Ferill 389. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 528  —  389. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um breytingu á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.


Flm.: Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flytja frumvarp um breytingu á útlendingalögum sem hafi að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málefna útlendinga og auka skilvirkni í málsmeðferð. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2021 svo að lögfesta megi nauðsynlegar breytingar á málaflokknum fyrir þinglok. Áhersla verði lögð á þau markmið að tryggja að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða.

Greinargerð.

    Málefni flóttamanna og annarra innflytjenda eru með stærstu málum sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Innflytjendamál á Íslandi einkennast af vanmætti stjórnsýslunnar til að ráða við afgreiðslu umsókna innan viðunandi tímamarka. Hefur þetta leitt af sér sívaxandi útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins sem fylgt hafa lögmáli veldisvaxtar. Hælisleitendur bíða í sumum tilvikum árum saman eftir því að fá niðurstöðu. Með því er mikið lagt á fólk sem hingað leitar. Um leið ýtir þessi staðreynd undir tilhæfulausar umsóknir. Slíkum umsóknum er sérstaklega beint að ríkjum þar sem frestunarmöguleikarnir eru mestir. Úr verður skaðleg keðjuverkun, ekki síst fyrir þá sem þurfa mest á hjálp að halda.
    Hælisumsóknum hefur fjölgað hratt á Íslandi á undanförnum árum á sama tíma og þeim hefur fækkað í mörgum nágrannalöndum. Nú er svo komið að hælisumsóknir eru hlutfallslega flestar á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðunum (þær eru meira að segja fleiri en í Svíþjóð). Í fyrra voru slíkar umsóknir, miðað við íbúafjölda, fimmfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi.
    Í Finnlandi, eins og á Íslandi, höfðu umsóknir verið mun færri en annars staðar á Norðurlöndunum áratugum saman. Það vakti því athygli þar í landi þegar fjöldi umsókna tók skyndilega fram úr Noregi og Danmörku (í fyrra voru þær tvöfalt fleiri). Breytt lög og reglur, þ.m.t. auknir frestunarmöguleikar, höfðu komið Finnlandi á kortið hjá mönnum af misjöfnu sauðahúsi sem skipuleggja ferðir til Vesturlanda. Með reglubreytingunni hafði straumi sem áður lá til Belgíu verið beint til Finnlands.
    Á síðasta þingi lagði ríkisstjórnin fram frumvarp sem hefði tryggt þeim sem fá hæli á Íslandi, hvort sem þeir koma á eigin vegum eða annarra, löglega eða ekki, sömu þjónustu og ríkið veitir þeim kvótaflóttamönnum sem boðið er til landsins með atbeina Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það tókst að koma í veg fyrir afgreiðslu þess málsins. Með samþykkt hefði verið settur stór rauður hringur um Ísland sem áfangastað í bókum þeirra sem selja fólki væntingar dýrum dómi og senda það af stað í hættulega óvissuferð. Með því hefði Íslandi verið tryggt heimsmet sem helsti áfangastaðurinn miðað við fólksfjölda (ef við höfum ekki náð því nú þegar).
    Þegar straumur flóttamanna og förufólks til Evrópu rauk upp úr öllu valdi árið 2015 eftir að landamæri Þýskalands voru opnuð jók ríkisstjórnin framlög til flóttamannamála verulega.
    Íslensk stjórnvöld verða að ná stjórn á aðgerðum landsins í flóttamanna- og innflytjendamálum ella heldur áfram keðjuverkun sem 350.000 manna ríki mun ekki ráða við. Sífellt fleiri fara af stað með óraunhæfar væntingar og í mörgum tilvikum borga fyrir að komast áleiðis mönnum af misjöfnu sauðahúsi sem gera sér flutninga fólks að atvinnu. Keðjuverkunin heldur svo áfram.
    Löggjöf um málaflokkinn er haldin alvarlegum ágöllum. Hún ýtir undir þessa þróun, tekur lítið tillit til raunveruleikans og er ekki til þess fallin að beina aðstoðinni að þeim sem þurfa mest á henni að halda. En það þarf líka að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda og hafa virkað. Dyflinnarreglugerðin var ekki sett að ástæðulausu. Samkvæmt henni á að afgreiða hælisumsóknir í því Evrópulandi sem umsækjandinn kemur fyrst til. Eftir að íslensk stjórnvöld fóru að víkja frá henni varð landið fyrst að áfangastað þeirra sem ekki eiga tilkall til alþjóðlegrar verndar. Því skyldu menn fylgja reglunum ef Ísland auglýsir sig sem land sem lítur fram hjá þeim?
    Nauðsyn er á skilvirkri löggjöf þar sem umsóknir eru afgreiddar hratt (m.a. 48 tíma reglu eins og í Noregi) og að afnema allar reglur sem notaðar eru til að skapa óraunhæfar væntingar um Ísland sem áfangastað. Aðrar Norðurlandaþjóðir keppa nú hver við aðra um að draga úr væntingum fólks um dvalarleyfi. Allar nema Ísland. Ef við skerum okkur úr á þessu sviði meðal norrænu landanna verður ekki við neitt ráðið. Það hefur varla farið fram hjá fólki að þrátt fyrir að landið sé nánast lokað vegna heimsfaraldursins kemur hingað enn mikill fjöldi fólks sem telur Ísland vænlegasta kostinn fyrir hælisumsókn.
    Fréttir um ákjósanlegustu áfangastaðina dreifast hratt á samfélagsmiðlum. Danir og Norðmenn hafa á undanförnum árum gripið til aðgerða til að draga úr straumnum þangað. Bæði löndin stóðu í því skyni fyrir birtingu auglýsinga í fjölmiðlum í Mið-Austurlöndum. Danir stigu fetinu framar og sögðu kröfu gerða um að flóttamenn afhentu skartgripi og aðrar slíkar eignir við komuna. Almennt er talið að ekki hafi í raun verið uppi ráðagerðir um slíkt af hálfu danskra stjórnvalda heldur hafi þetta átt að letja fólk enn frekar til að leita hælis í Danmörku.
    Ástæða er til að vekja athygli á stefnu danskra jafnaðarmanna fyrir þingkosningarnar 2019. Þar eru dregnar skýrar línur um að reglum skuli fylgt en einnig um mikilvægi þess að þeir sem fá hæli í landinu skuli laga sig að dönsku samfélagi. Stefnan byggist í raun á gömlum og góðum gildum jafnaðarmanna um mikilvægi samheldinna samfélaga. Þeir gera sér grein fyrir því að sterkt velferðarkerfi og opin landamæri fara ekki saman.
    Allt er þetta spurning um að meta staðreyndir og ná stjórn á málum svo að hægt sé að tryggja hagsmuni samfélaganna og hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda eins mikið og kostur er.

Nýleg þróun í Evrópu.
    Um þessar mundir gætir mikillar gerjunar í málefnum innflytjenda á evrópskum vettvangi. Gefnar hafa verið út yfirlýsingar sem gera verður ráð fyrir að leiði til endurskoðunar á stefnu í málaflokknum í ýmsum Evrópulöndum. Ber hátt í þessu sambandi yfirlýsingar Emmanúels Macrons, forseta Frakklands, og innanríkisráðherra ríkja Evrópusambandsins í nóvembermánuði.
    Greint var frá því 6. nóvember sl. á vefmiðlinum mbl.is að Macron heiti gagngerri endurskoðun á ferðafrelsi innan Evrópusambandsins vegna nýlegra hryðjuverkaárása. 1 Um heimild er vísað til vefsíðu fréttamiðilsins EUobserver sama dag. 2 Haft er eftir Macron að hann sé hlynntur algjörri endurskoðun á Schengen-samkomulaginu, að skipulag verði endurskoðað svo að styrkja megi sameiginlegt landamæraeftirlit með öflugri gæslu. Segir í frétt mbl.is að með þessum orðum hafi Macron vísað í ferðalög um innri landamæri Schengen-svæðisins sem krefjast ekki vegabréfa. Enn fremur er haft eftir Macron að nýlegar árásir öfgamanna í París, Nice og í Vín sýni að hættan á hryðjuverkaárás sé alls staðar. Haft er eftir Macron: „Við verðum að herða okkur í baráttunni við ólöglega innflytjendur sem í auknum mæli tengjast hryðjuverkasamtökum.“ Þá segir að Macron hafi heitið því að leggja til breytingar um aukna landamæragæslu á næsta leiðtogafundi ESB sem fram fer í desember.
    Í tilvitnaðri frétt er haft eftir varnarmálaráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio, að áhættan af algjöru ferðafrelsi sé of mikil. Vitnað er til orða ítalska varnarmálaráðherrans: „Hver sem er getur komið inn í eitt af Schengen-löndunum og farið þvert yfir Evrópu. Áhættan er of mikil og varnarleysi Evrópu of mikið.“
    Í sameiginlegri ályktun dómsmálaráðherra ESB 13. nóvember 2020 er lýst áhyggjum yfir hræðilegum hryðjuverkaárásum á liðnum vikum í París, Dresden, Conflans-Saint-Honorine, Nice, Vín og fleiri stöðum og þessir verknaðir fordæmdir. 3 Segja innanríkisráðherrarnir nauðsynlegt að stjórna ytri landamærum, skrá rafrænt innkomu og brottfarir frá Schengen-svæðinu og starfa nánar með þriðju ríkjum til að berjast gegn hryðjuverkaógnum.
    Tilvitnuð ummæli og ályktanir gefa til kynna að helstu ríki Evrópusambandsins muni beita sér fyrir því að för manna innan álfunnar verði heft frá því sem nú er.

Nýleg þróun á Norðurlöndum.
Danmörk.
    Danski jafnaðarmannaflokkurinn gaf út stefnuskrá fyrir þingkosningarnar 2019. Hér á eftir verður fjallað um helstu atriði í stefnuskránni sem lúta að málefnum hælisleitenda. Ber hún yfirskrift sem þýða mætti sem Sanngjörn og raunhæf. Heildaráætlun um danska útlendingastefnu (d. Retfærdig og realistisk. Helhedsplan for dansk udlændingepolitik). 4 Jafnaðarmannaflokkurinn hafnar afdráttarlaust gildandi stefnu í málaflokknum með því að segja að hún valdi alvarlegu óréttlæti þar sem fólk á flótta setji sig í lífshættu og þar sem menn af misjöfnu sauðahúsi hagnist um milljarða á ógæfu annarra. Í þessu ljósi setur flokkurinn fram aðalstefnumál sitt í málaflokknum: Að sett verði á laggirnar móttökustöð utan Evrópu. Í stefnuyfirlýsingunni er bent á að á þremur síðustu árum hafi tíu þúsund börn, konur og karlar farist eða týnst í Miðjarðarhafinu. Hér sé á ferð mannlegur harmleikur. Flokkurinn óski eftir réttlátara hælisleitendakerfi.
    Danski jafnaðarmannaflokkurinn segir að Danmörk, helst í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, eigi að setja á laggirnar móttökustöð utan Evrópu. Komi hælisleitendur til Danmerkur beri að senda þá í móttökustöðina þar sem umsóknir þeirra verði meðhöndlaðar.
    Segir í framhaldinu að Danmörk muni taka við ákveðnum fjölda kvótaflóttamanna á grundvelli starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Þannig fáist stjórn á hve mörgum flóttamönnum sé hjálpað í Danmörku.
    Móttökumiðstöð geti stuðlað að því að stöðva hinn lífshættulega, áhættusama og stjórnlausa flótta yfir Miðjarðarhafið. Þetta eyði viðskiptatækifærum fólkssmyglara og þýði að færri flóttamenn og förufólk eigi á hættu áreiti og árásir á för sinni.
    Forsætisráðherra Dana og formaður danska jafnaðarmannaflokksins, Mette Frederiksen, sagði í ræðu á danska þjóðþinginu á síðasta þingdegi fyrir sumarleyfi 22. júní sl. að ekki ætti að taka við fleiri flóttamönnum en unnt væri að aðlaga þjóðfélaginu og bætti við að gera skyldi kröfur til þeirra sem kæmu til Danmerkur, enda fylgdust að réttindi og skyldur. 5 Hún sagði við þetta tækifæri að hvort sem fólk ætti rætur í Danmörku eða utan hennar væri það jafnrétti karla og kvenna, stuðningur við lýðræðisleg gildi og danskt samfélag sem byndi fólk saman þar í landi.
    Þessi gildi eiga við á Íslandi. Þá kröfu verður að gera til þeirra sem veitt er alþjóðleg vernd hér á landi að þeir styðji þessi sjónarmið í orði og verki.
    Í stefnuræðu sinni við setningu danska þjóðþingsins 6. október sl. fjallaði Mette Frederiksen forsætisráðherra meðal annars um málefni hælisleitenda. 6 Hljóta þau ummæli að vekja athygli hér á landi. Forsætisráðherra sagði útlendingastefnu mistök fortíðar. Ríkisstjórnin myndi halda áfram strangri stefnu en meira þyrfti að koma til. Evrópska hælisleitendakerfið væri í raun hrunið. Hún sagði: Verum hreinskilin, möguleikinn á hæli er oft kominn undir því að flóttamaður greiði fólkssmyglara og vilji hætta lífinu í yfirfullum gúmmíbát. Miðjarðarhafið er orðið kirkjugarður.
    Enn fremur sagði hún: Enginn flýr að gamni sínu. Eins og komið er bregðumst við bæði þeim sem flýja með milligöngu smyglara og þeim sem eftir sitja og hafa mesta þörf fyrir hjálp. Aðstoð Dana hlýtur að beinast að því fólki. Við viljum meðhöndla hælisumsóknir utan Danmerkur – í þriðju löndum sem veitt geta öryggi þeim sem þurfa á vernd að halda. Og hún bætti við að frá sínum bæjardyrum væri þetta eina raunhæfa framtíðarlausnin.
    Hún lauk þessum kafla ræðu sinnar með því að segja: Látum verkin tala. Ríkisstjórnin leggur fram á hinu nýja þingi lagafrumvarp sem gerir kleift að flytja hælisleitendur til landa utan Evrópu og búa Danmörku undir nýtt hælisleitendakerfi. Þetta er verkefni sem ég vona að við getum sameinast um.
    Ræða danska forsætisráðherrans ber því glöggt vitni í hvílíkar ógöngur Danir hafa ratað í málefnum hælisleitenda. Umræður hér á landi falla í ólíkan farveg sem kunnugt er og sýnist stýrt af aðilum sem sumir virðast leggja í vana sinn að kasta misjöfnum orðum að fólki sem ekki er sama sinnis.
    Fyrir utan móttökustöð hælisleitenda utan Evrópu er í stefnu danskra jafnaðarmanna að finna tillögur um eftirlit á landamærum, breytingar á Schengen-samkomulaginu, sendingu hælisleitenda til heimalands og aðgerðir á hinum ólöglega vinnumarkaði. Segir í stefnunni að svo lengi sem ekki sé stjórn á ytri landamærum Evrópusambandsins og hætta sé á hryðjuverkaárásum skuli Danmörk viðhalda landamæraeftirliti. Muni flokkur jafnaðarmanna beita sér fyrir umbótum á Schengen-samkomulaginu með það fyrir augum að einstök aðildarríki ES ákveði hvenær og hversu lengi þau hafi stjórn á eigin landamærum. Með því ráði Danir hverjir komi inn í landið sem sé grundvallaratriði til að tryggja öryggi dönsku þjóðarinnar.
    Í stefnu danska jafnaðarmannaflokksins er bent á að margt af því fólki sem komið hafi til Danmerkur og Evrópu á síðustu árum sé ekki flóttamenn heldur farandfólk í leit að betra lífi í Evrópu. Verði samþykkt að slíkir fái vist í Danmörku muni margir leita þangað. Þetta ráði danskt samfélag ekki við. Segir enn fremur að hælisleitendur sem fái afsvar eigi ekki kröfu á dvöl í Danmörku og eigi að fara heim. Sérstaklega skuli þó gætt að málefnum barna. Fram kemur að 2018 hafi lögregla lýst eftir um 3.000 hælisleitendum sem hafi fengið afsvar. Danski jafnaðarmannaflokkurinn vill að stofnuð verði sérdeild innan lögreglunnar sem hafi sérstakar heimildir til að sinna heimsendingu slíkra aðila. Danmörk eigi ekki að veita þróunarhjálp til landa sem neiti að taka við eigin ríkisborgurum.
    Í stefnuskjali danska jafnaðarmannaflokksins segir að áætlað sé að um 20 þúsund manns dvelji ólöglega í Danmörku. Til dæmis geti verið um að ræða hælisleitendur sem fengið hafi afsvar og sem yfirvöld viti ekki hvar haldi til þar sem þeir hafi horfið undir yfirborð jarðar og lifi skuggalífi í Danmörku. Þeir framfleyti sér til dæmis með afbrotum og svartri vinnu sem hafi skapað ólögmætan vinnumarkað í Danmörku. Skilyrði öflugs velferðarsamfélags sé vel starfandi vinnumarkaður þar sem fólk geti lifað af tekjum sínum. Það sé fallið til að grafa undan dönsku samfélagi ef við lýði sé ólöglegur vinnumarkaður til hliðar við vinnumarkaðinn þar sem fólk á ólögmætum forsendum starfi á mjög lágum launum og við óviðunandi skilyrði. Jafnaðarmannaflokkurinn sætti sig ekki við slíkan ólögmætan vinnumarkað og samþykki ekki slíka meðferð á fólki og að réttindi launafólks séu fótum troðin.
    Hér hefur aðeins verið drepið á nokkra þætti í stefnuskjali danska jafnaðarmannaflokksins sem er allrar athygli vert. Eitt meginsjónarmið er að veita þurfandi fólki aðstoð um farveg samstarfs við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, að nýta tiltæka fjármuni sem best með því að verja þeim sem næst heimabyggð og að taka fyrir glæpastarfsemi sem leitt hefur af sér harmleikinn á Miðjarðarhafi sem lýst er í skjalinu. Annað meginsjónarmið er að samfélagið og velferðarkerfið þoli ekki álag umfram ákveðin mörk sem setja verði varðandi innflutning fólks til Danmerkur.

Noregur.
    Stjórnarsáttmáli norsku ríkisstjórnarinnar er dags. 17. janúar 2019 og kenndur við Granavolden. 7 Er þar að finna ítarlegan kafla um innflytjendamál og ekki síst málefni hælisleitenda. Hér á eftir verður gripið niður í nokkur helstu atriði í norska stjórnarsáttmálanum um þessi efni í lauslegri endursögn.
    Segir í yfirlýsingunni að sjá megi áskoranir sem tengjast aðlögun. Fólksflutningar reyni á norskt samfélag og þetta eigi ekki síst við um sjálfbærni norska velferðarríkisins. Norska velferðarsamfélagið standi frammi fyrir tímabili með vaxandi hlutdeild eldri borgara og minna efnahagslegu svigrúmi. Mikill innflutningur fólks verði viðbótaráskorun í þessu ljósi. Það sé því nauðsynlegt að herða reglur um innflytjendamál. Noregur muni beita sér fyrir því að finna góðar lausnir fyrir flóttamenn heimsins, bæði með hjálp á nærliggjandi svæðum og með því að taka á móti kvótaflóttamönnum.
    Ríkisstjórnin muni fylgja takmarkandi, ábyrgri innflytjendastefnu með réttaröryggi fyrir augum, að gættum alþjóðlegum skuldbindingum. Ríkisstjórnin muni vinna að því að koma á endurkomusamningum við önnur lönd til að koma í veg fyrir að fólk dvelji í Noregi í heimildarleysi.
    Mikilvægt sé að komið sé í veg fyrir tækifæri til misnotkunar á hælisleitendakerfinu. Þegar um er að ræða fjölskyldusameiningu í Noregi telji stjórnvöld að innflytjandinn verði annaðhvort að geta framfleytt sér eða honum sé framfleytt af þeim sem hann sameinast aftur.
    Börn á flótta séu viðkvæmari en fullorðnir. Leggja verði áherslu á hagsmuni barnsins sem grundvallaratriði í öllum innflytjendamálum sem varða börn.
    Segir í sáttmálanum að í þessum efnum hafi Noregur tekið mikla ábyrgð á löngum tíma. Deila verði milli fleiri landa ábyrgðinni á fólki á flótta.
    Í stjórnarsáttmála segir að ríkisstjórnin hyggist meðal annars:
     *      Tryggja skjóta afgreiðslu hælisumsókna án þess að skerða réttaröryggi hælisleitenda.
     *      Efla eftirlit með fölsuðum skilríkjum og skjölum.
     *      Auka aðgerðir til að fletta ofan af fólki sem fengið hefur dvalarleyfi í Noregi á fölskum forsendum.
     *      Endurmeta málsmeðferð í kærumálum sem tengjast ofsóknum vegna trúarbragða.
     *      Halda áfram viðleitni til að afturkalla dvalarleyfi þegar verndarþörf er ekki lengur fyrir hendi.
     *      Nota DNA-próf í öllum tilvikum til að sannreyna skyldleika við fjölskyldusameiningu.
     *      Tengja Noreg með sterkari hætti við evrópsk ferli um sameiginlegt evrópskt kerfi sem getur falið í sér stofnun sameiginlegra hælismiðstöðva utan ES og eflingu ytri landamæra Schengen-landanna.
     *      Halda uppi tímabundnu landamæraeftirliti svo lengi sem öryggissjónarmið krefjast.

Dyflinnarsamkomulagið.
    Um Dyflinnarsamkomulagið er fjallað í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/2016, um útlendinga. Í því sem hér fer á eftir er stuðst við þessa umfjöllun.
    Ísland á aðild að evrópsku samstarfi er varðar ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd en þátttaka Íslands í þessu samstarfi er liður í Schengen-samstarfinu.
    Dyflinnarreglugerðin er hluti af sameiginlegu kerfi Evrópusambandsins vegna umsókna um alþjóðlega vernd (e. Common European Asylum System). Dyflinnarsamstarfið var í fyrstu byggt á samningi aðildarríkja Evrópusambandsins um ábyrgð á meðferð beiðna um alþjóðlega vernd, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990. Sá samningur var leystur af hólmi með reglugerð ráðsins (EB) 343/2003. Ísland samþykkti Dyflinnarreglugerðina með tilkynningu til ráðs Evrópusambandsins hinn 6. maí 2003, sbr. auglýsingu nr. 14/2003 sem birt var í C-deild Stjórnartíðinda. Árið 2013 tók gildi ný Dyflinnarreglugerð nr. 604/2013/EB sem ætlað var að bæta réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur hún öðlast gildi á Íslandi.
    Markmið samstarfsins er að koma á fót skýrum reglum um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar eru fram í aðildarríkjunum til þess að koma í veg fyrir að vafi leiki á um hvar umsókn skuli tekin til meðferðar. Ætlunin er að tryggja að umsókn um alþjóðlega vernd hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna og koma þar með í veg fyrir að umsækjandi verði sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Reglugerðin geymir viðmið um það hvaða ríki ber ábyrgð á efnislegri umfjöllun umsóknar um alþjóðlega vernd og er um þau fjallað í III. kafla hennar. Reglugerðin lýtur þannig eingöngu að því að ákveða hvaða ríki beri ábyrgð á umfjöllun umsóknar en ekki að því hvernig eigi að meta umsóknina efnislega. Árið 2013 voru gerðar breytingar á viðmiðunum, m.a. til að mæta dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og Mannréttindadómstóls Evrópu en að auki var leitast við að tryggja betur réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Séu til staðar slíkir gallar á móttöku eða málsmeðferð umsækjenda í því aðildarríki sem ber ábyrgðina að hætta sé á að umsækjandi verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. réttindaskrár Evrópusambandsins (sambærileg 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu) skal aðildarríkið þar sem umsækjandi er staddur eftir atvikum taka til meðferðar umsóknina þótt það beri ekki ábyrgð á slíkri meðferð, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Í 33. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er mælt fyrir um eftirlitskerfi, viðbúnað og krísustjórn. Samkvæmt þeim ákvæðum er aðildarríkjum falið að vinna náið með EASO (European Asylum Support Office) til að koma í veg fyrir að móttökukerfi þeirra láti undan vegna mikils fjölda umsókna með þeirri áhættu að móttökukerfin standi ekki undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar.
    Með breytingum árið 2013 var m.a. reglum breytt varðandi leiðbeiningar fyrir umsækjendur, fylgdarlaus ungmenni, fjölskyldusameiningar, rétt til frestunar réttaráhrifa og skýrari reglur settar um skipti á heilbrigðisupplýsingum. Var breytingunum ætlað að bregðast við gagnrýni sem sett hafði verið fram á Dyflinnarsamstarfið. Eftir sem áður er aðildarríkjunum þó ávallt heimilt að taka til meðferðar umsókn um alþjóðlega vernd þótt það beri ekki ábyrgð á slíkri meðferð, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Jafnframt er heimilt með vísan til mannúðarsjónarmiða að sameina umsækjendur sem eru háðir hver öðrum, t.d. á grundvelli fjölskyldutengsla.
    Með aðild Íslands að Dyflinnarsamstarfinu hefur ríkið skuldbundið sig til að fylgja og virða þær reglur sem felast í Dyflinnarreglugerðinni. Með hliðsjón af þessu beita íslensk stjórnvöld sem starfa að útlendingamálum ákvæðum reglugerðarinnar við mat á því hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar eru fram hér á landi.
    Undanfarin ár hefur álag aukist á hælisleitendakerfið hér á landi og útgjöld vaxið langt umfram aðra málaflokka í ríkisútgjöldum. Mikilvægt er að afgreiða umsóknir um alþjóðlega vernd mun hraðar en nú er og nýta það samstarf sem aðilar Dyflinnarreglugerðarinnar hafa komið sér saman um, þ.e. að afgreiðsla umsókna eigi að fara fram í því landi sem einstaklingurinn kemur fyrst til. Með því ávinnst margt, fyrst og fremst hraðari afgreiðsla og minni kostnaður en ekki síður að líkur aukast á því að umsækjandi fái niðurstöðu hvað varðar sína umsókn. Því þarf að nýta bein ákvæði reglugerðarinnar um afgreiðslu umsókna í því landi sem ábyrgðina ber í langsamlega flestum tilfellum. Gera má ráð fyrir að með þessu móti styttist verulega afgreiðslutími þeirra umsókna sem verða teknar til efnismeðferðar öllum til hagsbóta.
    Skilgreina þarf hugtakið viðkvæm staða í samanburði við önnur Evrópuríki og samræma skilning og reglur. Þetta er nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir óhóflegt álag á íslenskt heilbrigðis- og velferðarkerfi.

Meginályktanir um breytingar á útlendingalögum.
    Nýlega hefur komið fram í fjölmiðlum að fjöldi umsókna hælisleitenda og samþykktra umsókna að undanförnu hér á landi sé fimmfaldur borið saman við Danmörku og Noreg ef tekið er mið af höfðatölureglu. Í svari dómsmálaráðherra, dags. 19. nóvember 2020, kemur fram að af 596 umsækjendum um alþjóðlega vernd á fyrstu 10 mánuðum ársins 2020 séu 293 einstaklingar skráðir með vernd í öðru ríki, þar af 221 með vernd í Grikklandi.
    Þessar staðreyndir einar og sér sýna að málefni hælisleitenda hafa ratað í ógöngur hér á landi. Útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins hafa vaxið undangengin ár eftir lögmáli veldisvaxtar. Málsmeðferð hefur reynst þung í vöfum og afgreiðslutími umsókna er of langur og kostnaðarsamur. Miðflokkurinn telur að ekki verði við unað og að taka þurfi ákvarðanir um breytingar á lögum um útlendinga.
    Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, segir: „Umsóknum skv. 36., 37. og 39. gr. skal að jafnaði svarað innan sex mánaða. Umsóknum skv. 1. og 2. mgr. 36. gr. um það hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar skal svarað innan 12 mánaða og umsóknum skv. 37. og 39. gr. skal svarað innan 18 mánaða.“
    Eins langir frestir og hér er kveðið á um fá ekki staðist og þá verður að stytta. Ákvörðun um hvort umsókn um alþjóðlega vernd fái efnismeðferð þarf að taka innan 48 stunda og efnismeðferð ætti að takmarkast við sex mánuði.
    Dyflinnarsamkomulagið þarf að taka til ákvæða útlendingalaga um hælisleitendur, sbr. IV. kafla, Flóttamenn og vernd gegn ofsóknum, en vísan til samkomulagsins er einungis að finna í IX. kafla, Dvalarleyfi vegna alþjóðlegrar verndar, mannúðarsjónarmiða og mansals, sbr. 74. gr. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með þessu þarf Dyflinnarsamkomulagið að fá aukið vægi í lagaframkvæmd í þessum málaflokki.
1     www.mbl.is/frettir/erlent/2020/11/06/macron_vill_endurskoda_schengen/
2     euobserver.com/justice/149971?utm_source=euobs&utm_medium=email
3     www.consilium.europa.eu/en/press/press-releases/2020/11/13/joint-statement-by-the-eu-home-affairs-ministers-on-the-recent-terrorist-attacks-in-europe/
4     www.socialdemokratiet.dk/media/8545/retfaerdig-og-realistisk-ny.pdf
5     www.stm.dk/statsministeren/taler/statsminister-mette-frederiksens-tale-ved-folketingets-afslutningsdebat-den-22-juni-2020/
6     www.stm.dk/statsministeren/taler/statsminister-mette-frederiksens-tale-ved-folketingets-aabning-den-6-oktober-2020/
7     www.regjeringen.no/no/dokumenter/politisk-plattform/id2626036/#justis