Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 475  —  56. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög (viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Rán Ingvarsdóttur frá skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneyti, Jón Fannar Kolbeinsson frá Jafnréttisstofu, Matthildi Magnúsdóttur og Eddu Símonardóttur frá Skattinum, Huldu Ragnheiði Árnadóttur og Áslaugu Gunnlaugsdóttur frá Félagi kvenna í atvinnulífinu og Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur frá Kvenréttindafélagi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands og Skattinum.
    Með frumvarpinu er lagt til að það varði dagsektum ef ekki er farið að þeim ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum félaga sem lögfest voru með lögum nr. 13/2010 og lögum nr. 49/2011. Gefinn var rúmur aðlögunartími og tóku ákvæðin gildi 1. september 2013. Með þeim var einkahlutafélögum, hlutafélögum og síðar samvinnufélögum og sameignarfélögum þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli m.a. gert að tryggja að þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%.
    Almennt var í umsögnum og í máli gesta fyrir nefndinni lýst stuðningi við frumvarpið. Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að jafna hlutfall kynjanna í stjórnum þeirra lífeyrissjóða sem hún á aðild að. Það séu vonbrigði hversu illa fyrirtækjum hafi gengið að fylgja lögunum eftir og því styðji ASÍ þá tillögu sem lögð er fram með frumvarpinu.

Lágmarkshlutfall kvenna og karla í stjórnum félaga.
    Í umsögnum og við meðferð málsins fyrir nefndinni var bent á að í kjölfar laga um kynrænt sjálfræði er ekki rétt að tala um ,,hvort kyn“ þar sem samkvæmt lögum eru kynin nú fleiri en tvö. Skrifstofa jafnréttismála benti á að réttara væri að breyta orðalagi frumvarpsins til samræmis við orðalag í frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (14. mál) sem lagt hefur verið fram á Alþingi en verði það samþykkt óbreytt falla úr gildi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Vísað var m.a. til orðalags í 28. gr. fyrrgreinds frumvarps til nýrra jafnréttislaga. Þar er með 1. mgr. lagt til að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Í greinargerð þess frumvarps segir að þó að ákvæði 1.–3. mgr. 28. gr. séu efnislega samhljóða 15. gr. gildandi jafnréttislaga sé lagt til að orðin „kvenna og karla“ komi í stað orðsins „kynjanna“. Regla um tiltekið lágmarkshlutfall karla og kvenna í nefndum geti eðli málsins samkvæmt tæpast tekið til einstaklinga með skráningu hlutlauss kyns enda ólíklegt að sá hópur verði ýkja stór í samanburði við fjölda kvenna og karla. Hins vegar er þar lagt til að bætt verði við ákvæði sem kveði á um að reglan um lágmarkshlutfall kvenna og karla komi ekki í veg fyrir tilnefningar og skipan einstaklinga með skráningu hlutlauss kyns í nefndir, ráð og stjórnir á vegum hins opinbera.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að breyta megi orðalagi í hverjum 2. málsl. 1.–4. gr. frumvarpsins þannig að í stað orðanna „hvors kyns“ komi „kvenna og karla“. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að framangreint orðalag, „hvors kyns“, á sér samsvörun í þeim ákvæðum gildandi laga sem gerir fyrirtækjum skylt að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórn sé að lágmarki 40% þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um samvinnufélög, 1. mgr. 39. gr. laga um einkahlutafélög, 1. mgr. 63. gr. laga um hlutafélög og 13. gr. laga um sameignarfélög. Meiri hlutinn hvetur því ráðuneytið til að taka til endurskoðunar þau ákvæði laganna þar sem kveðið er á um hlutföll hvors kyns í stjórnum og að orðalag ákvæðanna verði uppfært, m.a. með tilliti til laga um kynrænt sjálfræði sem heimila einstaklingum að skrá kyn sitt sem hlutlaust.

Dagsektir.
    Verði frumvarpið samþykkt verður heimilt að beita tiltekin félög dagsektum tryggi þau ekki lágmarkshlutfall karla og kvenna í stjórnum félaga, sbr. 1. málsl. í 1.–4. gr. frumvarpsins. Markmið dagsektar er að knýja þau félög sem falla undir ákvæðin til að tryggja að hlutföll bæði karla og kvenna í stjórnum séu að lágmarki 40%. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að mikilvægt væri að gert yrði skýrt að við ákvörðun um beitingu dagsekta sé litið til umfangs starfsemi félaga og virkni þeirra. Í því samhengi var bent á að verði frumvarpið samþykkt munu dagsektir taka til félaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli. Því sé ljóst að ákvæði um dagsektir muni ekki taka til félaga með umsvifaminni starfsemi.
    Skatturinn benti í umsögn sinni á að með lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, var lögum um fyrirtækjaskrá breytt, m.a. á þann veg að þar eru nú lögfestar heimildir til að beita dagsektum ef ekki eru veittar umbeðnar upplýsingar eða kröfum um úrbætur ekki sinnt innan hæfilegs frests. Jafnframt er bent á að afar áríðandi sé að hafið sé yfir allan vafa hvenær, hvernig og við hvaða aðstæður skuli beita dagsektum. Mikilvægt sé að almennt samræmi sé í framkvæmd og álagningu slíkra dagsekta sem í frumvarpinu greinir. Skatturinn leggur í umsögn sinni til að um álagningu og framkvæmd dagsekta verði litið til þeirra ákvæða laga um fyrirtækjaskrá sem varða álagningu og framkvæmd dagsekta. Jafnframt sé sérstaklega litið til þess fjárhæðarmismunar sem er á milli dagsekta skv. 1.–4. gr. frumvarpsins og ákvæða í lögum um fyrirtækjaskrá.
    Meiri hlutinn fellst á þau sjónarmið og leggur til viðeigandi breytingar á efni frumvarpsins en telur ekki rétt að fjárhæðum dagsekta verði breytt til hækkunar frá þeirri hámarksfjárhæð sem lögð er til. Meiri hlutinn vekur athygli á því að með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að beita viðurlögum við tiltekinni háttsemi félaga. Meiri hlutinn bendir því á að gera þarf skýrt að heimild til álagningar dagsekta er falin ríkisskattstjóra. Ákvörðun um álagningu dagsekta er stjórnvaldsákvörðun og mikilvægt að gætt sé að ákvæðum stjórnsýslulaga við alla málsmeðferð. Meiri hlutinn áréttar jafnframt að mikilvægt er að gætt sé meðalhófs við álagningu dagsekta og um ákvörðun fjárhæða þar sem tekið er tillit til m.a. umsvifa reksturs og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.

    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „hvors kyns“ í 2. málsl. 1., 2., 3. og 4. gr. komi: kvenna og karla í stjórn félagsins.
     2.      Við 3. málsl. 1., 2., 3. og 4. gr. bætist: og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri tilkynningarskylds aðila.
     3.      Á undan orðunum „fjárhagslegs styrkleika“ í 4. málsl. 1., 2., 3. og 4. gr. komi: eðlis vanrækslu eða brots og.
     4.      Í stað 5. málsl. 1., 2., 3. og 4. gr. komi átta nýir málsliðir, svohljóðandi: Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði ríkisskattstjóra. Nú vill félag ekki una ákvörðun samkvæmt ákvæði þessu og getur það þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að félagi var tilkynnt um ákvörðunina. Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila. Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt félag verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra nema ríkisskattstjóri samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra með úrskurði. Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     5.      Í stað orðanna „setja nánari ákvæði“ í lokamálslið 1., 2., 3. og 4. gr. komi: kveða nánar á.

    Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Helgi Hrafn Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 17. nóvember 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ásmundur Friðriksson,
með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Haraldur Benediktsson,
með fyrirvara.
Helgi Hrafn Gunnarsson.
Njáll Trausti Friðbertsson,
með fyrirvara.