Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 621  —  14. mál.
2. umræða.Breytingartillaga


við frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (PállM, BjG, GuðmT, BÁ, SilG, SÞÁ, ÞorbG, ÞSÆ).


     1.      Við 2. gr.
                  a.      7. tölul. orðist svo: Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða: Þegar stefnumótunarferli er skipulagt, bætt, þróað og lagt á það mat þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.
                  b.      Í stað orðsins „sértækar“ í 3. málsl. 8. tölul. komi: sérstakar.
     2.      Í stað orðanna „framkvæmd og eftirlit laganna“ í 3. gr. komi: eftirlit með framkvæmd laganna.
     3.      Í stað orðanna „af ólíkum kynjum“ í 2. mgr. 6. gr. komi: óháð kyni.
     4.      Orðin „sbr. 11. tölul. 2. gr.“ í 7. gr. falli brott.
     5.      Við 8. gr.
                  a.      Orðin „sbr. 12. tölul. 2. gr.“ í 1. mgr. falli brott.
                  b.      Orðin „sbr. 9. og 10. tölul. 2. gr.“ í 4. tölul. 2. mgr. falli brott.
     6.      Orðin „11. tölul. 2. gr. og“ og „12. tölul. 2. gr. og“ í 3. mgr. 9. gr. falli brott.
     7.      Í stað orðsins „óréttlæti“ í 2. mgr. 20. gr. komi: órétti.
     8.      Í stað orðanna „Auglýsandi og þau“ í 1. mgr. 22. gr. komi: Auglýsandi og aðilar.
     9.      24. gr. orðist svo ásamt fyrirsögn:

Jafnréttisráð – samráðsvettvangur um jafnréttismál og jafnréttisviðurkenning.

                      Minnst einu sinni á ári skal kalla saman samráðsvettvang um jafnrétti kynjanna, Jafnréttisráð, með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, fræðasamfélaginu og samtökum sem vinna að kynjajafnrétti samkvæmt lögum þessum. Hlutverk samráðsvettvangsins er að vera ráðherra jafnréttismála til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna og skal ráðherra funda einu sinni á ári með samráðsvettvanginum.
                      Samráðsvettvangur um jafnréttismál, Jafnréttisráð, skilar ráðherra fundargerð af fundum sínum. Samantekt af fundargerðum samráðsvettvangsins skal birta sem fylgiskjöl með skýrslu ráðherra sem kemur út einu sinni á kjörtímabili, sbr. 12. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála.
                      Ráðuneyti sem fer með jafnréttismál annast umsýslu vegna samráðsvettvangs um jafnréttismál, m.a. að auglýsa samráðsvettvanginn og gefa aðilum tækifæri á að óska eftir þátttöku. Önnur verkefni samráðsvettvangsins ákveður ráðuneytið hverju sinni eftir því sem við á. Kostnaður við starfsemi samráðsvettvangsins greiðist úr ríkissjóði.
                      Ráðherra jafnréttismála hefur heimild til að veita árlega sérstaka jafnréttisviðurkenningu þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða samtökum sem hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttismála. Ráðuneytið getur óskað eftir tilnefningum, m.a. frá samráðsvettvangi um jafnréttismál, og er heimilt að skipa sérstaka valnefnd til að velja úr innsendum tilnefningum.
     10.      Orðin „og Jafnréttisráð, sbr. 24. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 26. gr. falli brott.
     11.      Fyrirsögn IV. kafla verði: Samráðsvettvangur um jafnréttismál, jafnréttisþing og framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum o.fl.
     12.      Í stað orðanna „Jafnréttisráðs og skrifstofuhald“ í 33. gr. komi: samráðsvettvangs um jafnréttismál, Jafnréttisráðs.
     13.      Við 34. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við gildistöku laga þessara fellur niður skipun í Jafnréttisráð.
     14.      Ákvæði til bráðabirgða I falli brott.
     15.      Við ákvæði til bráðabirgða II.
                  a.      Í stað orðanna „Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. og 8. gr. skulu fyrirtæki og stofnanir þar sem 150–249 starfa að jafnaði á ársgrundvelli“ í 1. mgr. komi: Fyrirtæki og stofnanir þar sem 150–249 starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu.
                  b.      2. mgr. orðist svo:
                      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 34. gr. skal sú skylda sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, halda sér fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem áttu að öðlast jafnlaunavottun fyrir 31. desember 2019 en hafa ekki uppfyllt þá lagaskyldu.
     16.      Við ákvæði til bráðabirgða III.
                  a.      Í stað orðanna „sem fyrirbyggja“ í 1. málsl. komi: til að fyrirbyggja.
                  b.      Í stað orðanna „forsætisráðuneyti sem mun leiða vinnuna“ í 3. málsl. komi: forsætisráðuneytis sem stýri starfi hópsins.