Ferill 423. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 669  —  423. mál.




Beiðni um skýrslu


frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi.

Frá Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Birni Leví Gunnarssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Ingu Sæland, Kolbeini Óttarssyni Proppé, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Söru Elísu Þórðardóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins og tengdra félaga í íslensku atvinnulífi. Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      Fjárfestingar útgerðarfélaganna í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu 10 árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019.
     2.      Fjárfestingar tengdra eignarhaldsfélaga útgerða í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu 10 árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019.
     3.      Fjárfestingar dótturfélaga útgerðarfélaganna og dótturfélaga tengdra eignarhaldsfélaga í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu 10 árum og bókfært virði þeirra eignarhluta í árslok 2019.
     4.      Raunverulegir eigendur þeirra félaga sem getið er í 1.–3. tölul.
     5.      Samantekt á eignarhlut 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi byggt á framangreindum gögnum.
    Upplýsingar nái til allra félaga sem getið er í 1.–3. tölul. hvort sem þau eru skráð hér á landi eða erlendis.

Greinargerð.

    Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu með samantekt á raunverulegu eignarhaldi eigenda 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í þeim fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum.
    Með útgerðarfélögum er átt við félög sem eiga aflaheimildir og stunda útgerð. Til 20 stærstu teljast þau sem á yfirstandandi fiskveiðiári áttu mestar aflahlutdeildir í þorskígildistonnum. Með tengdum eignarhaldsfélögum er átt við eignarhaldsfélög sem eiga hlut í útgerðarfélögum og eignarhaldsfélög sem eiga hlut í þeim eignarhaldsfélögum sem hlut eiga í útgerðarfélögum. Með dótturfélögum er átt við félög sem útgerðarfélög eða eignarhaldsfélög þeirra eiga meiri hluta atkvæða í og félög sem þau fara að öðru leyti með yfirráð í vegna hlutafjáreignar eða samninga. Skal skýrslan ná til fjárfestinga allra eignarhalds- og dótturfélaga óháð því hvort þau séu skráð hér á landi eða erlendis. Fjárfestingar sl. 10 ára skulu teknar fram og bókfært virði þeirra í árslok 2019.
    Hinar umbeðnu upplýsingar er að finna í opinberum skrám og heimildum, svo sem hjá Fiskistofu, í fyrirtækjaskrá og ársreikningaskrá og eftir atvikum hjá samsvarandi erlendum stofnunum. Þótt upplýsingar þessar séu opnar almenningi er það vart á færi nema sérfróðra aðila að vinna þær upplýsingar sem um er beðið og skapa þá yfirsýn sem eftir er leitað. Við það bætist að með mikilli fjölgun eignarhaldsfélaga, eignarhaldskeðjum og krosseignarhaldi hefur dregið mjög úr gagnsæi í atvinnurekstri sem gerir almenningi ókleift að fylgjast með mikilvægum þáttum í athafnalífinu. Á það einnig við um sjávarútveg og starfsemi sem honum tengist og er tilgangur skýrslubeiðninnar m.a. að veita almenningi mikilvægar upplýsingar um hvernig hagnaði og arði af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur verið varið. Vegna hins flókna eignarhalds er því í beiðninni einnig óskað eftir upplýsingum um fjárfestingar eignarhaldsfélaga að sjávarútvegsfyrirtækjum, svo og dótturfélaga þeirra.
    Sjávarútvegur er ein mikilvægasta stoð íslensks efnahagslífs. Eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hefur batnað verulega frá hrunsárunum og stóð bókfært eigið fé þeirra í 276 milljörðum kr. við lok árs 2018, samkvæmt gagnagrunni Deloitte um afkomu sjávarútvegsins 2018. Vísbendingar eru um að fjárfestingar þeirra út fyrir greinina hafi aukist í samræmi við það. Það er jákvætt að því leyti að það dreifir áhættu félaganna sjálfra en getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar sinnar er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni.
Ljóst er að sterk fjárhagsstaða útgerðarfélaga byggist á einkaleyfi þeirra til nýtingar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar og skipar það þeim í sérflokk í íslensku atvinnulífi, sérstaklega stærstu félögunum. Tækniframfarir og samþjöppun fyrirtækja hafa enn fremur aukið arðsemi útgerðanna.
    Vegna þessarar stöðu telja skýrslubeiðendur mikilvægt að upplýsingar um eignarhluti 20 stærstu útgerðarfélaganna og tengdra aðila í óskyldum atvinnurekstri hérlendis séu teknar saman, með greiningu á fjárfestingum þeirra. Með þessum upplýsingum er hægt að varpa ljósi á raunveruleg áhrif aðila sem hafa einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Yrði skýrsla þessi mikilvægt framlag til umræðunnar um dreifða eignaraðild útgerðarfélaga og skráningu þeirra á markað.