Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 758  —  172. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um sekta- og bótagreiðslur Ríkisútvarpsins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað hefur Ríkisútvarpið greitt mikið í sekta- eða bótagreiðslur 2007–2019, hér á landi og erlendis, til einstaklinga eða lögaðila, vegna niðurstöðu dómstóla eða samninga sem gerðir hafa verið vegna deilumála sem upp hafa komið?
     2.      Hver hefur kostnaður verið við rekstur slíkra mála, svo sem vegna lögfræðiráðgjafar?
     3.      Hvað hefur vinna starfsmanna Ríkisútvarpsins við málin kostað?
    Óskað er eftir að upplýsingarnar verði sundurgreindar fyrir ár hvert eftir fjölda mála, meðalfjárhæð og hæstu fjárhæð greiðslu, á verðlagi hvers árs og uppreiknað miðað við núverandi verðlag.


    Ráðuneytið aflaði upplýsinga hjá Ríkisútvarpinu vegna fyrirspurnarinnar og eru svör byggð á þeim upplýsingum.
    Ríkisútvarpið afgreiddi 14 mál vegna sekta- og bótagreiðslna á árunum 2007–2019. Um er að ræða sex stjórnvaldssektir fjölmiðlanefndar, þrjár stjórnvaldssektir Fjármálaeftirlitsins, fjögur dómsmál og eitt sektarmál hjá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU. Nam heildarkostnaður sekta- og bótagreiðslna á árunum 2007–2019 11.810.938 kr. , á verðlagi ársins 2019.
    Í samræmi við lög um bókhald, nr. 145/1994, varðveitir Ríkisútvarpið fylgiskjöl með bókhaldi sínu í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs, en ekki lengur. Hefur Ríkisútvarpið ótímabundna heimild frá Þjóðskjalasafni til að farga bókhaldsgögnum eldri en sjö ára. Fyrirspurn Alþingis nær til mun lengri tíma, eða aftur til ársins 2007. Liggja fylgiskjöl því ekki fyrir lengra en sjö ár aftur í tímann, af þeim þrettán árum sem fyrirspurnin nær yfir. Af þeim sökum væri einungis hægt að veita upplýsingar um heildarlögfræðikostnað síðastliðin sjö ár en það eru upplýsingar sem fela í sér heildargreiðslur til lögmanna vegna vinnu við mismunandi verkefni en Ríkisútvarpið leitar til lögmanna vegna margvíslegra mála, t.d. vegna aðstoðar við samningagerð, starfsmannatengd mál, málflutning, ýmiss konar ráðgjöf o.fl. Vinnuskýrslur með reikningum frá lögmönnum eru oft ekki sundurliðaðar niður á einstök verkefni heldur eru tilteknir tímar vegna nokkurra verkefna sem eru í gangi hverju sinni. Í bókhaldi Ríkisútvarpsins fram að þessu hefur lögfræðikostnaður ekki verið bókaður niður á málefnanúmer til að auðkenna hvert einstakt mál. Upplýsingar um lögfræðikostnað vegna mála sem enda í sekta- og bótagreiðslum hefur því ekki verið haldið sérstaklega utan um í bókhaldinu og því ekki hægt að veita sundurliðaðar upplýsingar um kostnað.
    Ríkisútvarpið notast ekki við verkbókhald og liggur því ekki fyrir hversu mikill tími starfsmanna fór í úrvinnslu málanna. Af þeim sökum er ekki hægt að meta kostnað sem af þeirri vinnu hlaust.
    Eftirfarandi tafla er til sundurliðunar á einstökum liðum fyrirspurnarinnar sem sýnir fjárhæðir á verðlagi ársins 2019 miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs. Sektargreiðsla í evrum tekur mið af meðalgengi Seðlabanka Íslands fyrir árið 2019.

                              Fjöldi mála og fjárhæðir frá árinu 2007 til 2019.
Ár Fjöldi mála Meðalfjárhæð Hæsta fjárhæð greiðslu
2007 0 0 0
2008 0 0 0
2009 1 1.087.870 1.087.870
2010 0 0 0
2011 1 248.133 248.133
2012 1 353.838 353.838
2013 1 340.635 340.635
2014 0 0 0
2015 0 0 0
2016 5 925.789 2.691.247
2017 1 634.673 634.673
2018 1 1.030.343 1.030.343
2019 3* 895.500 1.000.000
                         *Þar af eitt mál þar sem Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, sektaði Ríkisútvarpið um 5.000 evrur.