Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 656  —  422. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um ættliðaskipti bújarða.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að sérhverjum jarðeiganda verði heimilt að ráðstafa jörð sinni á milli ættliða. Heimilt verði að ráðstafa jörð til lögerfingja með hagkvæmum hætti og án þess að slík ráðstöfun myndi stofn til greiðslu erfðafjárskatts eða íþyngjandi skuldir viðtakanda jarðarinnar til annarra lögerfingja.

Greinargerð.

    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði gert að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að jarðeigendum verði heimilt með einföldum hætti að ráðstafa jörð sinni milli ættliða. Markmið tillögunnar er að treysta búrekstur í landinu og að gera ábúendum jarða auðveldara að ráðstafa jörð innan ættar.
    Til þess að tryggja nýliðun í landbúnaði er mikilvægt að ungir bændur eigi þess kost að eignast jörð eldri kynslóða án þess að stofna til þungrar skuldabyrði. Oft er það vilji þeirra sem eignast jörðina að henni verði ráðstafað innan fjölskyldunnar og jafnvel til tiltekins ættingja sem hyggst halda áfram búskap á henni. Það getur hins vegar verið verulegum vandkvæðum bundið að ráðstafa slíkum jörðum til yngri kynslóða án þess að slíkt stofni til íþyngjandi skulda fyrir viðkomandi. Verðmæti bújarða hefur í mörgum tilvikum aukist verulega vegna uppbyggingar á þeim undanfarin ár og því getur reynst erfitt fyrir næstu kynslóðir að kaupa þær af foreldrum eða meðerfingjum. Vegna þessa hafa margir þurft að búa við þunga skuldabyrði vegna kaupanna eða þurft að hverfa frá jörðunum og búskapur á þeim lagst niður.
    Sé það vilji jarðeiganda að ráðstafa jörðinni með gjafagerningi eða fyrirframgreiðslu upp í arf er slík ráðstöfun skattskyld samkvæmt lögum um tekjuskatt eða lögum um erfðafjárskatt. Ef jörðin er seld undir markaðsvirði til þess að tryggja áframhaldandi búrekstur hefur Skatturinn einnig litið svo á að um skattskylda gjöf sé að ræða. Þegar verðmæti jarðarinnar er töluvert getur það verið afar íþyngjandi fyrir viðtakanda að fjármagna kaup á jörðinni á markaðsvirði eða standa straum af þeim opinberu gjöldum sem leggjast á framangreinda gerninga. Þessar hindranir skapa óneitanlega hvata til þess að jarðir séu seldar hæstbjóðanda á almennum markaði.
    Í greinargerð með frumvarpi til laga um ættaróðal og erfðaábúð frá árinu 1943 segir að markmið laganna sé að draga úr þeirri skuldabyrði sem fylgir því að ungir bændur kaupi jarðir af foreldrum sínum eða meðerfingjum. Sú skuldabyrði olli því að kaupendur gátu oft litlu áorkað til umbóta á jörðum sínum. Eftir brottfall ákvæða um heimild til stofnunar nýrra ættaróðala úr jarðarlögum er staðan alls ekki ólík. Því er tilefni til þess að farið verði í heildræna endurskoðun á því hvernig haga megi ættliðaskiptum á bújörðum til framtíðar þannig að nýliðun verði sem allra mest og að ungir bændur geti tekið við búum af eldri kynslóðum án þess að þurfa að taka á sig óviðráðanlega skuldabyrði.