Ferill 364. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 456  —  364. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018 (rekstraraðilar sérhæfðra sjóða).

Frá dómsmálaráðherra.1. gr.

    Á eftir orðunum „um fjármálafyrirtæki“ í a-lið 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: rekstraraðilar sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Tilgangur þess er að gera breytingar á a-lið 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, þannig að rekstraraðilar sérhæfðra sjóða falli undir gildissvið laganna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, sem tóku gildi 4. júní sl., var komið á samræmdu regluverki vegna rekstraraðila sérhæfðra sjóða, sem eru allir aðrir sjóðir á fjármálamarkaði en verðbréfasjóðir. Með þeim lögum var a-lið 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, breytt þannig að rekstraraðilar sérhæfðra sjóða mundu falla undir gildissvið laganna, sbr. þskj. 1379, 341. mál.
    Á sama tíma og lögin um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, tóku gildi var til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum um skráningu raunverulegra eigenda (ráðstafanir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka), sbr. þskj. 1953, 709. mál. Með frumvarpinu voru tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 (fimmtu peningaþvættistilskipunarinnar) innleidd ásamt því sem gerðar voru ákveðnar lagabreytingar sem byggðu á reynslu af framkvæmd laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Meðal þess sem var samþykkt var að gera breytingar á framangreindu ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þannig að lánveitendur og lánamiðlarar samkvæmt lögum um fasteignalán til neytenda yrðu gerðir að tilkynningarskyldum aðilum og mundu falla undir gildissvið laganna.
    Í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var hins vegar ekki tekið mið af þeirri breytingu á a-lið 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, vegna rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem hafði verið samþykkt rúmum mánuði áður. Það hafði þær afleiðingar að rekstraraðilar sérhæfðra sjóða falla ekki undir gildandi lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Tilgangur þessa frumvarps er að fella rekstraraðila sérhæfðra sjóða á ný undir gildissvið laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, eins og var ætlunin með lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Tilgangur frumvarpsins er að breyta a-lið 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, þannig að rekstraraðilar sérhæfðra sjóða falli undir lögin. Ekki eru lagðar til aðrar breytingar með frumvarpinu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Fjármálaeftirlitið. Vegna eðlis málsins gafst ekki svigrúm til hefðbundins samráðs fyrir framlagningu þess á Alþingi, en um er að ræða leiðréttingu sem felst í því að fella rekstraraðila sérhæfðra sjóða undir gildissvið laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, eins og var ætlunin með lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.

6. Mat á áhrifum.
    Í aðdraganda þess að sett voru heildarlög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða fór fram mat á áhrifum þess frumvarps. Þar kom fram að lögin fælu í sér breytingar á lagaumhverfi rekstraraðila sérhæfðra sjóða og að Fjármálaeftirlitið fengi ný og breytt eftirlitsverkefni með samþykkt frumvarpsins. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins var gert ráð fyrir að stöðugildum mundi fjölga um eitt, en að kostnaðurinn sem af framangreindu hlytist yrði greiddur af eftirlitsskyldum aðilum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð umfram það sem ráðgert var í mati á áhrifum frumvarps til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Frumvarpið hefur ekki fjárhagsáhrif á sveitarfélögin. Ekki er talið að varpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.