Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 511  —  5. mál.
3. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá Jóni Steindóri Valdimarssyni.


    Á eftir 36. gr. komi nýr kafli, Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með einni grein, svohljóðandi:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ríkissjóður skal styðja sveitarfélög vegna aukins kostnaðar við félagsaðstoð á árinu 2021. Heildarframlög skulu vera 2.000.000.000 kr. og skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga í samræmi við útlagðan kostnað þeirra við að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd úthlutunar.

Greinargerð.

    Lagt er til að tveggja milljarða kr. framlag úr ríkissjóði renni til sveitarfélaga til þess að standa straum af auknum kostnaði við félagsþjónustu. Álag á félagsþjónustu hefur vaxið mikið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og á eftir að vaxa enn meira, m.a. vegna mikils atvinnuleysis. Á sama tíma fer launakostnaður sveitarfélaganna hækkandi. Framlagið kemur til með að draga úr áhrifum niðurskurðar á þjónustu við íbúana, þótt fjárhæðin nái ekki yfir alla kostnaðaraukninguna. Rétt er að úthlutanir skiptist þannig að sveitarfélög sem mestan útlagðan kostnað hafa vegna félagsþjónustu njóti mests stuðnings, en að ráðherra verði heimilt að kveða á um nánari framkvæmd úthlutunar í reglugerð.