Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 535  —  1. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í þessu fjárlagafrumvarpi er störfum hvorki fjölgað í nægilegum mæli né tekið utan um þann hóp sem hefur misst atvinnuna. Þetta fjárlagafrumvarp er ekki hin græna bylting sem hér hefur verið boðuð og enn eru fjárfestingar of litlar.
    Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar nemur 1% af landsframleiðslu og dugar engan veginn til að mæta einni dýpstu kreppu í 100 ár. Viðbót til umhverfismála er 0,1% af landsframleiðslu og viðbót til nýsköpunar er 0,3%. Það er of lítið og of naumt skammtað. Atvinnuleysi á að minnka um 1% á næsta ári samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi en bein störf sem verða til á næsta ári vegna svokallaðs fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar eru um 1.200. Það er allt of lítið þegar um 20.000 manns eru atvinnulausir og önnur 18.000 störf hafa horfið af vinnumarkaðinum á árinu. Til viðbótar renna 85% þeirra starfa sem fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar skapar til karla.
    Öllum er það ljóst að gera þarf betur til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað og til þess þarf að beita ríkisfjármálunum með myndarlegri hætti en hér er gert.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD hafa hvatt ríki heims til að verja miklum fjármunum til að styðja við atvinnulífið og stofnanir hins opinbera. Þess vegna er réttlætanlegt að mati 1. minni hluta að auka fjárveitingar hins opinbera enn meira og taka lengri tíma til að greiða þann halla niður. Að gera of lítið á þessum tíma verður kostnaðarsamara þegar til lengri tíma er litið. Nú er tími til að beita ríkisfjármálunum myndarlega þegar kemur að grænum skrefum, fjárfestingu, nýsköpun og opinberri þjónustu.

Atvinnuleysi stefnir í methæðir.
    Atvinnuleysi er helsta vandamál okkar nú. Það er eitur í beinum Íslendinga. Um þessar mundir eru um 20.000 manns atvinnulausir. Það stefnir í að atvinnulausir verði um 25.000 næstu jól. Við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum til að sporna við atvinnuleysi en í þessu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að það lækki einungis um 1%. Það er ekki nægilegt í því ástandi sem við glímum nú við. Við þurfum að stuðla að atvinnuskapandi tækifærum. Við þurfum að treysta innviðina og sérstaklega hina opinberu innviði sem margir hverjir voru í talsverðum vandræðum fyrir kórónuveirufaraldur.
    Tuttugu þúsund manns eru án atvinnu samhliða fækkun starfa á vinnumarkaði. Fækkað hefur um 18.000 störf á vinnumarkaði þar sem fólk hefur yfirgefið hann, fyrir utan þá sem eru atvinnulausir, sem er hlutfall af þeim sem eru á vinnumarkaði. Til að setja þá tölu í samhengi eru 20.000 störf öll störf á Akureyri, Austfjörðum og Vestfjörðum samanlagt og verði 30.000 manns atvinnulausir, eins og hefur heyrst fleygt, getum við bætt Reykjanesbæ við þennan dapurlega samanburð.
    Enn eru atvinnuleysisbætur of lágar. Auðvitað hafa miklir fjármunir verið settir í atvinnuleysisbætur og þær taka að sjálfsögðu mið af þessu mikla atvinnuleysi en að ætlast til þess að fólk lifi á rúmlega 260.000 kr. eftir skatt þegar tekjutengda tímabilinu lýkur er ekki ásættanlegt. Þá er tímabilið sem fólk á rétt á atvinnuleysisbótum of stutt.
    Við ættum því að taka mun stærri skref til að hækka grunnatvinnuleysisbætur. Þetta er ömurleg staða. Auðvitað vita allir að það er ömurlegt að missa vinnuna. Að sjálfsögðu er það mikið efnahagslegt högg en það hefur líka alls konar félagslegar og jafnvel heilsufarslegar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi einstakling og fjölskyldu. Við þurfum að gera mun betur gagnvart þessum stóra hópi. Nú þegar eru of stórir hópar sem þurfa að lifa á 250.000–300.000 kr., öryrkjar, hluti eldri borgara o.s.frv. Við megum ekki fjölga í þeim hópi Íslendinga sem neyðast til að lifa á 260.000 kr. á mánuði. Það er of lág upphæð og það vita allir.
    Samfylkingin deilir ekki þeim áhyggjum, sem hafa heyrst, að með því að hækka atvinnuleysisbætur muni draga úr vilja fólks til að leita sér að atvinnu. Það er umræða sem við höfum átt í áður og menn eiga í víða um heim en þegar enga atvinnu er að finna getur það ekki verið tilfellið. Núverandi kreppa er svokölluð ójafnaðarkreppa sem hittir fólk misilla fyrir.

Tuttugu gagnrýnispunktar um fjárlagafrumvarpið.
     1.      Haldið er í sérstaka aðhaldskröfu á sjúkrahús, skóla og hjúkrunarheimili, og það á tímum kórónuveiru. Aðhaldskrafan á heilbrigðiskerfið er meira en 2,2 milljarðar kr.
                  a.      Landspítalinn þarf enn að glíma við tæplega 4 milljarða kr. uppsafnaðan halla sem takmarkar getu spítalans til að bregðast við í hinu erfiða ástandi nú. Meiri hluta ársins hefur spítalinn verið á óvissustigi, hættustigi eða neyðarstigi. Enn býr spítalinn við útskriftarvanda sem ætti að vera búið að leysa fyrir löngu. Þá er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til spítalans að öllu leyti þegar kemur að öldrun þjóðarinnar og fjölgun hennar.
                  b.      Hjúkrunarheimili hafa í áraraðir leitað til Alþingis til að fá úrlausn sinna mála en lítið orðið ágengt. Aðhaldskrafa í boði stjórnvalda á hjúkrunarheimili er því afar köld skilaboð til þeirra og eldri borgara þessa lands. Þá þarf að tryggja fjármögnun reksturs nýrra rýma að öllu leyti.
                  c.      Í umsögn BSRB um fjárlagafrumvarpið segir: „Áformaður útgjaldaniðurskurður er ávísun á skerðingu á almannaþjónustu og aukinn félagslegan vanda til lengri tíma.“
                  d.      Kennarasamband Íslands er sammála því mati að aðhald og niðurskurður sé röng leið til að mæta núverandi kreppu og að ábyrg skuldsetning ásamt fjárfestingu í nýsköpun sé rétta leiðin. Kennarasambandið gerði alvarlegar athugasemdir við það með hvaða hætti mat stjórnvalda á nauðsynlegum fjárfestingum birtist í fjárlögum og fjármálaáætlun.
     2.      Aldraðir og öryrkjar þurfa enn eitt árið að bíða eftir kjarabótum sem marglofað hefur verið.
                  a.      Öryrkjabandalag Íslands skrifar um fjárlagafrumvarpið: „Við erum skilin eftir. Það eru okkar fyrstu viðbrögð. Og það er vond upplifun. Og það er ljóst að áfram ríkir sú helstefna að halda fólki í fátækt.“
                  b.      Þroskahjálp skrifar um frumvarpið: „Verði frumvarpið og áætlunin samþykkt óbreytt af Alþingi þýðir það að örorkulífeyrisþegar dragast enn meira aftur úr hvað lífskjör varðar og eru dæmdir til áframhaldandi fátæktar.“
                  c.      Landssamband eldri borgara skrifar um frumvarpið og segir: „Landssamband eldri borgara hafnar alfarið boðaðri lítilfjörlegri hækkun á ellilífeyri almannatrygginga eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, að hún verði einungis 3,6% nú um áramótin þegar launaþróun er og hefur verið allt önnur. Þessi fyrirhugaða hækkun mætir aðeins verðlagshækkunum ársins, svo að í raun fá eldri borgarar enga hækkun.“
                  d.      Í umsögn einni sem barst nefndinni segir eftirfarandi: „Það er ómótmælanleg staðreynd að grunnupphæðir lífeyrisgreiðslna frá TR hafa verið að dragast aftur úr launaþróun á undanförnum árum. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að í 69. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að taka skuli mið af launaþróun við árlegar ákvarðanir um breytingar á grunnupphæðum almannatrygginga.“
     3.      Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar er einungis um 1% af landsframleiðslu og skapar það einungis um 1.200 bein störf.
                  a.      Um 85% af störfum sem verða til vegna hins sérstaka fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldurs lenda hjá körlum.
                  b.      Samtök iðnaðarins skrifa um frumvarpið: „Í því sambandi lýsa SI áhyggjum af því sem fram kemur í fjármálaáætluninni að hlutdeild fjárfestinga hins opinbera af landsframleiðslu muni lækka á næstu árum.“
                  c.      Fjölmargir einyrkjar, ekki síst á sviði ferðaþjónustu og lista, lýstu miklum áhyggjum af stöðu sinni vegna máttlausra tilrauna ríkisstjórnarinnar til að ná til þessara hópa.
     4.      Aukning til umhverfismála án ofanflóðavarna fyrir næsta ár er 0,05% af landsframleiðslu, og er það engin prentvilla. Ljóst er að stjórnmálaflokkar skilgreina hugtakið græna byltingu með mjög mismunandi hætti.
     5.      Viðbót til nýsköpunar er einungis 0,3% af landsframleiðslu og er það fáránlega lítið miðað við að við glímum nú við dýpstu kreppu sem riðið hefur yfir í hundrað ár.
                  a.      Samtök sprotafyrirtækja skrifuðu fjárlaganefnd og sögðu: „Veturinn verður því kaldur fyrir sprotafyrirtæki sem hafa ekki aðra fjármögnunarkosti en styrki og má búast við að mörg framúrskarandi verkefni stöðvist vegna skorts á fjármögnun.“
                  b.      Samtök iðnaðarins segja: „Metaðsókn var í Tækniþróunarsjóð í ágúst 2020 en aðeins tæp 8% verkefna hlutu styrk úr sjóðnum. Fjölmörgum frambærilegum verkefnum var hafnað um styrk vegna þess að fjármagn var af skornum skammti.“
                  c.      Geimvísinda- og tækniskrifstofa Íslands segir: „Framlögin munu einfaldlega ekki duga til öflugrar viðspyrnu nýsköpunar.“
                  d.      Á sama tíma á að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og spara þannig 300 millj. kr.
     6.      Sveitarfélög hafa metið að fjárþörf þeirra sé 50 milljarðar kr. á þessu ári og því næsta. Ekki þarf að fjölyrða um að ekki er komið nálægt kröfum þeirra í þessu frumvarpi.
                  a.      Reykjavíkurborg segir: „Stefna ríkisins fram að þessu hefur gengið þvert á ráðgjöf OECD til aðildarríkjanna og það sem önnur norræn ríki eru að gera gagnvart sveitarfélögum.“
     7.      Kennarasamband Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með áætluð fjárframlög til framhaldsskóla í fjárlagafrumvarpinu. Mikilvægt er að tryggja aukið gegnsæi þegar kemur að húsaleigu framhaldsskóla en stór hluti af þeirri aukningu sem hefur runnið til þeirra er til að mæta húsaleigu sem rennur til ríkisins.
     8.      Brýnum þörfum fjölskyldna í landinu er ekki mætt og ekki heldur unnið markvisst gegn ójöfnuði.
                  a.      Of lágar atvinnuleysisbætur hafa verið nefndar að framan en hækkun þeirra hefur verið talin sérstaklega mikilvæg og góð leið til að koma peningum þangað sem þeirra er þörf en einnig þangað sem þeir gera mest gagn með því að fara strax aftur út í hagkerfið.
                  b.      BHM skrifar um frumvarpið: „Séu barnabæturnar umreiknaðar yfir á hvert barn á Íslandi á verðlagi ársins 2021 má sjá að framlög til barnabóta skerðast á hvert barn á Íslandi.“
                  c.      BSRB skrifar og segir: „Með þessu [um atvinnuleysisbætur og almannatryggingar] er verið að taka ákvörðun um að auka ójöfnuð.“
     9.      Framlög til Samkeppniseftirlitsins lækka á næsta ári, sem er sérstaklega mikið áhyggjuefni á tímum mikils umróts í íslensku efnahagslífi.
     10.      Framlög til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu lækka einnig. Skemmst er frá því að segja að einungis 0,1% af landsframleiðslu er sett til viðbótar til umhverfismála.
     11.      Ríkisútvarpið fær um 160 millj. kr. lækkun og uppsagnir eru hafnar þar. Ekki fengust fullnægjandi skýringar á þessari lækkun eða á því hvers vegna innheimtuhlutfall útvarpsgjalds er lækkað með þeim hætti sem hér er gert.
     12.      Vaxtabætur halda áfram að lækka á vakt þessarar ríkisstjórnar.
     13.      Landssamband ungmennafélaga hafði þetta um menningu, listir og íþrótta- og æskulýðsmál að segja: „Málaflokkurinn má ekki við skerðingum sem þessum, hvað þá á tíma sem þessum.“ Þá skrifar BHM um fjárlagafrumvarpið: „Í ljósi þessa er það nokkurt áhyggjuefni að dregið er úr rekstrarframlögum til styrkja á sviði lista og menningar í fjárlögum 2021.“
     14.      Fjármunir til samgöngumála lækka á hverju ári næstu fimm ár sé litið til fjármálaáætlunar. Sama gerist með menningu, listir og íþrótta- og æskulýðsmál. Nýsköpun og rannsóknir fá árlega lækkun eftir 2022. Eru þetta ekki allt mikilvægir innviðir sem við höfum heyrt að eigi og þurfi að veita aukin framlög?
     15.      Um skattamál segir BSRB í umsögn sinni: „Varanleg lækkun tekna ríkissjóðs vegna þessara skattalækkana er 34 milljarðar kr. árlega. Þar vega þyngst lækkun tekjuskatts á einstaklinga, varanleg lækkun á tryggingagjaldi ásamt lækkun veiðigjalda og bankaskatts. Á árinu 2021 stendur til að lækka skatta enn frekar með lækkun fjármagnstekjuskatts og hækkun frítekjumarks erfðafjárskatts.“ Þá segir ASÍ um sama mál: „ASÍ gagnrýnir áform um breytingar á fjármagnstekjuskatti sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpi.“
     16.      Veiðileyfagjöld hafa lækkað um tæp 30% síðan ríkisstjórnin tók við.
                  a.      Hefðu veiðileyfagjöldin verið jafnhá og þau voru þegar ríkisstjórnin tók við hefðu þau skilað um 15 milljörðum kr. meira til þjóðarinnar á kjörtímabilinu.
                  b.      Undanfarin ár hafa útgerðarmenn greitt sjálfum sér hærri arð heldur en það sem þjóðin fær í veiðileyfagjald. Fyrir þetta ár er gjaldið meira að segja lægra en sá kostnaður sem ríkið verður fyrir vegna fyrirtækjanna. Lax- og silungsveiðimenn greiddu meira fyrir veiðileyfi sín en stórútgerðin.
                  c.      Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst um 60% á fimm árum þrátt fyrir þetta. Arðgreiðslur sem renna í vasa útgerðarmanna og fjölskyldna þeirra voru meiri en 60 milljarðar kr. á fimm árum.
                  d.      Þrjátíu stærstu útgerðarfyrirtækin, af 900 fyrirtækjum á heildina litið, greiða um 80% veiðileyfagjaldsins.
     17.      Mun öflugri aðgerðir þarf til að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki. Sem fyrr eru iðnaðarmaðurinn, búðareigandinn, hárgreiðslustofan og litla þjónustufyrirtækið alveg munaðarlaus í aðgerðum ríkisstjórnarinnar, að ekki sé talað um fyrirtækin í ferðaþjónustu.
     18.      Þá er sérstaklega mikilvægt að huga að grunnstofnunum úti um allt land, t.d. heilbrigðisstofnunum ásamt löggæslu, en fjölmörg landshlutasamtök höfðu áhyggjur af þeim.
     19.      Vakin er athygli á þeim aðgerðalista sem Geðhjálp kynnti fjárlaganefndinni og tekið er undir hann. Samtökin bentu á að búast mætti við því að áhrif kórónuveirufaraldursins kæmu ekki að fullu í ljós fyrr en eftir mörg ár. Mikilvægt er að tryggja fjármagn til að auka niðurgreiðslu á kostnaði vegna sálfræðiþjónustu sem þingið hefur samþykkt að ráðast eigi í. Það er þó engan veginn fullfjármagnað í þessu fjárlagafrumvarpi.
     20.      Þá er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af einstökum félagasamtökum, t.d. SÁÁ, Samtökunum ’78, Stígamótum, mæðrastyrksnefndum, Barnaheill og fleiri slíkum samtökum, sem mörg hver glíma nú við fordæmalausa ásókn í aðstoð þeirra.

Hvað vilja 1. minni hluti og Samfylkingin gera?
    Fyrsti minni hluti leggur fram fjölmargar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem finna má á sérstöku þingskjali.
    Þá hefur Samfylkingin sett fram fullmótaða efnahagsáætlun sem kallast Ábyrga leiðin. Þar má finna 33 tillögur til að bregðast við kreppunni. Nefna má tíu atriði hér:
     1.      Aðgerðir Samfylkingarinnar munu búa til allt að 7.000 störf en fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar býr til um 1.200 störf.
     2.      Samfylkingin vill fjölga störfum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Sem dæmi vantar 400 hjúkrunarfræðinga, mörg hundruð sjúkraliða, 200 lögreglumenn, fjöldann allan af skólafólki, sálfræðingum, félagsráðgjöfum í skóla og heilsugæslu. Þá er barnaverndarkerfið og félagslega þjónustan undirmönnuð og svona mætti lengi telja. Mikið af þessu fólki höfum við nú þegar menntað. Fjármálaráðherra sagði hins vegar að fjölgun opinberra starfa væri „versta hugmynd“ sem hann hefði heyrt og talaði um „blóðuga sóun úti um allt í opinbera kerfinu“ og hvatti fólk til að „hlaupa hraðar“.
     3.      Samfylkingin vill að tryggingagjald verði fellt niður í a.m.k. eitt ár fyrir einyrkja og lítil fyrirtæki þannig að öll fyrirtæki fái 2 millj. kr. afslátt af tryggingagjaldi. Þetta er atvinnuskapandi skattalækkun í stað sértækrar skattalækkunar ríkisstjórnarinnar sem setur núna í forgang að lækka fjármagnstekjuskatt til hinna allra ríkustu en einungis 1% af ríkustu Íslendingunum aflar um 50% allra fjármagnstekna í landinu. Samfylkingin vill í staðinn huga að litlum fyrirtækjum, iðnaðarmanninum, búðareigandanum og litlum þjónustufyrirtækjum.
     4.      Samfylkingin vill styrkja fyrirtæki sem ráða fólk af atvinnuleysisskrá í stað þess að niðurgreiða uppsagnir eins og ríkisstjórnin gerir. Það er fáheyrð aðgerð að nota almannafé til að hjálpa fyrirtækjum við að segja upp fólki enda gerir engin ríkisstjórn það í nágrannalöndunum.
     5.      Samfylkingin vill draga úr vinnuletjandi skerðingum gagnvart barnafólki og öryrkjum.
     6.      Samfylkingin vill hækka atvinnuleysisbætur og grunnbætur til aldraðra og öryrkja. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að þessir þrír hópar eigi að lifa á um 260.000 kr. á mánuði. Enginn ráðherranna segist geta lifað af slíkri upphæð.
     7.      Samfylkingin vill styrkja sveitarfélögin, sem sjá um nærþjónustu, byggja nýjan geðspítala og fjárfesta almennilega um allt land. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár nemur einungis 1% af landsframleiðslu og auðvitað dugar það ekki til að mæta dýpstu kreppu í hundrað ár.
     8.      Samfylkingin vill innleiða græna atvinnustefnu með metnaðarfyllri loftslagsaðgerðum, stofna grænan fjárfestingarsjóð og stórefla grænmetisframleiðslu og skógrækt.
     9.      Samfylkingin vill hækka endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar, efla listamannalaun og styrkja sviðslistafólk.
     10.      Samfylkingin vill stórefla nýsköpun, hátækniiðnaðinn og fjarheilbrigðisþjónustu. Viðbót ríkisstjórnarinnar til nýsköpunar næsta árs nemur einungis 0,3% af landsframleiðslu, sem er nánast ekki neitt til að tala um.
    Þetta er hluti af tillögum Samfylkingarinnar, sem kosta um 80 milljarða kr. Það er sama upphæð og brúarlán ríkisstjórnarinnar áttu að kosta en þau misstu algjörlega marks. Hins vegar kostar hvert prósentustig atvinnuleysis um 6,5 milljarða kr. fyrir utan hinn mannlega harmleik sem því fylgir. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar lækka atvinnuleysi einungis um 1% milli ára. Samfylkingin vill hins vegar fjárfesta með mun myndarlegri hætti í fólki og fyrirtækjum og taka lengri tíma til að borga niður hallann. Stundum þarf að verja peningum til að búa til peninga. Þær aðstæður eru uppi núna.
    Þetta er það sem Samfylkingin kallar Ábyrgu leiðina. Það er óábyrgt að gera of lítið í svona ástandi eins og ríkisstjórnin er að gera. Það er ábyrgt að taka stór græn skref núna, eins og Samfylkingin leggur til. Vinna og velferð, þar sem græn uppbygging er um allt land, er hinn rauði þráður okkar. Þetta er leið úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar.

Alþingi, 8. desember 2020.

Ágúst Ólafur Ágústsson.