Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 650  —  325. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um stafrænar smiðjur.


     1.      Hver er framtíðarsýn ráðherra varðandi mótun umgjarðar um stafrænar smiðjur (FabLab-smiðjur) í kjölfar þess að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður?
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa um nokkurt skeið unnið að framtíðarstefnumótun um málefni stafrænna smiðja. Þessi vinna er á lokastigi og er gert ráð fyrir að byrjað verði að vinna eftir nýju skipulagi 1. janúar 2021. Lausnin byggist á aðkomu ráðuneytanna tveggja og sveitarfélaga, atvinnulífs og viðkomandi stofnana á hverju svæði. Framtíðarsýnin er sú að hér verði reknar öflugar stafrænar smiðjur hringinn í kringum landið enda gegna þær mikilvægu hlutverki í nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi. Mikilvægt er að rekstrargrundvöllur þeirra sé styrktur og umgjörð þeirra fest í sessi, en fjármögnun og rekstur stafrænu smiðjanna er með ýmsu móti og ekki samræmdur og búa þær því nú við misjafnan kost.

     2.      Hvaða stofnanir munu sinna verkefnum sem varða rekstur og þróun stafrænna smiðja á Íslandi og hvaða verkefnum mun hver stofnun sinna?
    Í áætlunum um framtíðarskipulag stafrænna smiðja er gert ráð fyrir að hér eftir sem hingað til verði FabLab Ísland miðpunktur og samræmingaraðili varðandi þróun stafrænna smiðja. Sem fyrr verður FabLab Ísland starfrækt sem hluti af stafrænu smiðjunni í Vestmannaeyjum en í nýju skipulagi verður hún hluti af Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Hver smiðja verður sjálfstæð um sinn rekstur og verður gerður sérstakur samningur um rekstur hverrar og einnar milli þeirra aðila sem koma að rekstrinum. Þær stofnanir sem koma hér við sögu eru t.d. viðkomandi skólar, þekkingarsetur og aðrir svæðisbundnir lykilaðilar á sviði menntunar, rannsókna, menningar og atvinnulífs auk ráðuneytis nýsköpunarmála og ráðuneytis menntamála.

     3.      Hversu miklu fjármagni verður úthlutað til stafrænna smiðja í heild samkvæmt núverandi áætlun og hversu miklu til hvers verkefnis um sig?
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fyrirhugar að leggja ríflega 50 millj. kr. til stafrænna smiðja. Þar af er gert ráð fyrir að hver smiðja fái að lágmarki í sinn hlut 4 millj. kr. Er það í flestum tilfellum umtalsvert hærra framlag en þær fengu áður frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur jafnframt til 36 millj. kr. til stafrænu smiðjanna.

     4.      Hversu lengi verður rekstur hverrar stafrænnar smiðju um sig tryggður samkvæmt núverandi áætlun?
    Í þeim samningsdrögum sem unnið er út frá er gert ráð fyrir þriggja ára samningstíma. Þessi tímamörk eru hugsuð út frá því að í lok hans verður komin reynsla á nýtt samningsform og hægt að gera breytingar ef þurfa þykir.