Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 510  —  361. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingar á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar (framfærsluuppbót og eingreiðsla).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og bárust henni tvær umsagnir. Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands er hvatt til þess að afgreiðslu málsins verði flýtt.

Efni frumvarpsins.
Framfærsluuppbót.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur að breytingum sem lúta að greiðslu sérstakrar uppbótar vegna framfærslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Fjárhæðir tekjuviðmiða vegna greiðslu sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu eru uppfærðar að viðbættri 3,6% hækkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga ársins 2021. Miðast viðmiðunarupphæð þeirra sem fá greidda heimilisuppbót við 333.258 kr. á mánuði og þeirra sem ekki fá greidda heimilisuppbót við 265.044 kr. á mánuði. Fjárhæðirnar hafa áður verið uppfærðar með reglugerð sem ráðherra setur, en skýrara þykir að hafa uppfærða fjárhæð í lögum.
    Þá er með frumvarpinu lagt til að dregið verði úr áhrifum tekjutryggingar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega við útreikning sérstakrar uppbótar þannig að til tekna lífeyrisþega skuli telja 95% af fjárhæð tekjutryggingar.

Sérstök eingreiðsla.
    Með frumvarpinu er lögð til sérstök skattfrjáls eingreiðsla til þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem hafa á árinu 2020 átt rétt á greiðslu örorkulífeyris eða endurhæfingarlífeyris. Eingreiðslan skal vera 50.000 kr. til þeirra sem hafa fengið greiddar bætur alla mánuði ársins og hlutfallslega til þeirra sem fengið hafa greiddar bætur hluta árs. Nefndin leggur áherslu á að sérstök eingreiðsla verði greidd út tímanlega fyrir jól.

    Nefndin telur brýnt að tryggja hraðan framgang málsins og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 7. desember 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sara Elísa Þórðardóttir. Vilhjálmur Árnason.