem skilyrði laganna voru ekki uppfyllt ber því að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
    Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu á ofgreiðslum til íþróttafélaga eru aðfararhæfar.

11. gr.
Málskot.

    Stjórnvaldsákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum þessum sæta kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um endurkröfu á ofgreiðslum samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt ákvæðum laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.
    Úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laga þessara eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

12. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerð, þ.m.t. um málsmeðferð framkvæmdaraðila.

13. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi þeirra áhrifa sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur haft á íþróttafélög og íþróttastarf hér á landi. Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni íþróttafélaga vegna heimsfaraldursins þannig að þau geti hafið óbreytta starfsemi að nýju þegar faraldrinum lýkur.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ljóst er að aðgerðir á sviði sóttvarna í landinu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafa haft mikil áhrif á starfsemi íþróttafélaga. Í því sambandi áætlar Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að fjárhagsleg áhrif faraldursins á starfsemi íþróttahreyfingarinnar gætu numið allt að 5 milljörðum kr. á árinu 2020. Enn fremur er ljóst að þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi hefur fjölþætt gildi og er því mikilvægt að öll börn og ungmenni eigi þess kost að stunda ólíkar íþróttir við hæfi hvers og eins. Því þykir nauðsynlegt að koma til móts við íþróttafélögin þannig að þau geti hafið óbreytta starfsemi að nýju þegar faraldrinum lýkur en íþróttafélög hafa þegar orðið vör við brotthvarf úr barna- og unglingastarfi félaganna í kjölfar heimsfaraldursins. Einnig hefur faraldurinn haft áhrif á starf eldri flokka og afreksstarf.
    Reynslan hefur sýnt að þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í því skyni að bregðast við áhrifum heimsfaraldursins hafa ekki nýst íþróttafélögum nægilega vel. Þykir því mikilvægt að ráðist verði í sértækar aðgerðir til að koma til móts við íþróttafélög sem gert hefur verið að fella tímabundið niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við faraldurinn. Er þetta lagt til í því skyni að stuðla að því að ráðningarsambandi íþróttafélaga við launamenn verði viðhaldið meðan á opinberum sóttvarnaráðstöfunum stendur þannig að tryggja megi að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi til lengri tíma litið.
    Í ljósi framangreinds samþykkti ríkisstjórn Íslands 30. október 2020 að ráðist yrði í aðgerðir til að koma til móts við íþróttafélög vegna þeirrar röskunar á starfsemi sem félögin hafa orðið fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í kjölfarið sendu stjórnvöld frá sér yfirlýsingu um aðgerðir sem ráðist yrði í og var sú yfirlýsing síðan kynnt fyrir íþróttahreyfingunni 31. október sl. Í yfirlýsingunni kom m.a. fram að gert væri ráð fyrir að aðgerðir stjórnvalda yrðu tvíþættar. Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir að úrræði Vinnumálastofnunar yrðu útvíkkuð þannig að tryggt yrði að í þeim tilvikum sem íþróttafélagi eða sambandsaðilum ÍSÍ væri gert að láta af starfsemi vegna sóttvarna gæti félagið sótt um styrki vegna launagreiðslna til launamanna sem ekki gætu sinnt starfi sínu á því tímabili sem slíkar sóttvarnaráðstafanir stæðu yfir, enda hefðu önnur úrræði stjórnvalda ekki gagnast í þeim tilgangi. Einnig yrði þeim aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar af sömu ástæðum. Styrkfjárhæðir skyldu verða sambærilegar og önnur úrræði stjórnvalda hafa innifalið og gert yrði ráð fyrir að þetta mundi gilda frá 1. október 2020. Í öðru lagi var gert ráð fyrir að íþrótta- og æskulýðsfélögum sem og sambandsaðilum ÍSÍ yrði gert kleift að sækja um sérstaka styrki vegna tekjufalls á tímabilinu 1. júní 2020 til 1. október 2020. Orsakir þessa tekjufalls þyrftu að hafa verið vegna sóttvarna á því tímabili sem sóttvarnararáðstafanir stæðu yfir. Gert var ráð fyrir að íþrótta- og Ólympíusamband Íslands mundi sjá um umsýslu þeirrar aðgerðar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að greiða íþróttafélagi launakostnað vegna launamanna, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, hafi hlutaðeigandi íþróttafélagi verið gert að fella tímabundið niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021. Er það í samræmi við í yfirlýsingu stjórnvalda frá 30. október 2020, sbr. framangreint. Lagt er til að Vinnumálastofnun annist framkvæmdina.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.
    Íþróttafélög á Íslandi teljast almennt ekki til rekstrareininga sem hafa með höndum almenna atvinnustarfsemi og eru slík félög til að mynda undanþegin tekjuskatti samkvæmt tekjuskattslögum, að því gefnu að þau verji hagnaði sínum eingöngu til almannaheilla og hafi það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í því ljósi þykir efni frumvarpsins ekki gefa tilefni til mats á samræmi við ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um ríkisaðstoð.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu. Í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram vegna þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir í samfélaginu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar gafst ekki svigrúm til hefðbundins samráðs en frumvarpið er þó unnið í samráði ráðuneytisins við fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vinnumálastofnun sem og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpinu er ætlað að taka til íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og er gert að fella tímabundið niður starfsemi á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í skilningi frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að með íþróttafélagi sé átt við lögaðila innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þ.m.t. einstakar deildir sem starfa á vegum viðkomandi lögaðila. Má því ætla að frumvarpið nái til um 33 sérsambanda, 25 héraðssambanda/íþróttabandalaga og um 408 íþrótta- og ungmennafélaga. Með frumvarpinu er stefnt að því að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi á Íslandi til lengri tíma litið vegna faraldursins, en ljóst er að mikill samfélagslegur ávinningur felst í því að íþróttafélög geti hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að starfsemi hefur á tilteknu tímabili legið niðri, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveirunnar.
    Áfram ríkir nokkur óvissa um þróun faraldursins og ómögulegt er að segja til um hversu lengi grípa þarf til sérstakra aðgerða vegna hans. Áætlað er að skilgreind tímabil í samkomubanni frá 1. október til og með 15. desember 2020 nái til alls 68 daga. Ómögulegt er að áætla fjölda daga í hugsanlegu, skilgreindu samkomubanni frá miðjum desember 2020 til loka júní 2021. Þá verður einnig að hafa í huga að skilgreind tímabil í samkomubanni ná oft og tíðum til mismunandi íþrótta- og aldurshópa. Þess utan getur verið mismunandi hvort samkomubann eigi bæði við höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina á sama tímabili.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar muni nema um 500 millj. kr. vegna tímabilsins 1. október 2020 til 30. júní 2021. Í matinu er gengið út frá því að íþróttastarf muni ekki sæta eins miklum takmörkunum frá upphafi árs 2021 og til loka júnímánaðar 2021 líkt og verið hefur í októbermánuði og nóvembermánuði 2020 en gert ráð fyrir að íþróttastarf muni sæta nokkrum takmörkunum í desembermánuði 2020. Er því gert ráð fyrir að um óverulegar greiðslur verði að ræða vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2021.
    Þá er gert ráð fyrir að kostnaður vegna umsýslu Vinnumálastofnunar við þróun hugbúnaðar geti numið um 12. millj. kr. auk þess sem gert er ráð fyrir að stofnunin þurfi að bæta við tveimur stöðugildum, m.a. til að annast afgreiðslu umsókna um greiðslur á grundvelli laganna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er gildissvið frumvarpsins afmarkað þannig að það taki til íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 en er gert að fella tímabundið niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru. Er þannig gert ráð fyrir að einungis verði unnt að sækja um greiðslur samkvæmt lögunum vegna þeirra tímabila sem framangreindar ákvarðanir ráðherra leggja bann við íþróttastarfsemi.
    Gildistíminn samkvæmt frumvarpinu er afmarkaður við tímabilið 1. október 2020 til og með 30. júní 2021. Er þetta lagt til þar sem enn er óvíst hversu lengi og hve oft mun þurfa að grípa til opinberra sóttvarnaráðstafana, í því skyni að hægja á útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru, sem kunna að koma til með að hafa áhrif á íþróttastarf í landinu.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.

    Í greininni eru hugtökin íþróttafélag, launamaður og opinberar sóttvarnaráðstafanir skýrð nánar. Lagt er til að með orðinu íþróttafélag sé átt við lögaðila innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þ.m.t. einstakar deildir sem starfa á vegum lögaðilans. Er þannig átt við sérsambönd, héraðssambönd og/eða íþróttabandalög innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem og íþrótta- og ungmennafélög innan sambandsins og einstakar deildir hlutaðeigandi félaga. Skv. 2. mgr. 5. gr. íþróttalaga, nr. 64/1998, er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og í erlendum samskiptum íþróttahreyfingarinnar en rétt þykir að greiðslur til íþróttafélaga samkvæmt lögum þessum nái aðeins til lögaðila innan vébanda sambandsins. Þá þykir mikilvægt að einnig sé átt við einstakar deildir hlutaðeigandi félaga, svo sem knattspyrnu- eða körfuknattleiksdeildir, þannig að tryggt verði að slíkar deildir geti sótt um greiðslur vegna launagreiðslna til sinna launamanna.
    Jafnframt er lagt til að með orðinu launamaður sé átt við launamann skv. 1. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Er þannig lagt til að aðeins geti komið til greiðslna vegna launagreiðslna til launamanna, en ekki vegna greiðslna íþróttafélaga til verktaka vegna vinnu í þágu félagsins. Í þessu sambandi ber að geta þess að íþróttahreyfingin hefur gert ákveðnar gæðakröfur til íþróttafélaga í tengslum við ráðningu starfsmanna en hreyfingin býður upp á tiltekið viðurkenningarkerfi í því sambandi í tengslum við fyrirmyndarfélag Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Hefur íþróttahreyfingin þannig hvatt til þess að íþróttafélög ráði frekar til sín launamenn með beinni ráðningu í stað þess að gera samninga við verktaka. Jafnframt er lögð rík áhersla á gegnsæi við dreifingu fjármuna, m.a. hjá yngri flokkum, auk þess sem horft er til þess að jafnréttis sé gætt þegar kemur að skiptingu fjármuna. Hér er tekið undir þessar áherslur íþróttahreyfingarinnar og hvatt til þess að íþróttafélög horfi m.a. til þessara þátta í tengslum við umsóknir um greiðslur vegna launakostnaðar sem og í tengslum við þær aðgerðir sem þau ráðast í til að mæta áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Þá er lagt til að með hugtakinu opinberar sóttvarnaráðstafanir sé átt við ákvarðanir ráðherra sem birtar eru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnarlaga, nr. 19/1997, í því skyni að hægja á útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru, en með því er m.a. átt við auglýsingar og reglugerðir ráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.

    Lagt er til að heimilt verði að greiða íþróttafélagi launakostnað, að undanskildum starfstengdum fríðindum og hlunnindum svo sem bifreiðastyrkjum, dagpeningum eða húsaleigu, eftir því sem nánar er kveðið á um í frumvarpi þessu. Eru þessi tilteknu atriði nefnd í dæmaskyni og því ekki gert ráð fyrir að til greiðslna geti komið vegna annarra hliðstæðra starfstengdra fríðinda og hlunninda.
    Gert er ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslum verði að íþróttafélagi hafi verið gert að fella niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana á tilteknu tímabili eða vegna ákvarðana sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eða sérsambanda innan vébanda þess sem teknar eru í ljósi fyrrnefndra sóttvarnaráðstafana. Er þannig gert ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslum sé að íþróttafélagi hafi verið gert að leggja niður starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana þar sem lagt er bann við tiltekinni íþróttastarfsemi eða vegna ákvarðana sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eða sérsambanda innan vébanda þess um að starfsemi verði felld niður í tiltekinn tíma. Frá 1. október 2020 hafa ýmsar opinberar sóttvarnaráðstafanir í skilningi frumvarpsins verið í gildi sem hafa haft áhrif á starfsemi íþróttafélaga. Hafa umræddar ráðstafanir ýmist falið í sér almennt bann við íþróttastarfsemi, bann við íþróttastarfi á tilteknum landsvæðum eða bann við tiltekinni íþróttastarfsemi, svo sem íþróttastarfsemi innan dyra eða íþróttastarfsemi ákveðinna aldurshópa. Þá hafa jafnframt verið ákveðnar takmarkanir á íþróttastarfi sem þó hafa ekki falið í sér bann. Ljóst þykir að slíkar ráðstafanir kunna að gilda eitthvað lengur. Þá kann að vera að í ljósi þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem í gildi eru hverju sinni taki sveitarfélög, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands eða hlutaðeigandi sérsambönd þess ákvarðanir um að íþróttastarfsemi falli niður á því tímabili sem slíkar ráðstafanir eru í gildi. Svo dæmi sé tekið ákváðu öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í samráði við almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins að stöðva allt íþróttastarf sem fram færi á þeirra vegum innan dyra frá 8. til og með 19. október 2020 en á sama tímabili voru í gildi opinberar sóttvarnaráðstafanir sem takmörkuðu slíkt starf án þess þó að leggja við því almennt bann. Þá hafa tiltekin sérsambönd í ákveðnum tilvikum tekið ákvarðanir um að leggja tímabundið niður starfsemi og/eða hætta við mót vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, jafnvel þó að umræddar sóttvarnaráðstafanir hafi hvorki mælt fyrir um að fella skuli tímabundið niður starfsemi né að hætt verði við mót. Nauðsynlegt þykir að til greiðslna geti komið vegna slíkra ákvarðana, enda séu þær bein afleiðing opinberra sóttvarnaráðstafana sem í gildi eru hverju sinni. Þó skal áréttað að einungis er gert ráð fyrir að til greiðslna geti komið vegna þeirra tímabila sem opinberar sóttvarnaráðstafanir hafi verið í gildi. Þá er jafnframt ekki gert ráð fyrir að til greiðslna geti komið vegna launamanna sem fengið hafa undanþágu frá opinberum sóttvarnaráðstöfunum.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslu til íþróttafélags sé að launamaður hafi ekki getað sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu hefur verið gert að fella niður starfsemi. Ekki er gert ráð fyrir að skipulagning og framkvæmd íþróttastarfs með notkun upplýsingatækni, svo sem heima- og fjaræfingar, á meðan opinberar sóttvarnaráðstafanir eru í gildi hafi áhrif á rétt íþróttafélaga til greiðslna verði frumvarpið að lögum. Er þannig gert ráð fyrir að aðeins geti komið til greiðslna vegna þeirra launamanna sem koma beint að íþróttastarfi sem fellt hefur verið tímabundið niður, svo sem íþróttafólks og þjálfara sem eru á launaskrá hjá hlutaðeigandi íþróttafélagi. Er því ekki er gert ráð fyrir að til greiðslna geti komið vegna annarra starfsmanna en þeirra sem koma að umræddu íþróttastarfi, enda geti slíkir starfsmenn sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti þrátt fyrir opinberar sóttvarnaráðstafanir en hér er m.a. átt við starfsfólk á skrifstofu íþróttafélags.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu til íþróttafélags sé að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu hefur verið gert að fella niður starfsemi. Er í þessu sambandi m.a. átt við veikindi launamanns, að launamaður hafi þurft að sæta sóttkví eða hafi verið í sumarleyfi. Þá er gert ráð fyrir að eitt af skilyrðum þess að íþróttafélag geti átt rétt á greiðslu sé að það hafi sannanlega greitt launamanni laun á því tímabili sem starfsemi félagsins var felld niður á meðan opinberar sóttvarnaráðstafanir voru í gildi.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um fjárhæð greiðslna samkvæmt frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að greiðsla til íþróttafélags skv. 5. gr. skuli vera jafnhá launagreiðslum til launamanna á því tímabili sem íþróttafélagi hefur verið gert að fella niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, sbr. a-lið 2. mgr. 5. gr. Greiðsla getur ekki orðið hærri en 500.000 kr. á mánuði fyrir hvern launamann þar sem miðað er við almanaksmánuð en gert er ráð fyrir að fjárhæðin verði hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil.
    Þá er gert ráð fyrir að með launagreiðslum sé átt við heildarlaun launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem íþróttafélagi hefur verið gert að fella tímabundið niður starfsemi á tímabili þegar opinberar sóttvarnaráðstafanir hafa verið í gildi. Með launagreiðslum er þó ekki átt við ýmiss konar hlunnindi, svo sem bifreiðastyrki, dagpeninga eða húsaleigu, sbr. 1. mgr. 5. gr.
    Sem dæmi má nefna íþróttafélag sem greiðir launamanni 400.000 kr. í laun fyrir janúarmánuð 2021 þegar félaginu hefur verið gert að fella tímabundið niður starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Starfsemin var þó einungis felld niður í tíu daga á tímabilinu vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Greiðslur til íþróttafélagsins nema því 32% af launagreiðslum til launamannsins fyrir þann mánuð, eða sem nemur launagreiðslu fyrir 10 daga af 31 degi í janúarmánuði. Greiðslur til íþróttafélagsins vegna launa launamannsins nema því 32% af 400.000 kr., eða 128.000 kr. í umræddu dæmi. Samkvæmt því sem kveðið er á um í ákvæðinu lækkar hámarksgreiðsla einnig eftir sömu hlutfallsreglu. Ef starfsemi íþróttafélags er felld niður á tímabili sem nær yfir mánaðamót er gert ráð fyrir að greiðslur skuli taka mið af launum í réttu hlutfalli við dagafjölda í þeim mánuðum sem um ræðir hverju sinni. Sem dæmi má nefna íþróttafélag sem hefur verið gert að fella niður starfsemi á tímabilinu frá 20. janúar til 5. febrúar 2021. Í því dæmi taka greiðslur mið af 11 dögum af 31 degi í janúarmánuði og 5 dögum af 28 dögum í febrúarmánuði. Íþróttafélagið í umræddu dæmi getur því í mesta lagi átt rétt á 35% af launagreiðslum í janúarmánuði og 18% af launagreiðslum í febrúarmánuði að teknu tilliti til hámarksgreiðslna í hvorum mánuði fyrir sig.

Um 7. gr.

    Hér er lagt til að í umsókn um greiðslu skuli tilgreina þá launamenn sem sótt er um greiðslu fyrir, starfssvið þeirra og þá daga sem þeir gátu ekki sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á tímabili sem félaginu hefur verið gert að fella niður starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Með starfssviði er átt við upplýsingar um hvaða störfum viðkomandi launamenn gegna almennt hjá hlutaðeigandi íþróttafélagi, þ.m.t. innan hvaða deildar íþróttafélagsins. Gert er ráð fyrir að umsókn skuli vera skrifleg og að henni skuli fylgja fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði fyrir greiðslu séu uppfyllt. Er í þessu sambandi átt við launaseðla og staðfestingar á greiðslu launa sem og upplýsingar um ástæður þess að hlutaðeigandi íþróttafélag hafi verið gert að fella tímabundið niður starfsemi sína, að hve miklu leyti starfsemi hafi verið felld niður og í hve langan tíma svo dæmi sé tekið. Er þannig gert ráð fyrir að umsóknum fylgi fullnægjandi gögn sem staðfesta að íþróttafélag hafi sannanlega greitt laun til launamanna á því tímabili sem félaginu hafi verið gert að fella niður starfsemi vegna tiltekinna opinberra sóttvarnaráðstafana, en mikilvægt þykir að Vinnumálastofnun geti aflað framangreindra gagna, enda miða greiðslur samkvæmt frumvarpinu við þau laun sem íþróttafélög hafa greitt launamönnum. Er því gert ráð fyrir að umsókn um greiðslur berist Vinnumálastofnun vegna launagreiðslna á launatímabilum sem liðin eru, enda skuli launagreiðslur hafa farið fram af hálfu íþróttafélags.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að umsóknir skuli afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafa borist Vinnumálastofnun og að stofnuninni verði heimilt að synja um greiðslu hafi nauðsynlegar upplýsingar og gögn ekki borist innan 45 daga frá þeim degi er umsókn um greiðslu barst stofnuninni.
    Enn fremur er lagt til að umsóknir um greiðslur verði að hafa borist Vinnumálastofnun fyrir 30. september 2021 og að réttur til greiðslu falli niður hafi umsókn ekki borist fyrir þann tíma.

Um 8. gr.

    Hér er lagt er til að Vinnumálastofnun verði heimilt að afla upplýsinga frá ríkisskattstjóra, embætti landlæknis, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, hlutaðeigandi íþróttafélögum og sveitarfélögum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja ákvæðum frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir að framangreindum aðilum beri að veita stofnuninni þær upplýsingar sem hún óskar eftir, enda búi þeir yfir þeim. Gert er ráð fyrir að hið sama eigi við um öflun nauðsynlegra upplýsinga frá launamönnum sem hafa ekki getað sinnt störfum sínum þar sem starfsemi íþróttafélags hefur legið niðri, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í skilningi frumvarpsins.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að við afgreiðslu umsóknar eða við endurskoðun ákvörðunar um umsókn geti Vinnumálastofnun óskað eftir því að íþróttafélag sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til greiðslu. Enn fremur er lagt til að Vinnumálastofnun geti leitað umsagnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þess ráðherra sem fer með málefni sóttvarna sem og þess ráðherra sem fer með málefni íþrótta um vafaatriði sem lúta að skilyrðum frumvarpsins, eins og við á. Opinberar sóttvarnaráðstafanir sem eru í gildi hverju sinni kunna að hafa misjöfn áhrif á íþróttastarf eftir landsvæðum, íþróttagreinum, aldurshópum o.fl. Því þykir mikilvægt að Vinnumálastofnun geti aflað umsagna framangreindra aðila um vafaatriði sem lúta að skilyrðum frumvarpsins, svo sem varðandi þær opinberu sóttvarnaráðstafanir sem í gildi eru á hverjum tíma og hvað áhrif þær sannanlega hafa haft á íþróttastarf hjá hlutaðeigandi íþróttafélagi.

Um 9. gr.

    Í grein þessari er kveðið á um að ekki skuli koma til greiðslna fái íþróttafélag greiðslur vegna launakostnaðar á grundvelli annarra úrræða á sama tímabili, svo sem á grundvelli laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, eða á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, en í því sambandi er m.a. átt við greiðslur í tengslum við vinnusamninga öryrkja. Er þannig gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum séu skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt frumvarpinu ekki uppfyllt. Þess ber að geta að þau úrræði sem þannig geta komið í veg fyrir greiðslur samkvæmt frumvarpinu eru ekki tæmandi talin í ákvæðinu og kunna því önnur úrræði en þau sem sérstaklega eru tilgreind að verða til þess að ekki komi til greiðslna samkvæmt frumvarpinu.

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að íþróttafélag sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á rétt þess skuli ekki eiga ekki rétt á greiðslu.
    Gert er ráð fyrir að það félag sem fengið hefur hærri greiðslur en það átti rétt á endurgreiði þá fjárhæð sem ofgreidd var. Í þessu sambandi er átt við öll tilvik sem kunna að valda því að ofgreiðsla á sér stað, jafnvel þótt félaginu verði sjálfu ekki kennt um þá annmarka sem leiddu til ofgreiðslu. Íþróttafélagi kann þannig að verða gert að endurgreiða það sem ofgreitt var komi í ljós að skilyrði frumvarpsins hafi ekki verið uppfyllt, jafnvel þótt félaginu sjálfu hafi ekki verið kunnugt um ástæður ofgreiðslunnar. Jafnframt er gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun krefji þá sem í hlut eiga hverju sinni um endurgreiðslu.
    Þá er gert ráð fyrir að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu á ofgreiðslum verði aðfararhæfar.

Um 11. gr.

    Hér er lagt til að heimilt verði að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar sem teknar eru á grundvelli frumvarpsins, verði það óbreytt að lögum, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Getur þar m.a. verið um að ræða ákvarðanir um rétt til greiðslna eða fjárhæð þeirra sem og ákvarðanir um endurkröfur vegna ofgreiðslu og um innheimtu slíkra krafna. Gert er ráð fyrir að um málsmeðferð hjá nefndinni gildi ákvæði laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, nr. 85/2015.
    Jafnframt er lagt til að úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála um endurkröfu á ofgreiðslum verði aðfararhæfir.
    Þá er áréttað að úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna séu endanlegir á stjórnsýslustigi og að þeim verði ekki vísað til æðra stjórnvalds. Málsaðilar geta þó ávallt lagt ágreining um framkvæmd laganna fyrir almenna dómstóla.

Um 12. og 13. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.