Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 625  —  418. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006
(atvinnu- og byggðakvótar o.fl.).


Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.1. gr.

    3.–8. mgr. 6. gr. og 6. gr. a laganna falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „magni hverrar tegundar“ í 3. mgr. 8. gr. kemur: vegna þarfa skv. II. kafla B.
     b.      5.–6. mgr. falla brott.


3. gr.

    10. gr. og 10. gr. a laganna falla brott.

4. gr.

    8. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Á eftir II. kafla A laganna kemur nýr kafli, II. kafli B, Aflaheimildir til að efla atvinnu og byggðir, með átta nýjum greinum, 15. gr. d – 15. gr. k, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

a. (15. gr. d.)

Skipting aflamagns.

    Aflamagn sem tekið hefur verið til hliðar skv. 3. mgr. 8. gr., skiptist milli eftirfarandi ráðstafana í þessum hlutföllum:
     1.      Til að efla atvinnulíf í dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar:          44,64%
                  a.      Byggðakvóti til byggðarlaga          22,61%
                  b.      Aflaheimildir Byggðastofnunar          22,03%
     2.      Til að bregðast við óvæntum áföllum í dreifðum sjávarbyggðum:          10,52%
                  a.      Varasjóður vegna óvæntra áfalla,          10,52%
     3.      Til að stuðla að fjölbreytni og veita tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi um land allt:
                  44,84%

                  a.      Strandveiðar,          35,40%
                  b.      Línuívilnun,          8,50%
                  c.      Veiðar í tengslum við ferðaþjónustu,          0,94%
     4.      Tilraunaverkefni til byggðaþróunar, sbr. heimildir 15. gr. j.
    Aflamagni samkvæmt þessari grein er heimilt að skipta í aðrar tegundir til að leitast við að tryggja æskilega tegundarsamsetningu aflamagns. Heimilt er að mæla nánar fyrir um þessa framkvæmd í reglugerð, meðal annars um gerð tilboða, tímafresti og magn í skiptum. Aflamagn samkvæmt þessari grein er heimilt að flytja milli fiskveiðiára.

b. (15. gr. e.)

Almennur byggðakvóti.

    Byggðakvóta til byggðarlaga skal dreift samkvæmt meðaltali byggðakvóta fyrri ára. Miðað skal við meðaltal síðustu 3 ára eða meðaltal síðustu 10 ára, reiknað aftur í tíma frá og með fiskveiðiárinu 2019–2020. Hagnýtt skal það meðaltal sem er hagstæðara fyrir viðkomandi byggðarlag. Hlutur hvers byggðarlags skal síðan lækka um 0,1% fyrir hvern íbúa umfram 1.000 og falla niður séu íbúar fleiri en 2.000.
    Ráðherra setur í reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda skv. 1. mgr. til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði meðal annars varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Einnig er ráðherra heimilt að setja reglur um að ekki sé heimilt að úthluta aflaheimildum til skipa sem fluttar hafa verið meiri aflaheimildir frá en þær heimildir sem fluttar hafa verið til skipanna á tilteknu fiskveiðiári. Ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum er víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Eftir að slíkar tillögur sveitarstjórna hafa borist skulu þær birtar með aðgengilegum hætti, svo sem á vef ráðuneytisins, eigi síðar en sjö dögum áður en tekin verður afstaða til þeirra. Fallist ráðherra á tillögur sveitarstjórna um slík skilyrði staðfestir ráðuneytið tillögurnar og auglýsir þær í B-deild Stjórnartíðinda.
    Framsal aflaheimilda, sem úthlutað er skv. 2. mgr., er óheimilt en þó skulu heimil jöfn skipti á aflaheimildum í þorskígildum talið. Framsal aflaheimilda skal þó vera heimilt hafi fiskiskip efnt löndunar og vinnsluskyldu skv. 4. mgr.
    Fiskiskipum er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt þessari grein og skal úthlutun til þeirra ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði er uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.
    Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum almenns byggðakvóta byggðarlags, samkvæmt beiðni sveitarstjórnar, að hluta eða í heild, til verkefna sem greinir í 15. gr. f og j.
    Fiskistofa annast úthlutun aflaheimilda, sem koma í hlut einstakra byggðarlaga, til fiskiskipa. Ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt þessari grein er heimilt að kæra til ráðuneytisins. Kærufrestur er tvær vikur frá tilkynningu Fiskistofu um úthlutun eða höfnun umsóknar um úthlutun og skal úthlutun ekki fara fram fyrr en að þeim fresti liðnum. Skal ráðuneytið leggja úrskurð á kærur innan tveggja mánaða. Ráðuneytið getur ákveðið að úthlutun aflaheimilda til skipa í tilteknu byggðarlagi verði frestað að hluta eða öllu leyti þar til það hefur lokið afgreiðslu á kærum sem borist hafa vegna úthlutunar þar.
Heimilt er að flytja aflamark einstakra fiskveiðiára sem úthlutað er samkvæmt þessari grein yfir á næsta fiskveiðiár og úthluta því með þeim aflaheimildum sem koma til úthlutunar á því fiskveiðiári. Aflamark sem er flutt frá eldra fiskveiðiári skal tilheyra aflamarki þess fiskveiðiárs sem hófst 1. september næst á undan úthlutun aflamarks.

c. (15. gr. f.)

Sértækur byggðakvóti.

    Ráðherra skal á hverju fiskveiðiári ráðstafa aflamagni til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
    Ráðstöfun heimilda skv. 1. mgr. skal vera samkvæmt tillögu Byggðastofnunar, sem getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Heimilt er að bjóða opinberum aðilum, landshlutasamtökum sveitarfélaga, fyrirtækjum eða félagsamtökum aðild að slíkum samningum þar sem fram skulu meðal annars koma almenn og sértæk markmið hvers verkefnis, mælikvarðar, samstarfsaðilar, útfærsla, fyrirkomulag umsýslu og eftirfylgni. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Byggðastofnunar, að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, svo sem um efni samnings, skilyrði, tímalengd, hlutlæga mælikvarða, mat á árangri og nýja og endurnýjaða samninga sem gerðir eru frá og með árinu 2020.

d. (15. gr. g.)

Strandveiðar.

    Ráðherra skal á hverju fiskveiðiári ráðstafa aflamagni sem nýtt skal til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Í lögum þessum eru slíkar veiðar nefndar strandveiðar og leyfin til þeirra veiða strandveiðileyfi. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda.
    Þeim heimildum sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt þessari grein er heimilt að skipta á fjögur landsvæði. Ráðherra skal þá, með reglugerð, kveða nánar á um skiptingu landsvæða og aflaheimilda á tímabil og landsvæði.
    Strandveiðar eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. og einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Óheimilt er að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skips.
    Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Strandveiðileyfi er bundið við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. Skal leyfi veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfn innan þess landsvæðis, sbr. þó 10. mgr. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. er fiskiskipi sem hefur fengið strandveiðileyfi heimilt að óska eftir að leyfið verði fellt úr gildi og stunda fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þó tekur slík niðurfelling strandveiðileyfis í fyrsta lagi gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að ósk um niðurfellingu er sett fram. Hafi strandveiðileyfi fiskiskips verið fellt úr gildi getur það fiskiskip ekki fengið strandveiðileyfi að nýju á umræddu strandveiðitímabili.
    Leyfi til strandveiða samkvæmt þessari grein eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Ráðherra er heimilt með reglugerð að banna strandveiðar á lögbundnum frídögum.
     2.      Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess tíma er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
     3.      Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
     4.      Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í fiskiskipi. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
     5.      Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.
     6.      Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi.
    Þá skal beita ákvæðum laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram það hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim. Gjald skal lagt á afla í samræmi við hlutfallslega skiptingu afla eftir tegundum. Skal gjaldið nema því meðalverði sem fengist hefur fyrir samsvarandi afla á fiskmörkuðum á þeim stað og því tímabili þegar hann barst að landi.
    Heimilt er hverju skipi að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga í hverjum mánuði í maí, júní, júlí og ágúst.
    Fiskistofa skal auglýsa árlega eftir umsóknum um leyfi til strandveiða. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa í því magni sem ráðherra ákveður með reglugerð ár hvert án þess að sá afli teljist til hámarksafla skv. 5. tölul. 6. mgr. Um ufsa sem ekki reiknast til heimilaðs afla í hverri veiðiferð strandveiðiskips gilda eftirtalin skilyrði:
     a.      Að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn sérstaklega og skráður.
     b.      Að aflinn sé seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, sbr. þó 2. málsl. 10. mgr.
    Sé heimild skv. 9. mgr. nýtt skulu forráðamenn uppboðsmarkaðarins þar sem aflinn er seldur standa skil á andvirði hins selda afla að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboðið. Þá skal útgerð skipsins fá 80% af andvirði selds afla sem skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd strandveiða. Þar er meðal annars heimilt að setja nánari skilyrði um eignarhald. Ef eigandi fiskiskips er lögaðili er heimilt að kveða á um að lögskráðir sjómenn á fiskiskipinu eigi tiltekna lágmarkseignarhlutdeild í lögaðilanum. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild nema að einu strandveiðileyfi.
    Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar/ef sýnt er að aflamagni sem ráðstafað var/er til strandveiða á því strandveiðitímabili, að ufsa undanskildum, verði náð. Gildir þetta hvort sem heimildum til strandveiða er skipt á svæði sbr. 2. mgr. eða ekki.

e. (15. gr. h.)

Línuívilnun.

    Úthluta skal aflamagni til línuívilnunar í þorski, ýsu, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa sem skal skiptast innan hvers fiskveiðiárs á fjögur þriggja mánaða tímabil frá 1. september að telja, hlutfallslega með hliðsjón af þorskveiðum línubáta á árinu 2002. Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær telja megi líklegt að leyfilegu viðmiðunarmagni hvers tímabils verði náð. Ráðuneytið tilkynnir síðan frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks. Þá getur ráðherra ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar og jafnframt ákveðið að ýsu- og steinbítsafli skuli reiknast að fullu til aflamarks þegar því er náð. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem beitt er í landi má landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa sem reiknast til aflamarks þeirra. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi að landa 15% umfram þann afla í þorski, ýsu, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða. Ákvæði þetta tekur aðeins til þeirra báta sem tilkynna staðsetningu um sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa, sbr. lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003.
    Ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta, sbr. 15. gr. e í samræmi við hlutdeild byggðarlaga í löndun línuívilnunar. Miða skal við meðaltal löndunar línuívilnunar síðustu 3 ára eða meðaltal síðustu 10 ára frá og með fiskveiðiárinu 2019–2020 eftir því hvort meðaltalið er hagstæðara fyrir viðkomandi byggðarlag. Um ráðstöfun þessa aflamagns fer eftir reglum 15. gr. e.

f. (15. gr. i.)

Veiðar í tengslum við ferðaþjónustu.

    Aðilum sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við þann rekstur báta til veiða í tengslum við ferðaþjónustu er skylt að sækja um sérstakt leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem nota skal í því skyni. Einungis er heimilt að veita leyfi til veiða í tengslum við ferðaþjónustu aðilum sem fengið hafa leyfi samkvæmt lögum um Ferðamálastofu. Einungis er heimilt að stunda veiðar með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar á þeim bátum sem leyfi fá samkvæmt þessari grein.
    Leyfi til veiða í tengslum við ferðaþjónustu, sbr. 1. mgr., eru tvenns konar:
     1.      Leyfi til að veiða tiltekinn fjölda fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Ráðherra setur frekari leiðbeiningar um þessi atriði í reglugerð. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.
     2.      Leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts. Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávarafla. Um afla báta sem eingöngu stunda veiðar í tengslum við ferðaþjónustu gilda ekki ákvæði laga um skiptaverðmæti, nr. 24/1986. Ekki skal leitað staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs skv. 4. málsl. 3. mgr. 15. gr. vegna flutnings aflamarks til þessara báta. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt þann afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.
    Ráðherra skal á hverju fiskveiðiári ráðstafa aflamagni, gegn greiðslu gjalds, til skipa sem hafa leyfi til veiða í tengslum við ferðaþjónustu skv. 2. tölul. 2. mgr. vegna afla sem er fenginn við veiðar í tengslum við ferðaþjónustu. Verð á aflaheimildum skal vera 80% af meðalverði í viðskiptum með aflamark, sem birt er á vef Fiskistofu, í lok dags daginn áður en viðskipti fara fram og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Ráðherra kveður nánar á um úthlutun aflaheimilda þessara í reglugerð. Tekjur af aflaheimildum þessum skulu renna í ríkissjóð. Ráðherra skal á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum ákvarða fjárveitingu til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs.
    Innan sama fiskveiðiárs er einungis heimilt að veita báti leyfi annaðhvort skv. 1. tölul. 2. mgr. eða 2. tölul. 2. mgr. Við veitingu leyfa til veiða í tengslum við ferðaþjónustu koma aðeins til greina skip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru í skipaskrá Samgöngustofu eða á sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Leyfi til veiða í tengslum við ferðaþjónustu skulu veitt til eins fiskveiðiárs í senn. Skip sem hafa leyfi til veiða í tengslum við ferðaþjónustu, sbr. 2. tölul. 2. mgr., sem jafnframt hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni skulu tilkynna Fiskistofu með viku fyrirvara um upphaf og lok tímabils sem skipinu er haldið til veiða í atvinnuskyni.
    Rekstraraðili skal með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn skips reglur um takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi veiðar í tengslum við ferðaþjónustu og enn fremur reglur um bann við brottkasti afla og reglur um meðferð afla.
    Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði og reglur um veiðar í tengslum við ferðaþjónustu, þ.m.t. um skil á skýrslum vegna veiða báta sem stunda veiðar í tengslum við ferðaþjónustu.
    Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í tengslum við ferðaþjónustu í samræmi við ákvæði VI. kafla fyrir brot á ákvæðum þessarar greinar og reglum settum með stoð í henni.

g. (15. gr. j.)

Tilraunaverkefni til byggðaþróunar.

    Heimilt er að semja um nýtingu almenns byggðakvóta skv. 15. gr. e eða aflaheimilda vegna línuívilnunar skv. 15. gr. h sem ekki hafa verið nýtt, til tilraunaverkefna um aukna fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Hámarksfjöldi verkefna á hverjum tíma skal vera fimm.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að fela Byggðastofnun eða öðrum opinberum aðilum umsýslu með slíkum tilraunaverkefnum sem velja skal úr á grundvelli umsókna sveitarfélaga. Gera skal samninga um verkefnin til allt að 6 ára í senn milli ráðherra, Byggðastofnunar, landshlutasamtaka sveitarfélaga og einstakra sveitarfélaga. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði fyrir tilfærslu á aflaheimildum milli byggðakjarna innan sama vinnusóknarsvæðis, meðal annars varðandi verðmæti sem ráðstafa skal á móti og tegundir verkefna.

h. (15. gr. k.)

Varasjóður vegna óvæntra áfalla.

    Ráðherra er heimilt á hverju fiskveiðiári að ráðstafa aflaheimildum í því skyni að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif, svo sem vegna verulegra breytinga í aflamarki einstakra tegunda, vegna samdráttar í sjávarútvegi í byggðarlögum sem háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski og vegna óvæntrar skerðingar heildaraflaheimilda fiskiskipa sem hafa verið gerð út eða landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum. Ráðherra getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn um úthlutun samkvæmt þessari grein.
    Í lok hvers fiskveiðiárs skulu ónýttar heimildir samkvæmt þessari grein færast sem viðbót við almennan byggðakvóta, sbr. 15. gr. e, og um ráðstöfun slíks aflamagns fer eftir reglum 15. gr. e.
    Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði um úthlutun samkvæmt þessari grein.

6. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:


a.     (XXII.)

    Úthluta skal þeim skipum sem fengu úthlutað aflaheimildum samkvæmt reglugerð nr. 730/2020, á grundvelli aflahlutdeildar í rækju og skel, aflahlutdeild skv. 8. gr. fyrir upphaf fiskveiðiársins 2021–2022. Sama gildir um aflahlutdeild samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996. Skal úthlutun skv. 1. og 2. málsl. samtals nema 1482 þorskígildistonnum. Aflahlutdeild samkvæmt þessari grein skal skiptast milli skipa í sömu hlutföllum og úthlutun aflaheimilda skv. 3. gr. reglugerðar nr. 730/2020.
    Úthlutun skv. 1. mgr. skal vera í öllum tegundum sem lúta leyfilegum heildarafla á fiskveiðiárinu 2020–2021, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, og á árinu 2020, samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og skal hún reiknuð hlutfallslega miðað við þau þorskígildistonn sem úthlutað var í hverri þessara tegunda á umræddum tímabilum. Skal aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild allra skipa endurreiknuð að teknu tilliti til þessa.


b.     (XXIII.)

    Ráðherra skal fyrir 31. desember 2026 láta óháðan aðila meta árangur aðgerða skv. 15. gr. d – 15. gr. k. og hvort þær hafi náð markmiðum sínum. Ráðherra skal á grundvelli þessa mats taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til breytinga á reglunum og hvort leggja þurfi fram tillögur til breytinga á lögunum, meðal annars um innbyrðis skiptingu aflaheimilda skv. 15. gr. e – 15. gr. k, eigi síðar en 31. desember 2026.


7. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992:
     a.      1. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: úthlutun aflamarks á grundvelli laga um stjórn fiskveiða eða laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.
     b.      2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: úthlutun aflamarks sem ráðstafað er sem almennum byggðakvóta.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmdar við upphaf fiskveiðiársins 2021–22. Stjórnvaldsfyrirmæli um ráðstöfun aflaheimilda á fiskveiðiárinu 2020–21 halda gildi sínu.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í lögum um stjórn fiskveiða er mælt fyrir um að aflamagn sem svari til 5,3% af leyfilegum heildarafla skuli ekki ráðstafað sem aflamarki heldur komi til tiltekinna þarfa sem greindar eru í lögunum, til að mynda til stuðnings byggðarlögum, til línuívilnunar, til strandveiða og til annarra tímabundinna ráðstafana. Í apríl 2019 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp, undir forsæti dr. Þórodds Bjarnasonar, til að endurskoða meðferð og ráðstöfun þessara heimilda. Aðrir í starfshópnum voru þau Bergþóra Benediktsdóttir aðstoðarmaður forsætisráðherra, Gunnar Atli Gunnarsson aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þorsteinn Víglundsson alþingismaður. Í skipunarbréfi starfshópsins var lögð áhersla á að hugað yrði að því hvort þeim markmiðum sem að var stefnt með þessum aflaheimildum hafi verið náð og eftir atvikum leggja til breytingar. Var þar einnig vísað til stefnumörkunar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem segir að vega þurfi og meta fyrirkomulag aflaheimilda, þ.m.t. strandveiða, með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.
    Frumvarp þetta er byggt á tillögum starfshópsins sem greindar eru í skýrslu hans til ráðherra frá 18. febrúar 2020. Skýrslan er birt á vef ráðuneytisins. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í skýrslu framangreinds starfshóps til ráðherra kemur meðal annars fram að með lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 82/1983, hafi kvóta verið úthlutað á fiskiskip á grundvelli veiðireynslu á tímabilinu 1. nóvember 1980 til 31. október 1983. Með lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, var tilfærsla, leiga og sala aflaheimilda gefin frjáls. Lög um stjórn fiskveiða hafi leitt til mikillar hagræðingar í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, færri og stærri fyrirtækja og aukinnar arðsemi af rekstri þeirra. Aukin afköst fiskiskipa og fiskvinnslu hafi leitt til fækkunar starfa og samþjöppunar starfseminnar innan ákveðinna byggðarlaga. Aðbúnaður og öryggi starfsfólks í veiðum og vinnslu hafi aukist til muna og fjölmörg ný og vel launið störf hafa skapast á ýmsum stigum virðiskeðjunnar, sérstaklega á fjölbreyttum vinnumarkaði stærri þéttbýlisstaða. Dreifðum sjávarbyggðum hafi almennt hnignað verulega frá árinu 1984, sérstaklega þeim sem á þeim tíma voru með færri en fimm hundruð íbúa. Á sama tíma hafi hagræðing í sjávarútvegi og frjálst framsal veiðiheimilda leitt til fækkunar starfa og landfræðilegrar samþjöppunar í sjávarútvegi. Dreifðar sjávarbyggðir hafi glímt við margvíslegar aðrar áskoranir sem einkenna smærri byggðarlög almennt, svo sem einhæfni í atvinnulífi, takmarkaða þjónustu, erfiðar samgöngur og skort á ýmsum öðrum búsetugæðum. Engu að síður sé ljóst að straumhvörf urðu í byggðaþróun í hinum dreifðu sjávarbyggðum við innleiðingu fiskveiðistjórnunarkerfisins.
    Með fyrirhugaðri lagasetningu er leitast við að skapa skýrari lagalegan grundvöll fyrir meðferð og ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur til ráðstöfunar árlega til atvinnu- og byggðaráðstafana og skilgreina betur tilgang og markmið úthlutunarinnar. Einnig að betur verði tryggt að nýting umræddra aflaheimilda stuðli að byggðafestu og nýliðun í greininni og jafnframt að verðmæti þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur forræði yfir verði sem mest. Í frumvarpinu verða þessi 5,3% aflaheimildanna kölluð einu nafni „ráðstafanir til að efla atvinnu og byggðir“. Umtalsverð verðmæti felast í 5,3% heildaraflamarks, en heildarverðmæti slíkra aflaheimilda er áætlað 5,5–7,6 milljarðar króna á fiskveiðiárinu 2019–2020. Því er mikilvægt að slíkur stuðningur hafi skýr og mælanleg markmið, eftirfylgni sé fullnægjandi og árangur metinn með reglubundnum hætti.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi meginbreytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sem nánar eru skýrðar í athugasemdum við einstakar greinar.
    Í fyrsta lagi eru ákvæði um nýtingu 5,3% aflaheimilda til sérstakra aðgerða sem nú er að finna í ýmsum greinum laga um stjórn fiskveiða dregin saman í einn kafla í lögunum og skapaður skýrari grundvöllur undir nýtingu þeirra og meðferð en nú er. Jafnframt er tilgangur og markmið einstakra aðgerða, sem nánar eru tilgreind í einstökum greinum, dregin saman í einni markmiðsgrein. Þannig verður á einum stað að finna annars vegar ákvæði um markmið þessara aðgerða og hins vegar efnisákvæði um einstakar aðgerðir.
    Í öðru lagi er kveðið á um föst innbyrðis hlutföll í ráðstöfun umræddra 5,3% aflaheimilda milli einstakra verkefna. Er ætlunin að þau hlutföll byggist á ráðstöfun til einstakra aðgerða fyrir fiskveiðiárið 2019–2020. Jafnframt falli út ákvæði þess efnis að ráðherra skuli eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fram þingsályktunartillögu um fyrirhugaða meðferð og nýtingu umræddra heimilda til næstu sex ára. Felur tillaga frumvarpsins í sér breytingu frá því sem nú er að því leyti að skiptingin er bundin til lengri tíma, þ.e. til sex ára í stað hvers fiskveiðiárs, en með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika milli ára. Þá tryggir það að festa aflamagnið við hlutföll en ekki tonn að aflamagn sem til ráðstöfunar er á hverju ári fylgi breytingum á heildarafla einstakra tegunda. Nýtt ákvæði til bráðabirgða kveði á um endurskoðun þessa fyrirkomulags að 6 árum liðnum, sbr. nánar hér að aftan en með því væru hlutföllin bundin fram að þeim tíma.
    Í þriðja lagi verði tryggt að með úthlutun á almennum byggðakvóta sé lögð áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir. Þannig verði föstu hlutfalli almenns byggðakvóta úthlutað til einstakra byggðarlaga árlega og byggi sú úthlutun á meðaltalsúthlutun fyrri ára á byggðakvóta. Jafnframt verði lögfest hlutlæg regla sem feli það í sér að slík úthlutun fari eingöngu til byggðarlaga sem hafi færri en 2.000 íbúa en þó með þeim skilyrðum að úthlutun lækki um 0,1% fyrir hvern íbúa umfram 1.000. Felur þetta í sér nokkra breytingu frá núverandi lagaumgjörð og framkvæmd þar sem ráðherra, að höfðu samráði við Byggðastofnun, hefur verið heimilt að ráðstafa aflamagni á grundvelli tiltekinna efnisskilyrða skv. 10. gr. laganna.
    Í fjórða lagi verði heimilt að ráðstafa aflaheimildum almenns byggðakvóta byggðarlags, samkvæmt beiðni sveitarstjórnar, að hluta eða í heild, til verkefna varðandi sértækan byggðakvóta og til tilraunaverkefna til byggðaþróunar.
    Í fimmta lagi er lagt upp með að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta. Því verði síðan skipt milli sjávarbyggða í samræmi við hlutdeild þeirra í löndun línuívilnunar miðað við meðaltal undanfarinna ára.
    Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að hugtakanotkun um veiðar í tengslum við ferðaþjónustu verði betur skýrð og að um slíkar veiðar verði fjallað í sérstakri grein.
    Í sjöunda lagi verði kveðið á um að heimilt verði að semja í tilraunaskyni um nýtingu almenns byggðakvóta eða aflaheimilda vegna ónýttrar línuívilnunar til verkefna um aukna fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Þessi heimild verði hins vegar takmörkuð bæði hvað varðar aflamagn og fjölda verkefna. Þá er heimildarákvæði til ráðherra um að útfæra í reglugerð að Byggðastofnun eða öðrum opinberum aðila geti verið falin umsýsla með slíkum verkefnum á grundvelli samninga og mats á árangri.
    Í áttunda lagi er lagt til að ráðherra hafi á hverju fiskveiðiári til ráðstöfunar sem svarar til 10,52% af því aflamagni í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til að efla atvinnu og byggðir í varasjóði til að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif.
    Í níunda lagi falli brott heimild ráðherra í 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. og þar með skel- og rækjubætur sem ráðstafað hefur verið undanfarin ár. Í ákvæði til bráðbirgða er í þess stað lagt til að handhöfum skel- og rækjubóta verði úthlutað aflahlutdeild sem nemi samtals 1482 þorskígildistonnum.
    Þá er að lokum lagt til í ákvæði til bráðabirgða að kveðið verði á um að umrædd úthlutun og hlutfallsleg skipting aflaheimilda og aðgerðir þeim tengdar verði endurmetnar í ljósi reynslunnar og eftir atvikum breytt að sex árum liðnum ef þörf krefur.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Veiðum á helstu nytjastofnum Íslendinga hefur á síðustu 30 árum að meginstefnu verið stýrt á grundvelli laga um stjórn fiskveiða með útgáfu aflamarks á grundvelli aflahlutdeildar skipa en í handhöfn aflamarks felst heimild fiskiskips til að veiða tiltekið magni af fiski eða öðrum nytjastofni úr sjó. Í ljósi þeirra ríku hagsmuna sem tengjast sjávarútvegi hafa fræðimenn lengi velt fyrir sér hvaða stjórnarskrárverndar heimild til að stunda fiskveiðar í skjóli aflahlutdeildar njóti ef kæmi til verulegra breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.
    Fræðimenn hafa fært að því rök að þau atvinnuréttindi til fiskveiða, sem felast í handhöfn aflaheimilda, njóti nokkurrar en takmarkaðrar verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar en að það standi því ekki í vegi að löggjafinn geti gert ýmsar breytingar á gildandi fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar. Leiði slíkt bæði af almennum valdheimildum löggjafans til að kveða á um breytt skipulag atvinnu- og efnahagsmála, verndun náttúruauðlinda, þeirrar stefnuyfirlýsingar 1. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og þeim fyrirvara sem fram komi í 3. málsl. 1. gr. sömu laga um að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þess sjónarmið má meðal annars finna í áliti meiri hluta Hæstaréttar í svonefndu Vatneyrarmáli, Hrd. 2000, bls. 1534. Í dóminum var talið að málefnalegt mat hafi legið til grundvallar við setningu laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, og að setning þeirra hafi verið samrýmanleg jafnræðisrökum. Í því samhengi var meðal annars litið til þess að aflaheimildir væru „aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verða hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum“. Löggjafinn geti því „kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald en nú er gert vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru“. Þessi afstaða réttarins var síðast áréttuð í dómi Hæstaréttar frá 26. mars 2013 í máli nr. 652/2012, þar sem jafnframt kom fram að löggjafinn geti ákveðið að úthlutaðar veiðiheimildir skuli innkallaðar á hæfilegum aðlögunartíma og þeim eftir atvikum endurúthlutað, svo og kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann fégjald vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun nytjastofnanna, sbr. t.d. einnig dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2017 í máli nr. 213/2016. Þá má jafnframt nefna að Hæstiréttur hefur lagt áherslu á að handhafar veiðiheimilda hafi ekki að lögum tryggingu fyrir því að þeir geti síðar notað sér heimildirnar til tekjuöflunar með óbreyttum hætti um alla framtíð, þótt þær séu þeim verðmætar um sinn, sbr. Hrd. 1993, bls. 2061. Af framangreindum dómum má leiða að löggjafinn hafi nokkuð víðtækt mat í þessu efni.
    Í frumvarpinu er lagt til að felld verði brott heimild ráðherra til að ráðstafa á hverju fiskveiðiári aflamagni til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Ráðherra hefur á undanförnum árum á grundvelli þessarar greinar og áður á grundvelli 9. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, ráðstafað tilteknu aflamagni til skel- og rækjubóta, nú síðast með reglugerð nr. 730/2020. Í stað þessa fyrirkomulags er lagt til, meðal annars með hliðsjón af byggðasjónarmiðum og byggðafestu, að þeim skipum sem hlotið hafa úthlutun á þessum grunni verði úthlutað aflahlutdeild sem nemi ákveðnu hlutfalli af þeim skel- og rækjubótum sem úthlutað var samkvæmt reglugerð nr. 730/2020. Þá er gert ráð fyrir að aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild allra skipa sem fengið hafa úthlutað aflahlutdeild verði endurreiknuð að teknu tilliti til þessa.
    Fræðimenn telja að verði gengið fram úr hömlu við skerðingu þeirra atvinnuréttinda sem felast í handhöfn aflaheimilda geti það varðað bótum samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Við mat á slíkri ráðstöfun myndi skipta máli hvernig hún kæmi niður í heild sinni og gagnvart einstökum aðilum og hvaða sjónarmið hvíldu að baki henni. Telja verður að með framangreindri almennri ráðstöfun, meðal annars með hliðsjón af þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í framangreindum dómum Hæstaréttar, sé ekki gengið svo nærri réttindum fyrri hlutdeildarhafa að varði skaðabótum. Um leið er leitast við að taka tillit til hagsmuna þeirra sem hafa fengið úthlutað aflamagni á grundvelli skel- og rækjubóta um nokkurn tíma.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaðilar sem efni frumvarpsins varða eru Landssamband smábátaeigenda, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök smærri útgerða. Starfshópurinn sem lagði fram skýrslu til ráðherra hefur þegar haldið samráðsfundi með hagsmunaðilum í hverjum landsfjórðungi. Samráð hefur einnig átt sér stað við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
    Drög að frumvarpi þessu voru birt 4. september 2020 í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-175/2000) og barst 61 umsögn um málið. Að mestu leyti var í umsögnunum fjallað um sömu álitaefni og reifuð eru ítarlega í skýrslu starfshópsins sem er frumvarpinu til grundvallar. Var skýrsla starfshópsins áður birt til kynningar á vef ráðuneytisins. Farið var vandlega yfir innsendar umsagnir og leiddu þær meðal annars til breytinga á tillögu um uppgjör svonefndra skel- og rækjubóta. Birt verður sérstakt samráðsskjal á síðu málsins í samráðsgáttinni.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er leitast við að tryggja verðmætasköpun til lengri tíma litið þar sem horft er meðal annars til þess að aflaheimildir til að efla atvinnu og byggðir nýtist til að styrkja minni sjávarbyggðir sem hafa átt erfitt með að aðlagast breytingum í sjávarútvegi. Þannig er miðað við að aðgerðirnar ýti undir byggðafestu með meiri fyrirsjáanleika í sjávarútvegi og með auknum sveigjanleika í ráðstöfun aflaheimilda til að mæta aðstæðum á hverjum stað. Jafnframt að heimilt verði í tilraunaskyni að nýta aflaheimildir til að efla atvinnu og byggðir til að styðja við fjölbreytni atvinnulífs og að stjórnvöld hafi aukið svigrúm til að bregðast við óvæntum áföllum í sjávarútvegi til skemmri tíma auk þess sem stuðlað verði að fjölbreytni og tækifærum til nýliðunar í sjávarútvegi. Þær aðgerðir sem frumvarpið kveður á um verði hins vegar endurmetnar í ljósi reynslunnar og eftir atvikum breytt að sex árum liðnum ef þörf krefur.
    Samband íslenskra sveitarfélaga gerði í umsögn um frumvarp þetta í samráðsgátt stjórnvalda efnislegar athugasemdir og var leitast við að bregðast við þeim í skýringum þessum. Frumvarpið felur ekki í sér bein áhrif á fjárhag sveitarfélaga og er stjórnsýsla sveitarfélaga með frumvarpinu að umfangi og efni til í megindráttum sú sama og að gildandi lögum. Var því ekki lagt sérstakt mat á kostnaðaráhrif frumvarpsins með vísan til 129. gr. sveitarstjórnarlaga. Var ekki gerð athugasemd um þetta í téðri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja betur byggðafestu og nýliðun. Ekki liggja fyrir kyngreind gögn en vitað er að karlmenn eru í miklum meirihluta þeirra sem starfa við sjómennsku meðan konur starfa frekar í fiskvinnslu á landi. Athuga má að við ráðstöfun byggðakvóta er horft bæði til atvinnutækifæra fyrir útgerðir fiskiskipa og fiskvinnslur og hefur frumvarpið með því áhrif á bæði konur og karla. Með því að frumvarpið felur að mestu í sér óbreytt fyrirkomulag ráðstöfunar atvinnu- og byggðakvóta þykir ekki ástæða til að framkvæma nýtt og heildstætt mat á frumvarpinu.
    Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að sú heimild sem ráðherra hefur nú skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, falli brott og þar með skel- og rækjubætur sem úthlutað hefur verið með reglugerð á grundvelli þeirrar greinar. Frá því að skel- og rækjubótum var fyrst úthlutað hefur verið gengið út frá því að um tímabundna ráðstöfun hafi verið að ræða til að mæta áföllum vegna verulegra breytinga á aflamarki þessara tegunda. Lagt er til að þau skip sem hlotið hafa úthlutun á þessum grunni fái þess í stað úthlutað varanlegum aflahlutdeildum sem nema samtals 1482 þorskígildistonnum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir því að efni þess muni hafa fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–4. gr.

    Með 1.–4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem leiða af færslu fyrirmæla um ráðstöfun atvinnu- og byggðakvóta í sérstakan nýjan kafla, II. kafla B.
    Með 1. gr. frumvarps er lagt til að 3.–8. mgr. 6. gr. og 6. gr. a laganna falli brott en þar er annars vegar fjallað um frístundaveiðar í tengslum við ferðaþjónustu og hins vegar um strandveiðar. Með þeirri breytingu sem lögð er til í 5. gr. frumvarpsins munu umrædd efnisákvæði færast yfir í nýjan II. kafla B og vísast nánar til þess sem þar kemur fram.
    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að tilvísun verði gerð til ráðstafana samkvæmt nýjum II. kafla B. í lögunum til að árétta hvernig fara skuli með þau 5,3% aflamagns sem tekin eru til hliðar frá aflamarki til atvinnu- og byggðaráðstafana. Þá er lagt til að 5. og 6. mgr. greinarinnar falli brott enda eru efnisákvæði þeirra færð í hinn nýja kafla, sbr. einkum tillögu um nýja 15. gr. e.
    Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að 10. gr. og 10. gr. a laganna falli brott en þar er annars vegar fjallað um almennan byggðakvóta og hins vegar um sértækan byggðakvóta.
    Með 4. gr. frumvarpsins er að lokum lagt til að 8. mgr. 11. gr. laganna falli brott en þar er fjallað um línuívilnun dagróðrarbóta.

Um 5. gr.

Um a-lið (15. gr. d).
    Hér er lagt til að markmið atvinnu- og byggðakvóta verði skilgreint með skýrari hætti en kemur nú fram í lögum um stjórn fiskveiða með nýrri 15. gr. d með fyrirsögninni Skipting aflamagns. Í lögum um stjórn fiskveiða er kveðið á um margvíslegar aðgerðir til að efla atvinnu og byggðir um land allt. Þessar aðgerðir eru skilgreindar á ýmsum stöðum í lögunum og misjafnt hversu nákvæmlega lögin tiltaka markmið þeirra og umgjörð. Hér er lagt til að þessi framsetning verði skýrð og tilteknar aðgerðir tengdar tilteknum markmiðum. Lagt er til að í greininni komi þannig fram í fjórum töluliðum með hvaða hætti ráðherra skuli ráðstafa 5,3% aflamagns, þ.e. 1) í þeim tilgangi að efla atvinnulíf í dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar með almennum og sértækum byggðakvótum, 2) með varasjóði til að bregðast við óvæntum áföllum í dreifðum sjávarbyggðum, 3) til að stuðla að fjölbreytni og veita tækifæri til nýliðunar um land allt sbr. ákvæði um strandveiðar, línuívilnun og veiðar í tengslum við ferðaþjónustu og 4) með tilraunaverkefnum til byggðaþróunar.
    Jafnframt er lagt til að efnisákvæði núverandi 6. mgr. 8. gr. laganna færist og verði hluti af nýrri 15. gr. d þar sem betur þykir fara að umrædd málsgrein, sem kveður á um heimildir til að tryggja tegundasamsetningar aflmarks sem dregið er frá, verði hluti af hinni nýju grein. Ekki er um efnisbreytingu á málsgreininni að ræða frá gildandi ákvæði að öðru leyti en því að ákvæði um greiðslu gjalds vegna aflamarks fellur út, en er þess í stað tekið upp í II. kafla frumvarpsins.

Um b-lið (15. gr. e).
    Lagt er til að núgildandi 10. gr. laganna falli brott, sbr. 4. gr. frumvarpsins, en að ný 15. gr. e, með fyrirsögninni Almennur byggðakvóti, fjalli um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga sem hefur þann tilgang að efla atvinnulíf í dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar.
    Af greininni leiðir, sbr. einnig tillögu að a-lið 1. tölul. 15. gr. e, að föstu hlutfalli, þ.e. 22,61% þess aflamagns sem kemur til ráðstöfunar skv. II. kafla B verði ráðstafað sem byggðakvóta til byggðarlaga. Er lagt til að hlutfall þetta byggist á úthlutun ráðherra vegna fiskveiðiársins 2019–2020. Jafnframt er lagt til að að hlutfallið verði endurskoðað að 6 árum liðnum, sbr. tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða í 10. gr. frumvarpsins.
    Almennur byggðakvóti er skilgreindur í núgildandi 10. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þar segir að ráðherra sé heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. laganna að höfðu samráði við Byggðastofnun annars vegar til minni byggðarlaga sem hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og hins vegar til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu heildaraflaheimilda og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand þeirra. Almenn skilyrði laga fyrir úthlutun almenns byggðakvóta eru jafnframt útfærð í reglugerðum. Í frumvarpinu er lögð til nokkuð breytt framsetning á ákvæði er fjallar um almennan byggðakvóta. Með úthlutun á almennum byggðakvóta verði nú lögð áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir. Þannig verði föstu hlutfalli almenns byggðakvóta úthlutað til einstakra byggðarlaga árlega og byggi sú úthlutun á meðaltals úthlutun fyrri ára á byggðakvóta. Þannig skuli miða við meðaltal síðustu þriggja ára eða tíu ára eftir því hvort er betra fyrir viðkomandi byggðarlag. Jafnframt verði lögfest hlutlæg regla sem feli það í sér að slík úthlutun fari eingöngu til byggðarlaga að hámarki 2.000 íbúum en þó með þeim skilyrðum að úthlutun lækki um 0,1% fyrir hvern íbúa umfram 1.000, sbr. nánar að aftan. Umrædda skiptingu má sjá í skýrslu starfshópsins í töflu í Viðauka VI, sem prentuð er með frumvarpi þessu sem fylgiskjal I. Felur þetta í sér nokkra breytingu frá núverandi lagaumgjörð og framkvæmd þar sem ráðherra, að höfðu samráði við Byggðastofnun, hefur verið heimilt að ráðstafa aflamagni til byggðarlaga á grundvelli tiltekinna efnisskilyrða, sbr. að framan.
     Þetta byggir á þeim sjónarmiðum að þær takmörkuðu aflaheimildir sem hafa verið til ráðstöfunar innan almenna byggðakvótakerfisins hafa dreifst víðar en æskilegt væri meðal annars út frá þrýstingi stærri byggðarlaga og að æskilegt væri að herða á skilyrðum þess. Byggðastofnun hefur skilgreint „dreifðar sjávarbyggðir“ sem þau byggðarlög sem 1) standa við sjávarsíðuna, 2) fiskveiðar og/eða fiskvinnsla hafa verið stunduðu síðustu 30 árin, 3) eru utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar og 4) íbúar eru færri en 1.000. Alls uppfylla 35 byggðarlög með samtals 12.586 íbúum þessi viðmið.
    Með reglugerð nr. 909/2002, um úthlutun á 2.000 lestum af þorski til sjávarbyggða, var fjöldi íbúa ekki skilgreindur en föstu magni var úthlutað til ákveðinna byggðarlaga. Með reglugerð nr. 960/2004, um úthlutun á 3.200 þorskígildislestum til stuðnings byggðarlögum, kom viðmið um íbúafjölda inn í reglugerð þar sem minni byggðarlög voru þau byggðarlög með færri íbúum en 1.500. Þetta viðmið var svo hækkað í 2.000 íbúa með reglugerð nr. 1181/2011, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2011–2012, og hefur staðið óbreytt síðan. Er í frumvarpinu lagt til að áfram verði stuðst við þessi mörk en með umræddri reiknireglu. Er þannig lagt til með 15. gr. e að stærðarmörk dreifðra sjávarbyggða verði ekki skilgreind út frá ákveðinni tölu heldur verði þau látin fjara út á tilteknu bili. Þannig skuli úthlutun miðast við byggðarlög með að hámarki 2000 íbúum en þó skal úthlutun lækka um 0,1% fyrir hvern íbúa umfram 1000 og falla niður vegna byggðarlaga með íbúa umfram 2000. Þannig yrði til dæmis úthlutun til byggðarlaga með 1.200 íbúa skert um 20%, úthlutun til byggðarlaga með 1.500 skert um 50% og engin úthlutun yrði til byggðarlaga með fleiri en 2.000 íbúa.
    Þá er kveðið á um það nýmæli í 5. mgr. að heimilt verði að ráðstafa aflaheimildum almenns byggðakvóta byggðarlags, samkvæmt beiðni sveitarstjórnar, að hluta eða í heild, til verkefna sem varða sértækan byggðakvóta og til tilraunaverkefna til byggðaþróunar.
    2–4. mgr. og 6.–7. mgr. nýrrar 15. gr. e eru efnislega óbreyttar frá 5.–10. mgr. 10. gr. laganna og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um c-lið (15. gr. f).
    Sértækur byggðakvóti er skilgreindur í 10. gr. a í lögum um stjórn fiskveiða. Þar segir að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflahlutdeild sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laganna til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Nánar er kveðið á um þá þætti sem styðjast skal við um val á byggðarlögum í reglugerð nr. 643/2016 auk þeirra atriði sem horfa skal til við mat á umsóknum frá einstökum byggðarlögum. Frá því að núverandi skipulagi um sértækan byggðakvóta var komið á hefur árleg ráðstöfun aukist og er 6.899 lestir fyrir fiskveiðiárið 2019–2020.
    Í 4. gr. þessa frumvarps er lagt er til að 10. gr. a falli brott og að í nýrri 15. gr. f, með fyrirsögninni Sértækur byggðakvóti, verði fjallað um úthlutun byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar og sem hafi þann tilgang að efla atvinnulíf í dreifðum sjávarbyggðum til framtíðar. Áfram yrði þó miðað við að heimildin verði nýtt til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
    Af greininni leiðir, sbr. einnig tillögu að b-lið 1. tölul. 15. gr. d, að föstu hlutfalli, þ.e. 22,03% þess aflamagns sem kemur til ráðstöfunar sem aflaheimildir til að efla atvinnu og byggðir, verði ráðstafað til sértæks byggðakvóta. Er lagt til að hlutfallið byggist á úthlutun ráðherra vegna fiskveiðiársins 2019–2020 og af tillögu að ákvæði til bráðabirgða, sbr. 6. gr. frumvarpsins leiðir að hlutfallið verði endurskoðað að 6 árum liðnum.
    Í núgildandi 10. gr. a laganna er kveðið á um að Byggðastofnun geti gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn og að haft skuli samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þær reglur haldi sér og jafnframt er gert ráð fyrir að núgildandi samningar haldist óbreyttir á gildistíma sínum. Til viðbótar við gildandi reglur er hins vegar lagt til að heimilt sé að bjóða opinberum aðilum, landshlutasamtökum sveitarfélaga og fyrirtækjum aðild að slíkum samningum þar sem fram skulu meðal annars koma almenn og sértæk markmið hvers verkefnis, mælikvarðar, samstarfsaðilar, útfærsla, fyrirkomulag umsýslu og eftirfylgni. Ennfremur verði til viðbótar við núverandi reglugerðarheimild bætt við heimild til að kveða á um hlutlæga mælikvarða, mat á árangri og nýja og endurnýjaða samninga sem gerðir eru frá og með árinu 2020.
    Þá er sú breyting gerð frá núgildandi 10. gr. a laganna að felld er brott tilvísun til einstakra tegunda nytjastofna og að þær skuli sæta frádrætti en um ráðstöfun aflaheimilda til þessarar ráðstöfunar fer hér samkvæmt nýrri 15. gr. d verði frumvarpið að lögum.

Um d-lið (15. gr. g).
    Í núgildandi 6. gr. a er fjallað um strandveiðar. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda. Hverju skipi er heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar mánuðina maí, júní, júlí og ágúst og samkvæmt tilteknum skilyrðum sem eru meðal annars nánar útfærð í reglugerð nr. 364/2020. Frá því að strandveiðum var komið á 2009 hefur afli aukist ár frá ári samhliða aukningu á ráðstöfun. Þó hefur ráðstöfun ekki að fullu verið nýtt nema árið 2020 þegar veiðar voru stöðvaðar 19. ágúst.
    Eins og vikið var að í almennum hluta greinargerðar athugasemdum er lagt upp með að ákvæði um nýtingu 5,3% aflaheimilda til sérstakra aðgerða sem nú er að finna í ýmsum greinum laga um stjórn fiskveiða verði dregin saman í einn kafla í lögunum og skapi þar skýrari grunn undir nýtingu þeirra og meðferð en nú er. Er því lagt til að ákvæði 6. gr. a laganna falli brott, sbr. 1. gr. frumvarpsins, og að efnisákvæði þess færist undir nýjan II. kafla B sem ný 15. gr. g. Vísast jafnframt til 3. tölul. nýrrar 15. gr. d sem kveður meðal annars um að tilgangur strandveiða sé að stuðla að fjölbreytni og veita tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi um land allt.
    Er ákvæði 15. gr. g í meginatriðum efnislega óbreytt frá gildandi 6. gr. a laganna að öðru leyti en því að af henni leiðir, sbr. einnig tillögu að a-lið 3. tölul. 15. gr. d, að föstu hlutfalli, þ.e. 35,40%, sem svarar til þess aflamagns í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til atvinnu- og byggðakvóta, verði ráðstafað til strandveiða á hverju fiskveiðiári. Er lagt til að hlutfallið byggist á ráðstöfun ráðherra vegna fiskveiðiársins 2019–2020. Af tillögu að ákvæði til bráðabirgða, sbr. 6. gr. frumvarpsins, leiðir að hlutfallið yrði endurskoðað að 6 árum liðnum. Þá er einnig sú breyting gerð að felldur er brott sá áskilnaður laganna, sem kveðið er á um í núgildandi 1. tölul. 6. mgr. 6. gr. a laganna, að óheimilt sé að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudag þar sem ekki verður séð að þörf á að löggjafarvaldið takmarki hvaða daga eigandi fiskiskips nýti til strandveiða að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. t.d. ákvæði reglugerðar 364/2020. Einnig er sú breyting lögð til í sama tölulið að í stað þess að vísa í almenna frídaga sé vísað í lögbundna frídaga.
    Í greininni er lagt til að ráðherra verði heimilað með reglugerð kveða nánar á um skiptingu landsvæða og aflaheimilda á tímabil og landsvæði. Með þessari breytingu er verið að færa þetta í sama farveg og var í eldri lögum, fyrir samþykkt laga nr. 22/2019. Með breytingunni 2019 var fyrirkomulagi breytt þannig að allir mega veiða 12 daga í mánuði þar til heildarmagnið er upp veitt og því er ekki lengur heimilt að skipta magninu niður á tímabil eða svæði. Rétt þykir að hafa heimild til þessa eldra fyrirkomulags áfram.
    Þegar litið er til strandveiða á síðastliðnum þremur árum þá er í upphafi tímabilsins afli góður á svæðum A og D en yfirleitt er smærri fiskur á svæðum B og C fyrstu mánuðina, þ.e. áður en stærri fiskur gengur inn á grunnslóð fyrir norðan og austan. Í töflu hér að aftan má sjá hlutfall afla á hverju svæði sem tekinn er seinni helming tímabilsins, þ.e. í júlí og ágúst. Sjá má að árin 2018 og 2019 var þriðjungur afla á svæðum B og C tekinn á fyrstu tveimur mánuðum en 2/3 aflans seinni hluta tímabilsins. Á svæði D voru um 2/3 veiddir fyrstu 2 mánuðina en mun jafnara er hvernig aflinn kemur inn á svæði A. Það er því ljóst að stöðvun veiða eins og gert var á þessu ári kemur hlutfallslega verst út fyrir þá sem stunda veiðar á svæðum B og C.Tafla: Hlutfallsleg skipting strandveiða eftir svæðum árin 2018–2020.

Svæði

2020

2019

2018

A

47%

46%

51%

B

53%

64%

65%

C

63%

66%

64%

D

36%

35%

38%


    Í ljósi reynslunnar á árinu 2020, þar sem strandveiðar voru stöðvaðar áður en tímabili lauk vegna þess að aflaheimildir kláruðust, og vegna misjafnrar skiptingar á veiðum á svæðum milli mánaða þá þykir í ljósi jafnræðis rétt að færa fyrirkomulagið í fyrra horf og falla frá þeirri breytingu sem kom inn með samþykkt laga nr. 22/2019.

Um e-lið (15. gr. h).
    Í núgildandi 8. mgr. 11. gr. laganna er fjallað um línuveiðar og línuívilnun, þ.e. þá reglu að afli sem veiddur er á línu reiknast ekki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að fullu til aflamarks hlutaðeigandi báts. Með lögum nr. 22/2010, um breytingu á stjórn fiskveiða, var tekin upp sú regla að sé lína stokkuð upp í landi taki ívilnunarregla einnig til þess afla sem á hana veiðist, þó þannig að sé línu beitt í landi verði ívilnunin meiri (20%) en þegar línan er stokkuð upp í landi (15%) og byggist það á því að beiting línu í landi skapi þar fleiri störf. Um línuívilnun gildir jafnframt reglugerð nr. 677/2019. Ekki eru lagðar til breytingar á umræddu fyrirkomulagi en sbr. fyrri skýringar frumvarpsins er lagt til að ákvæði 8. mgr. 11. gr. laganna falli brott, sbr. 4. gr. frumvarpsins, og að efnisákvæði þess færist undir nýjan II. kafla B sem ný 15. gr. h.
    Af ákvæði 1. mgr. leiðir, sbr. einnig tillögu að b-lið 3. tölul. 15. gr. d, að föstu hlutfalli, þ.e. 8,50%, sem svarar til þess aflamagns í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til atvinnu- og byggðakvóta í þorski, ýsu, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa, sé ráðstafað til línuívilnunar sem skuli skiptast innan hvers fiskveiðiárs með sama hætti og í núgildandi lögum, þ.e. með fjórum þriggja mánaða tímabilum. Er lagt til að hlutfallið byggist á ráðstöfun ráðherra vegna fiskveiðiársins 2019–2020. Kemur sú ráðstöfun í stað núverandi reglu um ráðstöfun byggða á þingsályktun sbr. 5. mgr. 8. gr. gildandi laga. Af tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða, sbr. 10. gr. frumvarpsins leiðir að hlutfallið yrði endurskoðað að 6 árum liðnum Vísast jafnframt til 3. tölul. nýrrar 15. gr. d sem kveður meðal annars á um að tilgangur línuívilnunar sé að stuðla að fjölbreytni og veita tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi um land allt.
    Fram kemur í skýrslu starfshópsins til ráðherra að með aukinni tæknivæðingu hafi hagkvæmni þess að beita eða stokka línu í landi farið minnkandi og línuívilnun hafi ekki verið nýtt að fullu. Þessar breytingar koma verst niður á þeim byggðarlögum þar sem löndum línuívilnunar hefur verið mest, og munu þau áhrif væntanlega aukast með tímanum. Línuívilnun er þó enn mikilvæg á mörgum stöðum og óráðlegt að leggja hana af að svo stöddu. Því er lagt til það nýmæli í nýrri 3. mgr. að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem almennur byggðakvóti til byggðarlaga í samræmi við hlutdeild þeirra í löndum. Þannig muni línuívilnun haldast óbreytt fyrir þá sem geta nýtt sér hana, en hugsanlegur samdráttur í slíkum línuveiðum mun skila sér sem byggðakvóti til þeirra byggðarlaga sem verða fyrir skerðingunni. Aukist nýting línuívilnunar hins vegar að nýju munu allar heimildirnar vera nýttar til hennar. Miða skal við meðaltal löndunar línuívilnunar síðustu 3 ára eða meðaltal síðustu tíu ára frá og með fiskveiðiárinu 2019–2020 eftir því hvort meðaltalið er hagstæðara fyrir viðkomandi byggðarlag. Sjá má umrædda skiptingu í skýrslu starfshópsins í töflu í Viðauka VIII í skýrslunni og er tafla þessi prentuð sem fylgiskjal II með frumvarpi þessu. Þá er að lokum kveðið á um að ráðstöfun þess aflamagns sem færist sem viðbót við almennan byggðakvóta, þ.e. ónýtt hlutfall línuívilnunar, fari eftir reglum 15. gr. e um almennan byggðakvóta.
    
Um f-lið (15. gr. i).
    Í núgildandi 6. gr. laganna er fjallað um frístundaveiðar, sbr. einnig ákvæði reglugerðar nr. 753/2019. Er hugtakið notað um þrenns konar veiðar:
     1.      Fiskveiðar til eigin neyslu í frístundum sem eru heimilar án sérstaks leyfis.
     2.      Opinber sjóstangveiðimót þar sem aflinn er fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið.
     3.      Fiskveiðar í tengslum við ferðaþjónustu gegn gjaldi sem rennur í ríkissjóð
    Framangreind hugtakanotkun er nokkuð villandi, enda eru fiskveiðar í tengslum við ferðaþjónustu stundaðar í atvinnuskyni þótt ferðamennirnir taki vissulega þátt í þeim í frístundum sínum. Því er lagt til að úthlutun vegna fiskveiða í tengslum við ferðþjónustu verði nefnd „veiðar í tengslum við ferðaþjónustu“ í lögunum þannig að það sé skýrt afmarkað að ráðstöfunin eigi eingöngu við um veiðar í atvinnuskyni í tengslum við ferðaþjónustu. Fiskveiðar til eigin neyslu og á opinberum sjóstangveiðimótum allt að 200 tonnum eru utan aflamarks og teljast því ekki til atvinnu- og byggðakvóta. Ákvæði 15. gr. i frumvarpsins er efnislega óbreytt frá 3.–10. mgr. 6. gr. gildandi laga fyrir utan þá breytingu sem leiðir af 3. mgr., sbr. einnig tillögu að c-lið 3. tölul. 15. gr. d, að ráðstafa skuli föstu hlutfalli, 0,94% sem svarar til þess aflamagns í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til aflaheimilda í því skyni að efla atvinnu og byggðir. Af tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða, sbr. 10. gr. frumvarpsins, leiðir að hlutfallið yrði endurskoðað að 6 árum liðnum. Vísast jafnframt til 3. tölul. nýrrar 15. gr. d sem kveður meðal annars á um að tilgangur slíkra veiða sé að stuðla að fjölbreytni og veita tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi um land allt. Þykir jafnframt fara betur á því að slíkar veiðar séu nefndar veiðar í tengslum við ferðaþjónustu eins og áður greinir og að ákvæðin færist undir nýjan II. kafla B sem hefði jafnframt í för með sér að 3.–8. mgr. 6. gr. laganna falli brott, sbr. 1. gr. frumvarpsins.

Um g-lið (15. gr. j).
    Á undanförnum árum hafa komið fram hugmyndir um að nýta beri byggðakvóta með fjölbreyttari hætti en til þess einungis að byggja upp fiskvinnslu í einstökum litlum byggðarkjörnum. Með ákvæði 5. gr. frumvarpsins um nýja 15. gr. j er lagt til það nýmæli að heimilt verði að semja um nýtingu almenns byggðakvóta eða aflaheimilda vegna ónýttrar línuívilnunar til tilraunaverkefna um aukna fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Með vinnusóknarsvæði er átt við vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða á Íslandi samkvæmt greiningu Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaga landshlutanna, sbr. t.d. viðauka IV í skýrslu starfshópsins sem skilaði tillögum til ráðherra sem vikið er að í almennum hluta þessarar greinargerðar. Slík svæði daglegrar vinnusóknar geta spannað fleiri en eitt sveitarfélag eða verið hluti af starfssvæðum tveggja ólíkra landshlutasamtaka sveitarfélaga. Jafnframt geta verið fleiri en eitt vinnusóknarsvæði innan sama sveitarfélags eða landshlutasamtaka.
    Í 2. mgr. nýrrar 15. gr. j felst að ráðuneytið getur falið Byggðastofnun eða öðrum opinberum aðila umsýslu með slíkum verkefnum. Gerðir skuli samningar til allt að 6 ára í senn frá og með árinu 2020 milli ráðuneytisins, Byggðastofnunar, landshlutasamtaka og einstakra sveitarfélaga um verkefni til að auka fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Þó er sú takmörkun sett að hámarksfjöldi verkefna á hverjum tíma skal vera fimm. Í slíkum samningum geta t.d. falist tilfærslur á aflaheimildum milli byggðarkjarna innan sama vinnusóknarsvæðis, enda sé sambærilegum verðmætum ráðstafað til að efla aðra atvinnustarfsemi í þeim byggðarkjarna sem heimildunum var úthlutað til. Ekki er hins vegar ætlunin að sveitarfélögum verði veitt heimild til að leigja frá sér byggðakvóta og nýta fjármunina til óskyldra verkefna, heldur verði í ákveðnum tilvikum t.d. hægt að semja um eflingu sjávarútvegs á vinnusóknarsvæðinu í stað byggðarkjarnans. Íbúum byggðarkjarnans gefist þannig kostur á því að sækja vinnu við veiðar eða vinnslu í nálægum byggðarkjarna. Þannig geti sjávarútvegur eflst á vinnusóknarsvæðinu samhliða því að stuðlað verði að uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi. Í þessu gæti falist að fyrirtæki sem njóta góðs af tilfærslunni leggi fé til að efla aðra atvinnustarfsemi í byggðarkjarnanum. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt núgildandi lögum eru greidd 80% af markaðsverði dagsins á undan fyrir afla frístundaveiða í tengslum við ferðaþjónustu. Slíkir samningar sem hér um ræðir skulu skilgreindir sem tilraunaverkefni sem valin verði úr umsóknum sveitarfélaga og ráðuneytið getur sett nánari reglur um skilyrði fyrir tilfærslu aflaheimilda, meðal annars varðandi verðmæti sem ráðstafa skuli á móti og tegundir verkefna. Óháður aðili skal meta árangurinn af slíkum tilraunaverkefnum heildstætt í lok tímabilsins sbr. tillögu frumvarpsins að nýju ákvæði til bráðabirgða sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Um h-lið (15. gr. k).
    Lagt er til að í nýrri 15. gr. k, með fyrirsögninni Varasjóður vegna óvæntra áfalla, verði kveðið á um að ráðherra sé heimilt á hverju fiskveiðiári að ráðstafa aflaheimildum í því skyni að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif. Þannig skuli ráðherra á hverju fiskveiðiári, sbr. einnig 2. tölul. 15. gr. d, ráðstafa 10,52% sem svarar til þess aflamagns í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til atvinnu- og byggðakvóta í varasjóð til að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif í dreifðum sjávarbyggðum. Af tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða, sbr. 6. gr. frumvarpsins leiðir að hlutfallið yrði endurskoðað að 6 árum liðnum.
    Með framangreindu mun ráðherra hafa tilteknar heimildir til ráðstöfunar þegar bregðast þarf hratt við neikvæðum byggðaáhrifum vegna óvæntra áfalla í sjávarútvegi. Slík áföll geti t.d. verið vegna breytinga í aflamarki einstakra tegunda, vegna samdráttar í sjávarútvegi í byggðarlögum sem háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski og vegna óvæntrar skerðingar heildaraflaheimilda fiskiskipa sem hafa verið gerð út eða landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum. Jafnframt yrði ráðherra heimilt að gera samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn um úthlutun samkvæmt þessari grein. Kveðið yrði í reglugerð á um um nánari skilyrði fyrir úthlutun samkvæmt greininni.
    Því aflamagni sem lagt er til að ráðstafað verði á grundvelli þessarar greinar hefur á undanförnum árum verið ráðstafað til skel- og rækjubóta með reglugerð á grunni 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna. Verði frumvarp þetta að lögum munu heimildir ráðherra skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. falla niður og þar með skel- og rækjubætur. Þetta kynni að valda því að einhver byggðarlög yrðu fyrir áhrifum þar sem atvinnulíf þeirra er verulega háð úthlutun aflaheimilda á þessum grunni. Því er ráðgert að samhliða brottfalli skel- og rækjubóta verði áhrifum þeirrar breytingar mætt með hlutfallslegri úthlutun aflahlutdeilda samkvæmt bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Áfram yrði þó á grunni þessa ákvæðis meðal annars heimild til að mæta eftir atvikum áföllum vegna breytinga í aflamarki einstakra tegunda.
    Þá er tekið fram að í lok hvers fiskveiðiárs skulu ónýttar heimildir samkvæmt þessari grein færast sem viðbót við almennan byggðakvóta, sbr. 15. gr. e, og um ráðstöfun slíks aflamagns fari eftir reglum 15. gr. e. um almennan byggðakvóta.

Um 6. gr.

    Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að tvö ný ákvæði til bráðabirgða verði sett.
Um a-lið (ákvæði til bráðabirgða XXII).
    Með frumvarpinu er lagt til að settur verði skýrari rammi um úthlutun atvinnu- og byggðakvóta en nú er. Hluti tillagnanna er að föstu hlutfalli 5,3 % heildaraflamagns hvers árs verði úthlutað til tiltekinna ráðstafana, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að sú heimild sem ráðherra hefur nú skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga 116/2006 falli brott, en skel- og rækjubótum hefur verið úthlutað með reglugerð á grundvelli þeirrar greinar. Frá því að skel- og rækjubótum var fyrst úthlutað hefur verið gengið út frá því að um tímabundna ráðstöfun hafi verið að ræða til að mæta áföllum vegna verulegra breytinga á aflamarki þessara tegunda. Með þessu ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þeim skipum sem hlotið hafa úthlutun á þessum grunni verði úthlutað aflahlutdeild sem nemi samtals 1482 þorskígildistonnum. Gerir frumvarpið ráð fyrir að aflaheimildum verði úthlutað úr öllum tegundum sem lutu heildarafla á fiskveiðiárinu 2020–2021, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, og á árinu 2020 samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996. Gert er ráð fyrir að úthlutunin verði reiknuð hlutfallslega miðað við þau þorskígildistonn sem úthlutað var í hverri þessara tegunda á umræddum tímabilum. Loks er gert ráð fyrir að aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild allra skipa, sem fengið hafa úthlutað aflahlutdeild verði endurreiknuð að teknu tilliti til þessa.
    Þegar skel- og rækjubótum var upphaflega komið á var litið svo á að um tímabundnar aðgerðir væri að ræða, enda myndu þeir stofnar sem þær tóku til taka við sér aftur og skapa þar með tekjur og störf í þeim byggðarlögum sem mest áttu undir veiðum og vinnslu þessara tegunda. Þetta ástand hefur nú varað í nálægt tvo áratugi og samkvæmt Hafrannsóknastofnuninni virðist ekkert benda til að úr rætist hvað þessa stofna varðar á komandi árum. Ákvæði þetta til bráðabirgða gerir því ráð fyrir að þeim aflaheimildum sem hefur verið úthlutað undanfarin ár til eins árs í senn með úthlutun til skel- og rækjubáta verði nú að hluta gerðar varanlegar með því að úthluta handhöfum þessara aflaheimilda aflahlutdeild eins og rakið er hér að framan. Er með þessu tryggður meiri fyrirsjáanleiki í rekstri þeirra fyrirtækja sem svo mjög eru háð þessum aflaheimildum og þar með meiri festa í byggðarlögunum sem þessi fyrirtæki starfa í. Er það jafnframt í samræmi við markmið frumvarpsins um byggðaráðstafanir og byggðafestu. Í ákvæðinu er ráðgert að handhafar skel- og rækjubóta fái úthlutað í formi aflahlutdeildar magni sem nemur um 80% af þeim aflaheimildum sem þeir hafa fengið á undanförnum árum á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um stjórn fiskveiða og reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í þeirri grein. Er meðal annars með þessu tekið tillit til þess að aflahlutdeildir þessara aðila í skel og rækju falli ekki niður þrátt fyrir þá aflahlutdeild sem þeir fái nú úthlutað á grundvelli þessa ákvæðis til bráðabirgða.

Um b-lið (ákvæði til bráðabirgða XXIII).
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra skuli fyrir 31. desember 2026 láta óháðan aðila meta árangur aðgerða skv. 15. gr. a til 15. gr. h. og hvort þær hafi náð markmiði sínu. Jafnframt skuli meta fyrir lok tímabilsins hvort leggja þurfi fram tillögur til breytinga á lögunum, meðal annars um innbyrðis skiptingu aflaheimilda skv. 15. gr. b – 15. gr. h, eigi síðar en 31. desember 2026. Byggir framangreind tillaga á því að innbyrðis hlutföll í ráðstöfun umræddra 5,3% aflaheimilda milli einstakra verkefna skv. 15. gr. a – 15. gr. h séu fest til næstu 6 ára. Nýtt ákvæði til bráðabirgða kveður á um endurskoðun þessa fyrirkomulags að 6 árum liðnum. Jafnframt gerir þessi tillaga ráð fyrir því að árangur mismunandi útfærslna verði metinn á grundvelli hlutlægra mælikvarða og að reglur um atvinnu- og byggðakvóta verði eftir atvikum endurskoðaðar í ljósi niðurstöðunnar.
    

Um 7. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á lögum um Fiskistofu hvað snertir heimild til töku gjalds vegna úthlutunar aflaheimilda sem leiðir af breytingum á lögunum með nýrri 15. gr. d.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjöl.


Fylgiskjal I: Hlutdeild byggðarlaga í almennum byggðakvóta 2009/2010–2018/2019.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.a) Ekki byggðakjarni skv. Hagstofu Íslands. b) Tilheyrir vinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins (svæði 30) skv. Byggðastofnun.
Heimild:
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (2020). Endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda. Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta. Tafla 6 bls. 58.

Fylgiskjal II: Hlutdeild í línuívilnun 2009/2010–2018/2019.

Mannfj öldi

Hlutdeild í löndun línuívilnunar

Leiðrétt fyrir mannfjölda

Byggðarlag

1.1.2019

Sl. 3 ár

Sl. 10 ár

Hærri tala

Hlutfall

Hlutdeil d

Hlutfall

Akranes

7.463
64
68
68
1,6%
0
0,0%
Akureyri
18.769
5
4
5
0,1%
0
0,0%
Arnarstapia)
0
71
86
86
2,0%
86
2,3%
Árskógssandur
107
0
75
75
1,7%
75
2,0%
Bakkafjörður
69
46
36
46
1,1%
46
1,2%
Bíldudalur
208
14
15
15
0,3%
15
0,4%
Blönduós
867
0
0
0
0,0%
0
0,0%
Bolungarvík
931
590
870
870
20,2%
870
23,6%
Borgarfjörður Eystri
77
73
69
73
1,7%
73
2,0%
Breiðdalsvík
129
56
31
56
1,3%
56
1,5%
Brjánslækura)
0
1
1
1
0,0%
1
0,0%
Dalvík
1.381
10
32
32
0,7%
20
0,5%
Djúpivogur
364
134
131
134
3,1%
134
3,6%
Drangsnes
72
83
76
83
1,9%
83
2,3%
Eskifjörður
1.040
5
7
7
0,2%
6
0,2%
Fáskrúðsfjörðu r
702
0
1
1
0,0%
1
0,0%
Flateyri
201
69
103
103
2,4%
103
2,8%
Grindavík
3.423
94
125
125
2,9%
0
0,0%
Grímsey
61
12
51
51
1,2%
51
1,4%
Grundarfjörðu r
824
8
9
9
0,2%
9
0,3%
Hafnarfjörður
29.799
5
35
35
0,8%
0
0,0%
Hauganes
118
0
1
1
0,0%
1
0,0%
Hofsós
142
13
23
23
0,5%
23
0,6%
Hornafjörður
1.710
24
19
24
0,6%
7
0,2%
Hólmavík
322
106
102
106
2,5%
106
2,9%
Hrísey
167
0
43
43
1,0%
43
1,2%
Húsavík
2.323
4
10
10
0,2%
0
0,0%
Hvammstangi
573
0
12
12
0,3%
12
0,3%
Ísafjörður
2.706
11
56
56
1,3%
0
0,0%
Keflavík
18.920
1
6
6
0,2%
0
0,0%
Kópasker
121
0
1
1
0,0%
1
0,0%
Kópavogur
36.975
1
12
12
0,3%
0
0,0%
Neskaupstaður
1.469
2
15
15
0,3%
8
0,2%
Norðurfjörðura )
40
0
2
2
0,1%
2
0,1%
Ólafsfjörður
787
18
8
18
0,4%
18
0,5%
Ólafsvík
1.000
453
360
453
10,5%
453
12,3%
Patreksfjörður
675
44
78
78
1,8%
78
2,1%
Raufarhöfn
168
2
38
38
0,9%
38
1,0%
Reyðarfjörður
1.348
0
1
1
0,0%
0
0,0%
Reykjavík
128.793
13
18
18
0,4%
0
0,0%
Rif
138
130
280
280
6,5%
280
7,6%
Sandgerðib)
1.803
111
179
179
4,2%
35
1,0%
Sauðárkrókur
2.612
8
4
8
0,2%
0
0,0%
Seyðisfjörður
673
2
4
4
0,1%
4
0,1%
Siglufjörður
1.184
106
251
251
5,8%
205
5,6%
Skagaströnd
443
249
224
249
5,8%
249
6,7%
Stykkishólmur
1.198
10
45
45
1,0%
36
1,0%
Stöðvarfjörður
181
44
48
48
1,1%
48
1,3%
Suðureyri
264
247
270
270
6,3%
270
7,3%
Súðavík
168
2
2
2
0,0%
2
0,1%
Tálknafjörður
239
47
82
82
1,9%
82
2,2%
Vestmannaeyj ar
4.301
3
10
10
0,2%
0
0,0%
Vopnafjörður
527
3
6
         6
0,1%
6
0,2%
Þingeyri
249
0
3
3
0,1%
3
0,1%
Þorlákshöfnb)
1.654
43
46
46
1,1%
16
0,4%
Þórshöfn
369
30
15
30
0,7%
30
0,8%
SAMTALS
280.847
3.069
4.096
4.303
100,0%
3.686
100,0%
a) Ekki byggðakjarni skv. Hagstofu Íslands. b) Tilheyrir vinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins (svæði 30) skv. Byggðastofnun.
Heimild:
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (2020). Endurskoðun á meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda. Skýrsla starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta. Tafla 8 bls. 60.