Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 457  —  365. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögreglulögum, lögum um dómstóla, lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði (eftirlit með lögreglu, lögregluráð o.fl.).

Frá dómsmálaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996.

1. gr.

    Lokamálsl. 4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að starfrækja lögregluráð, sbr. 6. gr. a.
     b.      F-liður 2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Lögregluráð.

    Lögregluráð skal starfrækt af ríkislögreglustjóra. Í ráðinu eiga sæti allir lögreglustjórar og héraðssaksóknari og er hlutverk þess að efla samráð á meðal lögreglustjóra. Markmið lögregluráðs er að samhæfa störf lögreglu með það að leiðarljósi að tryggja hagræðingu, framþróun og öryggi í starfsemi lögreglu.
    Ráðherra setur nánari reglur um starfsemi lögregluráðs.

4. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:
    Erlendir lögreglumenn sem koma til starfa hér á landi skv. 1. mgr. 11. gr. a fara með lögregluvald.

5. gr.

    Í stað 2. mgr. 11. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Lögregla skal, eftir því sem þörf er á, hafa gagnkvæmt samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila við lögreglurannsóknir, framkvæmd löggæslu og vegna annarra verkefna. Er lögreglu og samstarfsaðilum heimilt að deila sín á milli upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, að því marki sem nauðsynlegt er, til að lögregla eða samstarfsaðili geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum.
    Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmála-, heilbrigðis- og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.

6. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, ásamt fyrirsögn, er orðast svo:

Samstarf við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir.

    Lögregla skal eiga samstarf við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði löggæslu. Við lögreglurannsóknir og framkvæmd annarra löggæsluverkefna er ríkislögreglustjóra, öðrum lögreglustjórum og héraðssaksóknara, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að taka á móti erlendum lögreglumönnum. Á meðan dvöl þeirra stendur starfa þeir undir stjórn og leiðsögn viðkomandi lögreglustjóra, eftir atvikum í samráði við hið erlenda lögregluyfirvald. Ríkislögreglustjóri ákveður hvort erlendir lögreglumenn hér á landi skuli fara með lögregluvald. Í sama tilgangi er ríkislögreglustjóra og öðrum lögreglustjórum, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að senda lögreglumenn tímabundið til starfa erlendis. Við störf þeirra erlendis njóta þeir sömu réttinda og bera sömu skyldur og hér á landi.
    Lögreglu er heimilt að deila sín á milli upplýsingum úr ökutækjaskrá og upplýsingum um erfðaefni og fingraför við erlend lögregluyfirvöld í löggæslutilgangi. Jafnframt er lögreglu heimilt miðla öðrum persónuupplýsingum sem tengjast þessum upplýsingum beint, eftir atvikum í samræmi við ákvæði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir, þar á meðal um vopnaburð erlendra lögreglumanna og upplýsingaskipti skv. 2. mgr., einkum að því er varðar gagnkvæma notkun gagnagrunna og aðgang að þeim.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      A-liður 2. mgr. fellur brott.
     b.      F-liður 2. mgr. orðast svo: hafa lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
     c.      Í stað orðanna „fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi, eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt“ í a-lið 3. mgr. kemur: embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.
     d.      Orðin „að fenginni umsögn hæfnisnefndar, sbr. f-lið 2. mgr. 5. gr.“ í 1. málsl. 4. mgr. falla brott.

8. gr.

    35. gr. a laganna orðast svo:
    Hlutverk eftirlitsnefndar er að:
     a.      taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans,
     b.      taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald; berist slíkar kvartanir til annarra embætta eða stofnana skulu þær framsendar nefndinni án tafar,
     c.      taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til.
    Nefndin skal taka rökstudda afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu starfsaðferðar eða framkomu og senda ef tilefni er til viðeigandi embætti kvörtun til frekari meðferðar.
    Nefndin skal fylgjast með meðferð viðkomandi embættis á erindum sem stafa frá henni og embætti sem fá til meðferðar kvartanir sem heyra undir nefndina skulu tilkynna henni um niðurstöður þeirra. Nefndin skal einnig senda viðeigandi embætti eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum athugasemdir sínar við afgreiðslu einstakra mála eða tilmæli um aðrar aðgerðir ef henni þykir tilefni til.
    Berist nefndinni erindi um ætlaða refsiverða háttsemi skal erindinu beint án tafar til héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara. Hið sama á við ef einstaklingur lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot.
    Nefndin skal vísa erindum frá séu tvö ár liðin frá þeirri háttsemi sem kvörtun lýtur að nema sérstakar ástæður mæli með því að taka málið til meðferðar.
    Ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjórum, þ.m.t. ríkislögreglustjóra, er skylt að afhenda nefndinni þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsskyldum sínum.
    Nefndin er bundin þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Nefndin er einnig bundin þagnarskyldu um efni gagna og upplýsinga sem hún fær frá ákæruvalds- og löggæsluembættum á sama hátt og starfsmenn þeirra embætta.
    Ráðherra setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar, þar á meðal um tímafresti, eftirfylgni mála og birtingu upplýsinga.

9. gr.

    35. gr. b laganna orðast svo:
    Héraðssaksóknari rannsakar kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans. Hið sama á við um atvik þegar maður lætur lífið, hann verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin, í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot. Ef rannsókn á því máli leiðir til þess að rannsakað er annað eða önnur brot skal héraðssaksóknari ákveða hvort hann fari jafnframt með rannsókn þeirra brota.
    Héraðssaksóknari rannsakar kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot utan starfs, varði brot þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi, eða brot varði við ákvæði XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Ríkissaksóknari fer með rannsókn skv. 1. og 2. mgr. ef rannsókn beinist að lögreglumanni sem starfar hjá héraðssaksóknara eða öðrum starfsmanni hans. Við meðferð slíkra mála getur ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær. Lögreglu ber að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn mála samkvæmt þessari málsgrein eftir því sem óskað er.
    Héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari skal taka ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn eða vísa kæru frá svo fljótt sem verða má, þó eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku kæru. Um málsmeðferð fer eftir lögum um meðferð sakamála.
    Héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara ber að tilkynna eftirlitsnefnd um rannsókn máls, sbr. 1. og 2. mgr., sem og um afdrif máls.

II. KAFLI

Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016.

10. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 29. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      A-liður fellur brott.
     b.      F-liður orðast svo: Hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu og varðar breytingar á lögreglulögum, nr. 90/1996. Tildrög frumvarpsins má rekja til frumkvæðis dómsmálaráðherra um að ráðast í tilteknar skipulagsbreytingar innan lögreglu. Þeirra á meðal var ákvörðun ráðherra frá því í desember 2019 um að setja á stofn sérstakt lögregluráð, en þar eiga allir lögreglustjórar nú sæti. Ráðið er formlegur samráðsvettvangur lögreglustjóra sem byggist á því markmiði að efla samráð og tryggja hæfni lögreglunnar til að takast sameiginlega á við þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni. Með frumvarpi þessu er lagt til að starfsemi ráðsins verði lögfest og ríkislögreglustjóra falið að starfrækja það og stjórna. Í umræddum skipulagsbreytingum lagði ráðherra einnig áherslu á að efla þyrfti eftirlit með lögreglu, en í því skyni var sérstaklega rýnt í störf nefndar um eftirlit með lögreglu, sem sett var á stofn með gildistöku laga nr. 62/2016. Við þá greiningu komu í ljós ýmis atriði sem kröfðust endurskoðunar og lutu m.a. að lagaumhverfi nefndarinnar. Frumvarpið kveður því á um tilteknar breytingar á meðferð mála hjá nefndinni. Til viðbótar er kveðið á um breytingar á lögunum sem talið var þörf á í kjölfar hefðbundinnar endurskoðunar, en þær lúta m.a. að samstarfi lögreglu við önnur stjórnvöld, bæði hér innan lands sem og við erlend lögregluyfirvöld. Þá lagt er til að hæfisskilyrði lögreglustjóra taki lítillegum breytingum og að hæfnisnefnd lögreglu verði lögð niður.
    Frumvarp þetta er aðeins einn liður í ofangreindum skipulagsbreytingum og verður því áfram unnið að þeim í dómsmálaráðuneytinu. Fyrirhugaðar breytingar varða m.a. hlutverk ríkislögreglustjóra, stjórn embættisins inn á við sem og út á við, boðvald ríkislögreglustjóra gagnvart öðrum lögreglustjórum og skilgreiningu á því hvar valdmörk embættisins liggja í þeim efnum. Jafnframt er unnið að aðgerðum sem miða að því að auka sjálfstæði lögreglu gagnvart framkvæmdarvaldinu, í samræmi við xiii. tilmæli GRECO, samtaka ríkja Evrópu gegn spillingu, sjá nánar skýringu við 2. gr.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Hinn 17. desember 2019 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga, sem fól dómsmálaráðherra að undirbúa lagafrumvarp um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Tillagan kvað á um tiltekin atriði sem huga bæri sérstaklega að, þar á meðal rannsókn ætlaðra brota lögreglumanna í starfi og rannsókn tilkynninga um einelti og kynferðislega áreitni innan lögreglunnar.
    Eins og fyrr greinir hafði ráðherra frumkvæði að sambærilegri umbótavinnu á þessu sviði, óháð tilkomu umræddrar þingsályktunartillögu. Var því tilefni til að bregðast við og greina heildstætt hvernig unnt væri að efla og styrkja eftirlit með lögreglu, ekki aðeins með tilliti til starfa nefndar um eftirlit með lögreglu heldur einnig með auknu innra eftirliti, eftir atvikum hjá embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara. Enn er unnið að þeim þætti verkefnisins, samhliða frumvarpi þessu, sem lýtur fyrst og fremst að því að styrkja nefndina og gera starf hennar markvissara sem og að auka skilvirkni við meðferð mála.
    Verður nú gerð nánari grein fyrir þessu sem og öðrum efnisþáttum frumvarpsins.

2.1. Nefnd um eftirlit með lögreglu.
    Í janúar árið 2015 skipaði innanríkisráðherra nefnd um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Skipun nefndarinnar mátti rekja til ábendinga umboðsmanns Alþingis og ríkissaksóknara um að tekið yrði til skoðunar hvernig yrði komið á virkari eftirliti með störfum lögreglu og fyrirkomulagi málsmeðferðar þegar borgararnir telja að lögregla hafi ekki fylgt vönduðum starfsháttum. Nefndin skilaði skýrslunni Meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu til ráðuneytisins síðar sama ár og var í kjölfarið hafist handa við frumvarpsgerð sem byggðist á tillögum nefndarinnar. Afraksturinn var gildistaka laga nr. 62/2016 um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, en með þeim var sett á fót sérstök nefnd um eftirlit með lögreglu.
    Nefndin tók til starfa 1. janúar 2017 og starfar hún á grundvelli VII. kafla lögreglulaga, nr. 90/1996, auk þess sem reglur nr. 222/2017 gilda um starfsemi hennar. Nefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd og er henni ætlað að taka til athugunar mál sem varða samskipti lögreglumanna og annarra starfsmanna lögreglu við almenna borgara. Starf nefndarinnar lýtur fyrst og fremst að því að greina erindi, fylgjast með framvindu þeirra og sjá til þess að þau séu afgreidd af viðkomandi lögregluembætti.
    Varði erindi ætlað refsivert brot er erindið framsent embætti héraðssaksóknara til rannsóknar en kvörtunum vegna starfsaðferða eða framkomu starfsmanns lögreglu skal beint til viðkomandi lögreglustjóra. Þá hefur nefndin heimild til að taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til, en að öðru leyti er efnisleg aðkoma hennar að einstökum málum afar takmörkuð.
    Nefndin er skipuð þremur einstaklingum auk þess sem einn lögfræðingur er í fullu starfi hjá nefndinni. Frá því að nefndin hóf störf hefur fjöldi móttekinna erinda verið á bilinu 80–100 á ári og hefur nefndin hafið sjö frumkvæðisathuganir og lokið einni. Frá því að héraðssaksóknari tók við rannsókn meintra refsiverðra brota hafa slík mál verið um 20–40 á ári og af þeim leiðir að jafnaði eitt til fjögur mál til útgáfu ákæru.
    Nefndin hefur nú verið við störf í tæp fjögur ár. Einu af meginmarkmiðum með stofnun nefndarinnar hefur verið náð, þ.e. kvartanir og erindi sem berast á hendur lögreglu eru nú öll skráð kerfisbundið og séð til þess að þau fái úrlausn hjá viðkomandi lögregluembætti. Sá mikli fjöldi mála sem hefur borist nefndinni hefur leitt í ljós hversu vanbúin meðferð slíkra erinda virðist hafa verið áður en nefndin tók til starfa, en samkvæmt fyrrnefndri skýrslu nefndar innanríkisráðherra voru aðeins skráðar samtals 62 kvartanir á tímabilinu frá 2007–2014.
    Ráðuneytið hefur þó orðið áskynja um ýmis atriði sem virðast vera starfi hennar til trafala og koma í veg fyrir að öll þau markmið sem stefnt var að með stofnun nefndarinnar náist. Eru þetta einkum atriði sem virðast draga úr skilvirkni nefndarinnar og varða m.a. lagaumhverfi hennar, þar á meðal sýnilegan skort á heimildum til að taka efnislega afstöðu til mála sem og að tryggja að mál fái viðunandi úrlausn innan hæfilegs tíma.
    Í því skyni að ráða bót á greindum atriðum er lagt til í frumvarpinu að nefndinni verði falið að taka afstöðu til þeirra kvartana sem henni berast um aðfinnsluverða framkomu eða starfsaðferðir lögreglu. Með því er átt við að nefndin skuli láta í ljós álit sitt á því hvort atvik sem um ræðir samræmist lögum og viðurkenndu verklagi og komast þannig að rökstuddri niðurstöðu í hverju máli. Þá er kveðið á um að nefndinni sé skylt að vísa frá erindum þegar meira en tvö ár eru liðin frá því að atvik sem kvartað er yfir átti sér stað, nema að sérstakar ástæður mæli með því að taka málið til meðferðar. Því til viðbótar eru lagðar til breytingar á hlutverki nefndarinnar í málum sem varða ætlaða refsiverða háttsemi starfsmanna lögreglu auk breytinga á rannsókn slíkra mála hjá embætti héraðssaksóknara. Er m.a. kveðið á um það nýmæli að rannsókn tiltekinni brota sem starfsmenn lögreglu fremja utan starfs skuli rannsökuð af héraðssaksóknara. Aðrar breytingar hafa það að markmiði að flýta fyrir og auka skilvirkni rannsókna á meintum brotum starfsmanna lögreglu.

2.2. Starfsemi lögregluráðs lögfest.
    Til að efla samstarf á milli stjórnenda á sviði löggæslu setti ráðherra á stofn svonefnt lögregluráð í fyrra. Í ráðinu eiga sæti allir lögreglustjórar landsins, þ.m.t. héraðssaksóknari, undir formennsku ríkislögreglustjóra sem jafnframt fer með undirbúning og framkvæmd funda þess. Er stofnun ráðsins í samræmi við áherslur ráðherra um að bregðast við aukinni þörf á samstarfi og samráði á milli þessara aðila. Til að ná því markmiði þarf að tryggja að ákvarðanir er varða stefnumótun og samræmingu verklags lögreglu á landsvísu séu teknar að höfðu samráði á milli allra lögreglustjóra.
    Með stofnun lögregluráðs er því stefnt að aukinni samvinnu og hagkvæmari nýtingu fjármagns og mannafla, allt með það að markmiði að lögreglan starfi í auknum mæli sem ein heild óháð því hvernig yfirstjórn er háttað. Um er því að ræða formlegan samráðsvettvang lögreglustjóra sem m.a. skal tryggja hæfni lögreglu til að takast sameiginlega á við áskoranir hverju sinni.
    Með frumvarpi þessu er grundvöllur og hlutverk ráðsins sérstaklega lögfest og kveðið á um heimild ráðherra til að setja nánar reglur um starfsemi þess. Slíkar reglur hafa þegar verið settar og munu þær því fá skýrari lagastoð verði frumvarpið samþykkt.

2.3. Samvinna lögreglu við stjórnvöld, félagasamtök og einkaaðila.
    Í f-lið 2. mgr. 1. gr. og 11. gr. lögreglulaga er kveðið á um skyldu lögreglu til að eiga samstarf við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu, t.d. á sviði forvarna. Í lögunum er hins vegar ekkert kveðið á um samstarf lögreglu við önnur félagasamtök eða einkaaðila, en í daglegum störfum sínum er ljóst að lögregla á einnig í víðtæku samstarfi við slíka aðila, til að mynda björgunarsveitir og verslunareigendur. Er því talið nauðsynlegt að víkka út gildissvið 11. gr. laganna þessa ákvæðis og skerpa á því að lögreglu beri að eiga samstarf við öll þau stjórnvöld og aðra aðila sem þörf er á til að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

2.4. Samvinna við erlend lögregluyfirvöld og innleiðing alþjóðasamninga á sviði löggæslumála.
    Löggæsla hér á landi hefur tekið miklum breytingum og þróast ört á síðustu áratugum, einkum með tilkomu netglæpa og aukinni áherslu á að uppræta skipulagða brotastarfsemi. Rannsókn slíkra mála krefst ekki aðeins tímafrekra og flókinni aðgerða hér á landi heldur einnig erlendis enda teygir skipulögð brotastarfsemi í sífellt meira mæli arma sína þvert á landamæri og jafnvel heimsálfur. Til að íslensk löggæsluyfirvöld geti með virkum hætti tekið þátt í hinni alþjóðlega baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi er nauðsynlegt að lögregla eigi gagnkvæmt samstarf, ekki aðeins við erlend lögregluyfirvöld heldur einnig alþjóðastofnanir á sviði löggæslu. Hér er m.a. verið að vísa til stofnana á borð við Interpol, Europol og Landamærastofnun Evrópu (Frontex), en Ísland hefur t.d. verið með fastafulltrúa hjá Europol um nokkuð langt skeið. Hefðbundnar sakamálarannsóknir krefjast einnig sífellt meiri samvinnu við erlend lögregluyfirvöld, ekki aðeins vegna fjölgunar netglæpa heldur einnig við öflun sönnunargagna sem hýst eru á veraldarvefnum í lögsögu annarra landa.
    Í lögreglulögum er hvergi vikið að því víðtæka samstarfi sem lögregla á að þessu leyti við erlendar systurstofnanir sínar. Er því rétt að kveða skýrt á um grundvöllinn fyrir slíku samstarfi og lögfesta sérstakt ákvæði um að lögregla skuli hafa samstarf við erlend lögregluyfirvöld sem og alþjóðastofnanir.
    Í samræmi við það sem fyrr segir undirrituðu íslensk stjórnvöld árið 2009 samning um þátttöku Íslands við að efla lögreglusamstarf yfir landamæri, einkum í baráttunni gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi yfir landamæri, sem gjarnan er nefnt Prüm-samkomulagið. Það hefur verið innleitt í rétt Evrópusambandsins með ákvörðun ráðsins 2008/615/DIM frá 23. júní 2008 um eflingu samstarfs yfir landamæri, einkum í baráttunni gegn hryðjuverkum og afbrotastarfsemi yfir landamæri og ákvörðun 2008/616 um framkvæmd ákvörðunar 2008/615.
    Ein forsenda þess að unnt verði að fullgilda samninginn og innleiða efni hans er að gera breytingar á lögreglulögum er fela í sér heimildir til taka á móti erlendu lögregluliði og fela því lögregluvald hér á landi. Jafnframt þarf að kveða á um heimild til að senda íslenska lögreglumenn til starfa erlendis. Auk þess er nauðsynlegt að kveða á um heimildir lögreglu til að skiptast á upplýsingum við erlend lögregluyfirvöld sem lúta að erfðaefni, fingraförum og upplýsingum úr ökutækjaskrá.
    Árið 2019 undirrituðu íslensk stjórnvöld, ásamt norskum stjórnvöldum, samning við Evrópusambandið um aðgang ríkjanna að evrópska fingrafaragrunninum (EURODAC) í löggæslutilgangi. Til að unnt verði að fullgilda samninginn og innleiða í kjölfarið er nauðsynlegt að kveða á um það í lögum að lögreglu sé heimilt að skiptast á upplýsingum um fingraför við erlend lögregluyfirvöld.

2.5. Hæfisskilyrði og hæfnisnefnd lögreglu.
    Í kjölfar hefðbundinnar endurskoðunar á lögunum var talin ástæða til að gera breytingar á hæfisskilyrðum lögreglustjóra þess efnis að fella brott ákvæði um lágmarksaldur og færa menntunarkröfur til samræmis við þær sem gilda um héraðsdómara. Þá er lagt til að hæfnisnefnd lögreglu verði lögð niður, en um ástæður þess vísast til skýringa við 1. gr. frumvarpsins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
  —      Kveða á um breytingar á meðferð mála hjá nefnd um eftirlit með lögreglu.
  —      Kveða á um samvinnu lögreglu við innlend stjórnvöld, félagasamtök og einkaaðila.
  —      Kveða á um samvinnu lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir.
  —      Lögfesta starfsemi lögregluráðs.
  —      Leggja niður hæfnisnefnd lögreglu.
  —      Minni háttar breytingar á hæfisskilyrðum lögreglustjóra, sýslumanna og héraðsdómara.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér nauðsynlegar breytingar á lögum til að íslensk stjórnvöld geti fullgilt og innleitt með fullnægjandi hætti fyrrgreinda samninga um hið svonefnda Prüm-samkomulag og aðgang að evrópska fingrafaragrunninum í löggæslutilgangi. Að öðru leyti hefur frumvarpið hvorki gefið sérstakt tilefni til að meta samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Við vinnu frumvarpsins hafði dómsmálaráðuneytið samráð við ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, lögregluembættin, héraðssaksóknara og nefnd um eftirlit með lögreglu. Í því samráðsferli fundaði ráðuneytið með ríkislögreglustjóra, héraðssaksóknara, ríkissaksóknara og nefnd um eftirlit með lögreglu en auk þess var öllum greindum aðilum gefinn kostur á að skila inn skriflegum athugasemdum við áform um lagasetninguna sem og við drög að frumvarpi þessu. Athugasemdir bárust frá flestum aðilum og var tekið tillit til þeirra við gerð frumvarpsins.
    Áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 8. september 2020 og var hægt að skila inn umsögn til og með 23. september 2020 (mál nr. S-181/2020). Ein umsögn barst. Drög að frumvarpinu voru jafnframt birt í samráðsgátt stjórnvalda 4. nóvember 2020 (mál nr. S-236/2020) og var hægt að skila inn umsögn til og með 11. nóvember 2020. Engar umsagnir bárust í gegnum samráðsgáttina um frumvarpið.
    
6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið mun fyrst og fremst hafa áhrif á meðferð mála hjá nefnd um eftirlit með lögreglu. Sú breyting sem hefur hvað mest áhrif er að nefndinni beri að láta í ljós rökstudda afstöðu sína um efni þeirra kvartana sem henni berast. Borgarar sem bera fram kvörtun á hendur lögreglu munu því fá skýra efnislega niðurstöðu í máli þeirra óháð því hvort að kvörtunin leiði til frekari aðgerða hjá viðkomandi lögregluembætti.
    Að öðru leyti mun frumvarpið hafa lítilleg áhrif á yfirvöld á sviði löggæslumála, en frumvarpið hefur ekki í för með sér neinar breytingar er hafa veruleg áhrif á skipulag, stjórnun eða að öðru leyti starfsemi lögreglu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð eða sveitarfélög. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti eða stöðu kynjanna.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að lokamálsl. 1. mgr. verði felldur brott þar sem embætti ríkislögreglustjóra hefur ekki lengur aðsetur í Kópavogi.

Um 2. gr.

    Lagt er til að við hlutverk ríkislögreglustjóra bætist að starfrækja lögregluráð.
    Þá er lagt til að fellt verði brott ákvæði f-liðar 2. mgr. 5. gr. laganna um að ríkislögreglustjóri starfræki hæfnisnefnd lögreglu. Frá gildistöku laga um breytingu á lögreglulögum nr. 51/2014 hefur nefndin veitt lögreglustjórum ráðgefandi álit um hæfni umsækjenda við skipun í störf lögreglumanna. Upphaflegur tilgangur nefndarinnar var að tryggja samræmi í stöðuveitingum þegar sú grundvallarbreyting varð á stöðuveitingum að skipunarvaldið færðist frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjóranna. Nefndin hefur starfað í yfir fimm ár og hefur gert afar fáar athugasemdir við skipanir. Lögreglustjórar eru forstöðumenn sinna stofnana og sem slíkir eru þeir veitingarvaldshafar sem bera ábyrgð á störfum undirmanna sinna og beita viðurlögum í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þeir bera ábyrgð samkvæmt lögum á þeim ákvörðunum sem þeir taka í störfum sínum, þar á meðal á skipunum í embætti sem undir þá heyra. Verður að telja að lögbundin umsögn hæfnisnefndarinnar sé ekki lengur nauðsynleg í því ferli og má þannig segja að nefndin hafi þjónað tilgangi sínum.
    Í 5. úttekt GRECO (Samtaka ríkja gegn spillingu á vegum Evrópuráðsins) eru sett fram tilmæli til íslenskra stjórnvalda sem m.a. miða að því að gera ráðningar innan lögreglu gagnsærri og heilindamiðaðri, t.d. með því að efla hæfnisnefnd lögreglu (sjá Fifth Evaluation Round – Evaluation Report). Í því skyni að bregðast við tilmælunum hefur ríkislögreglustjóra verið falið, í samráði við lögregluráð, að gefa út verklag um skipanir lögreglumanna þar sem m.a. verður tekið mið af svonefndu heilindamati. Er það mat ráðherra að slíkt sé mun betur til þess fallið að ná þeim markmiðum sem tilmæli GRECO lúta að frekar en að starfrækja áfram hæfnisnefnd lögreglu. Með því móti verður með skilvirkari hætti en áður unnt að tryggja vandaðar og málefnalegar stöðuveitingar hjá lögreglu í samræmi við tilmæli GRECO.

Um 3. gr.

    Með ákvæði þessu er starfsemi lögregluráðs lögfest. Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra skv. 4. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, og flytur lögregluráði boð hans og fyrirmæli. Hlutverk ráðsins er að efla samráð á meðal lögreglustjóra. Markmið lögregluráðs er að samhæfa störf lögreglu með það að leiðarljósi að tryggja hagræðingu, framþróun og öryggi í starfsemi lögreglu. Hlutverk og starfsemi lögregluráðs hefur ekki áhrif á þá ábyrgð sem lögreglustjórar bera samkvæmt lögreglulögum eða öðrum lögum sem þeim ber að starfa eftir. Lögregluráð skal starfrækt af ríkislögreglustjóra og í ráðinu skulu eiga sæti allir lögreglustjórar, þar á meðal héraðssaksóknari. Samkvæmt reglum um lögregluráð skal ráðið að jafnaði funda einu sinni í mánuði og skal fjallað um samstarfsverkefni lögreglu, samræmingu verklags, framþróun og stefnumótun. Þá ber ríkislögreglustjóra og öðrum lögreglustjórum að hafa samráð við lögregluráð um allar veigamiklar ákvarðanir sem geta haft áhrif á starfsemi lögreglunnar í heild. Ráðið tekur hins vegar hvorki stjórnvaldsákvarðanir né aðrar bindandi ákvarðanir.
    Í 1. mgr. segir frá hlutverki lögregluráðs en ráðið skal vera starfrækt af ríkislögreglustjóra.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja nánari reglur um starfsemi lögregluráðs. Hinn 13. mars 2020 tóku gildi reglur nr. 280/2020 um lögregluráð sem settar voru af ráðherra og munu þær því fá skýra lagastoð með samþykkt frumvarpsins.

Um. 4. gr.

    Nauðsynlegt er að kveða á um að erlendir lögreglumenn sem koma hingað til lands til starfa samkvæmt 11. gr. fari með lögregluvald. Um störf þeirra vísast að öðru leyti til skýringa við 4. gr. frumvarps þessa.

Um 5. gr.

    Í ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að lögregla og önnur stjórnvöld og stofnanir skuli hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast löggæslu, svo sem forvarnir. Felur ákvæðið þannig í sér frekari útfærslu á ákvæði f-liðar 2. mgr. 1. gr. laganna er kveður á um það hlutverk lögreglu að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu. Umfang og innihald þessa samstarf er hins vegar ekki skýrt mikið nánar í athugasemdum við ákvæðin í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum.
    Ljóst er að lögregla á í miklu samstarfi við önnur stjórnvöld og stofnanir, bæði almennt og vegna einstakra mála og rannsókna, t.d. við skatt- og tollyfirvöld á sviði efnahagsbrota og skipulagðrar brotastarfsemi. Þá á lögregla ekki síður í samstarfi við aðra aðila, þ.e. félagasamtök og einkaaðila. T.d. hefur um langt skeið verið víðtækt samstarf á milli lögreglu og björgunarsveita og eiga þær beina aðkomu að ýmsum verkefnum lögreglu, einkum við leit að týndu fólki og með því að veita aðstoð á fjöldasamkomum. Þá á lögregla einnig í mikilvægu samstarfi við verslunareigendur að því er varðar afbrotavarnir og við uppljóstrun auðgunarbrota. Í gildandi lögum er hins vegar hvergi kveðið á um samstarf lögreglu við þessa aðila og er því talið rétt að útvíkka ákvæði 2. mgr. 11. gr. og lögfesta þá löngu hefð sem er fyrir samstarfi lögreglu við þessa aðila.
    Ein meginforsenda þess að lögregla geti átt skilvirkt og árangursríkt samstarf við fyrrgreinda aðila er að þeir geti miðlað upplýsingum sín á milli, þar á meðal persónuupplýsingum. Með tilkomu nýrrar löggjafar um persónuvernd og aukinnar áherslu á sjónarmið þar að lútandi virðist gæta meiri óvissu innan lögreglu um hvaða upplýsingum er heimilt að miðla, til hverra og við hvaða tilefni.
    Til að skýra þær lagalegu heimildir sem lögregla hefur til að miðla upplýsingum á grundvelli lögbundins hlutverks síns var lögreglulögum m.a. breytt með lögum nr. 75/2019 og er nú sérstaklega kveðið á um það í 41. gr. laganna að lögreglu sé heimilt að miðla persónuupplýsingum að því marki sem telst nauðsynlegt vegna starfsemi og hlutverks hennar samkvæmt lögunum. Því til viðbótar var með lögum nr. 75/2019 sett ný og heildstæð löggjöf um persónuvernd á sviði refsivörslu, nánar tiltekið lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Auk þess að kveða almennt á um hvernig lögbær yfirvöld á þessu sviði skuli haga vinnslu persónuupplýsinga fela lögin einnig í sér almennar miðlunarheimildir til handa sömu yfirvöldum er hafa það að markmiði að stuðla að upplýsingaskiptum þegar slíkt er nauðsynlegt í löggæslutilgangi. Í lögunum er einnig mælt fyrir um heimildir lögbærra yfirvalda til að miðla upplýsingum til annarra stjórnvalda og einkaaðila, en þar sem um er að ræða almenna heimild er tekur til allra yfirvalda á sviði refsivörslu ber að skýra þá heimild þröngt og hefur því verið sett reglugerð á grundvelli laganna þar sem slíkar miðlunarheimildir eru atviksbundið útfærðar.
    Með ákvæði þessu er ætlunin að lögfesta enn skýrar heimild lögreglu til að skiptast á upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, við þau stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila sem hún er í samstarfi við á grundvelli lögbundins hlutverks síns. Er ákvæðið því til fyllingar hinu almennara ákvæði 41. gr. laganna. Upplýsingaskiptin verða þó ávallt að vera nauðsynleg til að lögregla eða viðkomandi samstarfsaðili geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og um miðlun upplýsinga samkvæmt ákvæðinu fer eftir lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi eða, eftir atvikum, lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða gildandi ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna og þarfnast ekki skýringar.

Um 6. gr.

    Líkt og fyrr greinir undirrituðu íslensk stjórnvöld árið 2009 samning um þátttöku Íslands við að efla evrópskt lögreglusamstarf yfir landamæri, einkum í baráttunni gegn hryðjuverkum og glæpastarfsemi yfir landamæri, svonefnt Prüm-samkomulag. Ein forsenda þess að unnt verði að fullgilda samninginn og innleiða efni hans er að gera breytingar á lögreglulögum er fela í sér heimildir til taka á móti erlendu lögregluliði og fela því lögregluvald hér á landi. Jafnframt þarf að kveða á um heimild til að senda íslenska lögreglumenn til starfa erlendis. Einnig er þörf á að heimila slíkt almennt, enda geta komið upp þær aðstæður að erlendir lögreglumenn þurfi að starfa hér á landi, t.d. við aðgerðir lögreglu á grundvelli réttarbeiðna í samræmi við lög um framsal og aðra aðstoð í sakamálum. Auk þessa gerir Prüm-samkomulagið kröfu um að samstarfsríki veiti löggæsluyfirvöldum gagnkvæman aðgang að gagnagrunnum um erfðaefni, fingraför og skráningarskyld ökutæki, í tengslum við rannsókn einstakra sakamála. Að sama skapi gerir samningurinn um aðgang íslenskra löggæsluyfirvalda að evrópska fingrafaragrunninum kröfu um upplýsingaskipti.
    Í því skyni að gera íslenskum stjórnvöldum kleift að innleiða Prüm-samkomulagið er í 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar kveðið á um að við lögreglurannsóknir og framkvæmd annarra löggæsluverkefna sé ríkislögreglustjóra og öðrum lögreglustjórum, þar á meðal héraðssaksóknara, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að taka á móti erlendum lögreglumönnum. Á meðan dvöl þeirra stendur starfa þeir undir stjórn og leiðsögn viðkomandi lögreglustjóra, eftir atvikum í samráði við hið erlenda lögregluyfirvald. Ríkislögreglustjóri ákveður hvort erlendir lögreglumenn hér á landi skuli fara með lögregluvald. Í sama tilgangi er ríkislögreglustjóra og öðrum lögreglustjórum, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að senda lögreglumenn tímabundið til starfa erlendis. Við störf þeirra erlendis njóta þeir sömu réttinda og bera sömu skyldur og væru þeir að störfum hér á landi.
    Samkvæmt 2. mgr. er lögreglu sérstaklega heimilað að deila upplýsingum úr ökutækjaskrá og upplýsingum um erfðaefni og fingraför með erlendum lögregluyfirvöldum í löggæslutilgangi, þ.e. í því skyni að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum, þ.m.t. að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi, sbr. 8. tölul. 2. gr. laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019. Jafnframt er lögreglu heimilt að skiptast á öðrum persónuupplýsingum sem tengjast þessum upplýsingum beint, eftir atvikum í samræmi við ákvæði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Ákvæðið veitir þannig nauðsynlega lagastoð fyrir því að unnt verði að innleiða efni Prüm-samkomulagsins auk samningsins um aðgang íslenskra löggæsluyfirvalda að evrópska fingrafaragrunninum.
    Í 3. mgr. er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja nánari reglur um samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir, þar á meðal vopnaburð erlendra lögreglumanna og upplýsingaskipti skv. 2. mgr., einkum að því er varðar gagnkvæma notkun gagnagrunna og aðgang að þeim. Er talið rétt að veita ráðherra nokkuð svigrúm við það hvernig beri að útfæra nánar efni Prüm-samkomulagsins, svo sem hvernig skuli staðið að upplýsingaskiptum, einkum í ljósi þess að umræddir gagnagrunnar hafa ekki að öllu leyti verið settir á fót hér á landi og eru því ýmsar tæknilegar áskoranir sem leysa verður úr áður en nánari reglur þar að lútandi verða settar. Hið sama á við um samning um aðgang lögreglu að evrópska fingrafaragrunninum, en til að unnt verði að fullgilda hann verður m.a. að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 603/2013 frá 26. júní 2013 um stofnun evrópska fingrafaragrunnsins Eurodac til að bera saman fingraför í því skyni að stuðla að skilvirkri beitingu reglugerðar (ESB) nr. 604/2013 um að koma á viðmiðunum og fyrirkomulagi við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkjanna og um beiðnir löggæsluyfirvalda aðildarríkjanna og Evrópulögreglunnar um samanburð á gögnum í evrópska fingrafaragrunninum í löggæslutilgangi og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1077/2011 um að koma á fót Evrópustofnun um rekstur stórra upplýsingatæknikerfa á svæði frelsis, öryggis og réttlætis. Með ákvæði þessu er því komin fullnægjandi lagastoð fyrir slíkri reglusetningu.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til nokkrar breytingar á 28. gr. laganna. Kveðið er á um minni háttar breytingar á almennum hæfisskilyrðum ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra sem eru staðgenglar lögreglustjóra, frá því sem nú gildir. Aldursskilyrði lögreglustjóra verður afnumið og menntunarskilyrði lögreglustjóra uppfært. Taka skal mið af starfsreynslu og menntun við slíkar skipanir og ætti aldur ekki að vera útilokandi þáttur.
    Í a-lið er kveðið á um að ákvæði um 30 ára aldursskilyrði falli brott. Séu atvik með þeim hætti að einstaklingur hafi að baki slíka menntun og reynslu að hann uppfyllir að öllu leyti þær kröfur sem gera verður til lögreglustjóra er ekki talin ástæða til að setja það viðbótarskilyrði að hann hafi náð 30 ára aldri.
    Í b- og c-lið er kveðið á um orðalagsbreytingar er varða menntunarkröfur ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra sem eru staðgenglar lögreglustjóra. Lagt er til að a-liður 1. mgr. 28. gr. laganna verði uppfærður þannig að í stað þess að krafa sé gerð um að hafa embættispróf í lögfræði, eða háskólapróf í þeirri grein sem metið verður því jafngilt, verði kveðið á um að krafa sé gerð um að hafa lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaranámi í lögfræði. Er þessi breyting í samræmi við orðalag í lögum um dómstóla, nr. 50/2016, en ekki er um efnislega breytingu á menntunarkröfum að ræða.
    Í d-lið er að finna ákvæði í samræmi við 1. gr. frumvarpsins um að hæfnisnefnd verði lögð niður og ekki verði skilyrði fyrir skipun að umsögn hæfnisnefndar liggi fyrir.

Um 8. gr.

    Með ákvæðinu eru lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði efla hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu, m.a. með því að fela nefndinni að taka afstöðu til þeirra kvartana sem hún tekur til meðferðar, auk þess að gera störf nefndarinnar skilvirkari og stytta málsmeðferðartíma.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um hlutverk eftirlitsnefndar og er um að ræða efnislegar breytingar á VII. kafla laganna. Skv. a-lið verður það hlutverk eftirlitsnefndarinnar að taka við kærum frá borgurum á hendur starfsmönnum lögreglu fyrir ætluð refsiverð brot við framkvæmd starfa. Í b-lið er kveðið á um að nefndin taki til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald og skv. c-lið ber nefndinni að taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til. Samkvæmt gildandi c-lið 35. gr. a ber nefndinni að taka til athugunar mál þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot. Lagt er til að í stað þess stafliðar verði í nýrri málsgrein í ákvæði 35. gr. b héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara gert að tilkynna eftirlitsnefnd um öll slík mál og afdrif þeirra, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Í breytingunum felst að mál sem varða einstakling sem lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur sé um refsivert athæfi, verða ekki tekin til meðferðar hjá eftirlitsnefndinni fyrr en að rannsókn lokinni hjá héraðssaksóknara. Telji nefndin tilefni til getur hún þá tekið atvikið til skoðunar að eigin frumkvæði, sbr. c-lið 35. gr. a.
    Í 2. mgr. er lögð til sú meginbreyting á efnislegu hlutverki nefndarinnar að henni verði ætlað að taka afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu framkomu eða starfsaðferða og senda ef tilefni er til viðeigandi embætti kvörtun til frekari meðferðar. Við meðferð nefndarinnar á kvörtun skal nefndin því láta í ljós álit sitt á því hvort atvikið sem um ræðir samræmist lögum og viðurkenndu verklagi. Kvartanda ber að fá skýra niðurstöðu og skal niðurstaða nefndarinnar því vera rökstudd. Sæti athafnir lögreglu aðfinnslum eða gagnrýni getur nefndin jafnframt beint almennum tilmælum til viðkomandi lögreglustjóra um mögulegar úrbætur, til að mynda um breytt verklag eða starfsaðferðir. Nefndin skal upplýsa kvartanda og viðkomandi embætti um niðurstöðu hvers máls. Sé niðurstaða nefndarinnar sú að starfsmaður lögreglu hafi viðhaft aðfinnsluverða framkomu eða starfsaðferð skal senda kvörtun til frekari meðferðar hjá viðkomandi embætti. Málsmeðferð lögreglustjóra gagnvart viðkomandi starfsmanni skal vera í samræmi við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Skv. 3. mgr. ber lögreglustjóra svo að tilkynna eftirlitsnefndinni um afdrif máls, en ákvæðið er samhljóða gildandi ákvæði 4. mgr. gildandi lagagreinar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um breytt fyrirkomulag að því leyti að berist nefndinni erindi um ætlaða refsiverða háttsemi skuli erindinu beint án tafar til héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara. Hið sama á við ef einstaklingur lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot. Með breytingu þessari er stefnt að því að auka skilvirkni þegar kemur að eftirfylgni eftirlits með störfum lögreglu. Mikilvægt er að héraðssaksóknari eða eftir atvikum ríkissaksóknari geti hafið rannsókn máls sem fyrst eftir að grunur vaknar um ætlaða refsiverða háttsemi. Í slíkum tilvikum er nefndinni því ekki falið að greina erindi sérstaklega heldur gert að beina því án tafar til héraðssaksóknara. Beri kvörtun með sér minnsta grun um að starfsmaður lögreglu hafi framið refsivert brot skal erindið áframsent. Varði kvörtun hvort sem er ætlaða refsiverða háttsemi eða aðfinnslu við starfsaðferðir eða framkomu starfsmanns skal þeim hluta er varðar ætlaða refsiverða háttsemi vísað til héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara til frekari meðferðar. Að öðru leyti skal nefndin taka kvörtunina til meðferðar og taka afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu háttsemi eða starfsaðferðar.
    Gildandi ákvæði laganna um nefnd um eftirlit með lögreglu gera ekki ráð fyrir að takmörk séu á því hvaða erindi nefndin tekur til meðferðar. Eðli máls samkvæmt er ljóst að erfitt er fyrir nefndina að leggja efnislegt mat á kvartanir sem varða atburði sem löngu eru liðnir. Er því lagt til að í 5. mgr. greinarinnar verði nefndinni gert skylt að vísa erindum frá séu tvö ár liðin frá þeirri háttsemi sem kvörtun beinist að, nema sérstakar ástæður mæli með því að taka málið til meðferðar. Það getur t.d. verið vegna alvarleika atviksins sem um ræðir. Í þeim tilvikum er kvartandi fær vitneskju um hina meintu aðfinnsluverðu háttsemi síðar verði miðað við að skylt sé að vísa erindinu frá að tveimur árum liðnum frá því að hann fékk vitneskju um háttsemina.
    Önnur ákvæði greinarinnar eru óbreytt og þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Í greininni eru gerðar tilteknar breytingar á ákvæðum 35. gr. b er varða rannsókn mála sem varða meinta refsiverða háttsemi starfsmanna lögreglu. Lúta þær einkum að rannsókn brota þar sem starfsmaður lögreglu er grunaður um refsiverða háttsemi utan starfs sem og heimild héraðssaksóknara til að taka yfir rannsókn annarra brota sem tengjast meintu broti starfsmanna lögreglu. Lögreglustjórum ber að vekja athygli héraðssaksóknara á ætluðum brotum starfsmanna sinna eða atvikum þar sem maður lætur lífið, hann verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin, í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot, sem héraðssaksóknara ber að rannsaka samkvæmt ákvæði þessu. Sú breyting er þannig gerð að ekki verður lengur skilyrði að eftirlitsnefnd hafi talið þörf á rannsókn heldur skal héraðssaksóknari ávallt taka slík mál til skoðunar. Í samræmi við frumkvæðishlutverk nefndarinnar er henni hins vegar heimilt að taka slík tilvik til skoðunar í kjölfar þess að héraðssaksóknari hefur fellt mál niður eða starfsmaður lögreglu hefur verið sýknaður með dómi. Leiði málsatvik í málinu í ljós aðfinnsluverða framkomu eða starfsaðferðir sendir nefndin málið til viðkomandi lögreglustjóra til frekari meðferðar þrátt fyrir að sýknað hafi verið í málinu þar sem grunur var um refsivert brot. Varði athugun nefndarinnar verklagsreglur getur nefndin einnig beint tilmælum til viðeigandi lögreglustjóra.
    Þá bætist nýr málsliður við ákvæðið er mælir fyrir um að héraðssaksóknara sé falið á ákveða hvort að hann fari með rannsókn annarra tengdra brota. Í því felst að þegar héraðssaksóknari rannsakar brot samkvæmt ákvæði þessu hefur embættið heimild til að taka yfir rannsókn á öðrum tengdum brotum. Með tilhögun þessari er komið í veg fyrir að rannsóknir tveggja embætta skarist og þannig dregið úr hættunni á ótilhlýðilegum afskiptum eða aðkomu annarra lögregluembætta að málum er varða ætlaða refsiverða háttsemi lögreglumanna. Er lagt til að héraðssaksóknari leggi mat á og taki ákvörðun um hvort tilefni sé til að taka yfir rannsókn annarra mála í slíkum tilvikum, m.a. með hliðsjón af alvarleika og eðli brotanna. Taki héraðssaksóknari ákvörðun um að rannsaka önnur tengd brot skal hann jafnframt höfða mál vegna þeirra, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli um að héraðssaksóknari rannsaki kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot utan starfs, varði brot þyngri refsingu en tveimur árum, eða brot varði við ákvæði XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Séu málsatvik með þeim hætti að háttsemin varði þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi skal viðkomandi lögreglustjóri gera héraðssaksóknara viðvart. Þá er einnig talið eðlilegt að héraðssaksóknari fari með rannsókn mála þar sem grunur er um brot gegn ákvæðum hegningarlaga er varða kynferðisbrot, manndráp og aðrar líkamsmeiðingar, óháð refsiramma þeirra. Sé lögreglumaður t.d. grunaður um vændi, blygðunarsemisbrot eða minni háttar líkamsárás utan starfs skal slíkum málum beint til héraðssaksóknara. Hins vegar er talið að önnur minni háttar brot, svo sem umferðarlagabrot, þar sem framkvæmd er skýr, verði áfram til meðferðar hjá viðkomandi embætti.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara beri að tilkynna eftirlitsnefnd um mál, sbr. 1. og 2. mgr., sem og um afdrif málanna. Skal tilkynning berast eftirlitsnefnd ásamt afriti af kæru eða tilkynningu þegar héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari hefur móttekið annað hvort. Jafnframt ber að tilkynna um lok máls, svo sem ef mál er fellt niður eða dómur hefur fallið. Í tilkynningunni skal í stuttu mál greina frá ástæðum þess að rannsókn hafi verið hætt eða mál fellt niður, eða láta afrit af dómi fylgja með, eftir því sem við á.
    Önnur ákvæði greinarinnar þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að fellt verði brott aldursskilyrði héraðsdómara. Af því leiðir að hið sama gildir um saksóknara en þeir skulu fullnægja sömu lagaskilyrðum og héraðsdómarar, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Eðlilegt þykir að þessi breyting sé gerð í samræmi við 7. gr. frumvarpsins enda fara lögreglustjórar með ákæruvald og þurfa að uppfylla sams konar hæfisskilyrði.

Um 11. gr.

    Með a-lið er lagt til að fellt verði brott aldursskilyrði sýslumanna.
    Með b-lið er lögð til önnur minni háttar breyting á almennum hæfisskilyrðum sýslumanna. Um er að ræða orðalagsbreytingu til að taka af allan vafa við túlkun og verið er að samræma orðalag. Er þessi breyting í samræmi við orðalag í gildandi lögum um dómstóla, nr. 50/2016, og c-lið 7. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.