Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 613  —  307. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um netnjósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig hefur ráðuneytið brugðist við uppljóstrun þess efnis að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hafi nýtt aðgang sinn að dönsku fjarskiptaneti til að njósna um stofnanir og fyrirtæki í Danmörku og nágrannalöndum, í ljósi þess að báðir gagnasæstrengirnir sem tengja Ísland við Evrópu liggja um danskt yfirráðasvæði?
     2.      Verður málið tekið fyrir á vettvangi þjóðaröryggisráðs?


    Forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið höfðu með sér samráð um eftirfarandi svar við fyrirspurninni.
    Umræða um fjarskipta- og netöryggi er sífellt umfangsmeiri á alþjóðlegum vettvangi hvort sem er á tvíhliða fundum, í svæðisbundnu samstarfi eða innan alþjóðastofnana. Tilkoma internetsins og gríðarlegar tækniframfarir síðustu ára hafa enda leitt til þess að vídd utanríkis-, varnar- og öryggismálaumræðu hefur þanist út. Netöryggi er allt í senn, tæknilegt og praktískt innanríkismál, þjóðaröryggis- og varnarmál, og utanríkis- og efnahagsmál. Alþjóðleg umfjöllun síðustu mánaða um tengsl fjarskipta- og þjóðaröryggis er gott dæmi um öra þróun þessarar umræðu. Ríki heims eru í óðaönn að aðlaga sig að þessu breytta öryggisumhverfi.
    Í fyrirspurninni er byggt á tilteknum forsendum sem ekki hafa verið staðfestar af dönskum stjórnvöldum. Eftirlitsstofnun Danmerkur með starfsemi leyniþjónusta (Tilsynet med Efterretningstjenesterne (TET)) hefur gagnrýnt ýmsa þætti í starfsemi leyniþjónustu danska hersins. Í nýlegri fréttatilkynningu eftirlitsstofnunarinnar kemur fram að uppljóstrarar hafi komið á framfæri við stofnunina margvíslegum gögnum um starfsemi leyniþjónustu danska hersins sem eftirlitsstofnuninni hafi verið ókunnugt um eða henni sé ekki unnt að staðreyna. Fram kemur að gögnin bendi annars vegar til þess að upplýsingagjöf leyniþjónustunnar til eftirlitsstofnunarinnar hafi verið ábótavant og hins vegar bendi þau til þess að aðgerðir leyniþjónustunnar kunni að stríða gegn dönskum lögum og snúi að umfangsmikilli gagnaöflun og -miðlun er varðar danska ríkisborgara. Eftirlitsstofnunin hefur lagt til við varnarmálaráðherra Danmerkur að tekin verði afstaða til þess hvort úttekt skuli gerð á starfsemi leyniþjónustu danska hersins og hvort upplýsa þurfi um hvort leyniþjónustan hafi með fullnægjandi hætti gert stjórnvöldum grein fyrir mikilvægum þáttum ákvarðanatökuferlis innan leyniþjónustunnar. Jafnframt hefur eftirlitsstofnunin lagt til að fram fari mat á því hvort eftirlitsstofnunin hafi nægjanlegar heimildir og getu til að viðhafa skilvirkt eftirlit með starfsemi leyniþjónustu danska hersins.
    Hinn 5. október sl. ákvað danska ríkisstjórnin að setja á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd um þetta mál sem hafi það hlutverk meðal annars að fara yfir og rannsaka þau atriði sem athugasemdir eftirlitsstofnunarinnar beinast að. Til að tryggja trúnaðarstig þeirra gagna sem nefndin fjallar um verður hún sett á laggirnar með lögum. Danski dómsmálaráðherrann hefur lagt fram lagafrumvarp í danska þinginu um að setja á laggirnar slíka rannsóknarnefnd og er búist við að frumvarpið verði afgreitt fyrir jól svo að nefndin geti tekið til starfa fyrir árslok.
    Forsætisráðherra Danmerkur hefur lýst því yfir að hún tjái sig ekki um málið fyrr en niðurstöður úttektar liggja fyrir.
    Íslensk stjórnvöld fylgjast náið með framvindu þessa máls sem hefur víða vakið áhyggjur, sér í lagi í Danmörku og víðar meðal bandamanna og samstarfsþjóða. Hérlendis veldur það sérstökum áhyggjum í ljósi þess að allt tal- og gagnasamband við útlönd fer um þrjá sæstrengi, DANICE, FARICE-1 og Greenland Connect, sem liggja um danska, grænlenska og færeyska lögsögu. Einn sæstrengjanna liggur til Danmerkur og um hann fer stór hluti gagnamagns frá Íslandi til meginlandsins. Mikilvægt er að tryggt sé að fjarskiptaflutningur frá Íslandi til erlendra lendingarstöðva, á landleiðum og á afhendingarstöðum þjónustu erlendis, sé öruggur og að upplýsingaöryggis sé gætt í hvívetna.
    Íslensk stjórnvöld hafa haldið fundi með og leitað eftir upplýsingum hjá viðeigandi yfirvöldum. Á öllum þeim fundum sem haldnir hafa verið vegna málsins hafa íslensk stjórnvöld lýst yfir áhyggjum og kallað eftir frekari upplýsingum.
    Forsætisráðuneytið hefur beitt sér fyrir sérstöku samráði forsætisráðuneytisins, ritara þjóðaröryggisráðs, ríkislögreglustjóra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins vegna málsins og framvindu þess með tilliti til íslenskra þjóðaröryggishagsmuna. Þá verður þjóðaröryggisráði gerð grein fyrir málinu.
    Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur tekið málið upp við danska utanríkisráðherrann, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins hefur átt samtal við sendiherra Danmerkur á Íslandi um málið og skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins hefur tekið málið upp við danska starfssystur sína. Í þeim samtölum kom fram að málið sætti áríðandi skoðun og að ráðgert væri að óháðir aðilar yrðu fengnir til að gera skýrslu um það. Verkefnislýsingin væri í þróun og myndi taka mið af því að hún varðaði viðkvæman málaflokk, þ.e. leyniþjónustustarfsemi. Þá hefur ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins einnig tekið málið upp við fulltrúa bandarískra stjórnvalda, lýst yfir áhyggjum yfir því og upplýst hann um að ráðuneytið leiti skýringa vegna þess.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fylgist með framvindu þessa máls og hefur til þessa ekki séð ástæðu til sérstakra viðbragða.