Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 597  —  362. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Jón Þór Þorvaldsson frá félagsmálaráðuneytinu, Hannes S. Jónsson frá Körfuknattleikssambandi Íslands, Guðmund B. Ólafsson og Róbert Geir Gíslason frá Handknattleikssambandi Íslands, Guðna Bergsson frá Knattspyrnusambandi Íslands og Elínu Ölmu Arthursdóttur og Kristján Gunnarsson frá Skattinum.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bandalagi íslenskra skáta, Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Handknattleikssambandi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Knattspyrnusambandi Íslands, Körfuknattleikssambandi Íslands, Landssambandi hestamanna og Ungmennafélagi Íslands.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði lög um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldursins.
    Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á íþróttastarf og er því ætlað að draga úr tjóni sem íþróttafélög hafa orðið fyrir vegna nauðsynlegra sóttvarnaráðstafana. Heimilt verður, að uppfylltum skilyrðum, að greiða íþróttafélagi launakostnað á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021.

Æskulýðsfélög og önnur frjáls félagasamtök.
    Á fundum nefndarinnar og í umsögnum sem henni bárust var hvatt til þess að frumvarpið tæki einnig til frjálsra félagasamtaka sem sinna æskulýðsstarfi, utan íþróttahreyfingarinnar.
    Meiri hlutinn áréttar að frumvarp þetta er einn liður í fjölþættum aðgerðum stjórnvalda sem allar hafa það að markmiði að draga úr tjóni af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru. Með frumvarpinu verða heimilar greiðslur til íþróttafélaga sem gert var að fella tímabundið niður starfsemi að hluta eða öllu leyti, á tilteknu tímabili, samkvæmt reglugerðum heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Öðrum frjálsum félagasamtökum var ekki gert skylt að hætta starfsemi með sama hætti á grundvelli áðurnefndra reglugerða og falla þau af þeim sökum ekki undir ákvæði frumvarpsins.
    Meiri hlutinn tekur þó undir þau sjónarmið sem reifuð hafa verið í umsögnum til hennar og fram komu í umfjöllun gesta um málið. Mikilvægt er að brugðist sé við þeim mikla vanda sem frjáls félagasamtök, m.a. þau sem sinna æskulýðsstarfi, standa frammi fyrir. Til þessa hafa slík félög að mestu fallið utan þeirra sértæku aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, en hafa þó að nokkru getað nýtt sér almennari úrræði stjórnvalda.
    Samhliða afgreiðslu þessa máls eru áætlaðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að bráðabirgðaákvæði laganna um bætur í hlutastarfi nái einnig til lögaðila sem starfa í þágu almannaheilla og hafa ófjárhagslegan tilgang. Það úrræði mun gagnast frjálsum félagasamtökum sem sinna æskulýðsstarfi. Um þetta vísast að öðru leyti til umfjöllunar meiri hluta nefndarinnar um 300. mál á yfirstandandi þingi.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Verktakagreiðslur.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að hlutfall launamanna sem sinntu störfum sem falla undir gildissvið frumvarpsins væri á bilinu 20–30%. Algengt væri að þjálfarar og aðrir sem sinna íþróttastarfi og þjálfun væru hlutastarfsmenn, samningar við þá væru jafnan tímabundnir og miðuðust við tiltekið keppnistímabil eða námsönn. Í flestum tilvikum væri því ekki um að ræða launamenn skv. 1. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Af þeim sökum félli stór hluti starfsmanna íþróttafélaga utan gildissviðs frumvarpsins.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að frumvarpið nái til allra starfsmanna íþróttafélaga sem á beinan hátt tengjast æfingum og keppni í íþróttum, hvort sem um ræðir launamenn eða verktaka. Leggur meiri hlutinn því til að gildissvið frumvarpsins verði víkkað svo að það nái til íþróttamanna, þjálfara, aðstoðarmanna og annarra sem tengjast æfingum og keppni íþróttafélaga samkvæmt launasamningi eða verktakasamningi til tiltekins tíma. Meiri hlutinn áréttar að frumvarpinu er ekki ætlað að ná til þeirra launamanna íþróttafélaga sem starfað hafa í ótímabundnum störfum sem áðurnefndar reglugerðir heilbrigðisráðherra höfðu ekki bein áhrif á, svo sem skrifstofufólks.

Fjárhæð greiðslna.
    Fyrir nefndinni kom fram að mikilvægt væri að tryggja að ekki gætti misræmis milli þeirrar upphæðar sem íþróttafélag fær greitt fyrir launamann í starfi og fyrir verktaka í starfi.
Launagreiðanda er skylt að greiða launatengd gjöld, svo sem iðgjald lífeyrissjóðs, tryggingagjald og sjúkrasjóð, gjöld sem verktaka sjálfum er gert að greiða. Leggur meiri hlutinn því til að hámarksgreiðsla fyrir tilteknar verktakagreiðslur miðist við 70% þeirrar upphæðar sem reikningur verktaka hljóðar upp á svo að samræmis sé gætt milli þeirra upphæða sem íþróttafélögin sjálf þurfa að standa undir.

Umsóknir um greiðslur.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á ákvæði 7. gr. frumvarpsins sem lúta að þeim upplýsingum sem íþróttafélögum er gert að afhenda við vinnslu umsóknar. Þá leggur meiri hlutinn einnig til að við upptalningu gagna, sem þó eru ekki tæmandi talin í ákvæðinu, verði bætt ráðningarsamningum og samningum við verktaka, reikningum fyrir verktakavinnu og staðfestingu verktakagreiðslna. Telur meiri hlutinn mikilvægt að slík gögn liggi fyrir þegar umsókn er lögð fram þar sem slíkir samningar eru ein af grunnforsendum þess að unnt sé að sannreyna að skilyrði laganna séu uppfyllt.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis að íþróttafélögum verði gert skylt að afhenda upplýsingar um fyrri greiðslur til launamanns eða verktaka svo að unnt verði að sannreyna samræmi þeirra við fyrri greiðslur félagsins til viðkomandi og hvort óeðlileg hækkun hafi orðið á greiðslum milli mánaða.

    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins.
    Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

    Helga Vala Helgadóttir og Anna Kolbrún Árnadóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þær hyggjast gera grein fyrir í ræðu. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 14. desember 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Ásmundur Friðriksson, frsm. Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Vilhjálmur Árnason.