Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 664  —  381. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu.


     1.      Er hafinn undirbúningur að mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu, í samræmi við ályktun Alþingis nr. 43/150?
    Undirbúningur að mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu, í samræmi við ályktun Alþingis nr. 43/150, er hafinn í félagsmálaráðuneytinu. Undirbúningsvinnan hefur farið fram samhliða vinnu vegna þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til næstu fjögurra ára í samræmi við 7. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012. Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda er í senn stefnumótunarskjal og framkvæmdaáætlun og byggist framkvæmdaáætlunin á fimm stoðum, þ.e. samfélagi, fjölskyldu, menntun, atvinnumarkaði og flóttafólki. Við mótun framkvæmdaáætlunar var leitað til fjölda aðila sem hafa þekkingu á málefnum innflytjenda. Alls var óskað eftir tillögum frá 106 aðilum og bárust svör frá 23. Unnið var úr innsendum hugmyndum og tillögum og í kjölfarið var fundað með fjölda fag- og hagsmunaaðilum hjá samtökum, sveitarfélögum og stofnunum og fengnar umsagnir og frekari ábendingar. Drög að framkvæmdaáætluninni verða kynnt í samráðsgátt innan skamms og verður þingsályktunartillagan lögð fyrir Alþingi eftir áramót.
    Í samræmi við ályktun Alþingis nr. 43/150, um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu, er áhersla lögð á heildarstefnumótun í málaflokknum sem fyrstu aðgerð í þingsályktunartillögu um málefni innflytjenda. Til þess að tryggja gæði og árangur stefnumótunarvinnunnar er lagt til að settur verði á fót starfshópur undir stjórn félags- og barnamálaráðherra sem verði falið að taka saman grænbók sem hluta af stefnumótunarferli stjórnvalda. Þar verði safnað saman gögnum um málefni innflytjenda og fjölmenningar á Íslandi, samanburður við önnur lönd og umfjöllun um ólíkar leiðir og áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa. Við gerð grænbókarinnar verði almenningi og hagsmunaaðilum boðið að taka þátt og leggja fram sjónarmið um áherslur, mögulegar lausnir og leiðir að árangri. Drög að grænbókinni mun fara í opið samráðsferli í samráðsgátt. Að loknu samráði um grænbók verði mótuð hvítbók þar sem fjallað er um niðurstöður samráðs, framtíðarsýn fyrir málaflokkinn, markmið og aðgerðir sem stjórnvöld áforma að leggja fram í nýrri stefnu.

     2.      Hverjar verða helstu áherslur og forgangsatriði ráðherra í málaflokknum?
    Helstu áherslur og forgangsatriði ráðherra í málaflokknum eru í samræmi við meginmarkmið laga um málefni innflytjenda, nr.116/2012, en þau eru að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Því markmiði verður m.a. náð með því að:
          Hagsmunir innflytjenda séu samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera.
          Stuðla að víðtæku samstarfi og samþættingu aðgerða og verkefna milli allra aðila sem koma að málefnum innflytjenda.
          Efla fræðslu og miðlun upplýsinga um málefni innflytjenda og samfélag án fordóma.
          Stuðla að og styðja við rannsóknir og þróunarverkefni í málefnum innflytjenda.
    Áhersla hefur verið lögð á að aðgerðir sem tengjast viðbrögðum stjórnvalda vegna COVID-19 nái til innflytjenda og má þar nefna að aukna áherslu á aðgengilegar upplýsingar á fjölda tungumála, ráðgjöf til innflytjenda og að tryggt sé að þær aðgerðir sem verið er að grípa til í þágu barna nái einnig til barna af erlendum uppruna. Þá hefur aukin áhersla verið á málefni flóttafólks og er unnið að því að innleiða samræmda móttöku fyrir flóttafólk, óháð því hvernig það kemur landsins. Í því felst meðal annars umfangsmeiri ráðgjöf hjá Vinnumálastofnun, samfélagsfræðsla fyrir flóttafólk, aukinn stuðningur hjá móttökusveitarfélögum og Fjölmenningarsetur hefur verið styrkt.
    Vinna við gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda hefur því miður tafist á þessu ári en stefnt er að því að kynna drögin í samráðsgátt innan skamms og þar eru tilgreindar helstu áherslur og forgangsatriði þessarar ríkisstjórnar. Ný framkvæmdaáætlun mun áfram byggjast á fimm stoðum:
    1. Samfélagsstoð: Í samfélagsstoð er dregin fram áherslan á stefnumótun, aðgengi innflytjenda að þjónustu ríkis og sveitarfélaga, fræðslu til starfsfólks og þekkingarmiðlun með það að leiðarljósi að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.
    2. Fjölskyldustoð: Í fjölskyldustoð eru dregnar fram þær aðgerðir sem snúa að málefnum fjölskyldna og barna, félagslegs öryggis og velferðar. Aðgerðum undir fjölskyldustoð er ætlað að stuðla að aukinni þátttöku innflytjenda á öllum sviðum samfélagsins. Þar er m.a. lögð áhersla á aukna þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og virkniúrræði fyrir ungmenni sem hvorki eru í námi né vinnu, að styrkja stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði, auka stuðning við börn með fötlun og fjölskyldur þeirra og draga úr félagslegri einangrun aldraðra af erlendum uppruna.
    3. Menntastoð: Í menntastoð er áherslan lögð á mikilvægi þess að styðja við börn af erlendum uppruna í íslensku menntakerfi til þess að tryggja farsæla skólagöngu þeirra og virkni til þátttöku í samfélaginu. Þá er áhersla lögð á þróun menntakerfisins til þess að aðlaga það fjölbreyttum nemendahópi á öllum skólastigum sem og framhaldsfræðslu.
    4. Vinnumarkaðsstoð: Áhersla er lögð á aðgerðir til þess að draga úr atvinnuleysi meðal innflytjenda, launajafnrétti, jöfn tækifæri og réttindi á íslenskum vinnumarkaði.
    5. Flóttafólk: Áhersla er lögð á flóttafólk á Íslandi fái nauðsynlega aðstoð til virkrar þátttöku í samfélaginu hvort sem er á vinnumarkaði, til náms eða á öðrum sviðum. Unnið hefur verið að því að samræma þjónustu og stuðning við allt flóttafólk, jafnt þeirra sem til landsins koma fyrir milligöngu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og þeirra sem fá hér alþjóðlega vernd.
    Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda er í senn stefnumótunarskjal og framkvæmdaáætlun þar sem verkefnin hafa það að markmiði að stuðla að samfélagi þar sem allir einstaklingar geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.

     3.      Hvenær áætlar ráðherra að stefnan komist til framkvæmda?
    Þegar þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda hefur verið samþykkt hefst stefnumótunarvinna samkvæmt henni.