Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 518  —  19. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.).

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur og Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur frá utanríkisráðuneyti, Steinar Örn Steinarsson frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins og Friðrik Jónsson, Þórð Ægi Óskarsson og Sólrúnu Svandal frá Hagsmunaráði starfsfólks utanríkisþjónustunnar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, Hagsmunaráði starfsfólks utanríkisþjónustunnar og Stefáni Skjaldarsyni sendiherra.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi (716. mál) þar sem meiri hluti nefndarinnar lagði til efnisbreytingar (þskj. 1802) sem tekið hefur verið tillit til. Að auki hefur viðmiði um fjölda sendiherra sem skipaðir eru í utanríkisþjónustuna án staðarákvörðunar í 1. flokki verið breytt og verða þeir ekki fleiri en fjöldi sendiskrifstofa hverju sinni.
    Meiri hlutinn fagnar því að tekið hafi verið tillit til þeirra tillagna sem meiri hluti nefndarinnar lagði til á síðasta löggjafarþingi. Fyrst ber að nefna að áskilnaður er nú gerður um að þeir sendiherrar sem skipaðir verði tímabundið án auglýsingar hafi háskólamenntun og reynslu í alþjóða- og utanríkismálum eða sértæka reynslu sem nýtist í embætti. Í öðru lagi er kveðið á um að heimilt verði að kalla sendiherra sem skipaðir eru tímabundið heim til annarra starfa innan skipunartímans. Í þriðja lagi er nú áskilið að skipuð verði hæfnisnefnd sem verður ráðherra til ráðgjafar um hæfni og almennt hæfi mögulegra sendiherraefna. Við meðferð málsins á 150. löggjafarþingi var ítarlega fjallað um störf svokallaðra hæfnisnefnda. Meiri hlutinn telur rétt að árétta að það er ekki hlutverk slíkrar nefndar að leggja fyrir ráðherra tillögu að vali heldur að fjalla hlutlægt um hæfni og almennt hæfi þeirra sem koma til greina út frá þeim hæfniskröfum sem lagðar eru til grundvallar og veita ráðherra ráðgjöf þar að lútandi. Við meðferð málsins kom fram að umboðsmaður Alþingis hafi til skoðunar starfsemi hæfnisnefnda, skipun þeirra og afmörkun hlutverks þeirra, sem rétt er að litið verði til.
    Meiri hlutinn telur að auki jákvæða þá breytingu sem gerð hefur verið að fjöldi sendiherra sem skipaðir eru í utanríkisþjónustunni án staðarákvörðunar í 1. flokki verði ekki fleiri en fjöldi sendiskrifstofa hverju sinni. Heimildir ráðherra til skipunar sendiherra eru þar með skýrðar og takmarkaðar.
    Meiri hlutinn telur jafnframt til bóta að í greinargerð með frumvarpinu sé hugtakið „fagsendiherra“ ekki notað sem þýðing á enska heitinu career diplomat sem á við um fulltrúa í utanríkisþjónustunni sem fær framgang í sendiherrastöðu. Í nefndaráliti meiri hlutans um frumvarpið á síðasta löggjafarþingi var þessi þýðing talin óheppileg og til þess fallin að valda misskilningi.
    Þegar litið er til alls þessa telur meiri hlutinn að bragarbót hafi verið gerð með þeim breytingum sem orðið hafa á frumvarpinu frá framlagningu þess á síðasta löggjafarþingi. Meiri hlutinn telur eftir sem áður að tímabært sé að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Auk þessa getur ráðherra“ í 1. málsl. 3. efnismgr. komi: Ráðherra getur.
                  b.      Í stað orðanna „II. kafla“ í 3. málsl. 3. efnismgr. komi: II. hluta.
     2.      2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða orðist svo: Frá gildistöku laga þessara skal ekki skipa í embætti þau sem 1. mgr. 9. gr. laganna tekur til fyrr en fjöldinn er kominn niður fyrir það hámark sem þar er kveðið á um.

Alþingi, 7. desember 2020.

Sigríður Á. Andersen,
form.
Bryndís Haraldsdóttir,
frsm.
Ari Trausti Guðmundsson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Silja Dögg Gunnarsdóttir.