Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 605  —  372. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og lögum um fjársýsluskatt (fjármálaþjónusta o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Hlyn Ingason, Elínu Guðjónsdóttur og Margréti Þórólfsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sigurjón Högnason frá KPMG og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu.
    Nefndinni bárust sex umsagnir sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis. Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem fram kæmi afstaða þess til athugasemda í innsendum umsögnum. Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í minnisblaðinu og byggjast breytingartillögur hennar að mestu leyti á því.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Undanþága frá virðisaukaskatti vegna fjármálaþjónustu (1. gr.).
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, um vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Lagt er til að í stað 9. og 10. tölul. ákvæðisins, sem undanþiggja virðisaukaskatti vátryggingastarfsemi annars vegar og þjónustu lánastofnana og verðbréfamiðlun hins vegar, komi einn töluliður þar sem fram verði tekið að sala á og milliganga um fjármálaþjónustu verði undanþegin skattinum og nánar tilgreint hvað í því felst. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að nokkurra breytinga væri þörf á ákvæðinu. Tekur nefndin undir hluta þeirra í samráði við ráðuneytið. Breytingar á a-, e- og f-lið b-liðar 1. gr. frumvarpsins eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif og um þær vísast að öðru leyti til minnisblaðs ráðuneytisins.
    Í umsögn KPMG til nefndarinnar er lagt til að við b-lið 1. gr. bætist stafliður þar sem talin verði upp útgáfa rafeyris. Jafnframt leggur KPMG til að í ákvæðinu verði tiltekið að útleiga geymsluhólfa sé undanþegin gildissviði þess. Ráðuneytið fellst á þessar tillögur og leggur nefndin til breytingu þar að lútandi.

Ívilnun vegna leigusamninga (7. gr.).
    Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um virðisaukaskatt bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem veitt verði undanþága frá afhendingarreglu 1. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt í tilviki skriflegra samninga um leigu sem ber virðisaukaskatt að nánari skilyrðum uppfylltum. Er ákvæðinu ætlað að mæta vanda leigutaka og leigusala atvinnuhúsnæðis vegna rekstrarvanda sökum heimsfaraldurs kórónuveiru. Í umsögnum Deloitte og Samtaka verslunar og þjónustu til nefndarinnar er tekið fram að greinin sé nauðsynleg en nokkrar breytingar lagðar til. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar er tekið undir nokkrar þeirra tillagna og leggur nefndin til breytingar í samræmi við það en vísar að öðru leyti til minnisblaðsins.
    Í umsögnum Deloitte og SVÞ er bent á að lögfesta þyrfti heimild til að endurgreiða leigusala þann virðisaukaskatt sem þegar hefur verið skilað í ríkissjóð enda sé ekki kveðið á um hvort heimilt sé að semja afturvirkt um þessi atriði. Í minnisblaði ráðuneytisins er fallist á sjónarmið í þessa veru og lagt til að aðilum verði heimilað að leiðrétta fyrri skil að þessu leyti með sérstakri skýrslu sem verði skilað á fyrsta gjalddaga fyrsta uppgjörstímabils eftir gildistöku ákvæðisins og að samhliða fari fram leiðrétting á innskatti leigutaka vegna ógreiddra leigugreiðslna. Nefndin leggur til breytingu í þessa veru.
    Í b-lið 1. efnismgr. 7. gr. frumvarpsins er gert að skilyrði fyrir nýtingu ívilnunar samkvæmt ákvæðinu að fyrir liggi samningur milli leigusala og leigutaka um tímabundna niðurfellingu leigugjalds eða frestun á innheimtu þess þar sem fram komi nánar tilgreindar upplýsingar. Skuli leigusali senda afrit samningsins til Skattsins með skilum á virðisaukaskattsskýrslu á gjalddaga þess uppgjörstímabils þegar samningur er undirritaður. Í umsögn SVÞ er lagt til að lokamálsliður b-liðar verði felldur brott eða að kveðið verði á um að afriti af samningi skuli skilað eigi síðar en 31. desember 2021. Í minnisblaði ráðuneytisins er lagt til að komið verði til móts við sjónarmið SVÞ að þessu leyti. Í samræmi við það leggur nefndin til breytingu á lokamálslið b-liðar. þannig að fram verði tekið að afriti af samningi skuli skila til Skattsins á þeim tíma sem er tilgreindur í frumvarpinu eða í síðasta lagi 31. desember 2021.
    Í umsögn Deloitte er bent á að séu leigusali og leigutaki tengdir aðilar gæti nýting heimildar ákvæðisins verið á skjön við 9. gr. virðisaukaskattslaga um gangverð. Ráðuneytið bendir á að samningar milli tengdra aðila megi ekki ganga lengra en ákvæði 9. gr. kveður á um og að af því leiði að samningar milli tengdra aðila verði að vera sambærilegir þeim sem ótengdir aðilar gera sín á milli. Telur ráðuneytið þó ástæðu til að í bráðabirgðaákvæðinu sem bætist við lögin skv. 7. gr. frumvarpsins verði tekið fram að samningar milli tengdra aðila gangi ekki gegn ákvæðinu og leggur nefndin til breytingu þess efnis.

Virðisaukaskattur af viðburðum í streymi (nýtt bráðabirgðaákvæði).
    Vegna samkomutakmarkana stjórnvalda til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hefur færst mjög í aukana að listviðburðir fari fram án áhorfenda á staðnum en sé þess í stað streymt beint og aðgangur að þeim seldur um streymisveitur ýmist í línulegri eða ólínulegri dagskrá. Í ákvarðandi bréfi Skattsins nr. 3/2020 er fjallað um virðisaukaskatt við sölu aðgangs að slíkum viðburðum. Í bréfinu er tekið fram að streymisþjónusta sé almennt virðisaukaskattsskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Sala fyrirtækja á aðgangi að streymi sé því virðisaukaskattsskyld í almennu skatthlutfalli virðisaukaskatts, nú 24%. Aðgangseyrir að tónleikum, leiksýningum, listdanssýningum og leikhúsum sé hins vegar undanþeginn virðisaukaskatti hér á landi skv. 2. málsl. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Af þessu leiði að álit ríkisskattstjóra sé að þegar seldur er sérstaklega aðgangur að viðburðum sem þar eru taldir sem streymt er beint, þ.e. í rauntíma, geti slík sala fallið undir framangreint undanþáguákvæði. Sé á hinn bóginn seldur aðgangur að upptökum að þessum viðburðum sé um virðisaukaskattsskylda vöru að ræða.
    Allur gangur er á því hvernig háttar um upptöku og streymi listviðburða samkvæmt framangreindu. Til að bregðast við þessu og taka af vafa og gæta jafnræðis um skattskyldu aðgangs að slíkum viðburðum leggur nefndin til, í samráði við ráðuneytið, að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um virðisaukaskatt. Lagt er til að kveðið verði á um að sala streymisþjónustu að stökum tónleikum, listdanssýningum og leiksýningum, sbr. 2. málsl. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna, verði að fullu undanþegin virðisaukaskatti á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 30. júní 2021, enda sé um að ræða viðburð sem háður er fjöldatakmörkunum vegna sóttvarnaráðstafana, sbr. 12. gr. stóttvarnalaga, nr. 19/1997. Eingöngu er um að ræða einsskiptissölu aðgangs á þann viðburð sem aðgangur er veittur að hverju sinni og tímabundinn aðgang að upptöku hans sem er innifalinn í verðinu. Upptaka af viðburði skal að hámarki vera aðgengileg í fjörutíu og átta klukkustundir frá kl. 12 að hádegi daginn eftir að streymi lýkur. Af þessu leiðir að sala sem felur í sér áskrift eða samhliða sölu á annarri þjónustu en stökum viðburði og síðari sala á upptökum af viðburðinum fellur utan gildissviðs ákvæðisins.
    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við b-lið 1. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „eignaleigu lausafjár“ í 1. efnismálsl. komi: útleigu geymsluhólfa.
                  b.      Í stað orðsins „tryggingamiðlun“ í a-lið komi: dreifing vátrygginga.
                  c.      E-liður orðist svo: viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
                  d.      F-liður orðist svo: rekstur verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða.
                  e.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: útgáfa rafeyris.
     2.      Við 7. gr.
                  a.      Inngangsmálsgrein orðist svo:
                      Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi.
                  b.      Við lokamálslið b-liðar 1. mgr. bætist: eða eigi síðar en 31. desember 2021.
                  c.      Við bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Að uppfylltum skilyrðum a–c-liðar 1. mgr. er leigusala heimilt að bakfæra skattskylda veltu og útskatt vegna ógreiddra leigugjalda frá og með 1. mars 2020 enda skili hann skýrslu vegna þess uppgjörstímabils sem óskast leiðrétt á fyrsta uppgjörstímabili eftir gildistöku ákvæðisins. Samhliða bakfærslu skv. 1. málsl. skal fara fram leiðrétting á innskatti leigutaka vegna ógreiddra leigugreiðslna.
                      Samningar milli tengdra aðila, sbr. 9. gr., ganga ekki gegn þessu ákvæði.
                  d.      Við bætist nýr liður, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skal sala á stökum aðgangi að streymi frá tónleikum, listdanssýningum og leiksýningum, sbr. 2. málsl. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr., vera undanþegin virðisaukaskatti á tímabilinu 1. nóvember 2020 til og með 30. júní 2021, enda sé um einsskiptissölu að ræða og aðgangur að upptöku af atburðinum ekki aðgengilegur lengur en í 48 klst. frá kl. 12 daginn eftir að viðburði lýkur. Jafnframt er skilyrði að viðburður sem streymt er frá sé háður fjöldatakmörkunum vegna sóttvarnaráðstafana, sbr. 12. gr. stóttvarnalaga, nr. 19/1997.

     3.      10. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021. Þó öðlast 7. gr. þegar gildi.

Alþingi, 15. desember 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Willum Þór Þórsson.