Ferill 416. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 616  —  416. mál.




Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um losun gróðurhúsalofttegunda.

Frá Ásmundi Friðrikssyni.


     1.      Hve mikil væri losun gróðurhúsalofttegunda (kg CO2-ígildi) á þessu ári ef notast væri við bruna jarðefnaeldsneytis:
                  a.      til húshitunar á Íslandi,
                  b.      við framleiðslu raforku vegna orkuframleiðslu til stóriðju á Íslandi?
     2.      Hvernig væri losun skv. a- og b-lið 1. tölul. til samanburðar við núverandi losun sem fellur undir skuldbindingar Íslands ef notast væri við bruna jarðefnaeldsneytis?
     3.      Hefur verið tekið tillit til þess í alþjóðlegum samningum og yfirlýsingum sem Ísland hefur átt aðild að, svo sem Kyoto-bókuninni og Parísarsáttmálanum, að Ísland hafi nánast lokið við að færa húshitun og raforkuframleiðslu yfir í endurnýjanlega orku fyrir árið 1990?
     4.      Af hverjum eru losunarheimildir keyptar, en Umhverfisstofnun álítur að Ísland þurfi að kaupa heimildir fyrir sem nemur fjórum milljónum CO2-ígildistonna þar sem ekki hefur tekist að standa við skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar? Hvernig er verðlagi slíkra heimilda háttað?
     5.      Hafa önnur ríki Parísarsáttmálans sem ekki hafa staðið við skuldbindingar sínar einnig keypt sér losunarheimildir?


Skriflegt svar óskast.