Ferill 20. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 508  —  20. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019 (breytt aldursviðmið).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Rán Ingvarsdóttur og Aagot Óskarsdóttur frá forsætisráðuneytinu, Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Guðríði Bolladóttur frá umboðsmanni barna og Daníel E. Arnarsson frá Samtökunum ’78.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Samtökunum ’78 og umboðsmanni barna.
    Með frumvarpinu er lagt til að réttur til að breyta opinberri skráningu kyns, og samhliða nafni, miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára. Þá er lagt til að einstaklingar undir 18 ára aldri séu undanþegnir þeim takmörkunum að breyting á skráningu kyns og samhliða nafnbreyting sé aðeins heimil einu sinni nema sérstakar ástæður séu til annars. Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn til að gæta samræmis milli þeirra og ákvæða frumvarpsins.
    Samhljómur var á meðal gesta um mikilvægi þess að viðurkenna stigvaxandi sjálfsákvörðunarrétt barna og friðhelgi einkalífs þeirra, sem m.a. nær til sjálfsmyndar og kynvitundar.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að varhugavert væri að barn gæti breytt skráningu án þess að afstaða foreldra lægi fyrir og að tryggja þyrfti börnum og foreldrum viðeigandi ráðgjöf. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að börn njóti stuðnings foreldra í þessum efnum en hins vegar telur meiri hlutinn það brýnna að aldursviðmiðið verði lækkað enda feli það í sér ótvíræða réttarbót fyrir þorra trans unglinga. Meiri hlutinn tekur undir afstöðu starfshóps um ýmsar laga- og reglubreytingar vegna laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, sem koma fram í tillögum hópsins um að unglingar hafi við 15 ára aldur nægan þroska til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé fyrir þá að breyta kynskráningu og gera sér grein fyrir afleiðingum þeirrar ákvörðunar. Þá tekur meiri hlutinn undir það mat starfshópsins að mikilvægi þess að kynskráningarbreyting standi unglingum til boða réttlæti það að takmarka að þessu leyti forsjárvald foreldra eða forsjáraðila. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að ákvörðun um að breyta opinberri skráningu kyns er afturkræf og einföld í framkvæmd. Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn jafnframt á að í tillögum starfshópsins eru lagðar til mögulegar útfærslur er varða aðstoð við trans börn sem ekki njóta stuðnings forsjáraðila og vísar meiri hlutinn til þeirrar umfjöllunar og áréttar nauðsyn þess að unglingum sé tryggður stuðningur þegar þeir standa frammi fyrir slíkri ákvörðun.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.


Alþingi, 4. desember 2020.

Páll Magnússon,
form.
Steinunn Þóra Árnadóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Þórunn Egilsdóttir.