Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 768  —  449. mál.
Fyrirspurn


til dómsmálaráðherra um takmörkun á sölu flugelda.

Frá Andrési Inga Jónssyni.


     1.      Hvernig lagði ráðuneytið mat á ólíka hagsmuni áður en ákvörðun var tekin um að fresta útgáfu reglugerðar um takmarkanir á sölu flugelda? Þess er óskað að sérstaklega komi fram hvernig metin voru áhrif á:
                  a.      heilbrigðiskerfið vegna flugeldaslysa og öndunarfærasjúkdóma,
                  b.      útkallsaðila vegna sjúkraflutninga og slökkvistarfs,
                  c.      heilsufarslega viðkvæma hópa, þar á meðal einstaklinga sem eru með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma eða glíma við öndunarfæraeinkenni af völdum COVID-19, og
                  d.      hópamyndun þar sem fólk kemur saman til að skjóta upp flugeldum.
     2.      Hvaða samráð átti ráðuneytið um frestun reglugerðarinnar? Þess er óskað að sérstaklega komi fram hvernig samráði var háttað við:
                  a.      heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalækni varðandi aukið álag á heilbrigðiskerfið og viðkvæma hópa,
                  b.      lögreglu og slökkvilið varðandi aukið álag á útkallsaðila,
                  c.      umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Umhverfisstofnun varðandi mengun og önnur áhrif á umhverfið, og
                  d.      almannavarnir og sveitarfélög varðandi hópamyndun umfram sóttvarnareglur.
     3.      Hefur verið unnið að tillögum um varanlega fjármögnun björgunarsveita, sbr. tillögu í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum mengunar frá flugeldum?
     4.      Kom til álita að tryggja söluaðilum tímabundna styrki vegna tekjufalls um nýliðin áramót í ljósi aðstæðna, frekar en að falla frá fyrirhuguðum reglugerðarbreytingum? Var möguleiki á slíkum tekjufallsstyrkjum ræddur við fjármála- og efnahagsráðuneytið?
     5.      Telur ráðherra að afleiðingar þess að fresta útgáfu reglugerðar um takmarkanir á sölu flugelda samrýmist stefnu og aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19, þegar tekið er mið af almannahagsmunum?
     6.      Hvenær er áformað að reglur um takmarkanir á sölu flugelda taki gildi?


Skriflegt svar óskast.