Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 617  —  300. mál.
Leiðréttur texti.

3. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (tekjutengdar bætur).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Málinu var vísað til nefndarinnar milli 2. og 3. umræðu.
    Með lögum nr. 44/2020 voru gerðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að við lögin bættist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um framlengingu svokallaðrar hlutabótaleiðar. Í ákvæðinu er kveðið á um framlengingu heimildar launamanna til þess að sækja um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli án þess að föst laun frá vinnuveitanda komi til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta. Hlutabótaleiðin öðlaðist fyrst gildi 15. mars en 1. júlí tóku gildi tiltekin skilyrði sem lúta að vinnuveitanda. M.a. var með lögum nr. 44/2020 kveðið á um að skilyrði fyrir framlengingu á rétti til atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæðinu væri að vinnuveitandi beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. eða 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þannig falla aðilar sem greiða ekki tekjuskatt skv. 4. gr. laga um tekjuskatt ekki undir úrræðið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að launamenn hjá lögaðilum sem greiða ekki tekjuskatt skv. 4. eða 5. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt geti sótt um atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum um atvinnuleysistryggingar. Þannig verði launamönnum hjá félögum sem eiga hér heimili og verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla, og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum, auk annarra lögaðila sem reka óhagnaðardrifna atvinnustarfsemi gert mögulegt að sækja um hlutabætur enda uppfylli þeir önnur skilyrði ákvæðisins. Með breytingunni er m.a. gert ráð fyrir því að félög sem stunda starfsemi til almannaheilla sem miðar að því að vinna að bættum hag ótiltekins fjölda manna, svo sem mannúðar- og líknarfélög, menningarfélög, þ.m.t. sviðslistafélög sem stunda óhagnaðardrifna atvinnustarfsemi, íþróttafélög og æskulýðsfélög, geti nýtt sér hlutabótaleiðina uppfylli þau að öðru leyti skilyrði ákvæðisins.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir skilyrði 1. tölul. 4. mgr. geta launamenn sem starfa hjá lögaðilum sem greiða ekki tekjuskatt skv. 4. eða 5. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt öðlast rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu enda uppfylli þeir skilyrði þess að öðru leyti. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skv.1. málsl. skal vinnuveitandi staðfesta að hann uppfylli skilyrði 4. mgr. eftir því sem við á.

    Anna Kolbrún Árnadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 14. desember 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson. Ásmundur Friðriksson.
Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara. Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.