Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 695  —  1. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sinn fund. Breytingartillögur meiri hlutans eru bæði á gjalda- og tekjuhlið frumvarpsins, auk 5. gr. um lántökur og 6. gr. um almennar heimildir.

Tekjur ríkissjóðs.
    Á tekjuhlið munar mest um tæplega 1,8 milljarða kr. vegna framlags Húsnæðissjóðs til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Framlagið er tengt samsvarandi hækkun á veltu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á gjaldahlið og hefur breytingin því engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Önnur veigamesta breytingin á tekjuhlið snýr að tekjuskatti einstaklinga þar sem gert er ráð fyrir 600 millj. kr. hækkun á árinu. Skýrist það af tveimur ástæðum. Annars vegar hefur úttekt á séreignarsparnaði reynst heldur meiri en áætlað var, og hins vegar hefur endurmat á launum í uppsagnarfresti og framlengingu hlutabótaleiðar leitt til hærri tekna en ætlað var og þar með hærri tekjuskatts.
    Aðrar breytingar á tekjuáætlun felast í rúmlega 200 millj. kr. lækkun veiðigjalda, að stærstum hluta vegna lægri álagna á fiskeldi en upphaflega var gert ráð fyrir, í 175 millj. kr. lækkun kolefnisgjalds, þar sem fallið hefur verið frá sérstakri fjármögnun nýrrar svæðisbundinnar flutningsjöfnunar, og í um 120 millj. kr. lækkun skila- og úrvinnslugjalda í ljósi endurmats. Þá er áætlun um sölu losunarheimilda lækkuð um 200 millj. kr. þar sem hluti viðbótarheimilda ársins 2021 mun renna í verðstöðugleikasjóð ETS-kerfisins.

Gjöld ríkissjóðs.
    Samtals eru gerðar tillögur um að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði auknar um 7,6 milljarða kr. vegna breyttra forsendna, ákvarðana um ný og aukin útgjöld og launaendurmats. Samtals nemur launaendurmatið rúmlega 1,7 milljörðum kr. til hækkunar.
Að þeim frátöldum nemur hækkunin 5,9 milljörðum kr. Ný og aukin útgjöld vegna nýrra ákvarðana nema tæpum 2,5 milljörðum kr. og skýrist það af nokkrum ástæðum.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 590 millj. kr. hækkun á málefnasviði 34 Almennur varasjóður og sértækum fjárráðstöfunum til að standa undir kaupum á tveimur eignum vegna heimildaákvæða skv. 6. gr. fjárlaga.
    Í öðru lagi er 470 millj. kr. tillaga til stuðnings íþróttafélögum vegna fastra rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir koma í veg fyrir eðlilega starfsemi þeirra. Markmið stuðnings er að tryggja áframhaldandi faglegt íþróttastarf og rekstrargrundvöll íþróttafélaga. Tillagan kom fram við 2. umræðu frumvarpsins og var þá á ábyrgð menntamálaráðuneytisins en er nú lögð fram að nýju á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins.
    Í þriðja lagi er gerð tillaga um að veitt verði 400 millj. kr. framlag á málefnasviði 08 Sveitarfélög og byggðamál sem styðji við stefnumarkandi áætlun stjórnvalda um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni þess með sameiningu sveitarfélaga.
    Í fjórða lagi er gerð tillaga um 350 millj. kr. framlag vegna húsnæðisbóta af tvenns konar tilefni. Annars vegar um 100 millj. kr. hækkun frítekjumarka og hins vegar um 250 millj. kr. vegna þess að áætlað er að fleiri einstaklingar njóti nú húsaleigubóta heldur en forsendur fjárlagafrumvarps gerðu ráð fyrir.
    Í fimmta lagi er gerð tillaga um 437 millj. kr. hækkun á nokkrum málefnasviðum vegna leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2021.
    Í sjötta lagi er gerð tillaga um 120 millj. kr. fjárheimild til þess að fjármagna kostnað við loðnuleit á vegum Hafrannsóknastofnunar.
    Í sjöunda lagi er gerð tillaga um 80 millj. kr. tímabundna fjárheimild til þriggja ára á málefnasviði 20 Framhaldsskólastig vegna Keilis Aviation Academy.
    Aðrar breytingar en þær sem tengjast nýjum ákvörðunum nema 3,4 milljörðum kr. til hækkunar. Þar vega langþyngst endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar á málefnasviði 07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar en áætlað er að þær hækki um 2,9 milljarða kr. frá fyrri áætlun. Um er að ræða endurmat á áætlunum en aukninguna má nær alfarið rekja til lagabreytinga á yfirstandandi ári.
    Þá er gert ráð fyrir 1,8 milljarða kr. hækkun fjárheimilda vegna breyttrar framsetningar á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á málefnasviði 32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála. Gert er ráð fyrir samsvarandi rekstrartekjum á móti fjárheimildinni eins og fjallað er um hér að framan og er breytingin því hlutlaus gagnvart afkomu ríkissjóðs.
    Sama gildir um 200 millj. kr. hækkun á málefnasviði 04 Utanríkismál vegna kostnaðarhlutdeildar verkefna í miðlægum rekstri sem gert er ráð fyrir að verði tekjufærð á aðalskrifstofu.
    Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir rúmlega 70 millj. kr. hækkun vegna endurmats á áætlun um rekstrartekjur og framlögum sem taka mið af uppfærslu tekjuáætlunar.
    Auk framantalinna útgjalda er lagt til að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði auknar um 1,7 milljarða kr. vegna endurmats á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2019 og árið 2020 annars vegar og vegna endurmats á launaforsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2021 hins vegar. Þar er einkum um að ræða breytingar vegna kjarasamninga við lækna, gerðardóms hjúkrunarfræðinga, sem var áður gert ráð fyrir á almennum varasjóði, og vegna endurmats á launahækkunum þjóðkjörinna fulltrúa og dómara.
    Að lokum eru lagðar til nokkrar aðrar tæknilegar breytingar, svo sem millifærslur milli málaflokka og lagfæringar á hagrænni skiptingu og millifærslum sem gerðar voru við 2. umræðu málsins á málefnasviði 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
    Auk þess eru lagðar til þrjár breytingar við 6. gr. frumvarpsins. Tvær þeirra er einnig að finna í breytingartillögum meiri hluta við 2. umræðu fjáraukalaga fyrir árið 2020 og vísast til nánari skýringa sem þar koma fram.
    Hin þriðja lýtur að því að koma á fót sérstöku fasteignaumsýslufélagi í eigu ríkisins sem hafi það hlutverk að fara með eignarhald og umsýslu á þeim fasteignum sem Háskóli Íslands nýtir í starfsemi sinni ásamt því að leggja félaginu til þær fasteignir er háskólinn nýtir sem eru í eigu ríkissjóðs.
    Til skýringar má nefna að unnið hefur verið að útfærslu á breyttu fyrirkomulagi til framtíðar varðandi umsýslu fasteigna háskólans í samræmi við markmið ráðuneytisins og Háskóla Íslands. Kostir stofnunar sjálfstæðrar einingar um eignarhald fasteignanna tryggir að kostnaður við rekstur fasteignanna verður sýnilegur, þ.m.t. fjárbinding. Þetta skapar fjárhagslegt aðhald sem eykur líkur á að réttar ákvarðanir verði teknar við framkvæmdir og rekstur þeirra fasteigna sem þörf er á. Þá skapar það einnig hvata til hagræðingar í rekstri húsnæðis, bæði með betri nýtingu og með þróun fasteignasafnsins þannig að það þjóni sem best hagsmunum háskólans. Fyrirkomulaginu er því ætlað að stuðla að hagkvæmni og hagræðingu fasteigna Háskóla Íslands til framtíðar.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.


01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess.
01.10 Alþingi.
    Lögð er til leiðrétting á lækkun fjárheimildar málaflokksins vegna lægri ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu frumvarpsins.

02 Dómstólar.
02.30 Landsréttur.
    Gerð er tillaga um 3 millj. kr. aukið fjárfestingarframlag með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Lagt er til að sértekjuheimild verði hækkuð sem nemur 200 millj. kr. og ráðstöfunarheimild vegna hækkunar á sértekjum veitt á móti. Hluti af kostnaði við stoðþjónustu aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins við verkefni utanríkisráðuneytisins hefur verið gjaldfærður beint á viðkomandi verkefni og birtist því ekki í rekstrarbókhaldi aðalskrifstofu ráðuneytisins. Tillagan er til þess fallin að auka gagnsæi með því að færa allan kostnað vegna stoðþjónustu ráðuneytisins við hin ýmsu verkefni beint á aðalskrifstofu ráðuneytisins en gjaldfæra á móti kostnaðarhlutdeild á viðkomandi verkefni. Með þessu er leitast við að skapa betri yfirsýn yfir rekstur einstakra eininga.
    Lögð er til 65 millj. kr. leiðrétting á lækkun fjárheimildar málaflokksins vegna lægri ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu frumvarpsins.

04.20 Utanríkisviðskipti.
    Gerð er tillaga um hækkun á markaðsgjaldi um 3 millj. kr. samkvæmt tekjuáætlun á rekstrargrunni. Gjaldið var hækkað um 27 millj. kr. við 2. umræðu frumvarpsins. Er því verið að leiðrétta til hækkunar í samræmi við rekstrargrunn tekjuáætlunar.

04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál.
    Lögð er til 25 millj. kr. leiðrétting á lækkun fjárheimildar málaflokksins vegna lægri ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu frumvarpsins.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.20 Eignaumsýsla ríkisins.
    Gerð er tillaga um leiðréttingu á rekstrartekjum Eignaumsýslu ríkisins og samsvarandi greiðsluheimild.

07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar.
07.10 Vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum.
    Gert er ráð fyrir 50 millj. kr. tímabundinni breytingu á hagrænni skiptingu til tveggja ára. Um er ræða kostnað vegna þátttöku nýdoktora í verkefnum er tengjast Carlsberg-sjóðnum. Áður hafði verið gert ráð fyrir að framlagið færi í gegnum Rannsóknasjóð, en tæknilegir annmarkar eru á því fyrirkomulagi. Því er framlagið flutt á alþjóðlegar samstarfsáætlanir á sviði vísinda, sem eru í umsjón Rannsóknamiðstöðvar Íslands.

07.20 Nýsköpun, samkeppni og þekkingargreinar.
    Umsóknir um endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar liggja fyrir og áætlað er að endurgreiðslurnar nemi 10.205,7 millj. kr. Gerð er tillaga um að framlög aukist um 2.912,2 millj. kr. í samræmi við uppfærða spá sem byggist á innsendum umsóknum. Áætluð útgjöld fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, sem tengjast fyrirhuguðum endurgreiðslum stjórnvalda, eru 39,3 milljarðar kr. Í frumvarpinu var gert ráð verulegri aukningu frá fjárlögum fyrir árið 2020 þegar útgjöldin voru 3.934,2 millj. kr.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10 Framlög til sveitarfélaga.
    Gerð er tillaga um að veitt verði 400 millj. kr. framlag sem styðji við stefnumarkandi áætlun stjórnvalda um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni þess með sameiningum sveitarfélaga. Hluti framlagsins verði nýttur til umbóta á sviði stafrænna lausna hjá þeim sveitarfélögum sem fara í sameiningarferli án næstu tveimur árum. Gert er ráð fyrir að samtals 935 millj. kr. verði veittar til þessara verkefna í fjáraukalögum fyrir árið 2020 og í fjárlögum áranna 2021 og 2022.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Gerð er tillaga um 25 millj. kr. aukið fjárfestingarframlag með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

09.20 Landhelgi.
    Gerð er tillaga um 31,9 millj. kr. aukið fjárfestingarframlag með breytingu á hagrænni skiptingu af rekstri á fjárfestingu hjá Landhelgisgæslu Íslands.

10 Rétt. einstakl., trúmál og stjórnsýsla dómsmála.
10.40 Stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis.
    Gerð er tillaga um breytta hagræna skiptingu.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Lögð er til leiðrétting á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu. Lækkun á þessum málaflokki var umfram raunlækkun á árinu 2019. Tekið er tillit til þess hér og lagfært þannig að lækkunin 2021 sé minni en milli 2019 og 2020

12 Landbúnaður.
12.10 Stjórnun landbúnaðarmála.
    Lögð er til leiðrétting á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu. Um helmingur af ferðakostnaðinum er vegna ferðalaga innan lands en sá kostnaður hefur að miklu leyti haldið sér í ár. Tekið er tillit til þeirra sjónarmiða hér.

13 Sjávarútvegur og fiskeldi.
13.10 Stjórnun sjávarútvegs og fiskeldis.
    Lögð er til leiðrétting á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu. Um helmingur af ferðakostnaði málefnasviðsins er vegna ferðalaga innan lands en sá kostnaður hefur að miklu leyti haldið sér í ár. Þá er stór hluti vegna ferða erlendis endurgreiddur. Tekið er tillit til þeirra sjónarmiða hér.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Gerð er tillaga um 120 millj. kr. einskiptisframlag til mælinga á stofnstærð loðnu. Miklar breytingar hafa orðið á stofnstærð, útbreiðslusvæði og gönguatferli loðnu á síðustu 10 árum. Loðna er einn okkar mikilvægasti nytjastofn auk þess að vera mikilvæg fæða fyrir aðra nytjastofna, svo sem þorsk. Hafrannsóknastofnun hefur gert áætlun um loðnuleit og mælingar á næsta ári og er tilbúið útboð á skipum í mælingarnar sem unnið er með Ríkiskaupum. Viðbótarkostnaður vegna þessa sem stofnunin þarf að greiða er áætlaður 120 millj. kr. Stofnunin getur illa ráðið við þann viðbótarkostnað án þess að það bitni á öðrum rannsóknum eða mælingum á nytjastofnum.

13.20 Rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
    Lögð er til leiðrétting á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu. Um helmingur af ferðakostnaði málefnasviðsins er vegna ferðalaga innan lands en sá kostnaður hefur að miklu leyti haldið sér í ár. Þá er stór hluti vegna ferða erlendis endurgreiddur. Tekið er tillit til þeirra sjónarmiða hér.

16 Markaðseftirlit, neytendamál og stj.sýsla atv.mála.
16.10 Markaðseftirlit og neytendamál.
    Við 2. umræðu var fjárheimild lækkuð vegna breytinga á ferðakostnaði. Þetta á ekki við um Fjármálaeftirlitið. Rukkað er sérstakt eftirlitsgjald á móti gjöldum þeirra til samræmis við rekstraráætlun sem þegar liggur fyrir. Gerð er tillaga um að þetta verði leiðrétt hér með.

17 Umhverfismál.
17.30 Meðhöndlun úrgangs.
    Gerð er tillaga um 29 millj. kr. hækkun vegna endurskoðaðrar áætlunar um rekstrartekjur hjá Úrvinnslusjóði.
    Gerð er tillaga um 40,6 millj. kr. hækkun vegna endurskoðaðrar áætlunar um rekstrartekjur hjá Endurvinnslunni hf.
    Gerð er tillaga um að flytja lækkun ferðakostnaðar á milli málaflokka, 1 millj. kr. flyst á 17.50.

17.40 Varnir vegna náttúruvá.
    Gerð er tillaga um að flytja lækkun ferðakostnaðar á milli málaflokka, 0,1 millj. kr. flyst á 17.50.

17.50 Stjórnsýsla umhverfismála.
    Gerð er tillaga um að flytja lækkun ferðakostnaðar á milli málaflokka, 1 millj. kr. flyst af 17.30 og 0,1 millj. kr. af 17.40.

18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál.
18.20 Menningarstofnanir.
    Lögð er til tímabundin 30 millj. kr. hækkun fjárheimildar vegna leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar við 2. umræðu. Raunkostnaður á árinu 2020 reyndist hærri en ráð hafði verið fyrir gert og því er leiðrétt fyrir því.

18.30 Menningarsjóðir.
    Lagt er til að 8 millj. kr. verði millifærðar á 02-101-101 mennta- og menningarmálaráðuneyti, aðalskrifstofa vegna endurskipulagningar í ráðuneytinu, sbr. nánari skýringar við málaflokk 22.30.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Lagt er til að 25 millj. kr. verði millifærðar á 02-101-101 mennta- og menningarmálaráðuneyti, aðalskrifstofa vegna endurskipulagningar í ráðuneytinu, sbr. nánari skýringar við málaflokk 22.30.
    Lagt er til að veitt verði 80 millj. kr. tímabundin fjárheimild í þrjú ár til Keilis Aviation Academy. Ríkisstjórnin samþykkti þann 28. sept. sl. að veita alls 240 millj. kr. til stuðnings flugnáms í landinu. Gert er ráð fyrir að veittar verði 80 millj. kr. í ári í þrjú ár. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar kemur fram að styrkurinn verði veitur til Keilis Aviation Academy og verður gerð krafa um að forsvarsmenn Keilis Aviation Academy leiti eftir samningum við kröfuhafa með það að markmiði að lækka skuldir. Einnig að seldar verði flugvélar til að grynnka frekar á skuldum. Þá verði þess farið á leit við Ríkisendurskoðun að rannsaka fjármál akademíunnar og kaup hennar á Flugskóla Íslands.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar og rannsóknastarfsemi.
    Lagt er til að 8 millj. kr. verði millifærðar á 02-101-101 mennta- og menningarmálaráðuneyti, aðalskrifstofa vegna endurskipulagningar í ráðuneytinu, sbr. nánari skýringar við málaflokk 22.30.
    Gerð er tillaga um að millifæra 12,5 millj. kr. framlag í fjögur ár vegna samkomulags mennta- og menningarmálaráðuneytis við forsætisráðuneytið vegna tímabundins átaksverkefnis í miðlun menningararfs hjá Stofnun Árna Magnússonar.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menn.mála.
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig.
    Lagt er til að 8 millj. kr. verði millifærðar á 02-101-101 mennta- og menningarmálaráðuneyti, aðalskrifstofu vegna endurskipulagningar í ráðuneytinu, sbr. nánari skýringar við málaflokk 22.30.

22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Gert er ráð fyrir að millifæra 12,5 millj. kr. framlag í fjögur ár vegna samkomulags mennta- og menningarmálaráðuneytis við forsætisráðuneytið vegna tímabundins átaksverkefnis í miðlun menningararfs hjá Stofnun Árna Magnússonar.
    Gerð er tillaga um nokkrar millifærslur á 02-101-101 mennta- og menningarmálaráðuneyti, aðalskrifstofu vegna endurskipulagningar í ráðuneytinu. Í janúar 2020 lauk Capacent úttekt á starfsemi ráðuneytisins og í kjölfarið voru gerðar skipulagsbreytingar með það að markmiði að efla kjarnastarfsemi. Skipuriti ráðuneytisins var breytt og skrifstofum fjölgað. Menntaskrifstofunni var skipt upp í þrjár skrifstofur og stoðskrifstofum fækkað úr tveimur í eina. Skrifstofustjórum fjölgaði um einn og ráðinn var mannauðsstjóri og gæðastjóri þar sem leggja á aukna áherslu á stjórnun mannauðsmála og verkferla til að einfalda og hraða úrvinnslu erinda og afgreiðslu mála. Einnig er gert ráð fyrir aukinni áherslu á tölfræði og greiningu. Ráðuneytið hafði verið með tímabundið ráðinn starfsmann til að vinna einstök verkefni vegna menntatölfræði, aðallega tölfræði framhaldsskólans (02-314), ákveði var að auglýsa það starf og hefur verið ráðinn fastur starfsmaður sem eðlilegt er að greiða af aðalskrifstofu en ekki safnlið. Þá var einnig starfsmaður ráðinn tímabundið til aðstoðar stofnunum ríkisins vegna innleiðingar nýrra laga, svo sem persónuverndalaga (02-314), og vinnslu ýmissa mála innan ráðuneytisins og fyrirhugað er að auglýsa og fastráða í þá stöðu. Vegna framangreindra breytinga er gerð tillaga um millifærslur af safnliðum á aðalskrifstofu:
    25 millj. kr. eru millifærðar af málaflokki 20.10, 8 millj. kr. af málaflokki 18.30, 8 millj. kr. af málaflokki 21.10 og 8 millj. kr. af málaflokki 22.10.

23 Sjúkrahúsþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 80 millj. kr. hækkun á málaflokknum til leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 8 millj. kr. hækkun á málaflokknum til leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Í upphafi árs 2021 tekur nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni gildi. Við það er mikilvægt að gjöld heilbrigðisstofnana séu rétt bókuð á málefnasvið stofnana. Hér eru leiðréttar nokkrar millifærslur á milli málefnasviða stofnana sem gerðar voru við 2. umræðu vegna þessa.
    Gerð er tillaga um að færa 112,4 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar á rannsóknum á blóðsýnum og myndgreiningum af viðfanginu heilsugæsluþjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða af viðfanginu heilsugæsluþjónusta.
    Gerð er tillaga um að færa 168,1 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar á rannsóknum á blóðsýnum og myndgreiningum af viðfanginu heilsugæsluþjónusta Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.
    Gerð er tillaga um að færa 50,7 millj. kr. (gjöld alls) vegna kostnaðar við rannsóknir á blóðsýnum og myndgreiningum af viðfanginu heilsugæsluþjónusta Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
    Gerð er tillaga um að færa 139,6 millj. kr. (gjöld alls) vegna launa og kostnaðar sérgreinalækna af viðfanginu heilsugæsluþjónusta Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
    Gerð er tillaga um 250 millj. kr. millifærslu fjárveitingar milli málefnasviða hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Tillagan er gerð til samræmis við rekstraráætlun stofnunarinnar.
    Gerð er tillaga um að færa 203,8 millj. kr. (gjöld alls) vegna reksturs á slysa- og bráðamóttöku af viðfanginu heilsugæsluþjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
    Gerð er tillaga um að færa 102,6 millj. kr. (gjöld alls) vegna reksturs fæðingardeildar af viðfanginu heilsugæsluþjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
    Gerð er tillaga um 31 millj. kr. hækkun á málaflokknum til leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu.

24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun.
    Gerð er tillaga um 3 millj. kr. hækkun á málaflokknum til leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    Gerð er tillaga um 0,8 millj. kr. hækkun á málaflokknum til leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umræðu.

30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi.
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi.
    Gerð er tillaga um 470 millj. kr. fjárheimild á árinu 2021 til stuðnings íþróttafélögum vegna fastra rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir koma í veg fyrir eðlilega starfsemi félaganna. Markmið stuðnings er að tryggja áframhaldandi faglegt íþróttastarf og tryggja rekstrargrundvöll íþróttafélaga. Gert er ráð fyrir að stuðningur verði veittur fyrir tvö tímabil, annars vegar 1. október – 31. desember 2020 og hins vegar 1. janúar – 30. júní 2021. Þar sem óvissa er um hvernig faraldurinn muni þróast á næstu mánuðum er úthlutun skipt í tvö tímabil. Ef öll starfsemi getur hafist án takmarkana fljótlega á nýju ári er mögulegt að ekki þurfi að veita stuðning fyrir seinna tímabilið. Tillagan er hluti af áformum um 970 millj. kr. stuðning við íþróttafélög. Þegar hefur verið samþykkt 500 millj. kr. tímabundin fjárveiting á árinu 2021 til að mæta launagreiðslum íþróttafélaga sem gert hefur verið að láta af starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur COVID-19.

31 Húsnæðisstuðningur.
31.10 Húsnæðisstuðningur.
    Gerð er tillaga um 250 millj. kr. hækkun framlags til húsnæðisbóta. Framlag til húsnæðisbóta á árinu 2020 nemur samtals 6.218 millj. kr. og stefnir í u.þ.b. 345 millj. kr. halla á árinu. Á móti vegur innheimta á ofgreiddum húsnæðisbótum og því er aðeins gerð tillaga um 250 millj. kr. Fjölgun viðtakenda á almennum markaði fyrstu 10 mánuði ársins 2020 nam tæpum 9% og 10,6 % milli áranna.
    Gerð er tillaga um 100 millj. kr. tímabundna hækkun framlags til húsnæðisbóta. Á árinu 2021 munu tekjumörk tekjulágra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hækka um 6% en áður hafði verið gert ráð fyrir 3,6% hækkun, sbr. forsendur frumvarps til fjárlaga 2021. Auk þess urðu breytingar á örorkubótakerfinu árið 2019 sem ekki hefur verið tekið tillit til í húsnæðisbótakerfinu. Sú breyting sneri að hækkun framfærsluuppbótar. Svo að ekki komi til skerðingar á greiðslum húsnæðisbóta til þessa hóps, sem hefur engar aðrar tekjur en úr almannatryggingakerfinu, er nauðsynlegt að hækka frítekjumörkin um 11,93% frá því sem var árið 2020 í húsnæðisbótakerfinu. Áætluð heildarfjárvöntun vegna þessa er um 100 millj. kr., 30 millj. kr. vegna hækkunar tekjumarka úr 3,6% í 6% og svo 70 millj. kr. vegna leiðréttingar í tengslum við breytingar á örorkubótakerfinu árið 2019.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.40 Stjórnsýsla félagsmála.
    Gerð er tillaga að breyttri framsetningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í fjárlögum. Um áramótin 2019/2020 voru Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun sameinuð í eina stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Núverandi framsetning í fjárlögum á lið 07-322 endurspeglar einungis stöðu með tilliti til Mannvirkjastofnunar en Íbúðalánasjóður var fyrir sameininguna B-hluta stofnun. Gerð er tillaga um 1.853,3 millj. kr. til að standa straum af verkefnum sem Íbúðalánasjóður sinnti áður en fluttust yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um áramótin 2019/2020. Þessi verkefni felast m.a. í stefnumótun og áætlanagerð á sviði húsnæðismála, greiningum á húsnæðismarkaði, umsýslu lánasafna og þjónustu og ráðgjöf til lántakenda.

34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir.
34.10 Almennur varasjóður.
    Gert er ráð fyrir að framlag til liðarins lækki um 570 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir 570 millj. kr. í fjárveitingum á almenna varasjóðinn í tengslum við úrskurð gerðardóms í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Nú hefur launakostnaður verið útfærður niður á einstök málefnasvið og málaflokka til samræmis við áhrif launahækkana hjúkrunarfræðinga og er því fjárveitingin á almenna varasjóðinn lækkuð á móti.
    Launabætur 2021, endurmat sett tímabundið á almennan varasjóð, 1.739,0 millj. kr.

34.20 Sértækar fjárráðstafanir.
    Lagt er til að heimild verði hækkuð um 590 millj. kr. árið 2021 til að standa undir kaupum á tveimur eignum. Annars vegar er um að ræða 250 millj. kr. vegna kaupa á Keldum á Rangárvöllum en þjóðminjavörður telur jörðina Keldur vera einn af merkustu minjastöðum á Íslandi. Hins vegar eru 340 millj. kr. vegna kaupa á Hótel Gíg (áður Skútustaðaskóli) við Mývatn undir þjónustumiðstöð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.


    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 17. desember 2020.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Páll Magnússon. Steinunn Þóra Árnadóttir.