Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 584  —  377. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020 (framlenging gildistíma).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Þórarin Örn Þrándarson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu og Gunnar Val Sveinsson og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Persónuvernd.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020, að gildistími ferðagjafa sem ekki hafa verið nýttar við lok árs 2020 verði framlengdur um fimm mánuði til og með 31. maí 2021. Lög um ferðagjöf tóku gildi 23. júní 2020 en á grundvelli þeirra fá einstaklingar sem falla undir skilyrði 1. mgr. 1. gr. laganna stafræna 5.000 kr. inneign sem nýta má til að greiða fyrir þjónustu frá útgáfudegi til og með 31. desember 2020 hjá þeim fyrirtækjum sem eru skilgreind í 2. mgr. 1. gr. laganna.
    Tildrög laga um ferðagjöf má rekja til efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru árið 2020 og aðgerða ríkisstjórnarinnar til að efla efnahagskerfið og draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið í kjölfar faraldursins. Ferðagjöfin er aðgerð sem felur í sér ríkisaðstoð skv. 61. gr. EES-samningsins en með frumvarpinu er verið að leggja til framlengingu á ríkisaðstoðarkerfi sem þegar hefur verið samþykkt af Eftirlitsstofnun EFTA, þ.e. til og með 31. desember 2020, á grundvelli viðmiða sem sett voru í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs. Hinn 13. október í haust var tímabundinn rammi um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna yfirstandandi COVID-19-heimsfaraldurs framlengdur til 30. júní 2021 með orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar. Nefndin tekur fram, líkt og segir í greinargerð með frumvarpinu, að framlenging gildistíma er einnig tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA og háð samþykki hennar. Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti er forkynningarferli lokið og fyrir liggur óformleg afstaða stofnunarinnar um að sú framlenging gildistíma sem lögð er til með frumvarpinu samrýmist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins.
    Persónuvernd vekur í umsögn sinni til nefndarinnar athygli á því að stofnunin ákvað, í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar fyrr á þessu ári, að hefja frumkvæðisathugun á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í því forriti sem nota má til nýtingar ferðagjafar, m.a. á því hvaða upplýsingum forritið Ferðagjöfin veitti aðgang að í farsíma notenda. Ekki liggi fyrir hvenær þeirri athugun ljúki.
    Í umsögnum og fyrir nefndinni lýstu Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar ánægju með tillögu um framlengingu á gildistíma ferðagjafarinnar. Ferðagjöfin hafi haft mjög jákvæð áhrif á ferðahegðun Íslendinga innan lands í sumar og hafi því verið verulegur stuðningur við ferðaþjónustuna hvort sem um er að ræða beinar tekjur af ferðagjöf eða afleiddar tekjur. Óhjákvæmilega hafi dregið úr nýtingu ferðagjafarinnar í haust vegna COVID-takmarkana og því sé mikilvægt að áfram verði stutt við ferðaþjónustuna í vetur. Nefndinni var bent á að hægt er að fylgjast með tölulegum upplýsingum um notkun ferðagjafarinnar á Mælaborði ferðaþjónustunnar á vef Ferðamálastofu. Þar kemur m.a. fram að 9. desember var búið að sækja 182.872 ferðagjafir eða um 914 millj. kr. af þeim 1,5 milljörðum kr. sem gert var ráð fyrir til ferðagjafar samkvæmt fjáraukalögum fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 36/2020. Þar af var búið að nýta 657 millj. kr. til kaupa á þjónustu hjá þeim fyrirtækjum sem geta tekið við ferðagjöf skv. 2. mgr. 1. gr. laga um ferðagjöf.
    Nefndin tekur undir sjónarmið um mikilvægi ferðagjafar fyrir ferðaþjónustuna enda ljóst að enn á eftir að nýta verulegan hluta af því fé sem var gert ráð fyrir í ferðagjöfina á árinu 2020. Framlenging gildistíma til vorsins 2021 sé því mikilvægur stuðningur við ferðaþjónustuna ef aukið svigrúm skapast til ferðalaga næstu mánuði og veki um leið athygli á og styðji við uppbyggingu heilsársferðaþjónustu á Íslandi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 14. desember 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ásmundur Friðriksson. Haraldur Benediktsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Ólafur Ísleifsson. Sigurður Páll Jónsson.