Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 603  —  21. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði,
nr. 80/2019 (breytt kynskráning).


(Eftir 2. umræðu, 15. desember.)


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðanna „hafa eiginmaður eða eiginkona“ í 3. mgr. 25. gr. laganna kemur: hefur hjúskaparmaki.

2. gr.

    Í stað orðanna „karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda“ í 3. mgr. 70. gr. laganna kemur: manneskju, fullorðinni eða barni, sem er nákomin geranda.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 188. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Ef kvæntur maður eða gift kona gengur að eiga aðra konu eða annan mann“ í 1. mgr. kemur: Ef einstaklingur í hjúskap gengur að eiga aðra manneskju.
     b.      Í stað orðanna „Ókvæntur maður eða ógift kona, sem gengur að eiga gifta konu eða kvæntan mann“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Ógift manneskja sem gengur að eiga einstakling sem er í hjúskap.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 192. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „faðerni barns eða móðerni“ í 1. mgr. kemur: foreldrastöðu gagnvart barni.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við ef gift manneskja sem breytt hefur skráningu kyns hefur alið barn sem getið er utan hjónabands og tilkynnt það sem hjónabandsbarn með samþykki maka.

5. gr.

    Í stað orðanna „móðir deyðir barn sitt“ í 1. mgr. 212. gr. laganna kemur: manneskja sem elur barn deyðir það.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 216. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Kvenmaður“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Manneskja.
     b.      Í stað orðsins „móður“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: þungaðrar manneskju; og í stað orðsins „móður“ í 2. og 3. málsl. 2. mgr. kemur: hinnar þunguðu manneskju.

7. gr.

    Á eftir 1. málsl. 218. gr. a laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við ef brotaþoli er manneskja með kvenkyns kynfæri og hefur breytt skráningu kyns.

8. gr.

    Í stað orðanna „móðir yfirgefið barn sitt“ í 2. mgr. 220. gr. laganna kemur: manneskja sem alið hefur barn yfirgefið það.

9. gr.

    Í stað orðanna „kvenmanni“ og „móður“ í 223. gr. laganna kemur: manneskju; og: viðkomandi manneskju.

II. KAFLI
Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962, með síðari breytingum.
10. gr.

    Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist: og þegar annað þeirra eða báðir hafa hlutlausa kynskráningu.

III. KAFLI
Breyting á lögum um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum.
11. gr.

    Í stað orðanna „bæði konum og körlum, sem kjörgeng eru“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: þeim einstaklingum sem kjörgengir eru.

IV. KAFLI
Breyting á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum.
12. gr.

    Í stað orðanna „eiginkona þess eða eiginmaður“ í 3. tölul. 1. mgr. 28. gr. laganna kemur: maki þess.

V. KAFLI
Breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, með síðari breytingum.
13. gr.

    Í stað orðanna „sambúðarkona eða sambúðarmaður“ í 1. málsl. 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: sambúðarmaki.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
14. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 79. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Einstaklingum með hlutlausa kynskráningu skal boðið að velja hvort kona eða karl framkvæmir leit á þeim.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, með síðari breytingum.
15. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Það sem í lögum þessum segir um konu á einnig við um einstakling með leg sem breytt hefur kynskráningu sinni.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 5. gr. laganna:
     a.      3. málsl. orðast svo: Þá er ætíð heimilt að nota gjafasæði sé um að ræða einhleypan einstakling eða einstakling í hjúskap eða skráðri sambúð þar sem makinn getur ekki lagt til sæði.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Pari í hjúskap eða skráðri sambúð er heimilt að gefa hvort öðru kynfrumur.

17. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Geymsla fósturvísa er háð því skilyrði að þeir einstaklingar sem lögðu til kynfrumurnar eða fengu þær að gjöf til notkunar við glasafrjóvgun, hvort sem um er að ræða par í hjúskap eða skráðri sambúð eða einhleypan einstakling, veiti skriflegt samþykki fyrir geymslunni í samræmi við tilgang hennar, enda hafi þeim áður verið veittar upplýsingar um áhrif geymslunnar á fósturvísana og hin almennu skilyrði sem sett eru fyrir geymslu kynfrumna og fósturvísa í lögum þessum og reglum samkvæmt þeim.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um ófrjósemisaðgerðir, nr. 35/2019.
18. gr.

    Orðin „karla“ og „kvenna“ í 2. gr. laganna falla brott.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.
19. gr.

    Í stað orðanna „bæði konum og körlum“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: foreldrum.

X. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.
20. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði þessarar greinar eiga að breyttu breytanda einnig við um bætur til foreldra sem hafa hlutlausa kynskráningu.

XI. KAFLI
Breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985, með síðari breytingum.
21. gr.

    Í stað orðanna „mann, karl eða konu“ í 1. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: einstakling.

XII. KAFLI
Breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.
22. gr.

    Í stað orðanna „eiginmaður eða eiginkona“ í 2. mgr. 59. gr. laganna kemur: hjúskaparmaki.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.
23. gr.

    J-liður 1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: undirbúning nemenda undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi, óháð kyni.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, með síðari breytingum.
24. gr.

    J-liður 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: starfsfólk á fjölmiðlum, greint eftir kyni og starfsheiti.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.
25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. mgr. 27. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sambúðarmanni og sambúðarkonu“ í 2. málsl. kemur: sambúðarmaka.
     b.      Í stað orðanna „sambúðarkonu eða sambúðarmanni“ í 3. málsl. kemur: sambúðarmaka.
     c.      Í stað orðsins „sambúðaraðili“ í 3. málsl. kemur: sambúðarmaki.

XVI. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
26. gr.

    Við 4. mgr. 159. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einstaklingum með hlutlausa kynskráningu skal boðið að velja hvort kona eða karl framkvæmir leit á þeim.

27. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.