Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 491  —  56. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög (viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn).

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Um það markmið að tryggja jafnrétti karla og kvenna ríkir enginn ágreiningur enda er það meðal grunngilda íslensks samfélags. Minni hlutinn setur hins vegar spurningarmerki við það hvort sú aðferð sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi, þ.e. mjög íþyngjandi dagsektir sem geta numið 3 millj. kr. á mánuði eða 36 millj. kr. á ári, sé æskileg til að vinna að því markmiði og standist kröfur um meðalhóf.
    Minni hlutinn lagði fram tvær spurningar um frumvarpið sem bornar voru undir Stefán Má Stefánsson, prófessor og sérfræðing í félagarétti. Í fyrsta lagi spurði minni hlutinn hversu langt ríkisvaldinu væri heimilt að ganga með hliðsjón af grundvallarsjónarmiðum í félagarétti og eftir atvikum eignarrétti, m.a. um frjálsa meðferð fólks á eignum sínum, með kröfu á hendur atvinnufyrirtækjum til að ná fram þjóðfélagslegum markmiðum með fjárhagslegum þvingunarúrræðum á borð við dagsektir, líkt og kveðið er á um í frumvarpinu. Í svari Stefáns til kom eftirfarandi fram:
    „Hafa ber í huga að félagafrelsi og eftir atvikum eignarréttur þeirra er varinn af ákvæðum stjórnarskrárinnar gagnvart ýmsum ráðstöfunum af hálfu ríkisvaldsins, þar með talið löggjafans, sbr. einnig 11. gr. MSE. Af þessum sökum er meginreglan sú að félög ráða sjálf málum sínum og teljast jafnframt eigendur eigna sinna. Þennan rétt er þó unnt að skerða ef slíkar skerðingar hafa stoð í málefnalegum sjónarmiðum, þar á meðal sjónarmiðum um meðalhóf. Það væri t.d. málefnalegt sjónarmið að leitast við með setningu laga að jafna hlutföll milli karla og kvenna í stjórnum sumra félaga. Gæta verður þó meðalhófs. Það þýðir að leita verður leiða sem skerða sem minnst rétt félaga til að ráða sjálf málum sínum og eigum en geta engu að síður verið til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
    Sé um að ræða félög sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga eru mun ríkari heimildir fyrir hendi til þess að setja lög af fyrrgreindu tagi. Fyrirliggjandi frumvarp gæti því samrýmst slíkum félögum.
    Meiri vafi ríkir hins vegar þegar um einkafyrirtæki er að ræða. Í öllu falli þyrfti þá lagaheimild af þessum toga að vera skýr og fyrirsjáanleg. Það þýðir [að] þvingunarúrræðum verður vart beitt nema lagaheimild teljist nægjanlega skýr og að gættum hugsanlegum undantekningum sem þurfa sömuleiðis að vera skýrar. Eins [þurfa] að vera leidd rök að því (t.d. í lögskýringargögnum) að vægari úrræði væru ekki tæk til að ná markmiðinu um kynjahlutföll í stjórnum.“
    Í öðru lagi spurði minni hlutinn hvaða kröfur gera bæri um málsmeðferð á vettvangi stjórnvalds sem falið væri vald til að beita íþyngjandi aðgerðum eins og mælt er fyrir um í frumvarpinu með tilliti til rannsóknarreglu, meðalhófs, andmælaréttar, upplýsingaskyldu stjórnvalda o.fl. og hvaða sjónarmið um sveigjanleika í ljósi ólíkra aðstæðna gætu átt við. Í svari Stefáns kom fram að svarið færi fyrst og fremst eftir heimildarlögunum. Væri um opna heimild að ræða væri öruggara að fara varlega og beita ekki heimild nema um tiltölulega augljósa vanrækslu væri að ræða. Í hlutafélögum og einkahlutafélögum gætu auðveldlega komið fyrir tilvik þar sem félag gæti ekki tryggt jafna stöðu kynja. Það ætti t.d. við þar sem hlutfallskosning er viðhöfð. Við slíkar aðstæður væri tæpast ráðlegt að leggja á dagsektir. Einnig yrði að gæta að öllum stjórnsýslureglum og í því sambandi væri rétt að skoða stöðu þess stjórnvalds sem leggur á dagsektir og möguleika á að kæra slíkar ákvarðanir til æðra stjórnsýslustigs.
    Minni hlutinn telur að framangreint gefi tilefni til að gera breytingar á frumvarpinu þannig að sveigjanleiki verði aukinn og til að tryggja að meira hófs verði gætt við íhlutun stjórnvalda um málefni atvinnufyrirtækja. Þá telur minni hlutinn nauðsynlegt að félagi sem dagsektir beinast að sé tryggður skýr réttur til að leita eftir endurskoðun slíkrar ákvörðunar á stjórnsýslustigi enda mikill munur á kostnaði og fyrirhöfn eftir því hvort ákvörðun er kærð til æðra stjórnvalds eða borin undir dóm.
    Minni hlutinn telur af framangreindum sökum að málið sé ekki tilbúið til afgreiðslu. Nauðsynlegt sé að því verði vísað aftur til nefndarinnar til nánari umfjöllunar á milli 2. og 3. umræðu þar sem tekin verði nánar fyrir þau atriði sem talin hafa verið til.

Alþingi, 3. desember 2020.

Ólafur Ísleifsson,
frsm.
Sigurður Páll Jónsson.