Ferill 337. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 685  —  337. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 110/2020.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið til sín gesti frá umsagnaraðilum auk fulltrúa frá nokkrum ráðuneytum. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins kynntu frumvarpið á fundi með nefndinni. Fulltrúar félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis kynntu tillögur sem heyra undir þessi ráðuneyti og svöruðu spurningum nefndarmanna varðandi þær.
    Fulltrúi BSRB, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, kom á fund nefndarinnar en tíu aðrir aðilar sendu erindi til nefndarinnar og fulltrúi eins þeirra, Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál, kom á fund nefndarinnar.

Lög um opinber fjármál.
    Frumvarpið byggist á 26. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Þar kemur fram að ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með öðrum úrræðum sem tilgreind eru í lögunum. Þá er í 24. gr. laganna fjallað um almennan varasjóð A-hluta. Kveðið er á um að gera skuli ráð fyrir varasjóði sem skuli nýta með sömu skilyrðum og sett eru fyrir að leita aukinna heimilda með fjáraukalögum.
    Í greinargerð frumvarpsins er gerð grein fyrir nýtingu almenns varasjóðs. Í 34. gr. laga um opinber fjármál kemur fram að við eftirlit með fjármálum innan ársins skuli nýta varasjóði einstakra málefnasviða til þess að draga úr þörfinni fyrir fjáraukalög. Ríkisendurskoðun hefur bent á nauðsyn þess að fullnýta beri varasjóði málefnasviða áður en kemur að mati á því hvort útgjöld falli undir skilyrði fjáraukalaga eður ei.
    Að öllu jöfnu samþykkir Alþingi aðeins ein fjáraukalög á ári, en sökum efnahagslegra áhrifa af COVID-19-faraldrinum hefur Alþingi nú þegar samþykkt fern fjáraukalög það sem af er árinu. Þetta er því fimmta fjáraukalagafrumvarp ársins 2020 sem lagt er fram á Alþingi.
    Í greinargerð frumvarpsins er upprifjun á tilgangi og fjárheimildum fyrri fjáraukalaga ársins.

Helstu útgjaldamál frumvarpsins.

    Að stærstum hluta til má rekja útgjaldabreytingar frumvarpsins til heimsfaraldursins. Tillögunum má skipta í tvennt. Annars vegar vegna aukins kostnaðar sem faraldurinn hefur haft í för með sér og hins vegar auknar fjárheimildir vegna viðbótarmótvægisaðgerða sem ætlað er að milda félagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins.
    Tafla á bls. 51 í greinargerð frumvarpsins gefur gott yfirlit yfir tilefni tillagna í frumvarpinu. Samandregin útgáfa er eftirfarandi:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tekjufallsstyrkir og aðrar mótvægisráðstafanir.
    Áætlun um tekjufallsstyrki nemur 23,3 milljörðum kr. Af öðrum ráðstöfunum vegur þyngst 2,1 milljarður kr. í aukin framlög til sveitarfélaga og sama fjárhæð vegna tímabundinnar lengingar tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

Aukið atvinnuleysi og önnur útgjöld vegna COVID-19.
    Útgjöld vegna aukins atvinnuleysis eru 29,5 milljarðar kr. og vega þau langþyngst í þessum flokki útgjalda. Gerðar eru tillögur um að bæta aukinn rekstrarkostnað heilbrigðiskerfisins um sem nemur 6,2 milljörðum kr. Önnur útgjaldatilefni dreifast á marga málaflokka og málefnasvið, svo sem 1.050 millj. kr. samtals til framhaldsskóla- og háskólakerfisins vegna fjölgunar nemenda. Allar tillögurnar eru skýrðar og rökstuddar í greinargerð frumvarpsins. Þá er jafnframt í einhverjum tilvikum gert ráð fyrir að bæta stofnunum rekstrartekjutap vegna faraldursins. Í þeim tilvikum lækka rekstrartekjur og gjaldaheimild er þá hækkuð um samsvarandi fjárhæð á móti.

Lækkun á hlutabótaleið og launa í sóttkví.
    Í ljósi endurmats á þessum tveimur mótvægisráðstöfunum kemur í ljós að þær hafa ekki verið nýttar í þeim mæli sem áætlað var í upphafi og samtals er tillaga um 13,6 milljarða kr. lækkun vegna þess.

Útgjöld, önnur en þau sem tengjast COVID-19.
    Af 9,9 milljarða kr. útgjöldum í þessum flokki munar mest um 5,5 milljarða kr. vegna endurmats á lífeyrisskuldbindingum. Þar munar mest um auknar greiðslur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna þeirra sem eru nú þegar á eftirlaunum. Næstmest vega tæpir 2 milljarðar kr. vegna fjölgunar þeirra sem fá endurhæfingarlífeyri. Endurmat á nokkrum veigamiklum málefnasviðum, svo sem lyfjakostnaði, erlendri sjúkrahúsþjónustu o.fl., vegur samtals 1,5 milljarða kr. Endurmat á útgjaldahorfum ellilífeyris leiðir til 1,4 milljarða kr. hækkunar. Önnur tilefni vega minna og eru skýrð í greinargerð frumvarpsins.

Endurmat á afkomu ríkissjóðs fyrir árið 2020.
    Í greinargerð frumvarpsins er yfirlit sem sýnir glöggt efnahagsleg áhrif faraldursins þegar áætlun fjárlaga er borin saman við núverandi horfur. Að teknu tilliti til breytingartillagna við frumvarpið er nú gert ráð fyrir að tekjur ríkisins verði í kringum 794 milljarðar kr. sem er lækkun um 115 milljarða kr. frá fjárlögum, eða 13%. Þá er gert ráð fyrir að útgjöld á árinu verði 149 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum. Af þessu leiðir að afkoma ársins 2020 verður miklum mun lakari en upphaflega var gert ráð fyrir, eins og fram kemur í eftirfarandi töflu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram hefur komið má rekja breytingarnar að stærstu leyti til viðbragða við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins. Meiri hluti nefndarinnar hefur rakið þau viðbrögð í nefndarálitinu sínu um fjárlagafrumvarp 2021. Auk þess er gerð grein fyrir þeim í kafla greinargerðar fjáraukalagafrumvarpsins sem fjallar um endurmat á afkomu ársins 2020.

Breytingartillögur.
    Umfangsmestu breytingartillögurnar eru skýrðar í þessum kafla. Þær taka eingöngu til gjaldahliðar fjárlaga auk heimildargreina í 5. og 6. gr. fjárlaga. Áætlun um tekjur er ekki uppfærð í breytingartillögum en skilar sér í endurmati á afkomuhorfum.

Gjöld ríkissjóðs.
    Gerðar eru tillögur til breytinga sem samtals hækka gjöldin á rekstrargrunni um 5.225 millj. kr. Að auki er gerð tillaga um hækkun greiðsluheimildar um 336 millj. kr. vegna tapaðra rekstrartekna.
    Mesta aukningin er gerð á málefnasviði 32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála þar sem gert er ráð fyrir um 1,8 milljörðum kr. vegna breyttrar framsetningar á umfangi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Tillagan hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir samsvarandi hækkun rekstrartekna á móti gjaldaheimildinni.
    Næstmesta aukningin eru tillögur á málefnasviði 23 Sjúkrahúsþjónusta eða samtals tæplega 1,6 milljarðar kr. Þar er fyrst og fremst um að ræða tillögur til að mæta ófyrirséðum kostnaði Landspítalans vegna COVID-19-faraldursins. Munar þar mest um 1,3 milljarða kr. til að mæta kostnaði vegna varabirgða. Vegna faraldursins voru keyptar birgðir til spítalans svo sem hlífðarbúnaður, nauðsynleg lyf og tækjabúnaður sem ætlað er að auka skilvirkni við greiningu á faraldrinum.
    Í þriðja lagi er gerð 1.251 millj. kr. tillaga um hækkun fjárheimilda á málefnasviði 07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar vegna styrkja til nýsköpunarfyrirtækja en ljóst er að endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar verða umfram áætlanir sem þessu nemur.
    Einnig eru tvær tillögur á málefnasviði 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál vegna tekjufalls íþrótta- og æskulýðsfélaga. Annars vegar er um að ræða 300 millj. kr. fjárheimild til íþróttafélaga og hins vegar 50 millj. kr. til stuðnings æskulýðsfélögum vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Tekjufall félaga vegna fastra rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir hafa staðið yfir hefur komið í veg fyrir eðlilega starfsemi og er markmið tillagnanna að tryggja rekstrargrundvöll íþrótta- og æskulýðsfélaga. Að auki eru gerðar nokkrar aðrar tillögur á þessu málefnasviði til að styrkja rekstur stofnana sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tapi vegna heimsfaraldursins, þ.e. Listasafns Íslands, Borgarleikhússins og Menningarfélags Akureyrar.
    Þá er lagt til að auka fjárheimild málefnasviðs 12 Landbúnaður samtals um 60 millj. kr. vegna tveggja millifærslna af málefnasviði 13 Sjávarútvegur sem lækkar að um sömu fjárhæð. Hér er annars vegar brugðist við tekjutapi Matvælastofnunar vegna áhrifa af COVID-19 og hins vegar verið að mæta raunkostnaði vegna samnings um bakvaktir dýralækna.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. framlag til Ríkisútvarpsins vegna aukins kostnaðar af völdum heimsfaraldursins. Tillagan kemur til viðbótar 55 millj. kr. sem fyrir eru í frumvarpinu af sama tilefni.
    Á móti þessum útgjaldatillögum er gerð tillaga til lækkunar á málefnasviði 10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála vegna leiðréttingar á greiðendum sóknargjalda samkvæmt reiknilíkani en gert var ráð fyrir meiri fjölgun á milli ára en raunin varð.
    Að lokum eru tvær tillögur um hækkun greiðsluframlags. Annars vegar 246 millj. kr. tillaga vegna tekjutaps af völdum faraldursins hjá Sjúkrahúsi Akureyrar en ekki tókst að framkvæma þann fjölda aðgerða til að stytta biðlista sem ráðgert var. Greitt hefur verið sérstaklega fyrir þessar aðgerðir. Það að sjúkrahúsið fái ekki greitt hefur áhrif á greiðslur úr ríkissjóði en útgjaldaheimild stofnunarinnar er óbreytt.
    Hins vegar er 90 millj. kr. tillaga um framlag til Sinfóníuhljómsveitar Íslands vegna rekstrartekna sem hafa tapast vegna takmarkana á tónleikahaldi vegna faraldursins. Samkomutakmarkanir hafa leitt til mikils rekstrartekjufalls hjá hljómsveitinni.

Heimildarákvæði.
    Meiri hlutinn gerir þrjár tillögur um breytingar á 6. gr. fjárlaga, en í þeirri grein er að finna heimildir til að kaupa og selja eignir og ganga til samninga um ýmis mál og tvær breytingar við 5. gr. fjárlaga sem fjallar um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir.
    Þar er lagt til að komi inn tvö ný ákvæði. Annars vegar að heimila Húsnæðissjóði að taka lán, allt að 23.000 millj. kr. og hins vegar að endurlána allt að 6.125 millj. kr. til Húsnæðissjóðs vegna útlána sjóðsins.
    Til skýringar á þessu þá er lánaumsýsla Húsnæðissjóðs í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Húsnæðisjóðurinn hefur það hlutverk að fjármagna lánveitingar á samfélagslegum forsendum samkvæmt lögum um húsnæðismál og hluta af rekstri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í samræmi við lög um opinber fjármál þarf í frumvarpi til fjárlaga að gera grein fyrir heimildum ríkisaðila í A- og B-hluta til lántöku og endurlána. Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er miðað við heildarútlán verði um 23 milljarðar kr. á árinu 2020. Þar af hafa þegar verið veittir 17 milljarðar kr. Um helmingur af þeim 6 milljörðum kr. sem standa út af eru 3 milljarðar kr. vegna hlutdeildarlána, óverulegur hluti þeirrar fjárhæðar verður greiddur út á árinu 2020 þrátt fyrir að lánsloforð verði gefin út.
    Tillögur til breytinga á 6. gr. fjárlaga eru þrjár.
    Í fyrsta lagi er: Gerð er tillaga um að leggja allt að 190 millj. kr. hlutafé í Keili ehf. þannig að ríkissjóður verði meirihlutaeigandi félagsins gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum greiði jafnframt til viðbótar 180 millj. kr. inn í félagið.
    Hér er um nýja grein að ræða og í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um að bregðast við skuldavanda Keilis og til að efla atvinnu- og menntaúrræði á Suðurnesjum er lagt til að við greinina bætist nýr liður til að heimila ríkissjóði að leggja hlutafé inn í Keili ehf. og verði þar með meirihlutaeigandi félagsins. Heimildin er jafnframt bundin því skilyrði að sveitarfélögin á Suðurnesjum leggi einnig hlutafé inn í félagið. Hlutafé núverandi eiganda verður því fært nær alfarið niður og þar með verður eignarhald skólans komið í hendur ríkis og sveitarfélaga á svæðinu.
    Heimildin kemur til vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Keilis en talið er að starfsemi skólans sé mikilvæg samfélaginu á Suðurnesjum. Af þeim sökum hefur verið unnið að því að kanna forsendur fyrir framhaldi þeirra námsbrauta sem skólinn hefur boðið upp á og skoða hvernig fjárframlög ríkisins til menntunar á svæðinu myndu nýtast best til að auka hæfni atvinnuleitenda sem og annarra íbúa svæðisins.
    Í öðru lagi er gerð er tillaga um að bæta við heimildargrein sem samþykkt var í fyrstu fjáraukalögum ársins og tengdist þingsályktun um fjárfestingarátak. Vegna þess að fjárfestingarátakið hefur ekki nýst skapandi greinum sem skyldi er lögð til breyting á grein nr. 7.28 þar sem vikið er frá almennum skilyrðum um dagsetningar og að við greinina bætist: Vegna framlaga til menningar og lista sem ákvörðuð voru í fjárfestingarátakinu er hins vegar heimilt að miða við að verkefni hefjist eigi síðar en 1. janúar 2021 og sé að fullu lokið 1. desember 2021.
    Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting við grein sem tengist svokölluðum stuðningslánum, í því skyni að greinin taki tillit til hugsanlegra breytinga á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila. Breytt grein væri þá svohljóðandi:
     Að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs á höfuðstól lána, að meðtöldum vöxtum, til að styðja við einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og hafa orðið fyrir tímabundnum skakkaföllum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Heimildin verður nýtt í samræmi við skilyrði sem kveðið er á um í lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Jafnframt er heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að annast umsýslu vegna ábyrgðar ríkissjóðs á lánum.


Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis.
    Gerð er tillaga um 5 millj. kr. framlag til umboðsmanns Alþingis vegna setts umboðsmanns samhliða kjörnum umboðsmanni frá 1. nóvember 2020 meðan sá síðarnefndi vinnur að gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Málaflokkurinn á ekki varasjóð að sækja í og ekki er hægt að hliðra til í starfseminni, m.a. vegna mikillar fjölgunar á kvörtunum

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
05.20 Eignaumsýsla ríkisins.
05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins.
05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála.
    Gerð er tillaga um að millifæra 77,4 millj. kr. af varasjóði málaflokks 05.10 yfir á varasjóð 05.40.
    Gerð er tillaga um að millifæra 10,2 millj. kr. af varasjóði málaflokks 05.20 yfir á varasjóð 05.40.
    Gerð er tillaga um að millifæra 30,8 millj. kr. af varasjóði málaflokks 05.30 yfir á varasjóð 05.40.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Í fjárlögum fyrir árið 2020 var gert ráð fyrir að styrkir til nýsköpunarfyrirtækja vegna endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði yrðu 3.934,2 millj. kr. Kostnaður á árinu er 5.185,6 millj. kr. Mismunurinn er 1.251,4 millj. kr. og er gerð tillaga til samræmis við það í þessu fimmta fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2020.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Gerð er tillaga um 2,5 millj. kr. aukið fjárfestingarframlag til lögreglustjórans á Norðurlandi vestra með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu.
    Gerð er tillaga um 106,3 millj. kr. aukið fjárfestingarframlag með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu. Tillagan er tilkomin vegna ranglega skráðrar hagrænnar skiptingar frá því þegar ný reikningsskil tóku gildi sem fjárlagaliðurinn tók ekki mið af.

09.20 Landhelgi.
    Gerð er tillaga um 181,7 millj. kr. aukið fjárfestingarframlag með breytingu á hagrænni skiptingu. Framlaginu er ætlað að mæta uppsöfnuðum undirbúningskostnaði við kaup á þremur nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna. 181,7 millj. kr. eru færðar af tegundinni önnur gjöld yfir á tilfærslur en kostnaður sem féll til vegna fyrirhugaðra kaupa var færður þangað. Til að mæta þessum kostnaði þarf að færa af tegundinni önnur gjöld en þar eru óráðstafaðar fjárheimildir vegna þyrlukaupanna.

09.30 Ákæruvald og réttarvarsla.
    Gerð er tillaga um 12 millj. kr. aukið fjárfestingarframlag til ríkissaksóknara með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu.

10 Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.20 Trúmál.
    Árið 2020 voru greiðendur sóknargjalda 228.251 en árið 2019 voru þeir 227.199. Gert var ráð fyrir meiri fjölgun á milli ára. Gerð er tillaga um leiðréttingar til samræmis á reiknilíkani sem nemur 46 millj. kr.

10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. breytingu á tegundaskiptingu af tilfærslum á laun.
    Gerð er tillaga um 25 millj. kr. framlag í því skyni að efla stuðning við aðlögun fanga aftur í samfélagið að lokinni afplánun. Gert er ráð fyrir að dómsmálaráðherra í samráði við félagsmálaráðherra geri samninga við stuðningsúrræði í málaflokkunum. Meðal þeirra sem aðila sem koma að verkefninu eru Vernd, Frú Ragnheiður, félagsvinir Rauða krossins og Afstaða.

12 Landbúnaður.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    Gerð er tillaga um að millifærðar verði 30 millj. kr. til Matvælastofnunar af lið 04-982 til að mæta tekjutapi stofnunarinnar vegna áhrifa af COVID-19. Tekjufallið skýrist af því að stofnunin komst ekki í eftirlit til bænda og fyrirtækja í vor þegar allt var lokað vegna COVID-19. Þannig er tekjufallið aðallega í heilbrigðiseftirliti og dýravelferð en í fyrstu bylgju stöðvuðu margir bændur utanaðkomandi heimsóknir á býlin þar sem um sérlega viðkvæman hóp er að ræða þegar kemur að smitum þar sem á hverju býli eru oft einungis einn eða tveir starfsmenn og því mjög afdrifaríkt ef veikindi koma upp.
    Gerð er tillaga um að millifærðar verði 30 millj. kr. til Matvælastofnunar af lið 04-982 til að mæta raunkostnaði samnings um bakvaktir dýralækna.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gerð er tillaga um að millifærðar verði 30 millj. kr. til Matvælastofnunar af lið 04-982 til að mæta tekjutapi stofnunarinnar vegna áhrifa af COVID-19. Tekjufallið skýrist af því að stofnunin komst ekki í eftirlit til bænda og fyrirtækja í vor þegar allt var lokað vegna COVID-19. Þannig er tekjufallið aðallega í heilbrigðiseftirliti og dýravelferð en í fyrstu bylgju stöðvuðu margir bændur utanaðkomandi heimsóknir á býlin þar sem um sérlega viðkvæman hóp er að ræða þegar kemur að smitum þar sem á hverju býli eru oft einungis einn eða tveir starfsmenn og því mjög afdrifaríkt ef veikindi koma upp.
    Gerð er tillaga um að millifærðar verði 30 millj. kr. til Matvælastofnunar af lið 04-982 til að mæta raunkostnaði samnings um bakvaktir dýralækna.

14 Ferðaþjónusta.
14.10 Ferðaþjónusta.
    Gerð er tillaga um 16 millj. kr. framlag til Ferðafélags Íslands til að tryggja opnun fjallaskála, aðstöðu og þjónustu á lykilstöðum yfir vetrartímann.
    Gerð er tillaga um 8 millj. kr. framlag til ferðafélagsins Útivistar til að halda uppi vetrarþjónustu í skálum félagsins í Básum á Goðalandi (á Þórsmerkursvæðinu) og á Fjallabakssvæðinu.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.10 Safnamál.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. framlag vegna tapaðra sértekna safnastofnana. Fjárhæðin verður sundurliðuð af ráðuneyti mennta- og menningarmála í tengslum við gerð fylgirits með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021. Við þá sundurliðun ber að horfa sérstaklega til tapaðra tekna Listasafns Íslands.

18.20 Menningarstofnanir.
    Gerð er tillaga um að veitt verði 90 millj. kr. greiðsluheimild til Sinfóníuhljómsveitar Íslands vegna rekstrartekna sem hafa tapast vegna takmarkana á tónleikahaldi vegna heimsfaraldurs COVID-19. Samkomutakmarkanir vegna COVID-19-faraldursins hafa leitt til mikils rekstrartekjufalls hjá hljómsveitinni. Í útkomuspá fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir því að tap rekstrartekna nemi allt að 250 millj. kr. Á móti er gert ráð fyrir að úr kostnaði dragi um 160 millj. kr. og nemur því mismunurinn 90 millj. kr. Ljóst er að ekki er svigrúm innan varasjóðs til að mæta nema að litlu leyti tekjutapi allra stofnana sem falla undir málaflokkinn.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. styrk til Borgarleikhússins vegna tekjufalls leikhússins vegna COVID-19.
    Gerð er tillaga um 20 millj. kr. framlag til Menningarfélags Akureyrar vegna tekjufalls og kostnaðarhækkana Hofs og LA.

18.30 Menningarsjóðir.
    Gerð er tillaga um 10 millj. kr. framlag til Skaftfells.

18.40 Íþrótta- og æskulýðsmál.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. fjárheimild á árinu 2020 til stuðnings æskulýðsfélögum vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Tekjufall æskulýðsfélaga á því tímabili sem samkomutakmarkanir hafa verið í gildi hefur komið í veg fyrir eðlilega starfsemi félaganna. Markmið stuðnings er að tryggja áframhaldandi faglegt æskulýðsstarf og rekstrargrundvöll félaganna þar sem tekjur er ein meginundirstaða rekstrar. Tillagan er hluti af áformum um 820 millj. kr. stuðning til íþrótta- og æskulýðsfélaga.
    Gerð er tillaga um 300 millj. kr. fjárheimild á árinu 2020 til stuðnings íþróttafélögum vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Tekjufall íþróttafélaga vegna fastra rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir hafa verið í gildi koma í veg fyrir eðlilega starfsemi félaganna. Markmið stuðnings er að tryggja áframhaldandi faglegt íþróttastarf og rekstrargrundvöll íþróttafélaga. Tillagan er hluti af áformum um 820 millj. kr. stuðning til íþrótta- og æskulýðsfélaga en óskað var eftir 470 millj. kr. við 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2021.

19 Fjölmiðlun.
19.10 Fjölmiðlun.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. framlag til Ríkisútvarpsins vegna aukins kostnaðar og tekjufalls í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Framlagið kemur til viðbótar við 55,2 millj. kr. sem er fyrir í frumvarpinu.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Gerð er tillaga um að færa 140 millj. kr. af rekstrarfjárveitingu Landbúnaðarháskóla Íslands yfir á fjárfestingarheimild hans. Fjárfestingarframlag skólans í fjárlögum fyrir árið 2020 er 17,2 millj. kr. Skólinn hefur staðið í verulegum fjárfestingum á árinu. Helstu tilefnin eru endurbætur á starfsstöð skólans að Reykjum í Ölfusi. Skólinn hefur einnig gert átak í endurnýjun á tækjum og búnaði, en umtalsverð uppsöfnuð þörf var fyrir hendi. Fyrir vikið er staðan á fjárfestingarframlagi skólans í október neikvæð um 90 millj. kr. Millifærslunni er ætlað að rétta af stöðu fjárfestingarframlagins og mæta þeim fjárfestingum sem áætlaðar eru það sem eftir lifir árs.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 246 millj. kr. hækkun greiðsluheimildar til Sjúkrahússins á Akureyri vegna ófyrirséðrar tekjulækkunar í heimsfaraldri COVID-19. Sértekjur spítalans hafa lækkað í faraldrinum um tæpar 250 millj. kr. sem skýrist m.a. af minni tekjum vegna biðlistaaðgerða, valkvæðra aðgerða og komugjalda sjúkratryggðra og ósjúkratryggðra. Við skil á upplýsingum til ráðuneytisins misfórst hjá stofnuninni að tiltaka sértekjutapið í því skjali sem unnið var með. Tillagan er gerð til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum sem skapast hafa vegna faraldursins. Ekki hefur verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál.
    Gerð er tillaga um 101 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til Landspítala til að mæta ófyrirséðum kostnaði vegna COVID-19. Við endurmat á rekstrarkostnaði spítalans er gert ráð fyrir um 3.246 millj. kr. í hreinan rekstur vegna faraldursins. Þær aðstæður sem unnið er við eru mjög erfiðar fyrir sjúkrahús og taka daglegum breytingum. Þannig getur óvæntur kostnaður fallið til vegna reksturs almennt með litlum fyrirvara. Tillagan er gerð til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum sem skapast hafa vegna faraldursins. Ekki hefur verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál.
    Gerð er tillaga um 1,3 milljarða kr. viðbótarfjárveitingu til Landspítala til að mæta kostnaði vegna varabirgða. Í faraldrinum voru keyptar birgðir til Landspítala, svo sem hlífðarbúnaður, nauðsynleg lyf og annar nauðsynlegur búnaður, og verður hann ekki bókfærður sem rekstrarkostnaður fyrr en notkun á sér stað á Landspítala og á öðrum heilbrigðisstofnunum á landinu öllu. Tillagan er gerð til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum sem skapast hafa vegna faraldursins. Ekki hefur verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál.
    Gerð er tillaga um 171 millj. kr. til Landspítala til að mæta kostnaði við nauðsynleg tækjakaup spítalans. Þær aðstæður sem unnið er við eru mjög erfiðar fyrir sjúkrahús og taka daglegum breytingum. Þannig getur komið í ljós með litlum fyrirvara að fjárfesta þarf í nauðsynlegum tækjabúnaði sem ekki var gert ráð fyrir. Endurmetin þörf á tækjakaupum Landspítala eru kaup á röntgenmóbílum og ómtækjum. BasePurifier-greiningartæki fyrir veirufræðideildina var bókað inn á síðari hluta ársins. Tilgangurinn með kaupunum er m.a. að auka skilvirkni við greiningu á COVID-19. Tillagan er gerð til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum sem skapast hafa vegna faraldursins. Ekki hefur verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum um opinber fjármál.

29 Fjölskyldumál.
29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Gerð er tillaga um breytingar á hagrænni skiptingu sem nemur 50 millj. kr. vegna fjárheimildar í fjárlögum fyrir árið 2020. Fjárheimild vegna framkvæmda á Stuðlum og hjá Barnaverndarstofu í Borgartúni var á öðrum gjöldum en gera þarf breytingar og færa á eignakaup svo að kostnaður vegna framkvæmdanna verði réttur í bókhaldi og hægt að taka tillit til fjárfestinga og afskrifta.
    Gerð er tillaga um millifærslu af öryggisvistun vegna höfuðstóls 2019 sem nemur 404 millj. kr. Fjárhæðin er á öðrum gjöldum á lið öryggisvistunar. Gera þarf millifærslu á annað viðfang og breyta hagrænni skiptingu svo að hægt verði að nota fjárhæðina til framkvæmda vegna byggingar húsnæðis til að hýsa einstaklinga sem þurfa öryggisgæslu eða öryggisvistun í Reykjanesbæ. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir 200 millj. kr. framlagi til byggingarinnar og bætist þessi fjárhæð við stofnkostnaðinn.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Gerð er tillaga að breyttri framsetningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í fjárlögum. Um áramótin 2019–2020 voru Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun sameinuð í eina stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Núverandi framsetning í fjárlögum á lið 07-322 endurspeglar einungis stöðu að því er varðar Mannvirkjastofnun en Íbúðalánasjóður var fyrir sameiningu stofnun í B-hluta. Gerð er tillaga um 1.853,3 millj. kr. framlag til að standa straum af verkefnum sem Íbúðalánasjóður sinnti áður en þau fluttust til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um síðustu áramót. Þessi verkefni felast m.a. í stefnumótun og áætlanagerð á sviði húsnæðismála, greiningu á húsnæðismarkaði, umsýslu lánasafna og þjónustu og ráðgjöf til lántakenda.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. framlag vegna innleiðingarkostnaðar laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, nr. 74/2020, sem samþykkt voru í júlí.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 17. desember 2020.

Willum Þór Þórsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Haraldur Benediktsson.
Páll Magnússon. Steinunn Þóra Árnadóttir.