Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 497  —  383. mál.
Flutningsmenn.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um Landhelgisgæslu Íslands.

Frá Smára McCarthy, Andrési Inga Jónssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Ingu Sæland, Jóni Þór Ólafssyni, Sunnu Rós Víðisdóttur, Söru Elísu Þórðardóttur, Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á Landhelgisgæslu Íslands.
    Í skýrslu ríkisendurskoðanda verði fjallað um eftirfarandi atriði:
          hvernig stjórnsýslu Landhelgisgæslunnar hefur verið háttað undanfarin ár og hvort tækifæri séu til umbóta,
          hvort misbrestir hafi orðið í ákvarðanatöku, einkum varðandi nýtingu fjármuna, starfsmannahald, viðhald og endurnýjun búnaðar,
          hvernig hagkvæmni og skilvirkni hafi verið tryggð í rekstri og
          hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt á grundvelli lögbundinna verkefna Landhelgisgæslunnar.

Greinargerð.

    Landhelgisgæsla Íslands sinnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi þar sem hún ber ábyrgð á öryggisgæslu og björgun á hafi úti, fer með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum sem henni eru falin með lögum. Afar mikilvægt er að verkefnum hennar sé sinnt af ábyrgð og festu svo að þeir fjármunir sem til stofnunarinnar eru veittir tryggi öryggi þeirra sem reiða sig á þjónustu Landhelgisgæslunnar. Í ljósi nýlegrar umfjöllunar um störf gæslunnar er rétt að gera athugun á því hvort fjármunum til hennar sé varið á þann hátt sem ákjósanlegast megi telja til að uppfylla starfsskyldur gæslunnar.
    Með skýrslubeiðninni er óskað eftir því með vísan í 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á stjórnsýslu Landhelgisgæslunnar skv. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt þeirri grein felur stjórnsýsluendurskoðun í sér mat á frammistöðu þeirra aðila sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með. Markmið stjórnsýsluendurskoðunar er að stuðla að úrbótum þar sem einkum er horft til eftirfarandi atriða:
     a.      meðferðar og nýtingar ríkisfjár,
     b.      hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins,
     c.      hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt.
    Við mat á frammistöðu skal m.a. líta til þess hvort starfsemi sé í samræmi við fjárheimildir, löggjöf sem um hana gildir og góða og viðurkennda starfshætti.
    Fjárframlög til Landhelgisgæslunnar á ársgrundvelli eru umtalsverð, en samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2021 eru áætluð framlög til hennar rúmir 5,4 milljarðar kr. Talsverðar breytingar eru í fjárheimildum málaflokksins í umræddu frumvarpi, þar sem kaupum á þremur nýjum þyrlum hefur verið frestað og fjárheimild málaflokksins því lækkuð um 2,2 milljarða kr. en á móti kemur að rekstrarframlög hækka um 651 milljón kr.
    Í umfjöllun fjármálaáætlunar fyrir árin 2020–2024 segir að Landhelgisgæslan starfi á grundvelli laga um Landhelgisgæslu Íslands og samkvæmt landhelgisgæsluáætlun 2018– 2022. Ekki verður þó séð að umrædd áætlun hafi verið birt. Þá hefur Landhelgisgæslan ekki birt ársskýrslu síðan árið 2013. Upplýsingar um stefnu stjórnvalda hvað varðar Landhelgisgæsluna geta því ekki talist á reiðum höndum, en upplýsingar um framfylgni með lögum annars vegar og stefnu hins vegar eru í raun engar. Mikilvægt er því að lagt verði sjálfstætt mat á nýtingu fjármuna Landhelgisgæslunnar.
    Þegar kemur að starfsemi á borð við þá sem Landhelgisgæslan sinnir má vænta þess að stærstur hluti fjármuna fari til starfsmannahalds annars vegar og viðhalds og reksturs búnaðar hins vegar. Eðlilegt er að þessir þættir skipi stærstan sess í þeirri könnun sem ríkisendurskoðanda er falin og eins að almennt verði gerð könnun á því hvort misbrestir hafi orðið í ákvarðanatöku þegar kemur að nýtingu fjármuna.