Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 522  —  19. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.).

Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.) var lagt fram í annað sinn nú í haust en málið hafði ekki fengist afgreitt á 150. þingi. Meginástæður þess að málið var ekki klárað var hversu illa það var unnið og mikil gagnrýni umsagnaraðila sem og margra nefndarmanna utanríkismálanefndar. Stjórnarmeirihlutinn hefur lagt allt kapp á að klára málið í stað þess að nýta tímann og skoða málaflokkinn í heild sinni. Það er því ljóst að ríkur stuðningur er innan stjórnarflokkanna um málið þrátt fyrir þá hörðu, óvenjulegu og einstöku gagnrýni sem frumvarpið fékk á síðasta þingi og nú aftur í haust.
    Fjöldi umsagna barst um málið á 150. löggjafarþingi (716. mál) og fékk nefndin á sinn fund sérfræðinga úr utanríkisþjónustunni, embættismenn og sendiherra. Í kjölfarið lagði meiri hluti nefndarinnar til efnisbreytingar (þskj. 1802) sem tekið hefur verið tillit til í þessu frumvarpi. Að auki hefur verið bætt við frumvarpið viðmiði um fjölda sendiherra sem skipaðir eru í utanríkisþjónustuna án staðarákvörðunar í 1. flokki á þann veg að þeir verði ekki fleiri hverju sinni en fjöldi sendiskrifstofa.
    Þær breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu, í kjölfar ábendinga nefndarinnar á 150. þingi, skýra til muna ákvæði um hæfi umsækjenda um stöður sendiherra og kveðið er á um að hæfnisnefndir verði ráðherra til ráðgjafar. Vilji utanríkisráðherra til þess að færa hluta hinnar pólitísku ábyrgðar í hendur hæfnisnefnda er ljósari en í fyrra frumvarpi. Þau fáu atriði sem umsagnaraðilar, sem flestir koma úr utanríkisþjónustunni, töldu jákvæð við þessa útgáfu frumvarpsins snúa að mestu að hæfnisnefndum og ákvæðum um hæfi þeirra sem sendiherratitilinn bera. 2. minni hluti telur þó að hlutverk hæfnisnefnda þurfi og eigi að vera skýrt þannig að hlutverk þeirra afmarkist af því að meta hvort viðkomandi uppfylli hæfisskilyrði en nái ekki til þess að raða umsækjendum eftir hæfi enda er slíkt gjarnan huglægt mat sem ætti að vera á ábyrgð ráðherra.
    Þegar rýnt er í texta frumvarpsins, og reyndar þess eldra líka, virðist eitt meginmarkmiðið vera að setja þak á fjölda sendiherra með nokkrum útfærslum. Íslensk utanríkisþjónusta er smá í alþjóðlegum samanburði. Í augum margra er sjálfsagt og eðlilegt að umfang utanríkisþjónustunnar endurspegli og taki mið af fámenni þjóðarinnar. Við slík sjónarmið er ekkert að athuga og líklega hægt að færa rök fyrir því að slíkt sé eðlilegt. 2. minni hluti er þó ekki sammála því og telur einmitt að fámennið, lega landsins og auðlindir þess kalli einmitt á að hagsmuna okkar sé gætt í hvívetna í síbreytilegum heimi. Íslendingar eru aðilar að fjölda alþjóðasamninga, stofnana, samtaka og fríverslunarsamninga. Segja má að þátttaka okkar í slíku starfi hafi a.m.k. tvenns konar markmið: að gæta hagsmuna þjóðarinnar og verja þau gildi sem við teljum okkur standa fyrir. Styrkur utanríkisþjónustunnar er þannig undirstaða öflugs samfélags.
    Fáar þjóðir eiga jafn mikið undir því og Íslendingar að alþjóðalög og samningar séu gerðir og þeir virtir. Má þar nefna samninga um landhelgi, fiskveiðar, viðskipti og samgöngur. Það þarf ekki öflugt ímyndunarafl til að sjá fyrir sér hvaða afleiðingar það hefði ef hver sem væri gæti veitt fisk upp við landsteina, nýtt náttúruauðlindir eða ef engir samningar væru um flug, skipasiglingar eða fjarskipti.
    Fámenn en vel skipuð utanríkisþjónusta Íslands hefur náð undraverðum árangri þá áratugi sem hún hefur starfað. En betur má ef duga skal. Samfélag þjóða á alþjóðlegum vettvangi stendur ekki kyrrt. Það þróast og breytist á allan hátt eins og við vitum og þar þurfum við að fylgja með, ekki endilega breytast í takt heldur geta metið, tekið þátt, rannsakað og krufið til mergjar, forgangsraðað og varið áfram þá hagsmuni sem nútíð og framtíð þjóðarinnar byggir á. Til þess þarf m.a. öfluga utanríkisþjónustu sem áfram gerir vel en getur um leið sótt inn á nýjar lendur til stuðnings fólki og fyrirtækjum landsins.
    Ýmsar skýrslur hafa verið gerðar um utanríkisþjónustuna og margar góðar sem gefa okkur færi á að reyna að meta hver þróunin verður til framtíðar. Utanríkisráðherra virðist hins vegar hafa bitið það í sig að til þess að þróa þjónustuna áfram verði að ná böndum yfir fjölda sendiherra, líkt og það sé sérstakt vandamál, en um það fjalla þau frumvörp sem hér eru til umfjöllunar. Annað í þeim er látið fljóta með til fegrunar.
    Það er að mínu mati grundvallarmisskilningur að fjöldi sendiherra skipti einhverju máli. Mestu skiptir að fyrir þau verkefni sem vinna þarf sé til mannskapur sem ræður við verkið. Sendiherratitillinn skiptir kannski ekki miklu máli hér heima en víða erlendis skiptir hann sköpum þegar kemur að samskiptum við ráðamenn annarra þjóða. Titillinn er viðurkenning á því að þeim sem hann ber sé falin ákveðin ábyrgð og að viðkomandi njóti trausts yfirvalda. Þannig opnar titillinn ýmsar dyr fyrir embættismenn utanríkisþjónustunnar í hagsmunagæslu þeirra í þágu þjóðarinnar. Verkefni þeirra geta t.d. verið á vettvangi stjórnmála, viðskipta, mannréttindamála, orkumála, menntamála eða borgaraþjónustu. Þessi verkefni geta verið tímabundin eða varanleg og til þess að leysa þau þarf fjölbreyttan hóp fólks með ólíkan bakgrunn. En að því verður vikið síðar.
    Þótt langstærstur hluti þeirra athugasemda sem gerðar voru við frumvörpin í umsögnum væru neikvæðar er ekki annað en sanngjarnt að nefna það sem umsagnaraðilum þótti jákvætt:
          Að markmið frumvarpsins væri jákvætt.
          Að viðmið sem nota ætti til að ákvarða fjölda sendiherra væru ekki lakari en hver önnur.
          Að jákvætt væri að auglýsa stöður sendiherra í 1. flokki.
          Að frumvarpið gerði skipan sendiherra gagnsærri og að einhverju leyti væri þannig mætt markmiðum úr skýrslu ráðherra Utanríkisþjónusta til framtíðar: Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi frá 2017, m.a. um hæfi og auglýsingar.
          Að þrengt væri að valdi ráðherra til pólitískra skipana, í litlum mæli þó.
          Skipun hæfnisnefndar, ráðherra til ráðgjafar um skipun sendiherra.
          Að einhver takmörkun verði á skipan utanaðkomandi í stöðu sendiherra.

    Hins vegar má segja að rauði þráðurinn í umsögnunum sé að nær væri að taka lög um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, til heildarendurskoðunar, enda sé það löngu tímabært. 2. minni hluti tekur undir mikilvægi þess og verður vikið að því nánar síðar.
    Gagnrýnar athugasemdir í umsögnum um frumvarpið eru mun fyrirferðameiri en þær fáu jákvæðu hliðar sem nefndar eru. Við umfjöllun um frumvarpið á síðasta löggjafarþingi var eftirfarandi nefnt:
          Að lögin í heild þyrfti að endurskoða.
          Að frumvarpið næði ekki þeim markmiðum sem lagt væri upp með.
          Að heimildir sem sóst væri eftir væru nú þegar í lögum.
          Að gera ætti sömu hæfniskröfur til allra þeirra sem skipaðir væru sendiherrar, hvort sem um væri að ræða tímabundna ráðningu eða ótímabundna.
          Að ekki væri rétt að sumir sendiherrar væru undanþegnir flutningsskyldu.
          Að of margar leiðir væru til að skipa sendiherra og ekki ljóst hvort einhver munur væri þá í raun á skipuninni.
          Að undanþága frá auglýsingaskyldu væri enn til staðar, sbr. tímabundnar skipanir.
          Að ráðherra væri heimilt að skipa sendiherra tímabundið til að veita tiltekinni sendiskrifstofu forstöðu eða gegna hlutverki sérstaks erindreka.
          Að ráðherra væri heimilt að færa sendifulltrúa í embætti skrifstofustjóra án auglýsingar.
          Að ákvæði um sérþekkingu og reynslu væri ekki málefnalegur grundvöllur að skipan sendiherra.
          Að hætta væri á að tímabundnar ráðningar sendiherra yrðu að meginreglu.
          Að gengið væri á hagsmuni félagsmanna Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins með því að skipa ekki í lausar stöður út frá jafnræðissjónarmiðum og málefnalegum grundvelli.
          Að ósamræmi væri milli frumvarps og greinargerðar þegar kveðið væri á um að stöður yrðu almennt auglýstar opinberlega en á sama tíma yrðu ákveðin störf frátekin fyrir starfsfólk utanríkisþjónustunnar.
          Að fest væri í sessi að skipa mætti sendiherra pólitískt, þ.e. ákveðinn kvóti eða fjöldi.
          Að fyrirkomulagið væri faglegt og gagnsætt fyrir suma en aðra ekki.
          Að frumvarpið myndi hafa neikvæð áhrif á samstarf og samheldni innan utanríkisþjónustunnar og sjálfstæði stjórnsýslunnar.
          Að tímabundin skipun sendifulltrúa í stöðu sendiherra yrði val ráðherra en ekki sjálfstætt ferli.
          Að búið væri til kerfi þar sem yngri starfsmenn gætu tekið á sig aukna ábyrgð án þess að fá til þess skipan.
          Að hvergi væri fjallað um breytingar í alþjóðlegu umhverfi og reynt að bregðast við þeim.
          Að ekki væri lagt mat á það hvort fjöldi sendiherra væri í samræmi við þau verkefni sem takast þurfi á við á næstu árum.
          Að ekki væri sýnt fram á að svigrúm til starfsmannabreytinga samkvæmt núgildandi lögum væri nýtt til fullnustu.
          Að ekki væru færð málefnaleg rök fyrir því að fækka þyrfti sendiherrum sérstaklega umfram aðra starfsmenn stjórnarráðsins og störf sendiherra gerð tortryggileg.
          Að ástæða gæti verið til að rannsaka hvernig ráðherrar hafa farið með vald sitt til skipana sendiherra ef fjöldinn væri vandamál.
          Að sendiherrum hefði í raun fjölgað en ekki fækkað undir núverandi yfirstjórn ráðuneytisins.
          Að samanlagður fjöldi sendiherra væri í samræmi við verkefnin og þeir því ekki of margir.
          Að ekki væri rétt að fækka þeim starfsmönnum sem hefðu mesta reynslu af alþjóðavettvangi á sama tíma og skrifað væri í skýrslur að utanríkisþjónustan þyrfti að axla meira forystuhlutverk.
          Að það væri mótsagnakennt að tala um að fækka sendiherrum um leið og það ætti að leyfa starfsfólki að fá titilinn til afnota til lengri eða skemmri tíma.
          Að órökstutt væri hvernig flokkun sendiherra í þrjá flokka tryggði betri árangur og stöðugleika.
          Að frumvarpið styrkti ekki utanríkisþjónustuna, væri illa rökstutt, mótsagnakennt og ruglingslegt. Það gæfi villandi mynd af stöðu og verkefnum einnar starfsstéttar og kynti undir tortryggni.
          Að sett viðmið um fimmtung forstöðumanna á tímabundnum samningum gæfu til kynna talsvert hærra hlutfall en tíðkast hefði þar sem ráðherrar hefðu undanfarin ár farið sparlega með svigrúm sitt til að skipa sendiherra utan þjónustunnar.
          Að sótt væri að hagsmunum starfsmanna utanríkisþjónustunnar og möguleikar þeirra til embættisskipana takmarkaðir enn frekar.
          Að eðlilegra væri að tímabundnir sendiherrar fengju sendiherranafnbót á meðan þeir sinntu því starfi eins og heimilt væri skv. 6. gr. núgildandi laga.
          Að ef leita ætti út fyrir raðir starfsfólks utanríkisþjónustunnar ætti að setja það sem skilyrði að sambærilega reynslu væri ekki að finna meðal starfsmanna.
          Að ekkert kæmi í veg fyrir að sami tímabundið skipaði starfsmaðurinn væri skipaður aftur eða að viðkomandi sækti um embætti hefðbundins sendiherra og væri þá með forskot á aðra í ljósi þess að hann hefði gegnt starfi sendiherra.
          Að vandséð væri hvernig kvótasett heimild ráðherra til pólitískra skipana samræmdist markmiði frumvarpsins um fækkun sendiherra.
          Að taka ætti út úr frumvarpinu heimild ráðherra til að skipa pólitískt í embætti.
          Að tímabundið skipaðir sendiherrar mættu nota starfstitil sendiherra, en sú heimild væri þegar til staðar í núgildandi lögum. Með frumvarpinu væri heimildin víkkuð út en á sama tíma settur kvóti með þeim rökum að það sporni gegn því að heimildin verði nýtt of mikið. Hún hafi þó í fyrsta sinn verið nýtt samkvæmt núgildandi lögum á síðasta ári og slíkt ákvæði væri tilefnislaust svo framarlega sem staðið væri eðlilega að skipunum sendiherra.
          Að það gæti falið í sér ójafnræði ef ólík kjör og réttindi væru milli þeirra sem starfa sem sendiherrar með titil að láni og þeirra sem væru hefðbundið skipaðir.
          Að heimild til að setja sendifulltrúa tímabundið í stöðu skrifstofustjóra gæti leitt til þess að heimildin takmarki möguleika ráðinna sendifulltrúa til að fá embættisskipun og gæti unnið gegn framgangi innan ráðuneytis. Engin trygging væri fyrir því að hlutur kvenna yrði réttur með breytingunni.
          Að ekki væri nógu skýrt að allar skipanir, bæði tímabundnar og hefðbundnar, í embætti sendiherra og skrifstofustjóra yrðu í samræmi við 18. og 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.
          Að ekki væri tekið á því að valnefndir eru notaðar þegar starfsmenn fara á pósta erlendis en ekki þegar skipaðir eru skrifstofustjórar.
          Að ráðherra ætti ekki að geta skipað í embætti án auglýsingar.
          Að í greinargerð frumvarpsins væri sagt að það gæti stuðlað að auknum möguleikum kvenna og ungs fólks á framgangi.
          Að í frumvarpinu sé heitið sendiskrifstofur látið ná yfir sendiráð, fastanefndir og aðalræðisskrifstofur en grundvallarmunur sé á slíkum starfsstöðvum.
          Að frumvarpið væri ekki til þess fallið að byggja upp sterka utanríkisþjónustu til framtíðar.
          Að hlutfallstakmarkanir, bæði varðandi hefðbundna skipun sendiherra og tímabundnar skipanir, ættu sér engin fordæmi í íslenskri stjórnsýslu.
          Að skipulag og umfang utanríkisþjónustunnar á hverjum tíma og fjárhagslegur rammi ráðuneytisins ætti að stýra fjölda sendiherra.
          Að hæfnisnefndir ættu einnig að koma að skipun tímabundinna sendiherra og skrifstofustjóra.
          Að svigrúm ráðherra til að færa sendifulltrúa tímabundið í stöðu sendiherra og skrifstofustjóra yrði afmarkað með lögmæltum hæfnisviðmiðunum sem samræmdust gildandi lögum um Stjórnarráðið annars vegar og framgangskerfi utanríkisþjónustunnar hins vegar.
          Að utanríkisráðherra væri annars vegar bundinn af stjórnsýslulögum og lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hins vegar fjárlögum á hverjum tíma og það væru fullnægjandi varnaglar gegn óskilgreindri áhættu á offjölgun embættismanna innan utanríkisþjónustunnar.

    Ofangreint á enn við enda vísa flestir umsagnaraðilar til fyrri umsagna. Jafnframt kom fram í umsögnum við frumvarpið á 151. löggjafarþingi eftirfarandi gagnrýni:
          Að umbætur í góðri trú bættu ekki úr ágöllum fyrra frumvarps.
          Að í frumvarpinu kristallist það sjónarmið að ráðherra treysti ekki sínum embættismönnum nema hann hafi skipað þá sjálfur. Þetta kalli á meiri lagasetningu og opni enn frekar á pólitískar ráðningar.
          Að órökstutt væri hvers vegna eigi að fækka sendiherrum sem eru ekki á pósti, heimasendiherrar séu meðal reyndustu embættismanna utanríkisþjónustunnar.
          Að tilgangurinn væri að veita reynsluminna fólki sendiherratitil án auglýsinga og án skipunar.
          Að umbætur varðandi hæfiskröfur til tímabundið skipaðra sendiherra væru ekki raunverulegar því einnig mætti skipa aðila með „sértæka reynslu sem nýtist í embætti“.
          Að hæfnisnefndir hafi takmarkaða aðkomu að skipun sendiherra án auglýsingar.
          Að ekki væri verið að færa skipun nær því sem gerist í nágrannalöndum

    Annar minni hluti man ekki eftir því að jafn afmarkað frumvarp hafi fengið jafn slæma útreið í umsögnum og er þá ótalið það sem fram kom á fundum nefndarinnar og í greinaskrifum í fjölmiðlum.
    Það hefur líka vakið athygli að nokkrir af reynslumestu sendiherrum þjóðarinnar hafi séð sig knúna til að fjalla um málið í umsögnum sem og opinberlega. Það telst til tíðinda. Í einni af umsögnunum er bent á að starfsmenn utanríkisþjónustunnar eigi erfiðara með að tjá sig eða fjalla um mál sem ráðherra leggur fram. Framgangskerfi utanríkisþjónustunnar sé þannig uppbyggt að starfsmenn óttist að fari þeir gegn sínum ráðherra sé frami þeirra í óvissu. Nú verður að gera greinarmun á því hvort starfsmaður lýsi sig andvígan þeim breytingum sem ráðherra er að gera á starfsumhverfi hans eða því hvort starfsmaðurinn fari beint gegn ákvörðun og stefnu ráðherra í einstökum málum. Það að starfsmaður sinni ekki starfi sínu er allt annars eðlis en að lýsa áhyggjum af starfsumhverfi sínu. Því má ætla að þeir reynslumiklu sendiherrar sem lýstu áhyggjum sínum af áformum ráðherra tali fyrir hönd mun fleiri enda er margt keimlíkt með umsögn Hagsmunaráðs starfsmanna utanríkisþjónustunnar og þeirra sem sendu sjálfstæða umsögn þótt nálgunin sé önnur.
    Breyting á lögum um jafn mikilvæga starfsemi og utanríkisþjónustuna á ætíð að hafa aðdraganda, undirbúning, samráð, endurmat og einkennast af tilraunum til þess að ná sem víðtækastri samstöðu um breytingarnar. Það hefur almennt verið raunin um hina pólitísku utanríkisstefnu ef frá eru talin örfá stærri mál. Ef þessir undirbúningsþættir eru ekki til staðar getur það kallað á óvissu og hringl með umgjörðina um málaflokkinn, enda má fastlega búast við því nái þetta frumvarp fram að ganga.
    Starfsumhverfi utanríkisþjónustunnar er eðli máls samkvæmt að mestu erlendis. Þar gilda ákveðnar reglur og hefðir og því mikilvægt að lög sem um starfsemina gilda hefti ekki getu þjónustunnar til að gæta þeirra hagsmuna sem hún gerir hvern dag. Hagsmunirnir sem gæta þarf breytast mögulega hraðar en þær reglur og hefðir sem um utanríkismál gilda og því þarf sveigjanleiki þjónustunnar að geta uppfyllt hvoru tveggja, kröfur um hefðir og reglur sem og möguleika á viðbrögðum við hröðum breytingum. Þetta frumvarp gerir það ekki heldur þvert á móti líkt og bent er á í mörgum umsagnanna.
    Utanríkisráðherra hefur gagnrýnt mjög að mál þetta hafi ekki orðið að lögum sl. vor. Gunnar Pálsson sendiherra fer ágætlega yfir það í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 12. ágúst sl., en þar segir Gunnar m.a.: „Hinn 12. júlí sl. lýsti utanríkisráðherra því yfir í viðtali við Ríkisútvarpið að „þeir sem brugðið hafa fæti fyrir frumvarpið og spilað tafarleiki“ þyrftu að skýra mál sitt og að ekki hefðu komið fram „málefnaleg rök“ gegn frumvarpinu. Margvíslegar athugasemdir við frumvarpið eru settar fram í umsögnum Hagsmunaráðs starfsmanna utanríkisþjónustunnar, nokkurra sendiherra og félagasamtaka, m.a. samtaka gegn spillingu, auk þess sem mismunandi sjónarmið komu fram í utanríkismálanefnd þingsins. Benda þær til þess að ekki ríki sátt um frumvarpið og sé málefnalegum rökum fyrir því áfátt. Alvarleg tilraun sé ekki gerð til að laga utanríkisþjónustuna að þeim breytingum sem séu að verða í alþjóðlegu starfsumhverfi hennar. Þess í stað sé látið líta svo út sem það sé liður í umbótastarfi að „fækka sendiherrum“, þrátt fyrir að ráðherra hafi sjálfur fjölgað sendiherrastöðum og vilji lána titil sendiherra til annarra en þeirra sem hlotið hafi skipun í embættið. Engin trygging sé fyrir því að aðilum sem beri sendiherratitil muni ekki fjölga. Þá sé frumvarpið, frá jafnræðissjónarmiði, skref til baka til úrelts starfsumhverfis fyrir opinbera starfsmenn.“
    Vissulega getur það verið huglægt mat hvað telst málefnalegt og hvað ekki. Þó er mjög vafasamt að gefa í skyn að þær umsagnir sem bárust um málið, umræðan í utanríkismálanefnd og þingsal hafi ekki verið málefnaleg. Það er helst orðræða ráðherra sem gæti flokkast sem ómálefnaleg þegar hann gerir því skóna að þeir sem kunna að vera á móti frumvarpinu séu ESB-sinnar líkt og ráðherra hélt fram í viðtali 11. júní sl. í hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins.
    Líkt og minnst er á fyrr í þessu áliti er það álit 2. minni hluta að verkefni utanríkisþjónustunnar séu svo fjölbreytt að mikilvægt sé að þjónustan hafi á að skipa mannskap með sem víðtækasta þekkingu og reynslu. Sú þekking og reynsla getur verið og er líklega oftast að finna innan þjónustunnar enda koma langflestir í ábyrgðarstöðum úr hópi starfsmanna, m.a. flestir sendiherrar. 2. minni hluti hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni að það kunni að vera ákjósanlegt að sækja sendiherra út fyrir þjónustuna enda sé gott að sá hópur sé blandaður af fólki með reynslu úr heimi utanríkisþjónustunnar, viðskipta og stjórnmála. Fram til þessa hafa utanríkisráðherrar, í langflestum tilfellum, farið mjög sparlega með heimild til að skipa sendiherra utan þjónustunnar svo það getur ekki verið ástæðan fyrir því gallaða frumvarpi sem fjallað er um.
    Á sama tíma og þetta er skoðun 2. minni hluta þá er fullur skilningur á því viðhorfi starfsfólks þjónustunnar að engir eða a.m.k. mjög fáir eigi að koma utan frá í þessi embætti enda eru þau fá og eðlilega eftirsótt meðal starfsmanna. Til þess að það sé eftirsóknarvert að koma til starfa í utanríkisþjónustunni og hún ætíð skipuð öflugu starfsfólki þarf framgangsferillinn að vera skýr og hann má skýra enn frekar. Starfsmenn þurfa einnig að geta treyst því að það að vera partur af einhverjum hópi innan húss eða með einhvers konar forgjöf gagnvart ráðherranum skipti ekki máli þegar á hólminn er komið.
    Eins og áður hefur komið fram telja margir umsagnaraðilar tímabært að endurskoða lög um utanríkisþjónustuna. Tekur 2. minni hluti undir það. Heppilegast hefði verið ef ráðherra hefði tekið af skarið, fyrst forverar hans gerðu það ekki, þ.m.t. undirritaður, og boðað heildarendurskoðun á lögum um utanríkisþjónustu Íslands. Sú vinna gæti verið unnin af breiðum hópi starfsmanna og fulltrúum stjórnmálaflokka þar sem markmiðið væri að semja lög sem endurspegluðu m.a. nútímann, þarfir þjónustunnar, pólitísk markmið og reynt væri að horfa til framtíðar.
    Það færi því vel á því ef máli þessu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar með hvatningu til ráðherra um endurskoðun heildarlaganna. Því miður telur 2. minni hluti ekki vilja til þess hjá ráðherra. Hins vegar er til önnur leið sem er að lögleiða tillögur ráðherra en fresta gildistöku frumvarpsins og þrýsta á um heildarendurskoðun laganna í millitíðinni.
    Því er með áliti þessu lögð fram sú breytingartillaga að frumvarpið verði samþykkt með gildistöku 1. janúar 2022, en að ráðherra hefji nú þegar heildarendurskoðun laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með það að markmiði að lagt verði fram frumvarp þar um á 152. þingi, haustið 2021.
    Með þessu verður frumvarpið samþykkt lítið breytt, líkt og ráðherra hefur lagt áherslu á, en um leið hefst sú vinna sem kallað er eftir. Vert er að benda á að afar stutt er til kosninga og því má velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að samþykkja svo umdeildar breytingar á utanríkisþjónustunni. Með því að fresta gildistökunni gefst nýjum ráðherra svigrúm til að fylgja eftir heildarendurskoðuninni haustið 2021 en takist það ekki þá taka lögin sem nú eru til umfjöllunar gildi.

    Að framangreindu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    7. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022.
    Ráðherra skal þegar hefja heildarendurskoðun laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, og skal miða við að frumvarp, sem leiðir af þeirri endurskoðun, verði lagt fram á haustþingi 2021.

Alþingi, 7. desember 2020.

Gunnar Bragi Sveinsson.