Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 753  —  410. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni um fjölda sýkinga og andláta af völdum kórónuveirunnar.


    Við vinnslu svara við fyrirspurninni var leitað til stofnana ráðuneytisins, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Reykjalundar, Reykjavíkurborgar, sóttvarnalæknis og smitrakningarteymis almannavarna. Svör þessara aðila bárust á mismunandi tímum sl. þrjár vikur sem kann að hafa áhrif á samtölur.

     1.      Hve margir á Íslandi hafa:
                  a.      sýkst af kórónuveirunni,
                  b.      verið lagðir inn á sjúkrahús vegna veirunnar og hve margir þeirra hafa verið með aðra undirliggjandi sjúkdóma,
                  c.      verið lagðir inn á gjörgæsludeild og hve margir þeirra hafa verið með aðra undirliggjandi sjúkdóma,
                  d.      þurft í öndunarvél og hve margir þeirra hafa verið með aðra undirliggjandi sjúkdóma?
             Svar óskast sundurliðað eftir aldri (0–10 ára, 11–20 ára, 21–30 ára, 31–40 ára, 41–50 ára, 51–55 ára, 56–60 ára, 61–65 ára, 66–70 ára, 71–75 ára, 76–80 ára, 81–85 ára, 86–90 ára, 91–95 ára, 95 ára og eldri).
     a.      Samkvæmt upplýsingum á covid.is 12. janúar er fjöldi staðfestra COVID-19-smita hér á landi, frá 28. febrúar 2020, alls 5.912.
     b.      Frá upphafi faraldursins og fram til 8. janúar hafa 296 einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahús vegna COVID-19. Sjúklingar hafa verið lagðir inn á Landspítala (279), Sjúkrahúsið á Akureyri (15) og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (7). Fimm þeirra sjúklinga sem voru innlagðir á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða voru síðan fluttir á Sjúkrahúsið á Akureyri eða Landspítala. Engir sjúklingar hafa verið lagðir inn á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eða Heilbrigðisstofnun Vesturlands vegna COVID-19.
             Innlagnir voru fleiri en einstaklingarnir (298 innlagnir á Landspítala) því nokkrir einstaklingar lögðust inn oftar en einu sinni.
             Þrátt fyrir óskir um aðgreiningu eldri aldurshópa niður í fimm ára tímabil voru fjöldatölur stofnana settar fram í 10 ára tímabilum.
             Aldursdreifing þeirra einstaklinga sem lagðir voru inn á sjúkrahús er eftirfarandi:

Aldursbil Fjöldi Aldursbil Fjöldi
0–9 ára 1 50–59 ára 36
10–19 ára 2 60–69 ára 68
20–29 ára 13 70–79 ára 65
30–39 ára 14 80–89 ára 57
40–49 ára 18 90 ára og eldri 22
             Hvað spurninguna um undirliggjandi sjúkdóma varðar þá svöruðu tvær af framangreindum stofnunum þeirri spurningu. Á annarri stofnuninni voru allir með undirliggjandi sjúkdóma en tveir af hverjum þremur á hinni stofnuninni. Í svari Landspítala varðandi undirliggjandi sjúkdóma vildi spítalinn koma því á framfæri að slíkt mat þurfi að byggjast á læknisfræðilegu mati sem unnið væri af sérfræðilækni, byggt á sjúkraskrárgögnum hvers sjúklings, til að hægt sé að gefa rétt og afgerandi svar í hverju tilviki. Landspítalinn metur umfang slíkrar vinnu með þeim hætti að vísa verði á umfjöllun vísindamanna um efnið.
     c.      Á Landspítala hafa 48 manns þurft að leggjast inn á gjörgæslu vegna COVID-19. Fjórir hafa þurft að leggjast inn á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri. Vísað er til svars við b-lið varðandi undirliggjandi sjúkdóma.
     d.      Alls hafa 26 einstaklingar farið í öndunarvél á Landspítala það sem af er faraldri. Hér má sjá aldursskiptingu þeirra við innlögn. Enginn undir 31 árs aldri fór í öndunarvél á Landspítala og enginn yfir 85 ára aldri.

31–40 ára 41–50 ára 51–55 ára 56–60 ára 61–65 ára 66–70 ára 71–75 ára 76–80 ára 81–85 ára Alls
2 1 1 3 6 9 2 1 1 26

             Þeir fjórir einstaklingar sem þurftu á gjörgæsluinnlögn að halda á Sjúkrahúsinu á Akureyri fengu allir öndunaraðstoð, þar af voru tveir barkaþræddir. Aldursbil þessara fjögurra einstaklinga var frá 37 ára aldri til 70 ára aldurs.
             Vísað er til svars við b-lið varðandi undirliggjandi sjúkdóma.

     2.      Hve margir hafa látist eftir að hafa sýkst af kórónuveirunni og hve margir þeirra hafa verið með aðra undirliggjandi sjúkdóma?
    Á covid.is kemur fram að 12. janúar höfðu 29 einstaklingar látist vegna COVID-19. Vísað er til svars við b-lið 1. tölul. varðandi undirliggjandi sjúkdóma.

     3.      Hve mörg andlát má rekja til hópsmitsins á Landakoti annars vegar og smita á öðrum sjúkrastofnunum hins vegar?
    Það létust 14 einstaklingar á Landspítala í kjölfar hópsmits á Landakoti. Á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík létust tveir einstaklingar. Þrír einstaklingar létust á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka en þau smit eru rakin til hópsýkingarinnar á Landakoti. Einn einstaklingur lést á Landspítala eftir smit á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ.

     4.      Hve mörg smit hafa komið upp á stofnunum reknum af:
                  a.      ríkinu,
                  b.      sveitarfélögunum,
                  c.      einkaaðilum eða öðrum en þeim sem falla undir a- og b-lið?

    Ekki reyndist unnt að fá fram greiningu á uppruna smita á öllum stofnunum eftir rekstraraðilum.

     5.      Hve margir hafa þurft á endurhæfingu að halda eftir að hafa smitast af kórónuveirunni og hvað er áætlað að margir þurfi endurhæfingu af hennar völdum á næstunni?
    Samkvæmt svörum frá heilbrigðisstofnunum sex og sjúkrahúsunum tveimur bíða engir þar eftir endurhæfingu eftir COVID-19.
    Reykjalundur býður nú upp á sérstaka endurhæfingarmeðferð fyrir þá sem glíma við langvarandi einkenni vegna COVID-19. Þar hafa 25 einstaklingar lokið meðferð og 29 eru í meðferð. Hinn 4. janúar voru 30 einstaklingar á biðlista eftir þessari endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi.
    Í svörum Reykjalundar við fyrirspurn heilbrigðisráðuneytisins kom fram að mjög erfitt sé að áætla hversu margir muni þurfa á endurhæfingu að halda eftir að hafa sýkst af COVID-19. Ætla má að aðeins hluti þeirra sem sýkst hafa af veirunni og glíma við langvarandi einkenni hafi leitað eftir endurhæfingu á Reykjalundi. Stofnuninni bárust beiðnir frá 70 einstaklingum af þeim u.þ.b. 1.900 einstaklingum sem lokið höfðu einangrun vegna COVID-19-smits í september 2020, eða um 4%. Um síðustu áramót höfðu 5.130 lokið einangrun. Ef áætlað er að 4% þeirra eigi eftir að leita til Reykjalundar eru það um 120 einstaklingar.