Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 580  —  334. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um viðspyrnustyrki.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að veittur verði fjárstuðningur sem stuðla á að því að rekstraraðilar sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.
    Afar mikilvægt er fyrir íslenskt samfélag að styðja lífvænleg fyrirtæki til viðspyrnu þannig að þau geti tekið snöggt við sér við verðmætasköpun eftir að heimsfaraldurinn gengur yfir. Stjórnvöld verða að gera ríkar kröfur til þeirra fyrirtækja um að þau verði ekki uppvís að launaþjófnaði eða svindli á vinnumarkaði, að þau séu ekki í virkum tengslum við skattaskjól og að þau sýni með áætlunum hvernig þau hyggjast draga úr losun koltvísýrings miðað við árið 2019 í átt að kolefnishlutleysi.
    Varða þarf leiðina út úr atvinnukreppu til móts við grænni framtíð. Leiðarljósið ætti að vera vinna, velferð og græn uppbygging.

Heilbrigður vinnumarkaður.
    Markmiðið til framtíðar er að byggja upp fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf sem hefur burði til að greiða starfsmönnum góð laun og tryggja fjölskylduvænar starfsaðstæður. Veita þarf lífvænlegum fyrirtækjum viðspyrnustuðning og gera um leið skýra kröfu um að ef fyrirtæki verður uppvíst að launaþjófnaði eða öðrum svikum á vinnumarkaði þá greiði fyrirtækið viðspyrnustyrkinn tafarlaust til baka með dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu ef styrkurinn hefur ekki verið endurgreiddur innan mánaðar. Með slíkri kröfu stuðla stjórnvöld að heilbrigðari vinnumarkaði.
    
Skattaskjól.
    Annar minni hluti telur að fyrirtæki og auðmenn sem hafa nýtt sér skattaskjól hafi brotið gegn mikilvægum þætti samfélagssáttmálans, þ.e. þeim þætti sem gengur út á að skattgreiðslur og greiðslur opinberra gjalda séu nokkurs konar iðgjöld vegna þeirrar samtryggingar sem einkennir norræn velferðarþjóðfélög. Þannig lítur 2. minni hluti á að með því að draga fé undan skattgreiðslum með nýtingu skattaskjóla hafi fyrirtæki og einstaklingar gefið skýrt til kynna að þeir hafi sjálfir sagt sig frá stuðningi úr ríkissjóði.
    Annar minni hluti getur ekki sætt sig við að auðmenn nýti sér skattaskjól en láti almenning bera uppi samfélagið með skattgreiðslum. Milljarðar króna liggja í skattaskjólum sem fólk felur svo að það þurfi ekki að greiða sinn hlut til samfélagsins, til heilbrigðisþjónustu, í vegi, löggæslu eða þróunaraðstoð.
    Panamaskjölin sýndu að umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs var einstakt í heiminum á þeim tíma sem gögnin náðu til. Ástæða er til að ætla að það sé enn stundað hér á landi. Slíka starfsemi ætti ekki að styrkja með almannafé enda grefur slík starfsemi undan velferðarsamfélaginu.
    Fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd hefur áður lagt fram tillögur um að útiloka þá sem nýta sér skattaskjól og aflandsfélög frá stuðningi úr ríkissjóði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þær tillögur hafa verið felldar. Engu minni ástæða er nú en áður að leggja fram slíka tillögu og er það því gert að nýju.
    Í breytingartillögu 2. minni hluta eru lagðar til breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Þar er miðað við að til þess að öðlast rétt á stuðningi samkvæmt lögunum þurfi að liggja fyrir að viðkomandi félag hér á landi eða raunverulegur eigandi þess hafi ekki átt í fjárhagslegum samskiptum við aðila sem staðsettur er á lágskattasvæði síðastliðin þrjú ár. Formleg en óvirk tengsl af þessum toga hafa því ekki áhrif á rétt hans. Framkvæmdin verður á grundvelli yfirlýsingar viðkomandi félags eða raunverulegs eiganda þess um að skilyrðin séu uppfyllt. Krefst það ekki vinnu í stjórnsýslunni við að staðreyna réttinn fyrir fram í einstökum tilvikum. Verði viðkomandi síðar uppvís að því að hafa gefið rangar upplýsingar verður hann krafinn um endurgreiðslu og viðurlögum beitt. Þessi vinnubrögð eru í samræmi við það sem almennt tíðkast í skattastjórnsýslunni.

Loftslagshamfarir.
    Annar minni hluti leggur til að sett verði skilyrði um áætlun í loftslagsmálum fyrir stuðningi samkvæmt frumvarpinu. Afar mikilvægt er að þau fyrirtæki sem munu byggja upp vinnumarkaðinn að nýju eftir heimsfaraldurinn setji loftslagsmál og grænar áherslur í forgang.
    Í breytingartillögu 2. minni hluta er lagt til að við 4. gr. frumvarpsins bætist nýr töluliður þar sem gerð verði krafa um að fyrirtæki skili gögnum um losun gróðurhúsalofttegunda á árinu 2019 og leggi fram áætlun um minni losun gróðurhúsalofttegunda árlega næstu fimm árin.
    Mikilvægt er að stjórnvöld geri kröfur í loftslagsmálum samfara stuðningi við fyrirtæki. Glíman við loftslagshamfarir af mannavöldum stendur yfir og vandinn sem henni fylgir er óleystur. Þessi glíma er stærsta viðfangsefni mannkynsins og verður það áfram næstu missirin.
    Skilyrðið er ekki íþyngjandi fyrir fyrirtæki og auðvelt í framkvæmd. Bókhald fyrirtækja fyrir árið 2019 liggur fyrir og nýta má þær upplýsingar til að færa losunarbókhaldið. Á slóðinni www.samfelagsabyrgd.is/verkefnin/loftslagsmarkmid/ má finna hvernig færa má slíkt bókhald. Góðar leiðbeiningar eru á síðunni.

Launaviðmið.
    Eitt af skilyrðum framlengingar hlutabótaleiðar er að þeir njóti ekki stuðnings sem hafa greitt eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins. 2. minni hluti leggur til að slíkt viðmið verði einnig viðhaft við greiðslu viðspyrnustyrkja og þannig verði gefið til kynna að viðspyrnustyrkir séu ekki ætlaðir vel stöndugum fyrirtækjum jafnvel þótt þau hafi orðið fyrir tekjufalli.
    Framangreind fjárhæð tekur mið af fjórföldum reglulegum heildarlaunum að meðaltali fyrir launamenn í fullu starfi samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands, að teknu tilliti til breytinga á launavísitölu.

Skilgreining tekna samkvæmt frumvarpinu.
    Í 3. gr. frumvarpsins er hugtakið tekjur skilgreint sem skattskyldar tekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna. Í umsögn sinni til nefndarinnar bendir Indriði Þorláksson á að samkvæmt þessu falli undir tekjuhugtak frumvarpsins fjármagnstekjur, vextir, arður, leigutekjur o.fl. sem hafi lítil tengsl við tekjufall rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Rökréttara og einfaldara væri að miða skilgreiningu tekjuhugtaksins við rekstrartekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt að frátöldum tekjum skv. C-lið sömu greinar. 2. minni hluti tekur undir þetta og leggur til breytingu þess efnis.

Breytingartillögur og tillaga um afgreiðslu.
    Annar minni hluti styður breytingartillögu meiri hlutans við frumvarpið og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með henni og með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
             Lög þessi gilda um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. október 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki um einstaklinga eða lögaðila sem á undanförnum þremur árum hafa átt í fjárhagslegum samskiptum, beint eða í gegnum félag sem þeir eiga ráðandi hlut í, við hvers kyns félag, sjóð eða stofnun, sem telst hafa heimilisfesti í lágskattaríki, sbr. 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Lögin gilda ekki heldur um lögaðila ef raunverulegur eigandi hans hefur heimilisfesti á lágskattasvæði samkvæmt skilgreiningu sömu laga eða hefur á undanförnum þremur árum átt í fjárhagslegum samskiptum, beint eða í gegnum félag sem hann á ráðandi hlut í, við hvers kyns félag, sjóð eða stofnun á slíku svæði. Umsókn um stuðning samkvæmt lögunum skal fylgja yfirlýsing viðkomandi einstaklings eða félags eða eftir atvikum raunverulegs eiganda um að skilyrði þessa ákvæðis séu uppfyllt. Lögin gilda ekki um stofnanir, byggðasamlög eða fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
     2.      6. tölul. 3. gr. orðist svo: Tekjur: Rekstrartekjur skv. B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum tekjum skv. C-lið sömu greinar.
     3.      Á eftir 3. tölul. 4. gr. komi tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                  a.      Hann hefur frá 1. apríl 2020 ekki greitt sér, eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til eins launamanns.
                  b.      Hann hefur skilað losunarbókhaldi samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði fyrir árið 2019 ásamt upplýsingum um hvernig hann hyggist draga úr losun á næstu 5 árum.
     4.      Á eftir 9. gr. komi ný grein er orðist svo, ásamt fyrirsögn:

Brot gegn samningum um launakjör.

             Verði rekstraraðili uppvís að því að greiða launamanni, vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi, laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði, á tímabilinu sem viðspyrnustyrkir ná til, skal honum gert að endurgreiða viðspyrnustyrk með vöxtum skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá greiðsludegi. Dráttarvextir skv. 6. gr. sömu laga leggjast á kröfu um endurgreiðslu samkvæmt þessu ákvæði ef hún er ekki innt af hendi innan mánaðar frá dagsetningu endurgreiðslukröfu frá Skattinum.
             Vinnumálastofnun, eða eftir atvikum annað stjórnvald, skal upplýsa Skattinn sé uppi rökstuddur grunur um brot sem fellur undir 1. mgr.

Alþingi, 14. desember 2020.
Oddný G. Harðardóttir.