Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 549  —  1. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Vinna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2021 hefur farið fram við aðstæður þar sem mjög mikil óvissa hefur verið uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar vegna veirufaraldursins. Tekjufall ríkissjóðs er mikið og útgjaldaaukning veruleg. Þúsundir landsmanna eru atvinnulausir og hrun hefur orðið í stærstu atvinnugreininni, ferðaþjónustunni. Óvissan á sér vart hliðstæður á síðari tímum, jafnvel þó horft sé til falls fjármálakerfisins árið 2008. Frumvarpið ber þess merki að hagkerfið hefur orðið fyrir gríðarlegu áfalli, sem m.a. birtist í framlagningu umfangsmikilla breytingartillagna við frumvarpið og fimmta fjáraukalagafrumvarpsins á þessu ári. Umfang breytingartillagna við frumvarpið er slíkt, eða 53 milljarðar kr., að líta má á það að vissu marki sem nánast nýtt frumvarp. Allt bendir til að ekki hafi áður verið lagðar fram svo umfangsmiklar breytingartillögur við fjárlagafrumvarp. Engu að síður eru áherslur ríkisstjórnarinnar á ýmsum sviðum ekki nógu vænlegar til árangurs að mati3. minni hluta og hafa sumir þjóðfélagshópar sem hafa orðið fyrir áhrifum af veirufaraldrinum verið skildir eftir. Nánar verður gerð grein fyrir því hér á eftir.
    Skuldastaða ríkissjóðs hefur versnað mjög hratt vegna veirufaraldursins. Halli ríkissjóðs á þessu ári stefnir í 270 milljarða kr. Áætlun frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2021 gerir ráð fyrir halla sem nemur 264 milljörðum kr., eða 8,6% af VLF. Að teknu tilliti til breytinga við aðra umræðu frumvarpsins er halli á rekstri ríkissjóðs áætlaður 318 milljarðar kr., eða 10,4% af VLF, og á þá eftir að taka tillit til breytingartillagna meiri hluta fjárlaganefndar, sem nema um 2 milljörðum kr. Fram kom á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun að skuldastaðan er áhyggjuefni. Auk þess er óvíst hvernig gengur að innheimta þá staðgreiðslu sem frestaðist fram yfir áramót.
    Í tillögum ríkistjórnarinnar er gert ráð fyrir að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs árið 2025. Ekki hafa verið lagðar fram neinar tillögur um með hvaða hætti það verði gert að öðru leyti en því að hagkerfið sjálft rísi það myndarlega upp að skuldirnar hætti að vaxa sem hlutfall af landsframleiðslu.
    Auknar fjárheimildir milli áranna 2020 og 2021 eru algjörlega ósjálfbærar og staðfesti fjármála- og efnahagsráðherra það í bréfi til fjárlaganefndar 4. desember sl. Kemur aukningin til viðbótar 230 milljarða kr. auknum fjárheimildum milli fjárlaga 2017 og 2020. Ef ferðaþjónustan nær sér á strik eru taldar góðar líkur á kröftugum hagvexti árin 2022–2023 komi ekki til frekari áfalla. Gangi væntingar ekki eftir um öfluga viðspyrnu og hraðann vöxt hagkerfisins hefur það alvarlegar afleiðingar í för með sér og grípa verður til aðgerða sem verða sársaukafullar. Því er mjög mikilvægt að góð viðspyrna náist og takist vel. Aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins á árinu hafa margir hverjir gagnast þeim sem þeim var ætlað að aðstoða. Fjöldi aðila hefur hins vegar vakið athygli 3. minni hluta á því hversu flókið og tímafrekt umsóknarferlið hefur verið og þau skilyrði sem sett voru væru of þröng og ströng og því ekki nýst sem úrræði fyrir þá, þrátt fyrir að staða þeirra sé mjög erfið vegna veirufaraldursins. Gæti það valdið því að viðspyrnan verði ekki eins öflug og samfélagið þarf á að halda og því hefur útfærslan á björgunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar ekki verið nógu vönduð og markviss.

Breytingartillögur Miðflokksins.
    Hér á eftir má sjá yfirlit yfir breytingartillögur Miðflokksins við fjárlagafrumvarpið. Tillögurnar eru að fullu fjármagnaðar og auka því ekki á skuldasöfnun ríkissjóðs, sem er mikilvægt vegna mikillar skuldasöfnunar ríkissjóðs á undanförnum mánuðum. Breytingartillögur 3. minni hluta gerir ráð fyrir því að þessu verði mætt með sölu nýbyggingar Landsbankans við Austurhöfn ásamt lóð. Áætlað söluandvirði lóðarinnar er 2 milljarðar kr. og byggingarinnar um 7 milljarðar kr. eins og hún er nú. Söluandvirðið renni í ríkissjóð en ríkissjóður á 98,2% hlut í bankanum.

Heiti Gjöld Tekjur
Arður frá innlendum aðilum 9.000,0
Tryggingagjald, tímabundin lækkun árið 2021 3.311
Birgðasöfnun í kjöti og mjólkurpróteini – styrkur 400
Hagræðingarkrafa ráðuneyta 5% 500
Lífeyrir aldraðra, sérstök uppbót 700
Hækkun ellilífeyris samkvæmt lífskjarasamningi 709
Atvinnutekjur skerði ekki lífeyri 1.500
Ríkisútvarpið, fallið frá hækkun útvarpsgjalds 170
SÁÁ 300
Skatturinn, barátta gegn kennitöluflakki 50
Skógrækt 150
Vinnumálastofnun, ráðningarstyrkir vegna Suðurnesja 2.000
Tollgæslan, fíkniefnaeftirlit, tollskráning landbúnaðarvara 250
Öryrkjar, vinnusamningar 300
9.670 9.670

Áhugaleysi um kjör eldri borgara.
    Óumdeilt er að kjör þeirra aldraðra sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu. Þeir sem engar aðrar tekjur hafa en lífeyri almannatrygginga eru verst settir. Upphæð lífeyris hefur dregist jafnt og þétt aftur úr launum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Í þeim hópi eru eldri borgarar sem hafa takmörkuð eða engin réttindi úr lífeyrissjóðum og stunda ekki launaða vinnu. Þeir sem þannig eru settir þurfa nær eingöngu að reiða sig á ellilífeyri almannatrygginga og eru margir hverjir þeirra á almennum leigumarkaði eða jafnvel skuldsettir. Í þessum hópi eru einnig þeir sem ekki hafa áunnið sér full réttindi til almannatrygginga vegna búsetu erlendis, t.d. innflytjendur. Þeim fjölgar í hópi eldri borgara sem hafa áhyggjur af fjárhag sínum eða rúm 30%. Þetta kemur m.a. fram í könnun sem Reykjavíkurborg, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara lét gera fyrir ekki svo löngu. Félag eldri borgara hefur sett fram vandaðar tillögur um hvernig mætti bæta kjör þeirra verst settu sem tilheyra þessu hópi. Fyrir þessar tillögur ber að þakka. Tillögurnar voru kynntar fjárlaganefnd í fjárlagavinnu nefndarinnar fyrir árið 2019. Stjórnarmeirihlutinn hefur því haft góðan tíma til þess að bregðast við þeim en því miður hefur ríkisstjórnin ekki séð ástæðu til þess.
    Samkvæmt tölum frá OECD rennur lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu og launum á Íslandi til greiðslu ellilífeyris en í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Svíþjóð. Íslendingar fara almennt síðar á lífeyri en íbúar annarra landa og munar miklu hve atvinnuþátttaka aldraðra er meiri og lengri á Íslandi en í hinum löndunum. Atvinnuþátttaka 65–69 ára hér á landi er rúm 50% en í sama aldurshópi í Svíþjóð er atvinnuþátttakan einungis um 20%. Samanburður við áðurnefnd lönd sýnir að Ísland sker sig úr hvað virkan lífeyristökualdur varðar. Íslendingar hefja að jafnaði töku lífeyris 1–2 árum eftir að opinberum lífeyristökualdri er náð, en í hinum löndunum fjórum fer fólk að jafnaði á lífeyri nokkru áður en opinberum aldursmörkum er náð. Íslendingar taka því að jafnaði lífeyri í mun færri ár en tíðkast í hinum löndunum.
    Útgreiðsla úr báðum hlutum lífeyriskerfisins hefst því að jafnaði síðar hér á landi. Meðalaldur íslensku þjóðarinnar er lægri og því er lífeyrisbyrði opinbera kerfisins enn mjög lág í samanburði. Þetta undirstrikar það að stjórnvöld hafa ráðrúm til þess að gera vel við eldri borgara. Þetta er sú kynslóð sem við eigum mest að þakka að hér ríkir almenn velferð. Kynslóð sem braust úr viðjum fátæktar með vinnusemi og dugnaði. Kynslóð sem nú biður einungis um réttlæti og fá að lifa við mannsæmandi kjör.
    Í tíð ríkisstjórnarinnar hefur stöðugt dregið í sundur með lágmarkslaunum og lífeyri almannatrygginga til aldraðra eins og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti með mörgum umsögnum við fjárlagafrumvarpið. Samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar ber að taka mið af launaþróun við ákvörðun um upphæðir almannatrygginga. Á undanförnum árum hefur ákvörðunin hverju sinni byggst á spá í fjárlagafrumvarpi um strípaða meðaltalshækkun samkvæmt kjarasamningum en sú aðferðafræði hefur leitt til þess að á sl. 10 árum hefur óskertur ellilífeyrir farið úr því að vera 91,5% af lágmarkslaunum niður í 75%. Uppsafnaður hlutfallslegur halli þessara ára er orðinn 18%.
    Óánægja og reiði aldraðra vegna þessarar þróunar fer vaxandi. Krafa eldri borgara er að frekari kjaragliðnun verði stöðvuð nú þegar og síðan verði hafist handa við að vinda ofan af kjaragliðnun undanfarinna ára. Samkvæmt lífskjarasamningnum eru hækkanir launataxta á næsta ári ekki ákveðnar í prósentum, heldur verða þær sama krónutala á alla, 15.750 kr. ofan á alla launataxta, lága sem háa. Það er hin almenna launaþróun sem rökrétt er að hækkun ellilífeyris taki mið af. 3. minni hluti leggur það til í breytingartillögu við frumvarpið. Ellilífeyrinn þarf því að hækka um þessa sömu krónutölu ef fullnægja á 69. gr. Hann færi þá úr 256.800 kr. á mánuði í 272.550 kr., sem gerir hækkun um 6,1% í stað þeirra 3,6% sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Félag eldri borgara hefur bent á að með tilliti til atvinnuástandsins hefði það jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn til að draga úr skerðingum ellilífeyris vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, t.d. með því að sameina núverandi frítekjumörk í eitt almennt eða 125.000 kr. Það myndi auðvelda eldra fólki að láta af störfum og losa með því um störf fyrir þá sem yngri eru.
    Eldri borgarar hafa ekki farið varhluta af veirufaraldrinum frekar en aðrir. Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að eldri borgarar sem búa við lökust kjörin fái sérstaka skattfrjálsa eingreiðslu upp á 70.000 kr. Upphæðin er sú sama og öryrkjar fá á árinu.

Skerðingum linni á greiðslum til eldri borgara og lífeyrisþega.
    Skerðingar á greiðslum almannatrygginga til lífeyrisþega hefur borið hátt í umræðu undanfarin ár. Aldraðir eru sístækkandi þjóðfélagshópur. Fólk 67 ára og eldra er nú um 45 þúsund að tölu. Um 10–15 þúsund manns stefna hraðbyri á að ganga inn í þennan hóp. Við erum að tala um a.m.k. 60 þúsund manns sem hafa beina hagsmuni af stefnu stjórnvalda um skerðingar í bráð og lengd. Fyrirkomulagið er út af fyrir sig einfalt. Fjárhæð ellilífeyris er ákveðin árlega. Hún er nú 256.789 kr. á mánuði. Hafi fólk tekjur skerðist þessi lífeyrir eftir ákveðinni reglu. Þetta eru skerðingarnar.
    Aldraður einstaklingur sem vill bæta hag sinn með vinnu má að hafa 100.000 kr. á mánuði áður en ellilífeyririnn er skertur. Eftir það eru hirtar 45 kr. af ellilífeyrinum fyrir hverjar 100 kr. sem hann vinnur sér inn. Þetta er skerðingin. Svo er skatturinn, milliþrep hans er um 37%. Ragnar Árnason prófessor hefur sýnt fram á að þegar saman koma skerðingar og skattar heldur einhleypingur eftir 27 kr. af hverjum 100 kr. sem hann vinnur sér inn. Ef hann er í sambúð heldur hann eftir 35 kr. af 100 kr. Til samanburðar heldur fullfrískur hálaunamaður á besta aldri eftir 54 kr. af síðustu 100 kr. sem hann vinnur sér inn.
    Aldrað fólk er í skotlínunni þegar kemur að skattlagningu fyrir vinnu. Enginn þjóðfélagshópur stendur frammi fyrir öðrum eins jaðarsköttum og aldraðir mega þola. Þetta fyrirkomulag ofurskattlagningar felur í sér brot gegn óskráðri reglu í mannlegu félagi, að hverjum manni er boðið að bæta hag sinn með aukinni vinnu ef vilji og geta standa til þess. Allir menn eru gæddir meðfæddri sjálfsbjargarviðleitni sem fólki er í blóð borin. Sjálfsbjörg leyfist ekki samkvæmt gildandi fyrirkomulagi.
    Fái maður greiðslur úr skyldubundnum lífeyrissjóði er ellilífeyrir almannatrygginga skertur með áþekkum hætti. Skerðingar byrja eftir fyrstu 25.000 kr. úr lífeyrissjóði. Fólk er skyldað til að vera í lífeyrissjóði og greiða iðgjöld af launum sínum í hverjum mánuði. Lífeyrissjóðirnir sem settir voru á laggirnar með kjarasamningum 1969 áttu að tryggja fólki bætt kjör á efri árum umfram það sem almannatryggingar tryggðu með grunnlífeyri, bætt kjör, ekki lakari kjör. Lagaskyldan um að greiða í lífeyrissjóð fól í sér fyrirheit um bætt kjör. Þetta fyrirheit liggur til grundvallar í íslensku samfélagi og var virt í fjörutíu ár. Allan þennan tíma þótti ekki koma til álita að skerða grunnlífeyri almannatrygginga vegna lífeyristekna. Það var ekki fyrr en í hruninu 2009 að ákveðin var af hálfu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna skerðing í þessu efni. Hún stóð til ársins 2013 og féll þá niður.
    Viðsnúningur varð árið 2017. Ein stærð, ellilífeyrir, kom í stað grunnlífeyris og tekjutryggingar og tekið var að skerða greiðslur almannatrygginga óheft frá 1. mars 2017. Með þessari ákvörðun var fyrirheitið rofið um að skyldubundin aðild og greiðslur í lífeyrissjóð bættu hag eldra fólks umfram það sem grunnlífeyrir almannatrygginga tryggði því.
    Ákvörðun Alþingis um að greiðslur úr lífeyrissjóðum skyldu skerða grunnlífeyri almannatrygginga fól í sér algjört trúnaðarbrot við launafólk sem skyldað var til með lögum að greiða iðgjöld af launum sínum í lífeyrissjóð á grundvelli kjarasamninga frá 1969. Skerðingar á greiðslum almannatrygginga vegna lífeyristekna fela í sér rof á lögfestu fyrirheiti, fyrirheiti sem verður að standa við.
    Með því að rjúfa fyrirheitið sparaði ríkissjóður sér árið 2018 ríflega 34 milljarða kr. með skerðingum á lögbundnum greiðslum ellilífeyris, samkvæmt svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn á liðnu þingi. Skerðingarnar taka til allra sem til næst, eða næstum 95% eldra fólks. Er óverjandi með öllu að leggja á þennan afmarkaða þjóðfélagshóp þá kvöð að borga sjálfum sér um helming af greiðsluskyldu almannatrygginga til lífeyrisþega. Í þessu ljósi skýrist af hverju Ísland er lægst meðal OECD-landa í framlögum ríkissjóðs til almannatrygginga. Ekkert hald er í þeirri viðbáru að ef framlag lífeyrisþega, sem tekið er af því með skerðingunum, reiknist með séum við í miðjum hópi landa OECD. Þennan kerfishalla á ríkissjóði verða stjórnvöld að rétta af með öðrum hætti en ranglátum álögum á eldra fólk og aðra skjólstæðinga almannatrygginga.

Atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur.
    Kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur þarf að bæta, það hefur verið rakið hér að framan. Jafnframt þarf að koma á sveigjanlegum starfslokum án skerðingar ellilífeyristekna og að lífeyrir tryggi lágmarkslaun. Löngu er ljóst að skerðingar á bótum almannatrygginga fara fram úr öllu hófi. Þetta fyrirkomulag er í senn fallið til að letja eldra fólk til að bæta hag sinn með aukinni vinnu í krafti eðlilegrar sjálfsbjargarviðleitni og að hvetja til svartrar atvinnustarfsemi.
    Af hálfu fjármálaráðuneytis hefur verið haldið fram að kostnaður ríkissjóðs við að slaka á klónni í þessu efni sé milljarðar króna. Þær fullyrðingar er ekki hægt að rökstyðja með gildum rökum. Fyrir liggja útreikningar um fjárhagslega stöðu aldraðra sem unnir voru fyrir Félag eldri borgara í nóvember 2017. Þar er ítarlega rökstutt að kostnaður ríkissjóðs af því að fella brott þetta 100.000 kr. viðmið sé ekki svo mikið sem ein króna. Skýrsluhöfundur dregur fram að beinir skattar auk veltuskatta vegi upp hugsanlegan kostnað af því að fella brott 100.000 kr. frítekjumarkið. Þar við bætast samfélagsleg áhrif sem felast í þátttöku á vinnumarkaði og virkni í samfélaginu en slíkt er talið hafa ótvírætt gildi í lýðheilsulegu tilliti. Við þetta bætist að lífeyrir almannatrygginga er skertur vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum.
    Eldri borgarar og aðrir sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur bíða enn eftir réttlætinu sem þeim var lofað fyrir áratug um að skerða ekki lífeyrisgreiðslur og flestir flokkar lofuðu einnig fyrir seinustu Alþingiskosningar. Skerðingar og aðrir neikvæðir hvatar hafa mikil og óæskileg áhrif á sjálfsbjargarhvöt fólks. Óeðlilegar skerðingar hafa einnig neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Miðflokkurinn leggur áherslu á að fast verði tekið á skerðingum bóta eins og hér hefur verið rakið. Þessar skerðingar hafa grafið undan tiltrú á lífeyriskerfinu og skilja aldrað láglaunafólk eftir jafnsett og fólk sem ekkert hefur greitt í lífeyrissjóð á starfsaldri sínum.
    Kannanir meðal eldri borgara hafa sýnt að nær öllum, eða 97%, finnst að auðvelda ætti þeim sem komnir eru á lífeyrisaldur að vera virkir á atvinnumarkaði. Atvinnuþátttaka eldri borgara færir þeim aukna virkni í samfélaginu. Aukin virkni stuðlar að vellíðan og lífsánægju og því virkara sem eldra fólk er því meiri lífsgleði upplifir það. Stjórnvöld verða að vera meðvituð um þetta. Þau verða að vera meðvituð um stöðu, væntingar og viðhorf aldraðra þegar kemur að atvinnuþátttöku og jákvæðum áhrifum þess á líðan eldri borgara.
    Eldri borgarar eru betur á sig komnir líkamlega nú á dögum en áður fyrr og fólk getur vænst þess að lifa lengur og þess vegna er þörf á að koma til móts við aldraða til að þeir haldi áfram að vera virkir í samfélaginu og haldi sjálfræði og sjálfstæði sínu eins lengi og kostur er. Þeir sem hafa áhuga og getu til að vinna lengur ættu að fá frekari tækifæri með meiri sveigjanleika um starfslok og atvinnuþátttöku eftir að taka lífeyris hefst. Eldra starfsfólk hefur oft mikla þekkingu og starfsreynslu sem getur nýst vel á mörgum vinnustöðum og er það bæði hagur fyrir þá sem vilja halda áfram að vera á vinnumarkaðinum sem og fyrir samfélagið í heild sinni. Rannsóknir hafa sýnt að það að vera í félagsskap með öðru fólki getur veitt eldra fólki mikla ánægju.
    Miðflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á að afnema tekjutengingu bóta vegna launatekna eldri borgara og flytur 3. minni hluti breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Tillaga þessi hefur óveruleg áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs, þvert á móti hefur verið sýnt fram á það í áðurnefndum útreikningum að hún auki tekjur ríkissjóðs þegar hún hefur komið til framkvæmda.
    Rannsóknarsetur verslunarinnar gerði rannsókn fyrir nokkrum árum um áhrif þess á ríkissjóð ef atvinnuþátttaka eldri borgara yrði aukin og ef aldurstengdar bætur yrðu ekki skertar þó að viðkomandi hefði launatekjur. Niðurstaðan var sú að ríkissjóður hagnast vegna aukinna skatttekna. Ef tekjutenging á bætur eldri borgara yrði afnumin myndi það hvetja þá til að koma í auknum mæli aftur inn á vinnumarkaðinn. Eldri borgarar eiga að geta tekið þátt á vinnumarkaði eins og hverjum og einum hentar án þess að þurfa að taka á sig skerðingu á lífeyri. Það bætir lífsgæði þeirra og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Atvinnuleysi og frekari lækkun tryggingagjalds.
    Horfur á vinnumarkaði eru ekki góðar og er það fyrst og fremst rakið til veirufaraldursins og hruns í ferðaþjónustunni og tengdum greinum. Um 25.000 manns voru atvinnulausir í lok októbermánaðar samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar. Á Suðurnesjum er atvinnuleysið 22% og tvöfalt hærra en á landsvísu. 3. minni hluti flytur breytingartillögu við frumvarpið um sérstakan stuðning til Suðurnesja vegna mikils atvinnuleysis. Stuðningurinn er ætlaður í ráðningarstyrki á vegum Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum og nemur 2 milljörðum kr. Hafa ber í huga að hver samningur getur kostað allt að 7 millj. kr. Í spá Hagstofunnar frá 1. október sl. er gert ráð fyrir 3,9% hagvexti árið 2021. Seðlabankinn gaf út spá 1. nóvember sl. sem er dekkri en spá Hagstofunnar. Bankinn gerir ráð fyrir 2,3% hagvexti. Hvað atvinnuleysið varðar þá gerir Hagstofan ráð fyrir að það verði 6,8% á landsvísu en Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að það verði 8,3%.
    Stjórnvöld verða að styrkja starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja svo að þau haldi sínum starfsmönnum við erfiðar aðstæður og vonandi ráðið til sín fleiri. Styðja þarf íslensk fyrirtæki vegna hækkandi launakostnaðar og sporna gegn frekari fækkun starfa.
    Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og nú sú næsthæsta á Norðurlöndunum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagshrunið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Skattbreytingar þessar hafa hins vegar verið að festast í sessi síðan. Mikil tregða hefur verið hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið en það er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni þessara fyrirtækja mest. Bætt samkeppnishæfni Íslands er mjög mikilvæg og sérstaklega nú þegar hægt hefur hratt á efnahagslífinu.
    Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað á undanförnum árum vegna innlendra kostnaðarhækkana mældra í erlendri mynt. Sú þróun er sýnileg í minni verðmætasköpun útflutningsgreina og þeirra fyrirtækja á innlendum markaði sem keppa við erlend fyrirtæki.
    Fyrir efnahagshrunið árið 2008 var tryggingagjaldið 5,34% en var hækkað í 8,65% í kjölfar þess. Hækkunin var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum af stórauknum útgjöldum vegna skyndilegs atvinnuleysis. ASÍ styður að hækkun tryggingagjaldsins sé skilað til baka. Sjálft tryggingagjaldið stendur nú í 4,90% og verður lækkað tímabundið í eitt ár eða í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021, úr 4,90% í 4,65%. Það verður því samtals 6,10%.
    Staðreyndin er sú að tryggingagjaldið hefur í vaxandi mæli verið notað til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs en því var ætlað. Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun þeim mun hærri fjárhæð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er þeim mun dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið sitt. Því hærri sem prósentan er þeim mun minni launahækkunum getur fyrirtækið staðið undir. Gjaldið dregur úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Vaxtarmöguleikar einkafyrirtækja eru því hindraðir með háu tryggingagjaldi.
    Þriðji minni hluti flytur breytingartillögu við frumvarpið um að tryggingagjaldshlutfallið lækki tímabundið í eitt ár um 3,3 milljarða kr. á næsta ári til viðbótar við þá lækkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Lækkun tryggingagjaldsins gerir fyrirtækjum auðveldara að ráða nýtt starfsfólk og að gera betur við það sem fyrir er, sem eykur síðan skatttekjur ríkissjóðs. Ávinningurinn af verulegri lækkun gjaldsins, tímabundið vegna veirufaraldursins, er mikill og ekki síst nú þegar atvinnuleysi er mikið.

Sveitarfélög í vanda.
    Óvissa ríkir um fjármál sveitarfélaganna vegna veirufaraldursins. Ljóst er að þau hafa orðið fyrir miklu tekjufalli og standa frammi fyrir stóru fjárhagslegu verkefni. Hrun í ferðaþjónustu og afleiddum greinum hefur valdið mikilli fækkun starfa og lækkun á útsvarsstofni. Samband íslenskra sveitarfélaga segir að mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna áhrifa kórónufaraldursins á þau dugi ekki til og það ríki í raun tekjukreppa hjá sveitarfélögunum. Gert er ráð fyrir því að halli þeirra verið um 20 milljarðar kr. vegna tekjumissis og aukinna útgjalda. Á þessu ári og því næsta vanti um 50 milljarða kr. í reksturinn. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa kallað eftir auknum stuðningi við sveitarfélögin í formi beinna óendurkræfra fjárframlaga úr ríkissjóði. Þetta kemur m.a. skýrt fram í umsögn samtakanna við fjárlagafrumvarpið. Í umsögninni kemur einnig fram að ríkissjóðir annars staðar á Norðurlöndum styðji myndarlega við sveitarfélögin og þá almannaþjónustu sem þau veita íbúum sínum. Tekið er dæmi frá Svíþjóð þar sem sænska ríkið veitir almenn framlög sem greiðast til sveitarfélaganna eftir höfðatölu auk þess að greiða sérstök framlög vegna aukakostnaðar af ýmsu tagi. Stuðningur finnsku ríkisstjórnarinnar nemur tæplega 75% af tekjufalli og útgjaldaauka sveitarfélaganna. Framlag vegna 2021 verður um 85% af áætluðum áhrifum á rekstur.
    Sveitarfélögin veita mikilvæga þjónustu og hefur mikilvægi hennar síst minnkað á þessum erfiðu tímum. Starfshópur á vegum stjórnvalda skoðaði áhrif veirufaraldursins á fjármál sveitarfélaganna. Niðurstaða hópsins er sú að verulegur samdráttur er í tekjum flestra sveitarfélaga. Starfshópurinn áætlar að útsvarstekjur sveitarfélaganna, stærsti einstaki tekjustofn þeirra, dragist verulega saman.
    Komi ríkissjóður ekki til móts við sveitarfélögin með sérstökum hætti er ljóst að þau verða að fjármagna sig með lántökum til þess að standa undir lögbundinni þjónustu. Það hefur síðan í för með sér að greiðslugeta þeirra minnkar vegna vaxtagjalda og nauðsynlegt verður að ráðast í hagræðingu sem síðan bitnar aftur á þjónustu við íbúanna, rekstri skólanna o.s.frv. Staðan er ekki slæm hjá öllum sveitarfélögum en vissulega finna þau öll með einhverjum hætti fyrir því hruni sem orðið hefur í ferðaþjónustu. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki við að jafna aðstöðumun sveitarfélaganna þannig að öll sveitarfélög í landinu hafi möguleika á að sinna skyldum sínum hvað varðar þjónustu við íbúanna. Aðstæður sveitarfélaganna eru mjög mismunandi. Hjá flestum sveitarfélögum eru þessar greiðslu á bilinu 20–40% af tekjum þeirra. Fyrirhuguð skerðing á framlögum sjóðsins í fjárlagafrumvarpinu er mjög óheppileg ráðstöfun af hálfu ríkisstjórnarinnar og kemur til með að bitna sérstaklega illa á minni sveitarfélögum. Tryggja verður að fyrirsjáanlegar sveiflur í tekjum sjóðsins vegna efnahagsástandsins hafi ekki áhrif á framlög til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa mjög lítið svigrúm til niðurskurðar en allar helstu þjónustuskyldur sveitarfélaganna eru ákveðnar með lögum.
    Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í viðspyrnunni þegar veirufaraldurinn líður undir lok. Fjárfestingaráætlun sveitarfélaganna er mjög mikilvæg í því að vinna gegn niðursveiflunni. Ljóst er að verði ekki komið til móts við sveitarfélögin eru þau nauðbeygð til að draga úr fjárfestingum og hafa minni fjárhagslega getu í viðspyrnu. Fjárfestingarþörfin er uppsöfnuð ekki síst vegna þess að það dró mjög úr henni í kjölfar efnahagshrunsins. Þá er rétt að hafa í huga að sveitarfélögin fengu ekki sértækan stuðning frá hinu opinbera eftir efnahagshrunið.
    Mörg hver sveitarfélaganna á landsbyggðinni komu því á framfæri við fjárlaganefnd, bæði í umsögnum og á fundum með nefndinni, að mikilvægt væri setja kraft í verkefnið „Störf án staðsetningar“ en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ráðuneytum og stofnunum verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Kom það fram af hálfu sveitarfélaganna að það væru vonbrigði hversu hægt hefði gengið að hrinda þessu mikilvæga verkefni af stað.
    Sóknaráætlun landshluta er sameiginlegt þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga. Markmiðið er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til landshlutanna á forgangsröðun og útdeilingu ríkisfjár til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Árið 2020 er fyrsta ár nýs samningstímabils sóknaráætlana en forsendur áætlana brustu að mestu vegna veirufaraldursins. Mikilvægt er að auka fé til þessa verkefnis vegna þess að það setur aukinn slagkraft heima í héraði og kemur þannig þeim samfélögum vel á landsbyggðinni sem hafa orðið fyrir höggi vegna hruns í ferðaþjónustunni.
    Reykjavíkurborg segir í sinni umsögn við frumvarpið að það sé hvergi að finna heildarsýn á áhrif fjármálakreppunnar á sveitarfélögin í landinu. Auk þess er hvergi sett fram tillaga að heildaraðgerðum til að aðstoða sveitarfélögin í gegnum þá efnahagslegu erfiðleika sem við göngum nú í gegnum. Verði ekki brugðist við með betri stuðningi sé hætta á hagstjórnarmistökum. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar skeri sig algerlega frá efnahagsráðgjöf OECD og stefnu annarra Norðurlanda. Ríkisstjórnin verður að viðurkenna vandann.

Málefni hælisleitenda í ólestri – breytinga þörf á lagaumhverfi.
    Málefni flóttamanna og annarra innflytjenda eru með stærstu málum sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Innflytjendamál á Íslandi einkennast af vanmætti stjórnsýslunnar til að ráða við afgreiðslu umsókna innan viðunandi tímamarka. Hefur þetta leitt af sér sívaxandi útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins sem fylgt hafa lögmáli veldisvaxtar. Hælisleitendur bíða í sumum tilvikum árum saman eftir því að fá niðurstöðu. Með því er mikið lagt á fólk sem hingað leitar. Um leið ýtir þessi staðreynd undir tilhæfulausar umsóknir. Slíkum umsóknum er sérstaklega beint að ríkjum þar sem frestunarmöguleikarnir eru mestir. Úr verður skaðleg keðjuverkun ekki síst fyrir þá sem þurfa mest á hjálp að halda.
    Hælisumsóknum hefur fjölgað hratt á Íslandi á undanförnum árum á sama tíma og þeim hefur fækkað í mörgum nágrannalöndum. Nú er svo komið að hælisumsóknir eru hlutfallslega flestar á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðunum. Í fyrra voru slíkar umsóknir, miðað við íbúafjölda, fimmfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi.
    Íslensk stjórnvöld verða að ná stjórn á aðgerðum landsins í flóttamanna- og innflytjendamálum, ella heldur áfram keðjuverkun sem 350.000 manna ríki ræður ekki við. Sífellt fleiri fara af stað með óraunhæfar væntingar og í mörgum tilvikum borga mönnum af misjöfnu sauðahúsi, sem gera sér flutninga fólks að atvinnu, fyrir að koma sér áleiðis. Keðjuverkunin heldur svo áfram.
    Löggjöf um málaflokkinn er haldin alvarlegum ágöllum. Hún ýtir undir þessa þróun, tekur lítið tillit til raunveruleikans og er ekki til þess fallin að beina aðstoðinni að þeim sem þurfa mest á henni að halda. En það þarf líka að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda og hafa virkað. Dyflinnarreglugerðin var ekki sett að ástæðulausu. Samkvæmt henni á að afgreiða hælisumsóknir í því Evrópulandi sem umsækjandinn kemur fyrst til. Eftir að íslensk stjórnvöld fóru að víkja frá henni varð landið fyrst að áfangastað þeirra sem ekki eiga tilkall til alþjóðlegrar verndar. Því skyldu menn fylgja reglunum ef Ísland auglýsir sig sem land sem lítur fram hjá þeim?
    Brýnt er að einfalda og hraða málsmeðferð umsókna svo að auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma í málaflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft hælisleitendamálin á sinni könnu um árabil. Hann sýnist skorta nauðsynlega festu og hefur ekki reynst fær um að taka á vandanum. Stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan viðunandi frests og beinn kostnaður við framfærslu hælisleitenda eykst hratt. Á þessu ári kostar hann skattgreiðendur 4,4 milljarða kr. og fer ört hækkandi. Þögn ríkir um óbeinan kostnað. Á fundi fjárlaganefndar með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins í tengslum við vinnu frumvarpsins kom fram að Ísland hefur veikustu löggjöfina af öllum löndum Evrópu þegar kemur að málefnum hælisleitenda og veitir hælisleitendum bestu þjónustuna. Það er umhugsunarefni að nú þegar landið hefur nánast verið lokað mánuðum saman vegna veirufaraldursins er fækkun á umsóknum um alþjóðlega vernd nánast engin. Á sama tíma er fækkunin allt að 70% í nágrannalöndunum. Umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi eru núna orðnar á pari við stórar þjóðir eins og Svíþjóð. Allir sjá að þetta gengur ekki til lengdar vegna stöðugt aukinna útgjalda til málaflokksins og fámennis þjóðarinnar.
    Samkvæmt tölum flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNRWA er fyrir kostnað af hverjum hælisleitenda sem kemur til Vesturlanda hægt að hjálpa a.m.k. 10–12 manns í heimalandi. Okkur ber að aðstoða nauðstadda eftir föngum að teknu tilliti til fámennis þjóðarinnar. Koma ber í veg fyrir að móttökukerfi hælisleitenda sé misnotað með röngum upplýsingum og tilhæfulausum umsóknum. Ísland hefur ekki farið að fordæmi Dana og Norðmanna og auglýst strangt regluverk í útlendingamálum vegna þess að á Íslandi eru útlendingamálin í ólestri m.a. vegna stefnuleysis, ófullnægjandi stjórnsýslu og lagaþrætna á kostnað skattgreiðenda. Á vettvangi stjórnmálanna dugir ekki að hlaupast undan merkjum réttarríkisins af ótta við háværan minni hluta. Miðflokkurinn leggur á næstu dögum fram tillögu til þingsályktunar þar sem Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flytja frumvarp um breytingu á útlendingalögum sem hafi að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins og auka skilvirkni í málsmeðferð. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2021 svo lögfesta megi nauðsynlegar breytingar fyrir þinglok. Áhersla verði lögð á þau markmið að tryggja að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða.

Landbúnaður í vanda – frekari stuðningur nauðsynlegur.
    Staðan í landbúnaði, sérstaklega kjötmarkaði, er ekki góð og rekstrarforsendur í raun brostnar. Á þetta hafa helstu hagsmunasamtök bænda og fyrirtækja í landbúnaði bent. Ástæðurnar eru nokkrar. Alvarlegar afleiðingar veirufaraldursins eru augljósar og hrun er í komu erlendra ferðamanna sem hefur haft mikil áhrif á neyslu á landbúnaðarvörum. Sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda hafa einnig haft mikil áhrif. Aukinn innflutningur er á erlendum búvörum, tollframkvæmdir í ólestri og uppboð á tollkvótum er fyrirhugað. Ljóst er að misbrestur í tollafamkvæmd á innfluttum landbúnaðarvörum hefur valdið miklu tjóni fyrir landbúnaðinn. Innlend framleiðsla landbúnaðarvara naut ekki þeirrar tollverndar sem lög og alþjóðasamningar áttu að tryggja. Aukinn innflutningur á búvörum hefur þrengt að íslenska markaðnum. Sala á kjöti alifugla, hrossa, svína, nautgripa og lamba hefur dregist saman um u.þ.b. 10% sl. þrjá mánuði, frá því á sama tíma í fyrra, og miklar birgðir hafa safnast upp, t.d. í mjólkurpróteini. Kjötbirgðir hrannast upp, bæði í búfé, á fæti hjá bændum, og í birgðageymslum sláturleyfishafa. Auk þess er fyrirséð að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti auglýsi að öllu óbreyttu tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins. Þrátt fyrir að það verði með breyttu sniði tímabundið hefur það engu að síður neikvæð áhrif. Frumvarp um að eldra fyrirkomulag verði tekið upp tímabundið til eins árs dugir því ekki til. Fresta þarf útboði á tollkvótum í kjöt- og mjólkurvörum vegna ástandsins. Verði ekki gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að meira kjöt komi inn á yfirfullan markað leiðir það til hruns í verði á kjöti til framleiðenda og fjöldagjaldþrot blasir við. Birgðir mjólkuriðnaðarins af mjólkurpróteini eru nú 55% meiri en á sama tíma í fyrra. Í magni samsvarar aukningin 15 milljónum lítra mjólkur sem lætur nærri að vera ársframleiðsla 50 kúabúa með 300.000 lítra ársframleiðslu sem er ekki fjarri lagi að vera gott 50–60 kúa bú. Kostnaður við að kaupa, geyma og eiga slíkt magn eru stórar fjárhæðir. Í breytingartillögu meiri hlutans er gert ráð fyrir stuðningi við sauðfjárbændur og nautgripabændur. Stuðningurinn við sauðfjárbændur mætir stöðu greinarinnar eins og hún blasir við nú um stundir og er það vel. Frekari stuðningur við nautgripabændur er hins vegar nauðsynlegur sem og aðrar greinar í kjötframleiðslu eins og að framan greinir.
    Landbúnaður og matvælaframleiðsla eru undirstaða byggðar víða um land. Því má heldur ekki gleyma að innlend matvælaframleiðsla lækkar kolefnisspor landsins.
    Brýnt er að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu til lands og sjávar sem eina af grunnstoðum samfélagsins.
    Þriðji minni hluti leggur til breytingar við frumvarpið um aukinn stuðning við kjötframleiðendur og sérstakan stuðning vegna mikillar birgðasöfnunar í mjólkurpróteini.

Ríkisútvarpið og tillaga Miðflokksins um breytingar á útvarpsgjaldi.
    Allir þeir sem eru skattskyldir á Íslandi greiða sérstakt gjald til RÚV ohf. Útvarpsgjaldið, sem lagt er á við álagningu opinberra gjalda ár hvert, er lagt á þá lögaðila sem bera sjálfstæða skattskyldu skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, aðra en dánarbú, þrotabú og þá lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Gjaldið nemur fastri fjárhæð sem er ákvörðuð með lögum. Hér er um að ræða nefskatt sem engin skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann geti notað fjölmiðlaþjónustu þess eða skilið hana, nú eða yfir höfuð sætt sig við þjónustuna.
    Þriðji minni hluti leggur fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að fyrirhuguð hækkun á útvarpsgjaldi, sem nemur um 170 millj. kr., komi ekki til framkvæmda. Tillagan er í eðlilegu samhengi við tillögu til þingsályktunar sem Miðflokkurinn leggur fram á næstu dögum um breytingar á ráðstöfun á útvarpsgjaldinu. Tillagan er á þann veg að Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að breyta lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds. Lýtur breytingin að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins (33%) að eigin vali til annarra fjölmiðla.

Landspítalinn – margþættur fjárhagsvandi.
    Landspítalinn er stærsta og mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsins. Hann hefur á að skipa framúrskarandi starfsfólki sem vinnu óeigingjarnt starf á hverjum degi, oft við erfiðar aðstæður. Það hefur sannarlega sýnt sig í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn undanfarna mánuði. Miklar umræður hafa skapast um rekstrarvanda spítalans og nú síðast um uppsafnaðan vanda frá fyrri árum. Halli hvers árs flyst á milli ára. Lítil frávik sem verða síðan að stærri vanda. Fjárhagsvandi Landspítalans á sér margþættar rætur. Nú er spítalinn rekinn á um það bil 1 milljarðs kr. lægri upphæð en hann með réttu þyrfti að fá í fjárheimildir. Kjarni málsins er sá að spítalinn og sú þjónusta sem hann veitir vex hraðar en fjárlög gera ráð fyrir þrátt fyrir reiknaðan raunvöxt upp á 1,8% ár hvert. Spítalinn hefur tekið að sér ný verkefni þar sem fjárveitingar hafa ekki fylgt. Af hálfu yfirstjórnar heilbrigðismála hefur t.d. ekki verið leyst úr hinum svokallaða fráflæðisvanda, sem er mikil áskorun og felur í sér að á spítalanum liggur fólk sem að réttu lagi ætti að dveljast á hjúkrunarheimilum. Hér er um að ræða dýr úrræði. Tímabundið framlag í breytingartillögum meiri hlutans til fjölgunar hjúkrunarrýma um 100 er skref í rétta átt en varanlega lausn verður að finna. Flóknir kjarasamningar hafa verið gerðir sem erfitt hefur verið að kostnaðarmeta, þar á meðal kjarasamningur við lækna árið 2015. Samningurinn var góður fyrir heilbrigðiskerfið en kostnaðarþættir voru vanmetnir. Spítalinn hefur ekki fengið fjármagn til að standa straum af heildarkostnaði við þennan samning.
    Brýnt er að búa heilbrigðisstarfsfólki viðunandi starfsskilyrði og tryggja þannig að mönnun sé á hverjum tíma fullnægjandi. Mönnunarvandi spítalans er einn af hans stærstu áskorunum. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki lagt fram neinar áætlanir um það með hvernig eigi að bregðast við honum til framtíðar. Landspítalinn stendur nú frammi fyrir aðhaldsaðgerðum vegna halla á rekstri. Stjórnvöld verða að eiga raunhæft samtal við Landspítalann um lausnir. Hafa ber í huga að Landspítalinn er fyrst og fremst bráðasjúkrahús. Það er því eðli þjónustunnar sem spítalinn veitir að hún er ófyrirséð. Af þeim sökum hentar illa að vera á alveg föstum fjárlögum. Bráðamóttaka lokar ekki þegar fjárveiting er búin. Hér þarf meiri sveigjanleika. Álag á heilbrigðiskerfið eykst jafnt og þétt næstu ár og áratugi með hækkandi lífaldri þjóðarinnar. Ef ætlunin er að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla þarf heilbrigðiskerfið að verða mun skilvirkara. Lýsandi dæmi um vanda kerfisins birtist í því að sjúklingar eru sendir til útlanda í aðgerðir sem kosta þrefalt meira en þær myndu kosta á Íslandi.
    Það þýðir ekki fyrir ríkisvaldið að benda á yfirstjórn Landspítalans og yfirstjórn Landspítalans að benda á ríkið. Þjóðin eldist sem þýðir aukið álag á kerfið. Aldraðir, 80 ára og eldri, þurfa mesta heilbrigðisþjónustu. Auk þess hefur ný heilbrigðistækni aukið kostnað. Stjórnvöld verða að horfast í augu við vandann og tryggja langtímafjármögnun mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins.

Málefni öryrkja – fjölgun starfa með stuðningi.
    Vinna þarf markvisst að því að styrkja möguleika fatlaðs fólks og öryrkja á almennum vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka öryrkja hér minni en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og umfang starfsendurhæfingar er mun minna. Útgjöld hins opinbera vegna örorkulífeyris eru veruleg í flestum löndum OECD. Hátt hlutfall örorkulífeyrisþega og þau miklu útgjöld sem því fylgja hindra vöxt efnahagslífsins og draga úr framboði vinnuafls á vinnumarkaði.
    Mörg lönd innan OECD hafa endurskoðað kerfi örorkulífeyris og stuðnings með það að markmiði að auka virkni og þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Þessi lönd mátu stöðuna þannig að ef ekkert yrði að gert hefði samfélagið ekki efni á þeirri velferðarþjónustu sem vilji væri til að byggja upp innan heilbrigðisþjónustu og menntakerfisins auk þess að ekki væri unnt að veita þjóðfélagsþegnum framfærslustuðning sem enga möguleika hafa á þátttöku á vinnumarkaði.
    Hér á landi hefur hlutfall einstaklinga á örorkulífeyri hækkað stöðugt í áratugi og nú er svo komið að það er með því allra hæsta innan OECD. Það er því gríðarlega mikilvægt að snúa þessari þróun við. Flækjustig verkefnisins er hins vegar mikið og það er viðkvæmt því að um er að ræða fólk sem glímir við skerta heilsu og oft bágar aðstæður sem enginn vafi leikur á að þarf oft og tíðum mikla aðstoð og stuðning.
    Öryrkjar búa almennt við mun lakari lífskjör en gengur og gerist meðal þjóðarinnar og fátækt er frekar hlutskipti öryrkja en annarra hópa. Mjög fáir fara af örorkulífeyri aftur í vinnu. Þannig má segja að einstaklingar sem fara á örorkulífeyri festist auðveldlega í gildru fátæktar og verri lífsgæða til framtíðar. Það er því ákaflega mikilvægt að vinna markvisst gegn því að æ fleiri verði öryrkjar hér á landi og auka þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Efla þarf samstarf hins opinbera við atvinnurekendur hvað þetta varðar og auka ábyrgð þeirra. Nokkur lönd innan OECD hafa byggt upp sérstakt hvatningarkerfi fyrir atvinnurekendur á þessu sviði. Eitt af því er niðurgreiðsla launa hjá starfsmönnum með skerta starfsgetu. Þá fá atvinnurekendur greidda tiltekna fjárhæð á mánuði með hverjum starfsmanni sem síðan fær greidd hefðbundin laun frá atvinnurekandanum. Þetta fyrirkomulag er í boði hér á landi í gegnum Vinnumálastofnun en er sniðinn þröngur stakkur hvað fjárveitingar varðar. Íslenskur vinnumarkaður tekur lítið sem ekkert við fólki með skerta starfsgetu. Virk þátttaka aðila vinnumarkaðarins er nauðsynleg til að skapa öryrkjum raunveruleg tækifæri til atvinnuþátttöku. Innleiða ætti skattafslætti til atvinnurekenda sem uppfylla tiltekinn kvóta varðandi hlutfall starfsmanna með skerta starfsgetu.
    Í gegnum atvinnu með stuðningi fá þeir sem hafa skerta vinnugetu vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar aðstoð við að finna starf á almennum vinnumarkaði. Þetta er árangursrík leið sem felur í sér víðtækan stuðning svo að þeir geti sinnt starfi á nýjum vinnustað. Vinnusamningar öryrkja eru endurgreiðslusamningar við atvinnurekendur sem hafa ráðið fólk með skerta starfsgetu til starfa og eru ætlaðir til að auka möguleika atvinnuleitenda með skerta starfsgetu til að ráða sig í vinnu á almennum vinnumarkaði. Hér er því mikilvægt úrræði að ræða fyrir þá sem hafa skerta starfsgetu.
    Vinnusamningur öryrkja er samningur ætlaður til að gera einstaklingum kleift að ráða sig til vinnu eða þjálfunar til starfa. Í gegnum umsjónaraðila er gerður samningur milli Vinnumálastofnunar og atvinnurekanda á almennum vinnumarkaði. Vinnumálastofnun endurgreiðir atvinnurekanda hlutfall af launakostnaði og launatengdum gjöldum. Hlutfallið sem Vinnumálastofnun greiðir fyrstu tvö árin eru 75% en greiðslan lækkar svo um 10% með 12 mánaða millibili þar til lágmarksendurgreiðsluhlutfalli er náð, en það er 25%. Endurgreiðslan fer aldrei undir 25%. Vinnumálastofnun endurgreiðir atvinnurekanda mánaðarlega hlutfall af launum starfsmannsins gegn því að fá sent afrit launaseðla. Vinnusamning má gera bæði um fullt starf og hlutastarf. 3. minni hluti leggur til breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að Vinnumálastofnun fái aukafjárveitingu upp á 200 millj. kr. svo að efla megi þetta mikilvæga úrræði og fjölga vinnusamningum öryrkja.

Málefni fatlaðra og NPA.
    Reynsla hefur nú komist á framkvæmd laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Lögin heimila m.a. gerð svokallaðra NPA-samninga, eða samninga um notendastýrða persónulega aðstoð til handa fötluðum. Lögin fela í sér mikla réttarbót fyrir fatlaða. Með því að gera samning um notendastýrða persónulega aðstoð fær notandi greiðslur í stað þjónustu. Notandinn sér sjálfur um verkstjórn, ákveður hvað hann vill gera og hvernig aðstoðarfólk hans nýtist. Frá og með 1. október var hægt að sækja um NPA-þjónustu. Ríkið greiðir 25% með hverjum samningi en sveitarfélögin 75%. Hér er um dýrt úrræði að ræða. Þjónustan er að breytast úr stofnanavæðingu yfir í einstaklingsbundna þjónustu. Í sumum tilfellum þarf allt að 4–5 starfsmenn til að halda utan um þetta nýja fyrirkomulag fyrir einn einstakling. Með lögunum er komin lögvarinn réttur fatlaðra til þess að fá þessa þjónustu, sama hvað hún kostar.
    Að sjálfsögðu er þetta mikil réttarbót, en það verða þá að vera til peningar til þess að veita þjónustuna. Sveitarfélögin þurfi einnig að halda úti þeim úrræðum sem voru áður notuð, eins og sambýlum, vegna þess að NPA-einstaklingur á rétt á því að snúa aftur til baka, t.d. í sambýli óski hann þess. Þetta er allt í boði sveitarfélaganna, verulega aukin þjónusta sem ríkið ákveður, en lætur sveitarfélögin borga 3/ 4 kostnaðarins. Það virðist vera regla fremur en undantekning að nægilegir fjármunir frá ríkinu fylgja ekki með þeim verkefnum sem flytjast frá ríki yfir til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa lýst áhyggjum sínu yfir þeim mikla kostnaði sem sýnt þykir að fylgir þessu nýja þjónustuformi. 3. minni hluti fagnar fram kominni breytingartillögu nefndarinnar um 300 millj. kr. aukaframlag til málaflokksins, svo að fjölga megi samningum.

Gjaldskrárhækkanir hins opinbera kynda undir verðbólgu.
    Fastur liður eins og venjulega í tengslum við fjárlagafrumvarpið eru breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Til einföldunar er þetta nefnt gjaldskrárhækkanir og taka þær iðulega gildi um áramót. Þessar hækkanir hafa að sjálfsögðu verðlagsáhrif, hækka vísitölu neysluverðs, hækka lán landsmanna og kynda undir verðbólgu. Í núverandi árferði atvinnuleysis og mikillar hækkunar á nauðsynjavöru er þetta að sjálfsögðu óskynsamlegt og vill 3. minni hluti hvetja stjórnvöld til að falla frá þessum áformum. Ríkisvaldið á að taka virkan þátt í þeirri viðleitni að draga úr hækkun verðlags og efna ekki til hækkana umfram það sem algjörlega nauðsynlegt getur talist. Verðbólga hefur verið lág undanfarin misseri og verður ekki séð að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið gangi fram með þessum hætti. Gæta verður ítrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar. Á það sérstaklega við nú á tímum mikillar óvissu í efnahagsmálum.

Kennitöluflakk verður að uppræta.
    Kennitöluflakk er meinsemd í íslensku efnahagslífi sem er fólgin í misnotkun á reglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa. Líkindi eru til þess að íslenskt samfélag verði af tugum milljarða kr. á ári hverju vegna háttsemi sem telst til kennitöluflakks. Flestallir eru sammála um að vandamálið sé til staðar og að ekki hafi náðst viðunandi árangur. Þrátt fyrir það hafa ekki átt sér stað neinar meiri háttar breytingar lögum á undanförnum árum í því skyni að sporna gegn kennitöluflakki og frumvarp dómsmálaráðherra um aðgerðir gegn kennitöluflakki hefur ekki náð fram að ganga. Kennitöluflakki er hægt að lýsa þannig að viðkomandi félag „deyr“ en rekstur þess lifir af og heldur áfram í gegnum annað félag með nýrri kennitölu. Þá er markmið kennitöluflakks m.a. að komast hjá einhverjum eða öllum lagalegum skyldum félagsins.
    Almenningur og aðrir sem skoða ekki kennitölur félaga þegar þeir eiga viðskipti við félög verða því oft á tíðum ekki varir við þessa breytingu. Nýja félagið rís því úr ösku þess gamla og heldur áfram með rekstur eldra félagsins. Sú háttsemi sem að framan var lýst er ámælisverð og ólögmæt.
    Birtingarmynd kennitöluflakks getur verið með ýmsum hætti. Í grundvallaratriðum er hægt að flokka kennitöluflakk í tvo hópa eftir því hvort upprunalegur tilgangur félagsins á að vera að standa við allar lagalegar skuldbindingar sínar eða ekki. Sú birtingarmynd kennitöluflakks sem líklega kemur fyrst upp í huga margra er þegar félag sem sér fram á að geta ekki efnt skuldbindingar sínar við kröfuhafa er látið fara í þrot en áður en það er gert er stofnað nýtt félag af stjórnendum eldra félagsins sem flytur til sín hluta eða allar eignir eldra félagsins á undirverði eða án þess að borga neitt fyrir þær. Nýja félagið er oft starfrækt undir sama viðskiptanafni og hið eldra og heldur þannig viðskiptavildinni. Reksturinn getur því haldið áfram í nýja félaginu og skuldir eldra félagsins eru hreinsaðar.
    Hægt að skilgreina kennitöluflakk sem vísvitandi og oft á tíðum kerfisbundið gjaldþrot félaga sem á sér stað með sviksamlegum eða ólögmætum ásetningi til þess að komast hjá sköttum og öðrum lagalegum skuldbindingum m.a. gagnvart starfsmönnum og halda áfram starfsemi arðvænlega hluta rekstrarins í gegnum nýtt félag.
    Kennitöluflakk getur einnig falið í sér að starfsemi sé haldið áfram undir sama nafni. Stjórnendur nýja félagsins eru þeir sömu og í eldra félaginu eða nákomnir þeim. Starfsmenn eldra félagsins halda áfram að vinna hjá nýja félaginu eða gjaldþrot á sér stað í einu félagi samstæðu. Brotið er gegn samningsbundnum eða lagalegum skuldbindingum sem geta sætt einkaréttarlegum eða refsiverðum afleiðingum.
    Ekki hafa verið teknar saman tölur hérlendis um umfang kennitöluflakks, né upplýsingar um hvert hlutfall kennitöluflakks er af heildarfjölda gjaldþrota. Starfshópur á vegum ríkisskattstjóra áætlaði þó nýverið að skatttekjur væru ríflega 80 milljörðum kr. lægri á ársgrundvelli en umsvif þjóðfélagsins gáfu vísbendingu um að þær ættu að vera.
    Alþýðusamband Íslands sendi frá sér skýrslu í október 2013, þar sem lagt var mat á samfélagslegt tjón af völdum kennitöluflakks og komið með tillögur um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Þar kemur fram að á tímabilinu 1. mars 2012 til 24. janúar 2013 voru lýstar kröfur í þau þrotabú félaga þar sem uppgjöri var lokið tæpir 166 milljarðar kr. Einungis innheimtust 5,2 milljarðar kr. upp í þessar kröfur eða 3,14%.
    Í rannsókn sem gerð var af nemanda við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2005 kemur fram að stjórnendur rúmlega 73% fyrirtækja sem voru tekin fyrir í rannsókninni telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks. Þar af taldi ríflega þriðjungur stjórnendanna fyrirtæki sín hafa orðið fyrir tjóni vegna kennitöluflakks oftar en sex sinnum. Könnunin náði til 600 fyrirtækja. Niðurstaða þessi gefur sterka vísbendingu um að umfang kennitöluflakks sé umtalsvert hérlendis.
    Á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir kennitöluflakk. Á grundvelli veikrar löggjafar sem er beitt af lítilli festu hafa sumir óprúttnir aðilar séð sér leik á borði með því að hafa af kröfuhöfum fé með ólögmætri háttsemi sem telst til kennitöluflakks. Sterkar líkur eru á því að íslenskt samfélag verði árlega af tugum milljarða króna vegna kennitöluflakks. Þeir sem verða fyrir tjóni vegna þessa eru kröfuhafar viðkomandi félags sem geta einkum verið fyrirtæki, ríkissjóður, stéttarfélög, lífeyrissjóðir og launamenn landsins.
    Kennitöluflakk getur einnig haft keðjuverkandi áhrif og leitt til tjóns fyrir aðra en þá sem eiga kröfu á hendur félaginu. Þá njóta þeir aðilar sem stunda kennitöluflakk ótvíræðs samkeppnisréttarlegs forskots. Að lokum lendir tjónið vegna kennitöluflakks á almenningi sem þarf að bera tjónið í formi skatta, minni þjónustu eða hækkaðs vöruverðs. Þetta kemur m.a. fram í meistaraprófsritgerð í lögfræði eftir Guðmund Heiðar Guðmundsson.
    Þriðji minni hluti leggur til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að settar verði 50 millj. kr. í baráttuna gegn kennitöluflakki til skattrannsóknarstjóra.

Stefnulaus kolefnisskattur bitnar verst á tekjulágum.
    Kolefnisskattur er nýr skattur á Íslandi. Hann er lagður á jarðefnaeldsneyti og á að draga úr útblæstri og hvetja til orkuskipta í samgöngum. Skatturinn hækkar um áramótin og verður 11,75 kr. á hvern lítra af dísilolíu og 10,25 kr. á bensíni, sem síðan hefur áhrif til hækkunar verðbólgu. Flutningskostnaður hækkar og um leið verð vöru og þjónustu. Skatturinn hefur hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum skilaði skatturinn 3,5 milljörðum kr. á ári. Á þessu ári er hann rúmir 6 milljarðar kr. Hækkunin hefur haft neikvæð áhrif fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu.
    Einkum tvennt gerir það að verkum að þessi skattur er ósanngjarn og stefnulaus. Hann er ósanngjarn vegna þess að honum er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti, hann bitnar sérstaklega á efnaminna fólki og landsbyggðinni. Í öðru lagi er hann stefnulaus. Hann er settur á í þágu loftslagsmála til að uppfylla skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum en skatttekjurnar eru ekki merktar aðgerðum í loftslagsmálum sérstaklega og aðeins hluti þeirra rennur þangað. Umhverfisráðherra hefur viðurkennt í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi að ekki er hægt að segja til um það hvaða árangri skattheimtan skilar.
    Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur gefið út skýrslu um áhrif kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun heimilanna. Margt athyglisvert kemur fram í skýrslunni og vekur undrun hversu litla athygli fjölmiðlar hafa sýnt henni.
    Helstu niðurstöður eru þessar:
     1.      Skatturinn bitnar á efnalitlu fólki og hefur neikvæð áhrif á kjör þeirra og neyslu.
     2.      Rökstyðja þarf betur hvers vegna skatturinn er lagður á.
     3.      Skatturinn þarf að vera mjög hár til þess að virka.
     4.      Landsframleiðsla og atvinna minnkar eftir að kolefnisskatturinn er lagður á.
    Skýrslan er áfellisdómur yfir kolefnisskattstefnu ríkisstjórnarinnar og staðfestir það sem Miðflokkurinn hefur ávallt sagt um þennan skatt. Það er ekki forsvaranlegt að leggja skatt á almenning með þessum hætti þegar árangurinn er enginn og hann bitnar verst á tekjulágu fólki og íbúum á landsbyggðinni.
    Kolefnisgjaldið felur í sér auknar álögur á eldsneyti sem síðan bitna sérstaklega á landsbyggðinni. Færa má rök fyrir því að með kolefnisgjaldinu sé verið að skattleggja landsbyggðarfólk umfram aðra enda á rafbílavæðingin mun auðveldara um vik á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni þar sem innviðir eins og hleðslustöðvar eru mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður hafa rafbílaeigendur kvartað yfir því að innviðir fyrir rafbíla séu engan veginn fullnægjandi í höfuðborginni, hvað þá á landsbyggðinni. Innviðauppbygging er einfaldlega of skammt á veg komin. Auk þess nota íbúar á landsbyggðinni í mun ríkara mæli bifreiðar knúnar með jarðefnaeldsneyti, aka meira vegna fjarlægðar og kaupa því meira eldsneyti
    Eðlilegt er að samfara hækkun kolefnisgjalds lækki gjöld og skattar á umhverfisvæna starfsemi samsvarandi, ef markmiðið er það eitt að draga úr mengun. Svo er þó ekki.
    Meginmarkmið kolefnisgjaldsins er að hvetja bæði heimili og fyrirtæki til þess að draga úr losun með því að skipta yfir í hreinni orku. Í fyrsta lagi er alls ekki á færi allra að skipta yfir í rafmagnsbifreið og í öðru lagi henta rafmagnsbifreiðar síður á landsbyggðinni enn sem komið er. Lýtur það fyrst og fremst að drægni bifreiðanna og fjölda hleðslustöðva. Kolefnisgjaldið leggst því með öðrum hætti á íbúa höfuðborgarsvæðisins annars vegar og íbúa landsbyggðarinnar hins vegar. Það er því í raun munur á gjaldheimtu milli þessara hópa. Þannig bitnar skatturinn hlutfallslega verst á þeim tekjulægri og íbúum landsbyggðarinnar.
    Hvatning til orkuskipta er góðra gjalda verð en hún verður að vera í takti við raunveruleikann. Orkuskipti fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, ýmsan iðnað og atvinnutæki er ekki raunhæfur kostur sem stendur. Kolefnisskatturinn hefur bein efnahagsleg áhrif á hagkerfið. Án nokkurra mótvægisaðgerða dregur skatturinn þrótt úr hagkerfinu og minnkar samkeppnishæfni fyrirtækja. Hugmyndafræðin er göfug en stjórnvöld verða að ígrunda vel tilgang, forsendur og markmið með skattheimtunni, sérstaklega hverjir eru skattlagðir og hverjir ekki. Markmiðið með gjaldinu er að draga úr losun án þess að grafa undan samkeppnishæfni atvinnulífs og ætti það sama að gilda hér á landi. Í öðrum löndum hafa því aðrir skatta verið lækkaðir á móti gjaldinu eða undaþágur gefnar frá öðrum sköttum. Ísland er t.d. eina ríkið í Evrópu þar sem fiskiskipaflotinn nýtur engrar undanþágu eða styrkja hvað varðar eldsneytisskatta, sem minnkar samkeppnishæfnina enn frekar
    Hagstofa Íslands hefur gert rannsóknir á útgjöldum heimilanna og þar kemur fram að eldsneytisnotkun er þó nokkuð meiri í dreifbýli. Munurinn endurspeglar þá staðreynd að íbúar landsbyggðarinnar þurfa jafnan að ferðast um lengri veg. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur viðurkennt að áhrif kolefnisgjaldsins séu meiri á íbúa í dreifbýli. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi fyrir skömmu. Kolefnisgjaldið er því í raun klassísk skattahækkun á fólk og fyrirtæki þar sem skattlagningin kemur þyngra niður á landsbyggðinni. Þessari nýju skattbyrði er því ekki jafnað niður á landsmenn á sanngjarnan hátt. Við þetta má bæta að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sagt að erfitt sé að meta nákvæmlega árangur af gjaldinu, mælt í minni losun en ella, hefði gjaldið ekki verið sett á. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi.
    Engar aðgerðir eru boðaðar í frumvörpum tengdum fjárlagafrumvarpinu, sem koma til móts við landsbyggðina vegna gjaldsins. Auk þess er ekki að sjá að ívilna eigi umhverfisvænni starfsemi eða að aðrir skattar verði lækkaðir til mótvægis. Breytingar á kolefnisgjaldi er skattahækkun, sett í búning græns skatts. Eðlilegt væri þá að lækka gjöld á aðra umhverfisvænni þætti. Við verðum einnig að horfa til annarra landa í þessum efnum. Í Danmörku fóru stjórnvöld t.d. of geyst af stað þegar þau hækkuðu skatta vegna umhverfismála á fyrirtæki. Í Noregi er kolefnisgjald lægra en á Íslandi og að hluta til endurgreitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Kolefnisgjaldið má ekki auka kostnað íslenskra fyrirtækja umfram það sem erlendir samkeppnisaðilar búa við. Slíkt dregur úr samkeppnishæfni, rýrir afkomu íslensku fyrirtækjanna og þar með svigrúm til fjárfestinga. Um leið dregur úr líkunum á því að markmiðinu með gjaldinu verði náð.
    Það sem minnkar samkeppnishæfnina enn frekar er að aðilar sem ekki eru virðisaukaskattsskyldir hér á landi eru undanþegnir kolefnisgjaldinu. Þannig þurfa erlend skip sem taka olíu hér á landi ekki að greiða gjaldið en í sumum tilvikum eru þau við veiðar á sömu veiðislóð og þau íslensku. Hvorki erlend fiskiskip, skemmtiferðaskip né flutningaskip greiða kolefnisgjald við eldsneytistöku hér á landi og ekkert kolefnisgjald er greitt af flugeldsneyti hérlendis í ríkissjóð.
    Þótt tækniframþróun sé hröð í þessum efnum er það ekki svo að hægt sé að fá stærri ökutæki, vinnuvélar og sum iðnaðartæki þannig að þau nýti endurnýjanlega orkugjafa. Það á t.d. við í jarðvinnugeiranum og landbúnaði. Orkuskipti eru því ekki raunhæfur kostur sem stendur, sér í lagi fyrir iðnað og atvinnutæki sem nota svokallaða litaða olíu og möguleikar slíkra aðila til orkuskipta eru hverfandi.
    Kolefnisgjaldið er skattur sem leggst með mismunandi hætti á atvinnugreinar og eðlilegt að gerð sé krafa um að til sé heildstæð stefna í málaflokknum áður en lengra er haldið.
    Heildstæð stefna verður að liggja fyrir um hvernig Ísland ætlar að nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar án þess að þær bitni á tekjulægstu hópunum, landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þróttinn úr hagkerfinu. Lækkun á kolefnisgjaldinu dregur úr verðbólguþrýstingi með lækkun á verði eldsneytis. Miðflokkurinn flutti breytingartillögu við frumvarp til breytinga á ýmsum lögum í tengslum við fjárlög þess efnis að hækkun á kolefnisgjaldinu kæmi ekki til framkvæmda á næsta ári og að skatturinn yrði endurskoðaður í ljósi skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Tillagan var því miður felld.

Stuðningur við mikilvægt starf SÁÁ.
    Áhrif veirufaraldursins á tekjuöflun SÁÁ hafa verið mikil og áhrifanna gætir ekki einungis hjá sjúklingum sem fara í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi heldur einnig hjá aðstandendum. Vegna faraldursins gátu samtökin ekki staðið fyrir álfasölunni í ár. Hún er afar mikilvæg tekjulind. Árið 2020 eru 20% færri innritanir hjá SÁÁ vegna veirufaraldursins en þrátt fyrir það greiðir SÁÁ 125 millj. kr. með rekstrinum. Ef þjónustan á að vera eins og fyrir veirufaraldurinn vantar 250 millj. kr. í reksturinn. Veirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á sjálfsaflafé samtakanna og óvissa er framundan. Viðbúið er að þegar veirufaraldrinum lýkur muni þeim fjölga töluvert sem þurfi að leita til samtakanna.
    SÁÁ sinnir sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga með afeitrunarmeðferð og meðferð sem miðar að því að stöðva eða draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu. Starfsemi SÁÁ er samfélaginu öllu mjög mikilvæg. Síðustu 2–3 árin hefur biðlistinn eftir innlögn á stofnanir SÁÁ lengst mjög. Um síðustu mánaðamót biðu 540 manns eftir því að komast að. Sumir þurfa að bíða í meira en hálft ár eftir að komast í meðferð sem getur haft erfiðar afleiðingar fyrir þann sem bíður og fjölskyldu hans. SÁÁ léttir álagi af heilbrigðiskerfinu með því að sinna þeim sem eru veikir af fíknisjúkdómum og fækka með því innlögnum og álagi á aðrar stofnanir. Hér er um að ræða einstaklinga sem koma mikið á bráðaþjónustu, valda þar álagi og glíma við alls konar fylgikvilla sem valda álagi á heilbrigðisþjónustuna. Það er augljóst að þessi málaflokkur er mjög margþættur og kemur á margan ólíkan hátt að heilbrigðiskerfinu. Miðflokkurinn telur að líta beri á Vog sem hluta af vistunarkeðju sem er í senn hluti af þeirri bráðaþjónustu, meðferðarþjónustu og eftirmeðferð sem íslenska heilbrigðiskerfið veitir. Fáar fjölskyldur eiga ekki einhvern ættingja eða vin sem hefur glímt við áfengis- eða fíkniefnavandamál. Um 25 þúsund komur eru árlega á göngudeild SÁÁ og í venjulegu árferði sækja um 650 foreldrar ólögráða barna um meðferð á Vogi. Því má ætla að í það minnsta þúsund börn eigi foreldra sem fara í meðferð á ári. 3. minni hluti leggur til breytingartillögu við frumvarpið um 300 millj. kr. aukaframlag til SÁÁ.

Krafa um hagræðingu í rekstri ráðuneyta.
    Miðflokkurinn leggur áherslu á hagræðingu í ríkisrekstri og að dregið verði úr ríkisbákninu, sem hefur vaxið hratt í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Ráðdeild og skilvirkni á ávallt að ríkja við meðferð almannafjár. Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að það er ekki ofarlega á verkefnalista ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af ríkisbákninu. Þar fer fremstur í flokki Sjálfstæðisflokkurinn sem reglulega hrópaði hátt fyrir kosningar „báknið burt“. Þegar flokkurinn kemst síðan til valda heldur báknið áfram að vaxa. „Við þurfum að taka rækilega til í ríkisfjármálunum og minnka ríkisbáknið,“ sagði fjármálaráðherra árið 2010. Árið 2020 sagði sami ráðherrann að „endalaus blóðug sóun væri út um allt í opinbera geiranum“. Hann hefur hins vegar ekkert gert í málunum nema síður sé. Ekki hefur verið mikil hagræðingarkrafa innan Stjórnarráðsins á síðustu árum. Það er orðið löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á opinbera kerfinu og draga úr umsvifum hins opinbera. Veirufaraldurinn breytir ekki þeirri staðreynd. Hækkanir á fjárveitingum til ríkisstofnana umfram almennar verðlagshækkanir eru regla fremur en undantekning. Ríkisreksturinn verður því stöðugt dýrari skattgreiðendum. Þannig er síaukinn kostnaður vegna eftirlitsstofnana ríkisins. Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú fer fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytinu, hefur öll tök á því að taka hér til hendinni eins og hann hefur margoft predikað. Ísland er smáríki og því er enn mikilvægara hér en víðast annars staðar að líta til hagræðingar á sem flestum sviðum.
    Engar tilraunir hafa verið gerðar til þess að draga úr ríkisumsvifum af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Er það þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað fyrir hverjar kosningar. 3. minni hluti flytur breytingartillögu við fjármálafrumvarpið fyrir árið 2021 sem miðar að því að draga úr ríkisbákninu og gera kröfu um hagræðingu sem nemur 5% í rekstri allra ráðuneyta. Hagræðingin skilar ríkissjóði sparnaði upp á 500 millj. kr.
    Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir þá hagræðingarkröfu sem Miðflokkurinn gerir á öll ráðuneyti í breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið.
         
Heiti Framlag í frv. 2021 Hagræðing 5%
Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa 942,0 47,1
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, aðalskrifstofa 1.212,6 60,6
Dómsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa 627,8 31,4
Félagsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa 803,3 40,2
Fjármála- og efnahagsráðuneyti, aðalskrifstofa 1.404,1 70,2
Heilbrigðisráðuneyti, aðalskrifstofa 942,9 47,1
Mennta- og menningarmálaráðuneyti, aðalskrifstofa 1.148,0 57,4
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, aðalskrifstofa 598,8 29,9
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, aðalskrifstofa 734,7 36,7
Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa 1.567,1 78,4
Samtals: 9.981,3 499,1

Tollgæsla, fíkniefnaeftirlit og tollaframkvæmd á innfluttum landbúnaðarvörum.
    Fíkniefnavandinn er eitt af alvarlegustu og erfiðustu málum sem steðja að þjóðfélaginu öllu. Sterkari fíkniefni hafa náð fótfestu hér á landi en áður. Neysla ólöglegra fíkniefna veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélögum ómældum skaða og tengist margvíslegri glæpastarfsemi, heilsufars- og félagslegum vandamálum. Fíkniefnasala á netinu hefur mjög færst í vöxt og auðveldað aðgengið að fíkniefnum. Þessi þróun hefur að sumu leyti þyngt róðurinn í baráttunni gegn fíkniefnum. Aukið fíkniefnaeftirlit á landamærum skilar árangri. Styrkja þarf tollgæslu í baráttunni gegn innflutningi vímuefna. Jafnframt þarf að bregðast við auknum vanda sem steðjar að einstaklingum og fjölskyldum sem verða fíkniefnum að bráð. Miðflokkurinn leggur áherslu á að auka fjárveitingar til þessa mikilvæga málaflokks. 3. minni hluti flytur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að sérstakt aukaframlag upp á 250 millj. kr. fari til embættis tollstjóra. Upphæðin skiptist þannig: A. 200 millj. kr. til þess að auka fíkniefnaeftirlit tollgæslunnar á landsvísu og bæta öryggi á landamærum hvað fíkniefnaeftirlit varðar. Vísbendingar eru um að framboð fíkniefna hafi aukist hér á landi á undanförnum misserum og þau verði sífellt sterkari og er það mikið áhyggjuefni. B. 50 millj. kr. til þess að hraða vinnu við rannsókn og leiðréttingu á misræmi í tollaframkvæmd á innfluttum landbúnaðarvörum.

Skógrækt helsta mótvægisaðgerð Íslands í loftslagsmálum.
    Skógrækt er ein af helstu mótvægisaðgerðum Íslendinga í loftslagsmálum. Skógrækt getur orðið veigamikill þáttur í loftslagsaðgerðum Íslands fái greinin nægilegt fjármagn. Að auki skapast fjölmörg störf til framtíðar, aðallega í dreifbýli. Ræktun nýrra skóga er ein mikilvægasta náttúrulega aðgerðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka í baráttunni við loftslagsvandann. Nýskógrækt dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rofnu landi og bindur kolefni í jarðvegi.
    Minni framlög til skógræktar til skamms tíma hafa alvarleg áhrif á þá uppbyggingu gróðrarstöðva sem hafin er. Þau þýða fækkun starfsmanna sem eiga að sinna ráðgjöf og þjónustu og framkvæmd verkefnisins. Þau þýða að erfitt reynist að veita framlög til rúmlega 600 skógarbænda sem taka þátt í nytjaskógrækt og þeirra 70–80 sem eru í umsóknarferli. Erfitt verður að fjármagna íslenska skógarúttekt. Faglegt utanumhald á kolefnisbindingu skóga er forsenda fyrir áframhaldandi þátttöku landsins í sameiginlegri framkvæmd Parísarsamkomulagsins með ESB- og EES-löndum. Fjármagn skortir til að greiða fyrir plöntur sem þegar er búið að semja um framleiðslu á. Minni framlög til skógræktar þýða til lengri tíma minni kolefnisbindingu í skógum sem gerir það ómögulegt að standa við loforð um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, minni viðarafurðir til lengri tíma, færri störf við úrvinnslu timburs og meiri innflutning á viðarafurðum í framtíðinni.
    Aðeins með því að beita vísindum og skynsemishyggju getum við náð raunverulegum framförum á sviði umhverfismála, en dæmi um slíkt er efling skógræktar og í því tilliti þarf að efla ræktun skógarplantna.
    Þriðji minni hluti leggur fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að framlag til skógræktar verði hækkað um 100 millj. kr.

Alþingi, 9. desember 2020.

Birgir Þórarinsson.