Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 761  —  313. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um skipagjald.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ingu Torfadóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Hlyn Ingason og Steinar Örn Steinarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Samgöngustofu og Samtökum skipaiðnaðarins og Samtökum iðnaðarins.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um skipagjald öðlist gildi.
    Í 2. mgr. 1. gr. er lagt til að Samgöngustofa fari með álagningu skipagjalds. Í umsögn stofnunarinnar er þess getið að eðlilegra kunni að vera að Skatturinn fari með álagningu gjaldsins. Nefndin óskaði eftir afstöðu Skattsins til framangreindra athugasemda. Í minnisblaði frá Skattinum kemur fram að í framkvæmd fari Samgöngustofa með álagningu gjaldsins þótt það sé ekki sérstaklega tilgreint í gildandi lögum, færir Skatturinn tæknileg rök fyrir óbreyttu fyrirkomulagi. Með vísan til þess telur meiri hlutinn framangreindar ábendingar Samgöngustofu ekki gefa tilefni til breytinga á framkvæmdinni.
    Breytingartillögur meiri hlutans eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki skýringa.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „Gjöldin skulu miðuð“ í 3. mgr. 1. gr. komi: Gjald skal miðað.
     2.      Í stað 1. og 2. málsl. 3. gr. komi einn nýr málsliður, svohljóðandi: Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu skipagjalds og skulu þeir skila því í ríkissjóð.

Alþingi, 15. janúar 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson, frsm. Jón Steindór Valdimarsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy. Willum Þór Þórsson.