Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 563  —  207. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019 (andvana fædd börn, kerfiskennitölur og heildarafhending þjóðskrár).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Leó Örn Þorleifsson frá Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði, Björgu Finnbogadóttur, Guðna Rúnar Gíslason og Soffíu Felixdóttur frá Þjóðskrá Íslands og Sigríði Haralds Elínardóttur og Védísi Helgu Eiríksdóttur frá embætti landlæknis.
    Nefndinni barst umsögn frá Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði.
    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að gefa út kerfiskennitölur fyrir börn sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu en við gildistöku laga um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, láðist að setja lagastoð undir þá skráningu. Nefndinni var bent á að æskilegt væri að gefa einnig út kerfiskennitölu þegar um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu þar sem foreldrar eigi jafnframt rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks, sbr. lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Við meðferð málsins kom fram að tíðkast hefur að skrá börn sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu í utangarðsskrá (nú kennitölukerfisskrá) þar sem nauðsynlegt væri að skrá þau börn með kennitölu fyrir fæðingarskrá embættis landlæknis. Slík skráning tekur mið af alþjóðlegum skilgreiningum. Hins vegar hafa stofnanir hins opinbera ekki kallað eftir auðkennum þegar um er að ræða fósturlát eftir 18. viku meðgöngu og ekki tíðkast að tilkynna Þjóðskrá Íslands um slíkt. Við meðferð málsins var kallað eftir afstöðu Gleym mér ei styrktarfélags sem tók undir ábendingu Vinnumálastofnunar – Fæðingarorlofssjóðs og taldi mikilvægt að Þjóðskrá Íslands verði heimilt að gefa út kerfiskennitölur við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu líkt og lagt er til vegna barna sem fæðast andvana eftir 22. viku meðgöngu. Í báðum tilvikum öðlast foreldrar rétt til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks og fara þeir aðilar því í gegnum sama ferli við umsókn á þeim réttindum. Þá sé gert ráð fyrir að útgáfa kerfiskennitalna auðveldi foreldrum að sækja þessi réttindi en í dag þurfi foreldrar að sækja vottorð frá Landspítalanum vegna þessa.
    Nefndin hefur skilning á þeim sjónarmiðum að útgáfa kerfiskennitalna geti falið í sér ákveðna viðurkenningu fyrir þá foreldra sem standa í þessum sporum og að aðrar ástæður en þörf kerfisins réttlæti að gefnar verði út kerfiskennitölur þegar um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu. Nefndin hvetur því samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í samráði við félagsmálaráðuneytið til að taka þetta atriði til nánari skoðunar og í víðara samhengi og hvort tilefni sé til að sama verklag gildi í báðum tilvikum sem og hvort útgáfa kerfiskennitalna verði til að auðvelda foreldrum að sækja þau réttindi sem þeim eru veitt samkvæmt lögum um foreldra- og fæðingarorlof.
    Þá er í 2. gr. frumvarpsins lagt til að gildistöku 2. mgr. 24. gr. laganna verði breytt þannig að ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 11. gr. laganna um miðlun kerfiskennitalna verði frestað til 1. maí 2021 og ákvæði 2. mgr. 12. gr. laganna um bann við heildarafhendingu þjóðskrár verði frestað til 1. júní 2022. Loks er gert ráð fyrir að ákvæði 4. mgr. 12. gr. laganna um heimild Þjóðskrár Íslands til að takmarka og hafna afhendingu á upplýsingum taki þegar gildi í stað 1. janúar 2021. Að mati nefndarinnar er það skýrara að tilgreina dagsetningu á gildistöku ákvæðis 4. mgr. 12. gr. laganna. Nefndin leggur þess vegna til að gildistaka ákvæðisins verði óbreytt og taki gildi 1. janúar 2021. Að auki leggur nefndin til minni háttar orðalagsbreytingu og breytingu á fyrirsögn frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „andvana fædd börn sem fæðast“ í 1. gr. komi: börn sem fæðast andvana.
     2.      Í stað orðanna „tekur þegar gildi“ í efnismálsgrein 2. gr. komi: tekur gildi 1. janúar 2021.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019 (kerfiskennitala og afhending upplýsinga úr þjóðskrá).

Alþingi, 10. desember 2020.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir. Þorsteinn Sæmundsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.