Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 520  —  386. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til laga


um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998 (bogfimi ungmenna).

Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Smári McCarthy, Helga Vala Helgadóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Bryndís Haraldsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Inga Sæland, Willum Þór Þórsson.


1. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Barni yngra en 16 ára má ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar nema til æfinga og keppni undir eftirliti lögráða einstaklinga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í skýringum við frumvarp til vopnalaga segir um 31. gr. að ákvæðið sé í samræmi við gildandi reglur, að það þyki eðlilegt að setja tiltekin takmörk við kaupum barna á bogum sem kunna að hafa slíkan togkraft að sérstakri hættu geti valdið. Þessi grein á sér enga hliðstæðu á Norðurlöndum og né í öðrum löndum sem setja hömlur á íþróttaiðkun ungmenna í bogfimi. Í flestum löndum eru engar hömlur á bogfimi eða bogum yfirhöfuð.
    Ungmenni á Íslandi geta bara æft og keppt utan Íslands ef þau stefna til dæmis á Norðurlandamót ungmenna, Ólympíumót ungmenna og sambærileg mót. Í alþjóðlegum mótum er yngsti aldursflokkurinn í kringum 13 ára og eru þá oftast notaðir 15–25 kg bogar. Það gefur því auga leið að sú takmörkun sem er í vopnalögum kemur í veg fyrir æfingar og keppni ungmenna í bogfimi, en sú íþrótt hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum, bæði á heimsvísu og á Íslandi.
    Núverandi fyrirkomulag 31. gr. vopnalaga kemur í veg fyrir að ungmenni geti stundað og keppt í bogfimi. Því er lagt til að bætt sé við skilyrði um að það megi selja eða afhenda örvaboga til æfinga eða keppni undir eftirliti lögráða einstaklinga.