Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 492  —  277. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2019.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


Um endurskoðun þjóðhagsuppgjörs.
    Með lögum þessum er ætlunin að Alþingi staðfesti ríkisreikning en ríkisreikningur er gerður samkvæmt alþjóðlega reikningsskilastaðlinum IPSAS sem er uppgjörsstaðall fyrir ríkissjóð sem og ýmis önnur þjóðríki. Ríkisreikningur er því endurskoðaður af Ríkisendurskoðun samkvæmt reglum sem um endurskoðun gilda. Hins vegar eru fjárlög lögð fram á reikningsskilagrunni þjóðhagsreikninga GFS. Það uppgjör er ekki endurskoðað af Ríkisendurskoðun, þar sem stofnunin endurskoðar uppgjör samkvæmt reikningsskilastöðlum IPSAS. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi GFS-uppgjörsins en um leið vakna áhyggjur af því að niðurstöður uppgjörs samkvæmt því njóti ekki sambærilegrar endurskoðunar og áritunar endurskoðenda. 1. minni hluti telur mikilvægt að tryggð verði full endurskoðun og full áritun GFS-uppgjörsins og hvetur fjármála- og efnahagsráðherra til að bregðast við því.

Horft fram hjá kólnun hagkerfisins.
    Þess sjást augljóslega merki í ríkisreikningi fyrir árið 2019 að tekið var að hægjast á í hagkerfinu. Staða ríkissjóðs var farin að versna. Áföll dundu yfir, loðnubrestur og gjaldþrot flugfélagsins WOW. Væntingar um að önnur flugfélög myndu fylla fljótt í skarðið gengu ekki eftir. Þannig var óvissa um bein og afleidd áhrif þessara áfalla. Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2019 einkenndust af mikilli útgjaldaaukningu og skorti á ráðdeild þrátt fyrir skýr merki um samdrátt í hagkerfinu.
    Áberandi er hversu mikið skorti á árangursmælingar í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019. Skýr og mælanleg markmið um ráðstöfun fjármuna skorti. Fjárlög fyrir árið 2019 voru alltof ógagnsæ og verkefnið fram undan er að breyta framsetningu fjárlaga þannig að þau verði mun gagnsærri en þau eru nú.
    Aukning í ríkisútgjöldum fyrir árið 2019 var innstæðulaus og því neyddist ríkisstjórnin til að leggja fram fjáraukalög en samkvæmt lögum um opinber fjármál hefðu þau átt á þeim tíma að heyra sögunni til.

Tekjur ríkissjóðs verulega ofmetnar.
    Það kemur því ekki á óvart að uppgjörið í ríkisreikningi sýni 67,4 milljarða kr. verri afkomu en miðað við fjárlög fyrir árið 2019. Samkvæmt reikningsskilum aðlöguðum að fjárlagagrunni var afkoman neikvæð um 38,9 milljarða kr. en samkvæmt fjárlögum 2019 átti ríkissjóður að skila jákvæðri afkomu upp á 28,6 milljarða kr. Verri afkoma samkvæmt uppgjöri skýrist að mestu af því að tekjur voru ofmetnar í fjárlögum fyrir árið 2019 um 63,5 milljarða kr. Áætlanagerð ríkisfjármála af hálfu ríkisstjórnarinnar er því afleit þegar um svo gríðarlegt ofmat á tekjum er að ræða.
    Það var vitað að annað af stóru flugfélögunum var mjög illa statt og stefndi í gjaldþrot. Flugfélag sem flutti 35% allra farþega til landsins. Tekjufallið fyrir ríkissjóð var handan við hornið en ríkisstjórnin kaus að horfa fram hjá því. Það var tekið að halla undan fæti á síðari hluta ársins 2018. Hinn margumtalaði viðnámsþróttur ríkisins hefði getað verið meiri og betri hefði ríkisstjórnin haldið skynsamlega á ríkisfjármálunum.
    Samkvæmt efnahagsreikningi hækkuðu skuldir um 337 milljarða kr. frá 2018 og námu 1.947 milljörðum kr. í lok árs 2019. Þetta er ríflega 20% aukning á skuldum. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar voru 722 milljarðar kr. í lok árs 2019 og jukust um tæp 12% sem er meira en síðustu tvö ár þar á undan. Þannig námu ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar tæplega fjórðungi af vergri landsframleiðslu í fyrra. Þær hækkuðu um rúm 20% milli áranna 2015 og 2016 en um 17% árið þar áður.
    Það er áhyggjuefni fyrir ríkissjóð að þessar skuldbindingar aukast ár frá ári og það er áhyggjuefni að ekki hafi reglubundið verið lagt til hliðar vegna lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs. Ríkisreikningur fyrir árið 2019 ber þess glöggt merki að ríkisstjórnin kaus að horfa fram hjá skýrum merkjum um að hagkerfið væri í örum samdrætti. Það hefði því átt að sýna mun meiri varfærni í ríkisfjármálunum en gert var.

Alþingi, 3. desember 2020.

Birgir Þórarinsson.