Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 552  —  1. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá 4. minni hluta fjárlaganefndar.


    COVID-19-faraldurinn hefur gjörbreytt forsendum ríkisfjármálanna. Tekjur ríkissjóðs hafa dregist verulega saman en útgjöld hafa stóraukist. Við stöndum nú á krossgötum þar sem ljóst er að fjárlög næsta árs munu leika lykilhlutverk í endurreisn hagkerfisins. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar ráða þar úrslitum. Allt of margir Íslendingar voru látnir ganga í gegnum allsherjarniðurbrot eftir fjármálahrunið 2008. Þar einkenndust vinnubrögð stjórnvalda af því að reisa skjaldborg um fjármagnsöflin en gjaldborg um heimilin í landinu. Þá kom skýrt fram hvaða afleiðingar það hefur þegar valdhafarnir kjósa að forgangsraða björgunaraðgerðum sínum í þágu fjármálaaflanna fremur en fólksins sem byggir landið. Reynslan eftir hrunið 2008 kenndi okkur hvernig niðurskurðurinn í kjölfar efnahagskreppunnar kom harðast niður á hinum fátækustu og með hvaða hætti óðaverðbólga þurrkaði út eignir og heimili þúsunda fjölskyldna. Mistökin sem voru gerð þá mega aldrei endurtaka sig. Fjárlög næsta árs verða að setja fólkið í fyrsta sæti.

Glötuð tækifæri og dýrkeypt mistök.
    Sóttvarnaaðgerðir voru hertar eftir að COVID-sýktum einstaklingum fjölgaði mjög skömmu fyrir páska. Þjóðin sýndi hvað í henni býr. Samstaða og óbilandi fórnfýsi hennar og dugnaður náðu að hefta faraldurinn. Í maí var nánast búið að útrýma veirunni á Íslandi. Á þeim tímapunkti átti að leggja alla áherslu á að halda veirunni burtu frá landinu. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að slaka á og hefja að nýju innflutning á veirunni. Hinn 15. júní tóku ferðamenn á ný að streyma inn í landið. Meginmarkmiðið var að koma til móts við vanda ferðaþjónustunnar. Skimun á landamærum átti að tryggja að COVID-sýktir einstaklingar myndu ekki dreifa veirunni innan lands en mistökin komu fljótlega í ljós. Síðan þá hefur ekki tekist að beisla veiruna eins og heppnaðist í kjölfar fyrstu bylgju hennar. Í sumar sem leið létu heilbrigðisyfirvöld veiruna njóta vafans. Afleiðingarnar urðu hörmulegar fyrir landsmenn alla. Fjárhagslega séð fyrir ríkissjóð koma þær skýrt fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021.
    Svonefnd þriðja bylgja faraldursins sem skall á íslensku samfélagi í haust hefði aldrei þurft að verða. Allir ættu að vita að kórónuveiran kviknar ekki hér upp úr engu. Hún er einfaldlega flutt inn til landsins í gegnum landamærin. Stjórnvöldum var í lófa lagið frá upphafi faraldursins að vernda okkur gegn því að COVID-19 breiddist hér út eins og raunin hefur orðið. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2021 myndi svo sannarlega líta betur út sem tölur á borði ef landamærunum hefði verið haldið lokuðum nema fyrir allra nauðsynlegustu umferð. Samfélag okkar gengi þá í dag sinn vanagang þar sem engin eða mjög fá boð og bönn réðu ríkjum. Samanborið við stöðuna í dag værum við frjáls í alla staði. Okkur væri ekkert að vanbúnaði að halda heilög jól með hefðbundnum og eðlilegum hætti í faðmi fjölskyldu og vina.
    Í staðinn flæðir gjaldeyrir til netverslana í útlöndum. Veitingamenn safna skuldum. Verslanir eiga á hættu að sitja uppi með vörugeymslur fullar af jólavarningi. Atvinnuleysi vex stig af stigi með tilheyrandi vanda fyrir alla. Ríkisstjórnin safnar skuldum. Óvissa ríkir um framtíðina þó að flestir voni að úr rætist með tilkomu bóluefnis gegn veirunni.
    Þessi mistök stjórnvalda í stríðinu við veiruna munu kosta skattgreiðendur hundruð milljarða króna. Þá verður ekki metin til fjár öll sú vanlíðan sem fylgir fjárhagslegum áföllum, né heldur þær mannlegu fórnir alþýðufólks sem ávallt eru færðar í kreppuástandi þar sem nefna má sundruð heimili og önnur félagsleg vandræði af ýmsum toga að ógleymdri sorginni vegna fráfalls þeirra sem hafa látist af völdum COVID-19.

Áhrif kórónuveirufaraldursins á ríkissjóð.
    Heildartekjur ríkissjóðs á árinu 2020 verða um 116 milljörðum kr. lægri en gert var ráð fyrir í áætlunum við upphaf ársins. Samhliða hafa útgjöld ríkissjóðs aukist til muna vegna vaxandi atvinnuleysis og efnahagslegra mótvægisaðgerða. Útgjöld ríkisins í ár munu því verða um 144 milljörðum kr. hærri en fjárlög fyrir árið 2020 gerðu ráð fyrir. Í þeim var áætlað að ríkissjóður yrði rekinn með 9,8 milljarða kr. halla í ár. Nú er gert ráð fyrir að hallinn verði um 270 milljarðar kr. Þetta er viðsnúningur upp á tæp 10% af landsframleiðslu. Tekjufallið skýrist að mestu leyti vegna stóraukins atvinnuleysis sem einna helst má rekja til áhrifa COVID-19 á ferðaþjónustu. Á undanförnum árum hefur vöxtur í greininni verið einn helsti drifkrafturinn í íslensku efnahagslífi en áhrif faraldursins hafa svo gott sem sett alla ferðaþjónustu á ís. Ljóst er að tekjuhliðin í ríkisbókhaldinu mun ekki ná sér aftur á strik fyrr en ferðaþjónustan kemst aftur í gang. Þangað til munu tekjur ríkissjóðs hreinlega ekki duga til að greiða fyrir rekstur hins opinbera.
    Þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram nú í haust var áætlað að ríkissjóður yrði rekinn með 210 milljarða kr. halla árið 2021. Síðan skall seinni bylgja faraldursins á. Nú hafa tekju- og útgjaldaspár verið uppfærðar og frekari efnahagsaðgerðir mótaðar. Halli ríkissjóðs verður þannig um 320 milljarðar kr. á næsta ári ef breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar verða samþykktar. Endurskoðuð fjármálastefna gerði ráð fyrir því að halli ríkissjóðs yrði í kringum 9% af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Nú er hins vegar útlit fyrir að hallinn verði 10,5%. Aukinn halli rúmast þó innan óvissusvigrúms fjármálastefnu.
    Þetta er sá herkostnaður sem stefnir í vegna þess að við slökuðum á víglínunni og hopuðum nú í sumar í baráttunni gegn veirunni. Ríkisstjórnin verður að bera fulla ábyrgð á þessu gagnvart þjóðinni sem með þessum fjárlögum fær í hendur einn hæsta reikning Íslandssögunnar.

Brúum bilið.
    Svo að allrar sanngirni sé gætt á yfirstandandi kreppa, ólíkt fyrri efnahagsáföllum, ekki rætur sínar að rekja til offjárfestinga, bólumyndunar eða hagstjórnarmistaka. Upphaf hennar og orsök er kórónuveira sem orsakað hefur COVID-19-heimsfaraldur. Ríkisstjórnin hefur gripið til víðtækra sóttvarnaaðgerða innan lands sem hafa leitt til fordæmalauss samdráttar í fjölda atvinnugreina sem koma ferðaþjónustu lítið eða ekkert við. Þá er þessi kreppa ekki staðbundin heldur nær hún til allra landa, enda hefur faraldurinn dreift sér um heim allan. Um leið og sóttvarnaaðgerðum á heimsvísu lýkur megum við vænta þess að ferðaþjónusta rétti á ný úr kútnum. Í upphafi faraldursins var því spáð að samdrátturinn yrði V-laga og að hagkerfið myndi þannig ná sér upp úr dýfunni og jafna sig á tiltölulega skömmum tíma. Vegna þess að áhrif veirunnar hafa varað lengur og orðið meiri en vonir stóðu til er útlit fyrir að ferðaþjónustan muni ekki ná sér aftur á strik fyrr en eftir nokkur ár. Endurskoðuð fjármálastefna gerir ráð fyrir auknum sveigjanleika. Svigrúm þeirrar stefnu var aukið til að rúma bæði bjartari og dekkri sviðsmyndir. Uppfærðar hagspár gefa því miður til kynna að við munum þurfa að kljást við svörtustu sviðsmyndirnar.
    Skuldastaða ríkissjóðs er góð í alþjóðlegu samhengi og vaxtakjör með besta móti. Þá orsakast hallinn ekki af undirliggjandi vanda í ríkisrekstri. Vikið hefur verið frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera. Stefnt er að því að þau reglubundnu skilyrði taki ekki gildi á ný fyrr en árið 2025. Útlit er fyrir að bólusetning geti hafist snemma á næsta ári. Ómögulegt er að spá fyrir um hvaða áhrif það mun hafa ef væntingar okkar varðandi bólusetningu ganga eftir bæði hér á landi og erlendis. Eins og margoft hefur verið klifað á stöndum við frammi fyrir stormi af því tagi sem við höfum aldrei reynt fyrr. Svo gæti vel farið að endurreisn hagkerfisins muni taka skemmri tíma en spár gera ráð fyrir. Jafnvel svartsýnustu spár gera ráð fyrir auknum hagvexti á næsta ári.
    Við verðum að vona hið besta. Í því felst að okkur ber að tryggja að ríkissjóði verði beitt með markvissum hætti til að stemma stigu við vaxandi atvinnuleysi og versnandi efnahagsspám. Því er hér fallist á að skynsamlegt sé við þessar einstöku aðstæður að brúa bilið milli tekna og gjalda með lántöku ríkissjóðs. Skyndilegur niðurskurður í opinberri þjónustu myndi bitna verulega á samfélaginu og skattahækkanir gætu hægt á bataferlinu. Því er það jákvætt að samstaða ríkir um að koma í veg fyrir víðtækan niðurskurð í opinberri þjónustu. Það verður þó að gæta þess að svelta ekki opinberar stofnanir sem nauðsynlega þurfa á auknum framlögum að halda.

Aðhaldskrafa fjárlaga.
    Í frumvarpi til fjárlaga er áfram fylgt þeirri stefnu að krefja ríkisstofnanir um aðhald í rekstri. Aðhaldskrafan gagnvart ríkisstofnunum nemur 2% að undanskildum heilbrigðis- og öldrunarstofnunum. Þær þurfa að skera niður um 0,5%. Þá eru bótakerfi undanskilin aðhaldskröfu, enda er þar um að ræða fjárhagsleg réttindi sem ákveðin eru í lögum. Það má færa rök fyrir því að skynsamlegt sé að krefjast aðhalds í rekstri ríkisstofnana til að koma í veg fyrir óþarfa útgjöld í ríkisrekstri. Gallinn er sá að ríkisstofnanir hafa ekki sömu möguleika til hagræðingar og einkarekin fyrirtæki. Ríkisstofnanir geta ekki lagt niður lögbundin verkefni sem þykja flókin í útfærslu eða dýr í framkvæmd. Þá eru heimildir ríkisstofnana til að hagræða með því að leita hentugra húsnæðis takmarkaðar. Slíkar aðgerðir stofna yfirleitt til aukinna útgjalda til skamms tíma. Þær eru því enginn valkostur til að mæta aðhaldskröfu ársins þó að þær kunni að spara fjármuni til lengri tíma litið. Það sést glöggt í umfjöllun um útgjöld eftir málefnasviðum að í flestum tilfellum hefur reynst nauðsynlegt að mæta aðhaldskröfu með því að ganga á útgjaldasvigrúmið. Sú tilhögun er misvísandi. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu ríkisstofnanir ekki að ráðstafa útgjaldasvigrúminu fyrir fram. Frekar ætti að nota það til að mæta ófyrirséðum útgjöldum sem falla til á árinu. Sennilega er þessi leið farin hjá svo mörgum stofnunum vegna þess að annars þyrfti að fækka starfsfólki. Þar með yrði dregið úr getu stofnana til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Þá er aðhaldskrafan árleg og því er ríkisstofnunum gert að draga saman seglin um 2% ár frá ári. Á heilu kjörtímabili er því um að ræða nærri 8% niðurskurð.
    Gallar aðhaldskröfunnar komu vel í ljós þegar Landspítalinn greindi frá því í fjárhagsáætlun sinni að uppsafnaður halli myndi á næsta ári nema 4,3 milljörðum kr., og það þrátt fyrir auknar fjárheimildir milli ára. Þarna hefur aðhaldskrafa fyrri ára ásamt viðvarandi fjárskorti leitt til þess að halli Landspítalans hefur aukist ár frá ári þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um þörf á auknu fjármagni. Það er galið að ætla að krefja stofnun, sem augljóslega gat ekki mætt aðhaldskröfu síðustu ára, um að mæta slíkri kröfu á næstu þremur árum og krefja hana einnig um að skera niður um 0,5% á þeim árum. Þarna er augljóst að vandinn liggur í undirfjármögnun en ekki bruðli.
    Landspítalinn er langt frá því að vera eina ríkisstofnunin sem glímir við undirfjármögnun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Fiskistofu, sem kom út í janúar 2019, kom glöggt fram að vegna fjárskorts er eftirlitsgeta Fiskistofu verulega skert. Þar má m.a. lesa að eftirlitsmönnum hafi fækkað um 24% frá árinu 2008 og fram til ársins 2017. Þá var staðan einnig alvarleg hjá ákæruvaldinu og rannsóknarlögreglu. Fjölmörg dæmi eru um að refsingar vegna alvarlegra kynferðis- og ofbeldisbrota hafi verið mildaðar eða jafnvel látnar niður falla vegna þess hve lengi hafði dregist að gefa út ákæru frá því að rannsókn mála hófst. Sem betur fer voru fjárheimildir auknar í þessum málaflokki og starfsmönnum fjölgað til að vinna niður uppsafnaðan málahalla. Engu að síður leiddi undirfjármögnun til réttarspjalla í fjölda mála. Allt of langur tími leið frá því að vandinn varð ljós og þar til gripið var til aðgerða.
    Þá birtist það mjög skýrt í athugasemd Persónuverndar við fjárlagafrumvarpið hvernig vandinn er hunsaður ár frá ári. Persónuvernd bendir á að vegna innleiðingar nýrra reglna um persónuvernd hafi álagið á stofnunina aukist til muna. Nýjum málum fjölgaði verulega í kjölfar nýrra reglna. Fjöldinn jókst úr tæpum 200 málum árið 2017 í 2.415 mál árið 2018. Fjöldi mála til afgreiðslu hefur aukist jafnt og þétt í kjölfarið. Ástæðan er sú að fjárveitingar hafa ekki dugað til að sinna fleiri verkefnum.
    Það er viðvarandi vandamál við fjármögnun ríkisstofnana að ekki er komið til móts við aukna fjárþörf þeirra þegar verkefnum fjölgar. Kostnaður þjóðarinnar af því að fjármagna ekki opinbert eftirlit og opinbera þjónustu með viðhlítandi hætti er miklu meiri en kostnaðurinn sem hlýst af því að fjármagna hlutina rétt. Vegakerfið er gott dæmi um þetta. Í kjölfar hrunsins var nauðsynlegu viðhaldi ýmist slegið á frest eða því sinnt með ódýrum aðferðum sem síðar meir leiddu til frekari skemmda. Enn í dag erum við að reyna að laga vegi sem ekki fengu fullnægjandi viðhald á eftirhrunsárunum. Eflaust má rekja fjölda slysa til þess að viðhaldi vega var ábótavant.
    Vandinn er sá að það kemur gjarnan ekki í ljós fyrr en skaðinn er skeður hvað það er okkur í raun dýrkeypt þegar opinberir aðilar eru undirfjármagnaðir. Það er miður að ekki gefst svigrúm til að bæta úr þessu vandamáli með fullnægjandi hætti að svo stöddu. Þó er nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða þar sem vandinn er mestur og fella niður uppsafnaðan halla Landspítalans.

Staða sveitarfélaganna.
    Undanfarna áratugi hefur ríkið falið sveitarfélögunum umfangsmikil verkefni og aukið ábyrgð þeirra gagnvart borgurunum. Sveitarfélög sjá um eigin félagsþjónustu, rekstur grunnskóla og leikskóla, þjónustu við fatlað fólk og öldrunarþjónustu ásamt ýmsum öðrum verkefnum. Sveitarfélögin geta þó ekki aflað tekna með sama hætti og ríkissjóður. Úrræði þeirra eru fá þegar tekjur dragast saman eða útgjöld aukast. Í þessum efnum voru blikur á lofti vel fyrir komu COVID-19. Nú hefur slagsíðan aukist og er staðan orðin með öllu óviðunandi. Þó að sveitarfélögin eigi að ráða eigin málefnum nær það engri átt að fela þeim lögbundna þjónustu án þess að tryggja samhliða leiðir til að fjármagna rekstur þeirrar þjónustu. Samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var við upphaf októbermánaðar í haust tryggði sveitarfélögum aukið fjármagn sem nemur 4,3 milljörðum kr. Það fjármagn tekur þó að mestu leyti til kostnaðar sem fellur til á yfirstandandi ári. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 kemur fram að hækka þurfi daggjöld til rekstrar hjúkrunarheimila um 2,5 milljarða kr. svo að þau dugi fyrir þeim rekstri. Einnig að 300–320 millj. kr. vanti til að sinna NPA-þjónustu. Þetta eru verkefni sem löggjafinn hefur falið sveitarfélögunum án þess að tryggja jafnframt fjármagn til að veita þjónustuna. Ríkisstjórnin kom að einhverju leyti til móts við þessar kröfur en það á ekki að viðgangast að sveitarfélögin þurfi að berjast fyrir nauðsynlegu fjármagni ár frá ári. Sveitarfélögin kalla auk þess eftir aðkomu ríkissjóðs til að tryggja þeim hagstæð lánakjör næstu árin, en útlit er fyrir að skuldir sveitarfélaganna muni aukast um 145 milljarða kr. á næstu fimm árum.
    Það er nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskipulagningu á verkefnum sveitarfélaga og tekjustofnum þeirra. Ríkið þarf að taka þátt í þeirri endurskipulagningu og tryggja aukið fjármagn svo að frekari brestir verði ekki í þjónustu sveitarfélaganna.

Öryrkjar og eldri borgarar fá ekki lögbundna leiðréttingu.
    Enn á ný er fyrirhugað að sniðganga skýrar lagakröfur um árlega hækkun lífeyris almannatrygginga. Hin árlega hækkun hefur það að markmiði að tryggja að lífeyrisþegar fái kjarabætur til samræmis við launaþróun í landinu. Lífeyrisþegar geta ekki farið í verkfall og krafist nýrra kjarasamninga. Þeirra kjör ráðast alfarið af ákvörðunum Alþingis.
    Í frumvarpi til fjárlaga hefur sú ákvörðun verið tekin að hækka lífeyri almannatrygginga um 3,6%. Breytingin er sögð miðast við áætlaðar meðaltaxtahækkanir á vinnumarkaði á næsta ári. Það er athyglisvert að ríkið skuli miða við útreikninga sem segi til um 3,6% uppfærslu þegar vísitala neysluverðs hefur hækkað um 3,6% milli ára. Hér er einfaldlega stuðst við mælikvarða sem gerir ríkisstjórninni kleift að segja að miðað sé við launaþróun, en jafnframt skilar það engu aukalega til lífeyrisþega umfram verðlagsþróun. Þetta sést kannski best með því að bera saman aðrar aðferðir fjárlagafrumvarpsins til að ákvarða launaþróun. Á blaðsíðu 104 í því þingskjali segir orðrétt: „Spáð er 5,2% hækkun launa.“ Hvers vegna ætli þessi spá sé þeim mun jákvæðari en sú er fjallar um hækkanir á lífeyri almannatrygginga? Svarið er einfalt. Þarna er verið að áætla tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi en ekki kostnað vegna almannatrygginga, og þá er að sjálfsögðu stuðst við mælikvarða sem gefur til kynna bjartari spá.
    Launavísitalan hefur hækkað um 7,1% á ársgrundvelli samkvæmt nýjustu mælingum, en eins og áður segir er lagt til að lífeyrir almannatrygginga skuli aðeins hækka um 3,6%. Þarna munar 3,5%. Fjármálaráðherra hefur ítrekað skýlt sér á bak við það að ekki eigi að reikna inn launaskrið þegar fjárhæðir almannatrygginga eru reiknaðar, og því eigi ekki að nota launavísitölu til að reikna launaþróun. Það vekur eðlilega furðu að fjármálaráðherra telji að launavísitala sé rangur mælikvarði til að mæla launaþróun. Launavísitalan mælir breytingar á tímakaupi reglulegra launa og vinnutíma. Samsetningu hópsins sem liggur að baki útreikningum er haldið fastri milli mælinga til að endurspegla launaþróun í landinu. Það er hinn rétti mælikvarði til að ákvarða launaþróun. Þetta er sá mælikvarði sem skilar lífeyrisþegum sanngjarnri niðurstöðu og kemur í veg fyrir kjaragliðnun. Hann hindrar að kjör lífeyrisþega versni samanborið við kjör launþega.
    Jafnvel þó að ríkisstjórnin hafni því að miða við launavísitölu hefði verið nær að miða hækkanir almannatrygginga við annaðhvort lífskjarasamningana eða fyrrgreinda spá um hækkun launa um 5,2% á næsta ári. Hækki lífeyrir almannatrygginga um 5,2% í stað 3,6% myndi lífeyrir hækka um 16.914 kr. Launahækkun lífskjarasamninganna um áramótin verður 15.750 kr. Lífeyrir almannatrygginga hækkar hins vegar aðeins um 11.710 kr. ef miðað er við 3,6%. Er það miðað við einstakling sem býr einn, hefur 75% örorkumat og hlaut fyrsta örorkumat 40 ára. Þá hafa laun samkvæmt lífskjarasamningnum hækkað um 35.000 kr. frá 1. apríl 2019 en lífeyrir almannatrygginga hefur aðeins hækkað um 10.700 kr. á sama tímabili.
    Það liggur í augum uppi að ríkisstjórnin hefur kosið að leggja til grundvallar þann mælikvarða sem kostar ríkissjóð minnst í stað þess að velja mælikvarða sem endurspeglar betur launaþróun í landinu. Sú ákvörðun er með öllu óverjandi og sýnir svart á hvítu virðingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart öryrkjum og eldri borgurum.

Aðgerðir gegn efnahagslegum áhrifum COVID-19.
    Ríkisstjórnin hefur gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við efnahagslegum afleiðingum af COVID-19. Samhliða kallaði ríkisstjórnin eftir samráði og samstarfi við stjórnarandstöðuna svo að hægt væri að mæta vandanum með skjótum og markvissum hætti. Stjórnarandstaðan lagði til ýmsar tillögur í þeim efnum. Að einhverju marki var tekið tillit til þeirra en að mestu leyti voru þær virtar að vettugi.
    Hlutabótaleiðin reyndist vel og eflaust hefði atvinnuleysi orðið meira ef ekki hefði verið gripið til hennar strax við upphaf faraldursins. Ríkisstjórnin lagði mikla áherslu á að opna fyrir svokölluð brúarlán. Úrræðið hefur hins vegar ekki virkað sem skyldi og langan tíma tók að koma því í framkvæmd. Þá var ráðist í fjárfestingarátak sem snerist í megindráttum um að hefja framkvæmdir á samgöngumannvirkjum fyrr en áætlað var og að auka fjármagn til viðhalds og endurbóta á fasteignum ríkisins. Opnað var fyrir úttekt á séreignasparnaði og landsmenn tóku út rúma 20 milljarða kr. af eigin lífeyri til að ná endum saman. Það verður að teljast óheppilegt að gripið sé til þess á tímum samdráttar að hvetja fólk til að ganga á eigin lífeyrissparnað.
    Ýmis önnur úrræði voru sett af stað en flest snerust þau um atvinnuskapandi hvata eða stuðning til rekstraraðila. Nú á síðustu vikum hefur ríkisstjórnin kynnt tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki. Þetta eru úrræði sem áætlað er að muni kosta ríkissjóð um 50 milljarða kr. og er um að ræða styrki til rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tekjumissi vegna áhrifa COVID-19.
    Enn vantar að lagðar séu fram lausnir fyrir fátækt fólk. Í fernum fjáraukalögum sem samþykkt hafa verið frá upphafi faraldursins var lítið að finna um stuðning við öryrkja, aldraða og fátækar fjölskyldur. Aðeins tókst að tryggja 25 millj. kr. til hjálparsamtaka sem styðja við viðkvæma hópa í samfélaginu og öryrkjar fengu eingreiðslu upp á 10.000 kr. Það gleymist oft að fyrir komu faraldursins var fjöldi fólks þegar í sárri neyð. Þetta fólk þarf ekki síður á aðstoð að halda nú. Hættan er sú að þessi hópur gleymist í aðgerðunum og verði út undan.
    Lítið var að finna um aðgerðir í þágu þessara hópa þegar frumvarp til fjárlaga var kynnt í byrjun október. Ríkisstjórnin kynnti síðan viðspyrnuaðgerðir fyrir skömmu. Þar er boðuð viðbótarhækkun á örorku- og endurhæfingarlífeyri til tekjulágra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Þetta hækkar lífeyri hinna tekjulægstu um 7.980 kr. á mánuði með því að hækka viðmið framfærsluuppbótar. Sú hækkun er fjármögnuð með því að ráðstafa fjármagni sem hafði verið ætlað að standa undir auknum lífeyrisgreiðslum í tengslum við fyrirhugaðar kerfisbreytingar í almannatryggingum. Sú vinna hefur tafist og hér er því verið að ráðstafa fjármagninu á þennan hátt þar til endurskoðun á lagaumhverfi almannatrygginga lýkur. Hér er því ekki verið að leiðrétta mistök fjárlaga og leiðrétta lífeyri til samræmis við launavísitölu. Hins vegar er hér á ferð kjarabót sem búið var að lofa löngu fyrir komu COVID-19 en hefur tafist að kæmist til framkvæmdar. Þá var ekkert að finna í viðspyrnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar í þágu ellilífeyrisþega. Þeir hafa þurft að grípa til ýmissa ráðstafana vegna COVID-19, enda eru þeir í áhættuhópi. Þetta hefur leitt til aukinna útgjalda og ýmissa óþæginda sem sum hver eru bæði dýr og alvarleg. Það er lítið svigrúm til staðar fyrir lífeyrisþega til að takast á við skyndileg og óvænt útgjöld. Þá eru borgarar í eldri kantinum yfirleitt líklegri til að missa vinnuna þegar grípa þarf til niðurskurðar. Taka þarf tillit til vanda ellilífeyrisþega og grípa til aðgerða sem styðja við þá meðal þeirra sem hafa lægstu tekjurnar.
    Nauðsynlegt er að styrkja við hjálparsamtök sem veita fátæku fólki aðstoð. Flest hjálparsamtök stunda fjársöfnun til að fjármagna starfsemi sína. Vegna áhrifa COVID-19 hafa fjársafnanir legið meira og minna niðri á árinu, auk þess sem minna er afgangs í vösum landsmanna. Á sama tíma fjölgar þeim sem þurfa að leita aðstoðar vegna aukins atvinnuleysis og hækkandi verðlags. Hver einasta króna sem við leggjum til hjálparsamtaka skilar samfélaginu margföldum ávinningi. Fólk sem lifir í fátækt býr við verri andlega og líkamlega heilsu. Meiri líkur eru á því að það verði fíknisjúkdómum að bráð eða verði fyrir ofbeldi. Fátækt er börnunum verst. Með því að draga úr fátækt bætum við bæði líf og líðan fólks. Við rennum sterkari stoðum undir efnahag þjóðarbúsins og framtíðin verður bjartari.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd. Hlutfall barna sem glíma hér um bil daglega (undanfarna sex mánuði) við heilsubrest eftir fjárhag fjölskyldunnar. (Heimild: Stefanía María Arnardóttir. 2017. Áhrif fátæktar á börn og unglinga: Hvernig þjóðfélagsstaða ýtir undir sálvefræn einkenni, vanlíðan og einelti. Gögn úr könnuninni Heilsa og lífskjör skólabarna (HBSC). Lokaverkefni sem var hluti af B.A.-prófi í sálfræði við félagsvísindadeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.)

Röng forgangsröðun og handahófskenndar aðgerðir.
    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 skuli að meginstefnu standa óbreytt ef frá eru taldar breytingar sem koma til vegna viðspyrnuaðgerða ríkisstjórnarinnar og breytingar sem tengjast endurmati á tekjum og útgjöldum. Vissulega er um að ræða breytingar upp á 55 milljarða kr. en þar af fara 19,8 milljarðar kr. í viðspyrnustyrki og 6 milljarðar kr. í framhald á hlutabótaleið. Um 6,7 milljarðar kr. eru tilkomnir vegna endurmats á útgjöldum í almannatryggingakerfinu. Þá leiða breytingar á barnabótakerfinu til hækkunar sem nemur tæpum 900 millj. kr. og fyrirhugaðar breytingar á fæðingarorlofi leiða til 240 millj. kr. hækkunar. Veita skal 1.350 millj. kr. til kaupa á bóluefni. Loks eru 13 milljarðar kr. tilkomnir vegna launabreytinga og 6 milljarðar kr. vegna gengisbreytinga. Stærstan hluta breytingartillagna meiri hluta fjárlaganefndar má því rekja til viðspyrnuaðgerða ríkisstjórnarinnar eða endurmats á tekjum og útgjöldum.
    Vissulega hefur meiri hlutinn komið fram með ýmsar góðar tillögur. Það er mikilvægt að tryggja að menntun verði aðgengileg á næstu árum og að framhaldsskólar og háskólar geti sinnt fleiri nemendum. Því er það jákvætt að lagðar eru til breytingar á framlögum til menntunar. Aukið fjármagn til NPA-þjónustu og til hjúkrunarheimila er þörf viðbót. Þá er mikilvægt að styðja við íþróttafélögin enda hafa þau orðið fyrir miklu tekjufalli á árinu. Erfitt er að átta sig á forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna þegar litið er til annarra tillagna. Meiri hluti fjárlaganefndar sér ekkert athugavert við það að ríkið niðurgreiði minkarækt um 80 millj. kr. en getur ekki séð af meira en 30 millj. kr til SÁÁ sem varð af allri álfasölu á árinu. Meira en 70 millj. kr. fara í hin ýmsu söfn en ekki finnst fjármagn fyrir mæðrastyrksnefndirnar eða Fjölskylduhjálp Íslands.
    Það þarf frekari aðgerðir í þágu fólksins. Ef fyrirtækin geta fengið 50 milljarða kr. í tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki hlýtur að vera sjálfsagt að búa til svigrúm sem eykur stuðning við fátækt fólk sem er í nauðum statt.

Breytingartillögur.
    Nauðsynlegt er að gera breytingar á fjárlagafrumvarpinu umfram þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til. Áherslan hingað til hefur falist í því að tryggja hagsmuni fyrirtækja en við megum ekki gleyma fólkinu. Því leggur 4. minni hluti fram breytingartillögur á sérstöku þingskjali á nokkrum málefnasviðum sem allar miða að því að standa vörð um velferðarkerfið og vinna gegn fátækt.

Málefnasvið 23 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að uppsafnaður rekstrarhalli Landspítalans leiði til skertrar þjónustu. Hallinn er tilkominn vegna undirfjármögnunar fyrri ára en ekki vegna þess að stjórnendur spítalans bruðli með peninga. Við sáum afleiðingar þess að skera niður í heilbrigðiskerfinu þegar hópsýking kom upp í haust á Landakoti. Aðstæður þar voru langt frá því að tryggja velferð sjúklinganna. Fjármagn vantar og ekki er svigrúm fyrir frekari niðurskurð. Við getum ekki komið fram við Landspítalann eins og smálánafyrirtæki gagnvart neytendum. Vegna þessa er lagt til að fjárheimildir málefnasviðs 23.10 verði hækkaðar um það sem nemur uppsöfnuðum halla Landspítalans.

Málefnasvið 27 Örorka og málefni fatlaðs fólks. Málefnasvið 28 Málefni aldraðra.
    Lífeyrir almannatrygginga á lögum samkvæmt að taka árlegum breytingum í samræmi við launaþróun. Frumvarp til fjárlaga gerir ráð fyrir 3,6% hækkun lífeyris almannatrygginga en launavísitalan hefur hækkað um 7,1% á ársgrundvelli samkvæmt nýjustu tölum. Því er lagt til að fjárheimildir á málefnasviðum 27.10, 27.20, 28.10 og 28.20 hækki til viðbótar um 3,5% umfram tillögur meiri hluta fjárlaganefndar.

Málefnasvið 32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
    Atvinnuleysi hefur aukist til muna á árinu. Samhliða því hefur fólki fjölgað sem þarf að leita til hjálparsamtaka og biðja um hjálp. Á sama tíma hafa sóttvarnaaðgerðir leitt til þess að erfiðara er að stunda fjáröflun. Vegna þessa er lagt til að ríkissjóður styrki hjálparsamtök sem annast matarúthlutanir um sem nemur 160 millj. kr. á næsta ári. Ríkisstjórnin hyggst verja sömu upphæð til að rannsaka hvort hægt sé að fæða minka á matarúrgangi. Ef við finnum peninga til að gefa minkum fóður þá hljótum við að geta fundið peninga til að gefa fólki að borða. Lagt er til að styrkir verði veittir til samtaka sem annast matarúthlutanir og að styrkjum verði úthlutað eftir umfangi hjálparsamtaka sem sækja um styrk. Lagt er til að félagsmálaráðuneytið annist framkvæmdina. Ekki er um mikla fjármuni að ræða en upphæðin myndi skila samfélaginu margföldum ábata.

Alþingi, 9. desember 2020.

Inga Sæland.