Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 772  —  453. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (bann við afneitun helfararinnar).

Flm.: Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.


1. gr.

    Á eftir 233. gr. b laganna kemur ný grein, 233. gr. c, svohljóðandi:
    Hver sá sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

2. gr.

    Í stað orðanna „og 233. gr. b“ í 1. tölul. 242. gr. laganna kemur: 233. gr. b og 233. gr. c.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagt til að ný grein bætist við almenn hegningarlög, nr. 19/1940, um refsinæmi þess að afneita þjóðarmorði þýskra nasista.

Helförin.
    Nasistar fóru með völd í Þýskalandi á árunum 1933–1945. Undir stjórn þeirra hernámu Þjóðverjar mörg nágrannalönd sín, en innrás þeirra í Pólland árið 1939 markaði upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar sem stóð til ársins 1945. Á þessum tíma stóðu nasistar fyrir skipulögðum fjöldamorðum á evrópskum gyðingum með það að markmiði að útrýma þeim, en hugtakið helförin hefur verið notað til að lýsa þeim atburðum. Um 6 milljónir gyðinga í Evrópu létust í helförinni og flestir þeirra í útrýmingarbúðum sem settar voru upp í Póllandi, en þær voru Auschwitz-Birkenau, Belzec, Chelmno, Majdanek, Sobibor og Treblinka. Að auki létust margir í þeim fjölmörgu þrælkunar- og fangabúðum sem nasistar stóðu fyrir. Einnig má hér nefna aðra hópa sem ofsóttir voru og myrtir af nasistum, til að mynda stríðsfangar, fatlaðir, Rómafólk, samkynhneigðir, pólitískir fangar og vottar Jehóva. Einnig var í útrýmingarbúðum nasista myrtur fjöldi borgara, einkum frá Póllandi, Sovétríkjunum, Slóveníu og Serbíu.
    Óvefengjanlegar heimildir eru fyrir þessu þjóðarmorði og má í þeim efnum meðal annars vísa til skjalfestra frásagna þeirra sem lifðu hörmungarnar af og upplýsinga frá öðrum samtímamönnum. Jafnframt eru mannvirki frá þessum tíma og leifar af þeim sem og önnur haldbær gögn sem leiða í ljós staðreyndina um helförina.
Um tjáningarfrelsið í ljósi efnis frumvarpsins.
    Tjáningarfrelsið er eitt af grundvallarmannréttindum og er varið í 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir í 1. mgr. að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. kemur síðan fram að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast skuli hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Í 3. mgr. segir síðan að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þegar til álita kemur að banna tjáningu þarf að vega það með hliðsjón af þessum skilyrðum stjórnarskrárinnar fyrir því að takmarka tjáningarfrelsið.
    Í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar er að finna þrjú skilyrði fyrir því að setja tjáningarfrelsinu skorður. Í fyrsta lagi verður slík takmörkun að leiða af lögum. Í öðru lagi verður hún að stefna að einhverju þeirra markmiða sem talin eru upp í ákvæðinu. Í þriðja lagi verður takmörkunin að vera nauðsynleg og samrýmast lýðræðishefðum.
    Eins og áður greinir er með frumvarpinu lagt til gert verði refsinæmt að afneita opinberlega glæpum nasista sem framdir voru í síðari heimsstyrjöldinni. Með þessu er fullnægt lagaáskilnaði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að takmarka tjáningarfrelsið. Þess ber að geta að takmörkunin er bundin við tiltekna tjáningu sem nánar er lýst í refsiákvæðinu og því er ekki um of almenna takmörkun að ræða þannig að í bága fari við stjórnarskrá.
    Í annan stað stefnir frumvarpið að fyrrgreindum markmiðum sem lýst er í 3. mgr. 73. stjórnarskrárinnar. Í því sambandi skal tekið fram að þessi takmörkun á tjáningarfrelsinu helgast af allsherjarreglu en opinber afneitun á helförinni er til þess fallin að raska henni. Jafnframt hefur frumvarpið þann tilgang að vernda réttindi eða mannorð annarra. Þetta tekur til æru og minningar þeirra sem létust í helförinni en frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að gróflega sé brotið gegn æru og mannorði þeirra sem urðu fyrir þessum glæpum. Eru þá einnig hafðir í huga hagsmunir þeirra sem tilheyra þeim hópum sem ofsóttir voru af nasistum.
    Loks er fullnægt því skilyrði fyrir takmörkun tjáningarfrelsis að hún sé nauðsynleg og samræmist lýðræðishefðum. Takmörkunin felur í sér bann við því að afneita opinberlega einna verstu glæpum sem framdir hafa verið gegn mannkyni. Glæpir sem bæði í sögulegu samhengi sem og landfræðilegu standa nærri Íslandi. Nauðsynlegt er að standa vörð um sögu þessara hörmunga sem áttu sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og koma í veg fyrir að unnt verði að grafa undan henni, gera lítið úr, rangfæra eða falsa svo að slíkir atburðir endurtaki sig aldrei. Þótt ekki hafi svo einhverju nemi reynt á tjáningu af því tagi sem frumvarpinu er stefnt gegn er mikilvægt að vera á varðbergi og fyrirbyggja hana eftir því sem unnt er. Þá er haft í huga að í mörgum nágrannalöndum hafa glæpir byggðir á gyðingaandúð aukist og samtökum sem ala á kynþáttahatri vaxið fiskur um hrygg. Þessu til stuðnings má benda á ársskýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum (e. The European Commission against Racism and Intolerance, ECRI) frá árinu 2019. Þar kemur fram að glæpum byggðum á gyðingaandúð, múslimahatri, kynþáttafordómum og kynþáttahatri, sem og öðrum glæpum gegn öðrum trúarhópum, fjölgi á ógnarhraða í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Sérstaklega hafi mælst mikil aukning í glæpum byggðum á gyðingahatri á undanförnum árum í aðildarríkjunum. Hatursorðræðu sem beinist að þessum hópum er oft hrundið af stað af nýnasistum og öðrum hópum öfgasinna. Frumvarpið hefur því að geyma tillögu sem er nauðsynleg til að sporna afdráttarlaust við þessari skelfilegu þróun og hún samræmist ekki aðeins lýðræðishefðum sem Ísland hefur tileinkað sér og undirgengist í bandalagi við aðrar þjóðir, heldur miðar að því að standa vörð um lýðræðishefð og almenn gildi sem lýðræðisríki Evrópuráðsins eru ásátt um að halda á lofti sem er virðing fyrir lögum og reglum, lýðræði og mannréttindum.
    Hér má til samanburðar nefna að lög hafa áður verið sett hér á landi sem banna ákveðna tjáningu með því að leggja refsingu við henni. Í þeim efnum má benda á að í XXV. kafla almennra hegningarlaga eru lagðar refsingar við hótunum í 233. gr., hatursorðræðu í 233. gr. a, móðgunum og smánun nákominna í 233. gr. b, ærumeiðingum í 234. gr. og aðdróttunum í 235. og 236. gr.

Mannréttindasáttmáli Evrópu og alþjóðlegur samanburður.
    Tjáningarfrelsið er einnig verndað í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en hann var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994. Þar segir í 1. mgr. að sérhver maður eigi rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að þar sem af réttindum þessum leiði skyldur og ábyrgð sé heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstranir trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla. Ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 73. gr. stjórnarskrárinnar eiga sér efnislega samstöðu, enda var markmiðið með endurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 að tryggja að reglur hans tækju mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands.
    Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í dómi 3. október 2019 í máli Pastörs gegn Þýskalandi að bann við tjáningu gegn helförinni samræmdist mannréttindasáttmála Evrópu. Pastörs, sem var þingmaður í Þýskalandi, dró í efa tilvist helfararinnar í ræðu sem hann flutti árið 2010. Pastörs var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotið gegn þýskum hegningarlögum með tjáningu sinni. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi fullyrðingar hans fela í sér vanvirðingu gagnvart fórnarlömbum helfararinnar. Í dóminum kom meðal annars fram að Pastörs hefði viljandi haft í frammi ósannindi til að varpa rýrð á gyðinga og þær ofsóknir sem þeir urðu fyrir í seinni heimsstyrjöldinni. Jafnframt taldi Mannréttindadómstóllinn að með sakfellingunni hefðu viðbrögð þýskra yfirvalda verið í samræmi við meðalhóf og ekki farið í bága við áskilnað um að þau væru nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi.
    Mannréttindadómstóll Evrópu hafði áður með ákvörðun frá 20. október 2015 í máli M'Bala M'Bala gegn Frakklandi og í ákvörðun frá 8. janúar 2019 í máli Williamson gegn Þýskalandi komist að þeirri niðurstöðu að kæra þeirra til dómstólsins væri ótæk til meðferðar, en þær komu til vegna dóma sem aðilar hlutu fyrir að móðga gyðinga sem og gróflega gera lítið úr helförinni. Taldi dómstóllinn að þessi tjáning nyti ekki verndar 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Fjölmörg Evrópuríki hafa gert það refsivert að afneita eða réttlæta helförina, þjóðarmorð eða stríðsglæpi. Finna má slíkt í lögum Austurríkis, Belgíu, Frakklands, Grikklands, Hollands, Ítalíu, Ísraels, Liechtenstein, Litáens, Lúxemborgar, Póllands, Portúgals, Rúmeníu, Rússlands, Slóvakíu, Spánar, Sviss, Tékklands, Ungverjalands, Úkraínu og Þýskalands.
    Hjá Evrópusambandinu tók gildi árið 2008 rammaákvörðun um baráttu gegn ákveðnu formi og tjáningu kynþáttafordóma og útlendingahaturs með refsilögum, nr. 2008/913/JHA. Þar kemur fram í 1. gr. að hvert og eitt aðildarríki skuli grípa til aðgerða sem nauðsynlegar eru til að nánar tilgreind háttsemi verði refsiverð. Þar á meðal tekur d-liður 1. gr. til þess að opinberlega samþykkja, afneita, eða að gróflega gera lítið úr glæpum sem skilgreindir eru í 6. gr. sáttmála Alþjóðlega herdómstólsins sem fylgir Lundúnasamkomulaginu (e. Charter of the International Military Tribunal appended to the London Agreement) frá 8. ágúst 1945 og beinist gegn hópi fólks eða einstaklingum innan hóps sem skilgreindur er út frá kynþætti, lit, trúarbrögðum, uppruna eða þjóðerni og háttsemin sé líkleg til að hvetja til ofbeldis eða haturs gagnvart slíkum hópi eða meðlimi slíks hóps. Með þessu er átt við fórnarlömb helfararinnar.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að bætt verði við almenn hegningarlög ákvæði sem bannar tjáningu sem felur í sér tiltekna hatursorðræðu. Hún felst í því að afneita opinberlega þjóðarmorðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni, gera gróflega lítið úr þeim, réttlæta þau eða samþykkja.
    Refsinæmið er í fyrsta lagi bundið við að um tjáningu sé að ræða en form hennar getur verið með ýmsu móti. Hún getur til að mynda verið prentuð eða munnleg eða annars konar tjáning eins og list eða athöfn. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að tjáningin fari fram opinberlega og falli því ekki undir einkasamtöl. Aftur á móti kann þetta að taka til tjáningar á samfélagsmiðlum, enda getur hún talist opinber í þessum skilningi. Það verður þó að meta í hverju tilviki fyrir sig. Í þriðja lagi er afmarkað hvaða opinbera tjáning verði refsiverð. Fyrst er það afneitun en þá er átt við tjáningu þar sem tekið er fram að atburðirnir eða hluti af þeim hafi ekki átt sér stað. Einnig að gera lítið úr þeim en það er þó háð því að það sé gert gróflega. Loks ef atburðir eru réttlættir eða samþykktir en það felur í sér stuðning eða jákvætt viðhorf til þeirra. Í fjórða lagi er andlag tjáningarinnar þjóðarmorð sem nasistar frömdu á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en um var að ræða kerfislega útrýmingu á gyðingum. Tímabil seinni heimsstyrjaldarinnar er skilgreint sem 1. september 1939 til 2. september 1945.
    Lagt er til að refsirammi við slíkum brotum verði sektir eða fangelsi allt að 2 árum, en það er sami refsirammi og í 233. gr. a sömu laga um hatursorðræðu.

Um 2. gr.

    Lagt er til að brot gegn 223. gr. c um afneitun helfararinnar sæti ákæru eftir almennum reglum, eins og brot gegn 223. gr. a um hatursorðræðu, en ekki eftir kröfu þess sem misgert er við.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.