Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 786  —  465. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, nr. 7/2011 (útganga Bretlands úr Evrópusambandinu).

Frá dómsmálaráðherra.


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Lúganósamningurinn og þær þrjár bókanir sem honum fylgja og hafa lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga þessara, gilda um mál sem berast íslenskum dómstólum til meðferðar frá Sameinaða konungsríkinu Stóra-Bretlandi og Norður-Írlandi, enda hafi þau borist fyrir 1. janúar 2021 eða grundvallast á dómi sem kveðinn var þar upp fyrir sama tímamark. Hið sama á við um dómsáttir, opinber skjöl og önnur gögn sem falla undir ákvæði samningsins.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með því er lagt til, í ljósi útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, að við lög nr. 7/2011, um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, verði bætt ákvæði til bráðabirgða sem tryggir að reglur þess samninginn gildi um bresk mál sem hafin voru fyrir árslok 2020 og koma til meðferðar íslenskra dómstóla.
    Hinn 29. mars 2017 tilkynntu bresk stjórnvöld formlega um útgöngu sína úr Evrópusambandinu (ESB) í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var í Bretlandi 23. júní 2016. Að óbreyttu hefði Bretland gengið úr ESB 29. mars 2019 en útgöngunni var þrívegis frestað, fyrst til 12. apríl 2019, þá til 31. október 2019 og loks til 31. janúar 2020 en þann dag kl. 23:00 varð hún að veruleika. Samkvæmt útgöngusamningi Bretlands og ESB hófst þá svonefnt aðlögunartímabil til ársloka 2020, sem fól í sér skuldbindingu Bretlands til þess að framfylgja reglum ESB tímabundið eftir að aðild þess að sambandinu lyki, þ.m.t. Brussel-reglugerð nr. 1215/2012 sem m.a. fjallar um Lúganósamninginn. Á því tímabili varð enn fremur engin breyting á sambandi Íslands og Bretlands.
    Framangreindu aðlögunartímabili lauk sem fyrr segir 31. desember 2020 og er Bretland því ekki lengur aðili að Lúganósamningnum. Rétt er að taka fram að 8. apríl 2020 sótti Bretland um sjálfstæða aðild að Lúganósamningnum en samningaviðræðum þar að lútandi er enn ólokið.
    Mál sem tengjast Lúganósamningnum geta varðað umtalsverða hagsmuni bæði einstaklinga og lögaðila og er markmið þessa lagafrumvarps að tryggja að þeir fari ekki forgörðum þótt Bretland sé ekki lengur samningsaðili. Í því skyni er lagt til með 1. gr. frumvarps þessa að um mál sem íslenskum dómstólum bárust til meðferðar fyrir 1. janúar 2021 fari eftir ákvæðum Lúganósamningsins. Jafnframt er lagt til að það sama gildi um mál sem íslenskum dómstólum berast til meðferðar eftir það tímamark, enda grundvallist þau á dómi sem var kveðinn upp í Bretlandi fyrir árslok 2020. Er þar horft til reglna Lúganósamningsins um staðfestingu á fullnustuhæfi dóma. Loks er rétt að taka fram að Bretland hefur þegar tryggt með lagasetningu að þar í landi verði farið með hliðstæð íslensk mál eftir ákvæðum Lúganósamningsins og gagnkvæmni er því tryggð (The Civil Jurisdiction and Judgments (Amendment) (EU Exit) Regulations 2019 - 92. gr.).
    Ekki er að sjá að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs eða sveitarfélaga.