Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 482  —  5. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og þeirra efnahagsaðgerða sem gripið hefur verið til í heimsfaraldrinum verða frumvörp um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021 fleiri en á undanförnum árum. Í þessu áliti verður því ekki fjallað um mikilvæg mál til jöfnunar í samfélaginu sem von er á í sérstökum frumvörpum, svo sem atvinnuleysistryggingar, félagslegan stuðning, almannatryggingar, tryggingagjald og barnabætur.

Hækkun ýmissa gjalda.
    Fyrstu greinar frumvarpsins fjalla um hækkun ýmissa gjalda. Lagt er til að kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, gjald á áfengi og tóbak, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og gjald til Ríkisútvarpsins hækki um 2,5% en ekki 3,2% í samræmi við verðbólguspá Hagstofu Íslands. Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneyti til efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að jafnvel þó að hagspá Hagstofunnar sé alla jafna viðmiðið fyrir uppfærslu krónutölugjalda sé nú miðað við 2,5% hækkun til að stuðla að minni verðhækkunum. Þetta hefur áður verið gert en 1. minni hluti varar við því að gjöld, sem eiga að standa undir ákveðnum kostnaði og hækkar miðað við verðbólgu, dragist saman og standi ekki undir áætluðum kostnaði. 1. minni hluti leggur til að öll krónutölugjöld verði tekin til endurmats.

Umboðsmaður skuldara.
    Gjald sem ætlað er til að standa undir kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara er lagt á gjaldskylda aðila. 1. minni hluti bendir á að þar sem aðgerðir og styrkir stjórnvalda sem fram eru komin vegna atvinnukreppunnar í kjölfar heimsfaraldurs hafa aðeins að litlu leyti runnið til heimila þeirra sem misst hafa vinnuna. Ef ekkert verður að gert leiðir það aðgerðarleysi til skuldavanda hjá heimilunum og þá um leið aukinna umsvifa umboðsmanns skuldara. 1. minni hluti leggur á það ríka áherslu að stjórnvöld mæti efnahagsvanda heimilanna til þess að komast hjá því að greiðsluvandi þeirra verði langvarandi með tilheyrandi kostnaðarsömum aukaverkunum til langs tíma. Það má ekki gerast að fólkið sem lenti í erfiðri stöðu í bankahruninu lendi aftur í slíku rúmum áratug síðar. Meira þarf að gera til að koma í veg fyrir það.

Húsnæðisstuðningur.
    Jafnt aðgengi að húsnæðismarkaði hefur ætíð verið meðal helstu áherslna verkalýðshreyfingarinnar og jafnaðarmanna. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda í tengslum við lífkjarasamninga lækkar húsnæðisstuðningur að raunvirði milli ára og áætlanir gera ráð fyrir að svo verði áfram.
    Í heild hefur húsnæðisstuðningur í gegnum vaxtabótakerfið rýrnað að raungildi um meira en 70% frá árinu 2013 og heimilum sem fengu vaxtabætur fækkaði um 27.000 milli áranna 2013 og 2018 og fer enn fækkandi. Þá hafa viðmiðanir verið nánast óbreyttar frá árinu 2010 og samkvæmt frumvarpinu eiga þær ekki að breytast á árinu 2021. Þetta gerir það að verkum að kerfið styður sífellt færri heimili. Tekjulágt barnafólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu fær nú lítinn sem engan stuðning í gegnum vaxtabótakerfið. Lækkun vaxtabóta rýrir kjör lágtekjufólks sem á lítið eigið fé í húsnæði. Alþýðusamband Íslands bendir í umsögn sinni við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 á að ef horft er til þróunar á framlögum til vaxtabóta síðastliðinn áratug má sjá að samhliða tilkomu almenna íbúðakerfisins og vexti stofnframlaga til byggingar hagkvæmra leiguíbúða fyrir tekjulága hafa framlög til vaxtabóta dregist saman um svipaða fjárhæð. Sama gildir þótt lög um hlutdeildarlán hafi verið samþykkt. Framlög til húsnæðismála hafa því ekki verið til að bæta í stuðninginn eins og þeim var ætlað heldur í reynd greidd með lækkun á öðru stuðningsformi.
    Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til nefndarinnar segir að óbreyttar viðmiðunarfjárhæðir leiði til þess að vaxtabæturnar fari í auknum mæli til þeirra sem eru í efri hluta tekjudreifingarinnar og um helmingur upphæðarinnar fari til þeirra sem eru 48 ára eða eldri. 1. minni hluti krefst þess að stjórnvöld standi við fyrirheit sín um að hækka húsnæðisbætur, að húsnæðisstuðningur verði aukinn og skili sér til þeirra hópa sem helst þurfa á slíkum stuðningi að halda.

Ýtt undir ójöfnuð og fátækt.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 er lagt til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki um 3,6% í upphafi árs 2021. Til samanburðar hækkar lágmarkstekjutrygging samkvæmt lífskjarasamningum um 4,8% á árinu. Bætur almannatrygginga koma því til með að hækka umtalsvert minna en lægstu laun þriðja árið í röð og kjör lífeyrisþega versna í samanburði við aðra hópa.
    Lágmarksframfærsla almannatrygginga fyrir einstakling sem býr einn verður því 333.268 kr. á árinu 2021 og hefur þá frá árinu 2018 hækkað úr 300.000 kr. eða um 11,1% á sama tíma og lægstu laun munu hafa hækkað um 17% og verða 351.000 kr. Fyrir einstakling sem býr með öðrum verður lágmarksframfærslutrygging um 256.000 kr. og hefur þá hækkað um rúmlega 11% frá árinu 2018. Hér er miðað við hlutfallslega hækkun en þar sem hækkun lífskjarasamninganna miðast við krónutölu ætti slíkt hið sama að gilda um hækkun á elli- og örorkulífeyri almannatrygginga. Því ætti hækkunin að vera 15.750 kr. á mánuði á árinu 2021 en ekki rúmar 9.000 kr. líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis til nefndarinnar segir að ekki hafi tíðkast að taka mið af vísitölu launa eða hækkun lægstu launa heldur meðalhækkunum í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði að teknu tilliti til hvenær þær tóku gildi. Innbyggt óréttlæti er því í túlkun stjórnvalda á 69. gr. laga um almannatryggingar.
    Fyrsti minni hluti telur með öllu óásættanlegt að kjör elli- og örorkulífeyrisþega skerðist í samanburði við aðra hópa. Sú eðlilega og réttmæta krafa að enginn verði undir lágmarkslaunum var felld við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins 2020. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og þeir þingmenn sem bera þá ríkisstjórn uppi vilja að þeir sem eiga allt sitt undir greiðslum almannatrygginga, fólk sem ekki hefur valið sér hlutskipti sitt og löggjafinn sér um að ákveða á hvaða kjörum verða, verði fátækastir allra á Íslandi.
    Meðal eldri borgara sem fá einvörðungu greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins er hlutfall kvenna hátt. Um 70% lífeyrisþega sem búa við lökustu kjörin eru konur sem voru í hlutastörfum eða heimavinnandi á árum áður. Meðal þeirra sem eru allra verst staddar eru konur af erlendum uppruna. Þessi hópur kvenna hefur unnið sér inn lítil eða engin réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóðum og þær hafa mjög takmörkuð úrræði til að bæta kjör sín.
    Bilið á milli þeirra fátæku og þeirra ríku breikkar vegna aðgerðaleysis stjórnvalda sem segja eitt í ræðum en ákveða annað með fjárlögum. Á sama tíma eru áform uppi um að lækka fjármagnstekjuskatt. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr og 1. minni hluta finnst hún óásættanleg.

Frítekjumark vegna launatekna.
    Fyrsti minni hluti gagnrýnir harðlega að enn eitt árið eigi frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna ekki að hækka. Frítekjumarkið hefur verið 109.600 kr. frá árinu 2010. Ef frítekjumarkið hefði hækkað samkvæmt launavísitölu ætti það að vera rétt um 200.000 kr. Forgangsröðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er skýr. Viðmiðum frá árinu 2010 vegna kjara öryrkja er haldið óbreyttum en skattleysismörk vegna erfðafjárskatts, sem einnig hafa staðið óbreytt frá árinu 2010, eru hækkuð umtalsvert og erfingjum í vil. Skattleysismörk erfðafjárskatts hækka samkvæmt frumvarpinu um 233%, úr 1,5 millj. kr. í 5 millj. kr.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frítekjumarkið verði hækkað í tveimur skrefum og verði 150.000 kr. á árinu 2021 og 200.000 kr. á mánuði á árinu 2022.

Aðgengi að tíðavörum.
    Skoska þingið var fyrst þjóðþinga í heiminum til að samþykkja lög um að túrbindi, túrtappar og aðrar tíðavörur verði jafnan aðgengilegar öllum þeim sem á þurfa að halda. Heilbrigðisyfirvöld og sveitarfélög eiga að sjá til þess að lögunum verði framfylgt. Anna María Allawawi Sonde og Saga María Sæþórsdóttir sendu nefndinni umsögn og benda á hversu miklu máli gott aðgengi að tíðavörum skiptir, sérstaklega fyrir ungt fólk með lítið á milli handanna. Annaðhvort er ungu fólki mismunað eftir efnahag foreldra eða sú ósanngjarna krafa gerð að eyða þeim litlu peningum sem það á í nauðsynlega vöru sem tíðavörur eru. Tíðavörur eru jafn mikilvægar og klósettpappír og þess vegna ætti aðgengi að þeim að vera jafn sjálfsagt. Blæðingar gera ekki boð á undan sér og því mikilvægt að hafa tíðavörur til staðar á salernum, ekki síst í skólum og félagsmiðstöðvum þar sem ungt fólk er. Þær leggja einnig til að skattur verði afnuminn af tíðavörum.
    Fyrsti minni skorar á Alþingi Íslendinga að taka Skota sér til fyrirmyndar í þessum efnum með lagasetningu. Þannig verði séð til þess að tíðavörur verði á salernum í skólum, frístundaheimilum og öllum opinberum stofnunum. 1. minni hluti kallar eftir því að virðisaukaskattur á tíðavörur verði tekinn til sérstakrar skoðunar í boðuðu frumvarpi um endurskoðun virðisaukaskatts.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Fyrsti minni hluti tekur undir breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um skattalega ívilnun tengiltvinnbíla, niðurfellingu virðisaukaskatts við endursölu vistvænna ökutækja og breytingar á lögum um tekjufallsstyrki.

    Með hliðsjón af framangreindu leggur 1. minni hluti til eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir a-lið 22. gr. komi tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
     a.      Í stað „1.315.200 kr.“ í 14. tölul. kemur: 1.800.000 kr.
     b.      Við 14. tölul. bætist: og 2.400.000 kr. frítekjumark á árinu 2022.

Alþingi 1. desember 2020.

Oddný G. Harðardóttir.